Kolbrún Sævarsdóttir fæddist á Selfossi 7. ágúst 1964. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 9. september sl.
Foreldrar hennar voru Jónína Auðunsdóttir, fædd í Nikulásarhúsum í Fljótshlíð 14. ágúst 1945, d. 9. mars 1997 og Sævar Norbert Larsen, f. 17. janúar 1946, d. 16. ágúst 2000. Jónína giftist Gunnbirni Guðmundssyni, f. 23. febrúar 1944, þann 27. desember 1975.
Foreldrar Jónínu voru Auðunn Pálsson, f. 10. maí 1908, d. 18. janúar 1966 og Soffía Gísladóttir, f. 25. september 1907, d. 20. október 2000.
Foreldrar Sævars voru Frederik Larsen, f. 12. júní 1915, d. 29. júlí 1995 og Margrét Guðnadóttir, f. 25. júní 1916, d. 11. október 2008.
Systkini Kolbrúnar móðurmegin eru Stefán Kristján Gunnbjörnsson, f. 1976 og Eva Guðrún Gunnbjörnsdóttir, f. 1979. Börn Evu Guðrúnar eru Freyja Guðrún, Eldgrímur Kalman og Gunnbjörn Ernir Atlas. Systkini Kolbrúnar föðurmegin eru Steinunn Margrét Larsen, f. 1967, Jóhannes Arnar Larsen, f. 1968, Friðrik Rafn Larsen, f. 1969 og Linda Rut Larsen, f. 1971.
Kolbrún ólst upp á Selfossi fyrstu átta árin í faðmi stórfjölskyldu sinnar móðurmegin en móðir hennar bjó enn í foreldrahúsum þegar hún eignaðist hana. Hún gekk í barnaskóla á Selfossi fyrstu tvö árin en árið 1972 flutti fjölskyldan til Reykjavíkur þar sem hún lauk grunnskólanámi.
Kolbrún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti 1984. Á menntaskólaárunum hóf hún að æfa frjálsar íþróttir með ÍR. Eftir stúdentspróf fór Kolbrún í árs skiptinám til Bandaríkjanna í gegnum AUS sem eru kristileg samtök.
Haustið 1985 hóf Kolbrún nám við lagadeild Háskóla Íslands og lauk cand. jur.-prófi vorið 1990.
Eftir lagadeildina vann Kolbrún hjá borgarfógeta í tvö ár. Þá réð hún sig til nýstofnaðs Héraðsdóms Reykjavíkur sem fulltrúi en árið 1993 opnaði hún lögmannsstofu. Haustið 1995 skráði Kolbrún sig í nám við Háskóla Íslands og hélt í skiptinám til Kaupmannahafnar. Þar stundaði hún nám í Evrópurétti. Kolbrún flutti heim frá Kaupmannahöfn vorið 1997 og hóf þá störf hjá fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík og var þar fram í ársbyrjun árið 2000 er hún hóf störf hjá ríkissaksóknara. Kolbrún fór í meistaranám í alþjóðlegum mannréttindum við Háskólann í Lundi og lauk því námi vorið 2001. Eftir heimkomu hélt hún áfram að vinna hjá ríkissaksóknara og vann þar sem fulltrúi þar til hún var skipuð saksóknari árið 2005.
Árið 2010 var Kolbrún settur héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og þann 1. mars 2012 var hún skipuð í embættið.
Á starfsferli sínum sinnti Kolbrún ýmsum trúnaðarstörfum en hún var ritari áfrýjunarnefndar samkeppnismála um árabil, kenndi ýmis námskeið hjá Endurmenntun HÍ og við Háskólann á Bifröst. Hún tók sæti sem varadómari í Hæstarétti árið 2017.
Útför Kolbrúnar fer fram frá Hallgrímskirkju 18. september 2020 klukkan 14. Steymt verður frá útförinni: www.livestream.com/luxor/kolbrun/. Virkan hlekk á streymið má nálgast á https://www.mbl.is/andlat/.
Það var fyrir ansi mörgum árum að mig langaði inn á Lónsöræfi og var að reyna að draga einhvern með mér. Samstarfskona sló til og spurði svo hvort hún mætti bjóða vinkonu sinni með. Á leiðinni austur urðum við Kolla vinkonur. Þetta var vinátta við fyrstu sýn.
Beinskeytt, hreinskilin, opin, ákveðin, glaðleg, hispurslaus, kraftmikil, þrautseig, hnyttin, fylgin sér, eldklár, tignarleg, sterk og skemmtileg. Hvernig var hægt að falla ekki fyrir því?
