Sigurður Stefánsson fæddist að Grundarkoti í Héðinsfirði 23. júní 1925. Hann lést 3. september 2020.
Foreldrar hans voru Stefán Erlendsson, f. á Ámá í Héðinsfirði 27.6. 1888, d. 28.12. 1972, og eiginkona hans María Þórðardóttir, f. í Bræðratungu í Dýrafirði 11.10. 1889, d. 19.6. 1952. Sigurður ólst upp í Grundarkoti með foreldrum og systkinum, síðar fluttu þau til Siglufjarðar. Eiginkona Sigurðar var Ísól Karlsdóttir frá Garði í Ólafsfirði, f. 17. ágúst 1917, d. 2. febrúar 2001. Foreldrar Ísólar voru Karl Guðvarðarson og Sólveig Rögnvaldsdóttir búendur í Garði.
Börn Sigurðar og Ísólar eru 1.) drengur fæddur í ágúst 1950 sem þau misstu aðeins nokkurra daga gamlan 2.) Fanney, f. 7. sept. 1951, börn hennar eru: úr hjónabandi með Jakobi Daníelssyni, Sigurður Jakobsson, f. 1970, og með Pétri Erni Péturssyni eignaðist hún Guðmund Rúnar Pétursson, f. 1978. Fanney á átta barnabörn og tvö barnabarnabörn. 3) Stefanía María (Stella) f. 2. maí 1954. Börn hennar í hjónabandi með Reyni Guðmundssyni eru: Ívar Smári Reynisson f. 1973 og Jóhanna Lúvísa Reynisdóttir f. 1978. Börn hennar í hjónabandi með Heimi Loftssyni eru: Álfheiður Björk Sæberg f. 1983 og Bjarki Reyr Heimisson f. 1988. Stefanía María á níu barnabörn.
Fósturbörn Sigurðar úr fyrra hjónabandi Ísólar með Karli Sigtryggssyni eru 4) Karl Sigtryggur Karlsson f. 30. september 1941, kvæntur Guðbjörgu Sveinbjörnsdóttur. Börn Karls úr fyrra hjónabandi með Þóru Benediktsdóttur eru: Einar Þór fæddur 1966 og Ísól Björk fædd 1972. Dóttir Guðbjargar og uppeldisdóttir Karls er Kristbjörg Sigurðardóttir. Barnabörn þeirra eru níu og eitt barnabarnabarn. 5) Óskar Þór Karlsson, fæddur 26. nóvember 1944, kvæntur Marite Tiruma Karlsone. Börn Óskars eru Vilmundur fæddur 1965, móðir hans og barnsmóðir Óskars er Katla Þórðardóttir sem nú er látin. Börn Óskars úr fyrra hjónabandi með Ragnheiði Ingunni Magnúsdóttur eru: Anna Bryndís fædd 1971 og Birgir Karl fæddur 1980. Dóttir Ragnheiðar Ingunnar og uppeldisdóttir Óskars er Kristín Stefánsdóttir fædd 1967. Kona Óskars, Marite Tiruma á tvö uppkomin börn og eitt barnabarn. Óskar á átta barnabörn og fjögur barnabarnabörn. 6) Álfheiður Björk Karlsdóttir fædd 2. desember 1946, hennar maður er Benedikt Kristjánsson. Börn Álfheiðar úr fyrra hjónabandi með Einari Benediktssyni eru: Rósa, fædd 1967, Stefán, fæddur 1968, Aldís fædd 1975 og Ísól Björk fædd 1979. Barnabörn Álfheiðar eru átta og tvö barnabarnabörn.
Árið 1951 festu Sigurður og Ísól kaup á eyðijörðinni Hólkoti í Ólafsfirði, sem þau byggðu upp frá grunni. Þar bjuggu þau í 40 ár en fluttu þaðan í raðhús á Aðalgötu 50 í Ólafsfjarðarbæ. Eftir að búskap í Hólkoti lauk starfaði Sigurður fyrst við trésmíðar og síðan múrverk. Lengstan starfsferil eftir búskapinn átti Sigurður síðan við fiskeldi í Ólafsfirði, bæði lax og silungseldi sem hann veitti forstöðu í mörg ár.
Útför Sigurðar fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 11. september 2020, og mun hún fara fram aðeins að viðstöddum hans nánustu aðstandendum.

Sigurður fóstri okkar var einstakur maður á marga lund. Um miðja síðustu öld tók hann saman við móður okkar Ísól, sem þá var fráskilin kona með þrjú ung börn. Þau bjuggu í fyrstu á Siglufirði en festu svo kaup á jörðinni Hólkoti í Ólafsfirði og fluttu þangað snemma vors árið 1951. Og sannarlega voru efnin knöpp því þau munu hafa eytt sínum síðustu krónum í að borga fyrir flutninginn til Ólafsfjarðar! Jörðin Hólkot hafði þá lengi verið í eyði. Íbúðarhúsið hafði brunnið á sínum tíma, gripahús voru líka engin og ræktað land sáralítið. Hinn ungi bóndi þurfti því aldeilis að taka til hendinni við verkefni, svo mikil að vöxtum að flestum myndi reynast ókleift að framkvæma. En þarna átti enginn venjulegur maður í hlut.

