Sigrún Jakobsdóttir fæddist í Holti á Látraströnd í Grýtubakkahreppi, 28. maí 1934. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 1. september síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru Jakob Gunnlaugsson, f. 5. febrúar 1903, d. 6. desember 1992 og Klara Jóhannsdóttir, f. 8. nóvember 1900, d. 30. september 1968.

Systkini Sigrúnar: 1) Ingólfur Reynald Halldórsson, f. 22. febrúar 1920, d. 24. maí 1991, þau voru sammæðra, 2) Sigríður Kristín, f. 5. október 1925, d. 28. apríl 2010, 3) Þóra, f. 26. júní 1927, d. 15. janúar 1931, 4) Elín Jóna, f. 2. apríl 1930, d. 11. janúar 1931, 5) Þóra Elín Jóna, f. 9. mars 1932, 6) Þórdís, f. 19. mars 1937, 7) Gunnlaug, f. 20. febrúar 1940.

Sigrún giftist Benedikt Björnssyni 1. nóvember 1952. Þau eignuðust þrjú börn: 1) Elín, f. 31. janúar 1953, gift Gylfa Ragnarssyni, börn þeirra eru Kolbrún, Birgir Örn og Íris Björk. 2) Björn, f. 3. september 1955, kvæntur Þórdísi Guðmundsdóttur, börn þeirra eru Halldóra Kristín, Ingibjörg og Benedikta. 3) Guðbjörg, f. 19. júní 1957. Börn hennar eru María og Rakel Eyja. Langömmubörn Sigrúnar eru átján og langalangömmubörnin eru tvö. Sigrún og Benedikt slitu samvistum.

Sigrún ólst upp í Holti á Látraströnd hjá foreldrum sínum. Hún lauk skólagöngu sinni í Grenivíkurskóla. Eftir fermingu fór Sigrún að heiman og hóf að vinna fyrir sér, m.a. á bænum Hvammi og einnig á Akureyri. Sautján ára gömul flutti Sigrún til Reykjavíkur og vann þar við þjónustustörf uns hún kynntist verðandi eiginmanni sínum, Benedikt Björnssyni. Þau hófu búskap sinn á Öldugötu 25 í Hafnarfirði en byggðu síðan hús ásamt foreldum Sigrúnar á Móabarði 6 í Hafnarfirði. Eftir að Sigrún og Benedikt skildu bjó hún þar áfram ásamt foreldrum sínum eða þar til hún flutti í Hátún 10 í Reykjavík. Þar bjó hún í 46 ár. Síðustu sex árin bjó Sigrún á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Útför Sigrúnar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 8. september 2020, kl. 13.

Það er erfitt að segja frá ömmu í stuttu máli. Mín fyrsta minning af ömmu var þegar hún sendi okkur pakka til Spánar með kasettuspólu sem hún hafði talað inn á á sinn sérstaka og skemmtilega máta, orðin sem ég man eftir af spólunni voru elsku hjartans Guðbjörg mín þetta er hún móðir þín.
Amma Rúna var yndisleg kona og sú allra besta amma sem hægt var að eiga. Ég man eftir þegar ég var lítil stelpa þá vissi ég ekkert betra en að hafa ömmu Rúnu í heimsókn hjá okkur en hún kom oft og iðulega til okkar og dvaldi hjá okkur í nokkra daga. Það var alltaf svo hreint og fínt á meðan enda tók hún alltaf virkan þátt í heimilishaldinu. Amma fyllti húsið af svo miklu hlýju og ást að það kostaði alltaf sáran grátur þegar hún fór aftur heim til baka.
Þrátt fyrir erfið veikindi sem höfðu mikil og djúpstæð áhrif á líf hennar, bar hún alltaf hagsmuni annarra fyrir brjósti, hún hafði alltaf meiri áhyggjur af öllum öðrum en sjálfri sér og vildi allt fyrir alla gera og má með sanni segja að hún hafi verið höfðingi eins og hún orðaði það stundum sjálf.
Kjarkur hennar og þrautseigja var aðdáunarverð, amma gafst aldrei upp og fann sér alltaf góða punkta til að lifa fyrir og halda ótrauð áfram þrátt fyrir erfiðleika sína. Börnin hennar og barnabörn voru henni allt.
Amma bjó lengi vel í Hátúninu, þar hafði hún hreiðrað um sig á þann hátt sem henni einni var lagið. Íbúðin hennar var eins og lítið dúkkuhús, alltaf svo hreint og alltaf svo fallegt. Þar hafði amma búið sér til sinn eigin litla heim þar sem henni fannst best að fá að vera í örygginu sínu og hlusta á útvarpið sitt, en alltaf þegar maður barði að dyrum mátti heyra Ellý Vilhjálms, Ragga Bjarna eða Hauk Morthens á fóninum hljóma í gegnum dyrnar og hana syngja stundum hástöfum með.
Amma elskaði að syngja og var alveg með ólíkindum hversu vel hún mundi lög og vísur og eru ófá lögin sem hún hefur kennt mér. Eitt sinn söng amma inn á símann hjá mér tvö barnalög, Dansi dansi dúkkan mín og Stína og brúðan. Það er svo sem ekki í frásögur færandi nema bara fyrir það að þessi fallegi söngur hennar inni á símanum var það eina sem gat huggað 2 mánaða gamlan drenginn minn hann Reyni Leo þegar hann glímdi við mikil grátköst vegna kveisu. Það brást ekki að söngurinn hennar ömmu í símanum náði alltaf að hugga drenginn og snarþagnaði hann í hvert skipti við að heyra röddina í ömmu.
Amma var sérstaklega mikill snyrtipinni og var hún ávallt svo vel til höfð þrátt fyrir að vera inni í sinni íbúð svo dögum skipti. Hún bar alltaf fallegt skart og var ávallt fallega klædd og vel puntuð þegar maður kom að heimsækja hana. Hún var líka mikill húmoristi og elskaði að gantast og hlæja og eru ófáar stundirnar sem við höfum hlegið saman og fíflast.
Þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn, Gabríelu, var eins og eitthvað hefði gerst innra með ömmu. Ástin á barninu var þvílík og varð eins og hálfgerður drifkraftur fyrir ömmu að halda áfram og vera til staðar fyrir hana. Amma dvaldi oft löngum stundum heima hjá okkur Gabríelu og má kannski segja að við þrjár höfum verið eins og lítil fjölskylda. Með ömmu og Gabríelu mynduðust sterk bönd sem erfitt er að útskýra, sem héldust fram til hennar síðasta dags. Amma leit á Gabríelu nánast sem sitt eigið barn og veit ég hversu mikils virði það var henni að fá að eiga Gabríelu með mér eins og við orðuðum það stundum okkar á milli, þar sem hún gat ekki alið sín eigin börn upp vegna veikinda sinna. Amma sagði oft að Gabriela héldi í sér lífinu og má kannski segja að hún hafi öðlast tilgang með því að fá að taka slíkan þátt í lífi okkar. Árin sem við vorum oft þrjár heima eru mér svo kær og minnisstæð og eins og í æsku minni fyllti amma húsið okkar af hlýju og kærleik og var alltaf erfitt þegar hún fór heim til baka. Við vissum þó að hún kæmi alltaf til okkar aftur.
Það er því okkur afar erfitt og þungbært að kveðja hana í hinsta og síðasta sinn. Missirinn er mikill og sár og erum við ömmu eilíflega þakklátar fyrir allt sem hún gerði fyrir okkur. Eins og segir í uppáhaldslaginu hennar ömmur Rúnu, Rósinni:

Eitt er það sem aldrei gleymist,

aldrei það er minning þín.

Þín

María.