Við sóttum mikið hvor í aðra, einhleypar konur með langa fætur og maga sem miklum tíma saman var eytt í að reyna að losa sig við. Ræktin, útihlaup, hjól, sund, göngur og skíði, en lítið dugði. Þá var farið á kaffihús og djammið og síðan var legið uppi í sófa hvor hjá annarri og glápt, borðað og rætt um gamla kærasta og kannski tilvonandi kærasta. Pólitík, tónlist, lífið (þau voru ófá myndböndin sem við horfðum á af Freyju systurdóttur hennar sem hún elskaði út af lífinu) og vinnutengd mál. Og veikindin. Kolla talaði alltaf opinskátt um veikindin og var ófeimin við allt það ferli. Við ræddum um hvaða leið væri best að fara við að byggja upp brjóstið aftur, hún útkrotuð eftir heimsókn hjá lækni. Hún hringdi einmitt í mig eftir þá heimsókn, sagði að ég yrði bara að mynda þetta, þetta væri svo flott. Og að það hlyti nú að vera hægt að slá tvær flugur í einu höggi og taka loks þennan blessaða maga og færa hann aðeins ofar. Lyfin fóru vel í hana, hún leit vel út og hélt hárinu og maður trúði að framfarirnar í meðferðum myndu bjarga henni.
Við héldum áfram að svitna í ræktinni saman í öllu þessu ferli og hlaupa út í náttúrunni. Þú tekur bara hundinn á þetta, sagði hún og hljóp aðeins hægar á meðan ég hljóp fram og til baka fyrir framan hana. Eitt sinn kom ég másandi og blásandi og fór eitthvað að væla yfir að mér fyndist ég hafa fitnað og þá svaraði hún einlæglega: Já, ég var einmitt að spá í hvað rassinn á þér væri orðinn stór. Þetta er það sem ég elskaði við Kollu. Þessi hreinskilni og hvað hún var blátt áfram. Ég vissi að ég gat alltaf treyst því sem hún sagði, aldrei leikur eða fals. Eða væmni. Sjálf vældi hún aldrei eða vorkenndi sér og það þýddi ekkert að væla utan í henni. Ertu í alvöru enn að væla yfir þessum manni, mér fannst hann nú aldrei neitt sérstakur, sagði hún réttilega og svo var farið að ræða einhver mikilvægari mál. Farið að veiða, keyrt um landið og mikið hlegið þegar ég tilkynnti henni að ég ætlaði í Leiðsöguskólann. Hún þekkti enga konu sem var jafn áttavillt og ég, enda keyrði ég alltaf á okkar ferðalögum og hún var á kortinu. Alltaf með allar áttir á hreinu, annað en ég.
Þegar ég fór að gæda öll sumur, leigði ég út íbúðina mína og fékk að gista hjá Kollu þær nætur sem ég var í bænum. Mikið voru það góðar stundir, kósí kvöld og enn notalegri morgnar saman.
En eins og í mörgum vináttusamböndum þá kom líka erfitt tímabil. Við skipulagningu Kínaferðar kom upp ágreiningur út af smámunum, önnur vildi lúxus sem hinni fannst of dýr og önnur vildi ævintýri sem hinni fannst einum of. Sérstaklega þegar klósettið á tilvonandi vistarveru var á járnbrautarstöðinni. Já, við gátum hlegið að þessari vitleysu saman, eftir að hafa ákveðið að leggja ágreining til hliðar, sem tók samt rúmt ár, enda báðar þrjóskar og ákveðnar konur.
Þetta var á meðan ég bjó á Spáni og þegar ég flutti heim aftur náðum við aftur góðum stundum saman sem einkenndust af aðeins rólegri útivist, mat og kaffihúsahittingum, þar sem þrekið var aðeins minna, krabbameinið komið aftur.
Þegar hún fékk tilkynningu um að krabbameinið væri komið aftur og að hún ætti einungis fá ár eftir, ræddum við mikið um hvað maður gerir við slíkar fréttir. Hún vildi nýta tímann, vera með fjölskyldunni og halda áfram að lifa lífinu lifandi. Kolla stóð við það, var dugleg að ferðast um allan heim, eins og reyndar alltaf, umvafin góðum vinkonum sem alltaf voru tilbúnar að fara með henni. Hún vann eins lengi og hún gat, enda skipti vinnan hana miklu máli, sá duglegi og hörkuklári lögmaður sem hún var.
Gréta S. Guðjónsdóttir.