Fyrsta verkið hans Sigurðar fóstra okkar fólst í að moka öllum snjó og heilmiklum jarðvegi að auki út úr rústunum og búa til grunn fyrir nýtt íbúðarhús. Allt þetta verk vann hann einn með handverkfærum. Ég átti ekki einu sinni hjólbörur, sagði hann okkur þegar hann rifjaði upp þessa fyrstu daga löngu síðar. Síðan var íbúðarhúsið reist þá strax um sumarið og komið upp húsum fyrir þeirra litla bústofn að auki. Mörg erfið ár og krefjandi fylgdu svo í kjölfarið. Hver króna sem afgangs var var notuð til þess að rækta tún, bæta við gripum, reisa ný hús fyrir gripina og fleira. Verkefnin voru endalaus og með ólíkindum hversu miklu tókst að koma í verk við afar knöpp efni á fáeinum árum. Það sem tókst að gera var ekkert minna en kraftaverk og það tókst vegna þess að saman fór allt það mikilvægasta sem til þurfti - annað en peningar. Bæði voru hjónin dugleg og samhent með einbeittan vilja í því að ná því marki að byggja upp góða jörð. Fóstri okkar hann Sigurður var allt í senn, hamhleypa til allra verka þannig að fáir stóðust honum snúning, afar laghentur, góður smiður og múrari. Þannig byggði hann öll sín gripahús og hlöður sjálfur að mestu leyti.

Og þetta voru svo sannarlega aðrir tímar þá. Öll vinnan við heyskapinn fyrstu árin var gerð án allra véla. Aðeins hestar okkar voru nýttir til flutninga á heyinu í hlöðu. Dráttarvélin kom ekki til sögunnar fyrr en 8 árum seinna. Þá varð auðvitað mikil breyting á og upp frá því varð þeim hjónum kleift að annast búskapinn án utanaðkomandi hjálpar. Eftir að þau hjón brugðu búi starfaði Sigurður fóstri um langt árabil við lax- og silungseldi í Ólafsfirði. Það starf leysti hann með sóma eins og allt annað sem hann tók sér fyrir hendur. Við þau störf lauk hann sinni löngu starfsævi.

Sigurður fóstri ólst upp í Grundarkoti í Héðinsfirði og hann var orðinn fulltíða maður þegar dalurinn fór í eyði og íbúar þar fluttust flestir til Siglufjarðar um miðja öldina. Vera hans í þessum einangraða dal og reynslan af mannlífinu þar hefur örugglega haft mjög mótandi áhrif á hans skapgerð og viðhorf til lífsins. Eitt af helstu áhugamálum Sigurðar var söngur. Hann hafði djúpa og fallega bassarödd og var lengi í karlakórnum Kátir piltar í Ólafsfirði. Okkur systkinum er minnisstætt hve mikið hann hlakkaði til að fara á söngæfingar hjá kórnum. Þá gekk hann í bæinn þessa þriggja kílómetra leið og lét rysjótt vetrarveður og kafaldsfæri ekki stoppa sig. Á efri árum undi fóstri sér gjarnan við smíðar í aðstöðu sem hann kom sér upp. Þar smíðaði hann m.a. æði marga fagurgerða kistla sem hann gaf svo afkomendum sínum og vinum. Sigurður hafði líka yndi af útivist og hreyfingu. Hann var mikill íþróttamaður á sínum yngri árum og var þá í hópi bestu skíðagöngumanna landsins. Á efri árum fór hann daglega í langa göngutúra og hélt þeim sið fram yfir nírætt. Hann var mjög heilsuhraustur alla sína ævi, allt þar til undir það síðasta, þegar á hann lagðist sá skaðvaldur sem varð honum að aldurtila.

Sigurður fóstri var mikill mannkostamaður og þess nutum við öll afkomendur hans í ríkum mæli. Af honum lærðum við margt í uppvextinum sem kom sér vel fyrir okkur síðar. Aldrei gerði hann neinn greinarmun á sínum eigin dætrum og fósturbörnum sínum. Honum þótti jafn vænt um okkur öll og sýndi það ætíð í orði og verki.

Elsku fóstri, á þessari skilnaðarstund er okkur mikið þakklæti til þín í huga. Takk fyrir allt. Takk fyrir hvernig þú reyndist okkur í uppvextinum og svo alla tíð síðar. Við þökkum þér fyrir allar þær gleðistundir sem við áttum saman með þér. Þú stóðst alltaf eins og klettur við hlið mömmu alla tíð. Þú mátt vera stoltur af því mikla dagsverki sem þú áorkaðir í þínu lífi. Þótt þú sért nú horfinn á braut munu minningarnar um þig lifa, verma hugi okkar og hjörtu og fylgja okkur sem leiðarljós alla tíð um ófarinn veg.

Hvíl í friði, elsku Sigurður fóstri. Guð blessi þig.




Óskar Þór Karlsson Karl Sigtryggur Karlsson Álfheiður Björk Karlsdóttir