Hrafnhildur Garðarsdóttir viðskiptafræðingur fæddist í Hafnarfirði 9. mars 1962. Hún lést á líknardeild Landspítalans 17. september 2020. Hún var dóttir Garðars Sigurðssonar, f. 27.2.1933, d. 7.11. 2019, og Erlu Elísabetar Jónatansdóttur, f. 16.10. 1934. Systkini: Jónatan, f. 1955, Jenný, f. 1958, Erla Björg, f. 1959, Kristín, f. 1966, Sigurður, f. 1968, d. 1977, Drífa, f. 1969.

Hrafnhildur giftist Sigurjóni Þórðarsyni, f. 8.3. 1963, syni Þórðar M. Adolfssonar, f. 14.11. 1938, og Hönnu Jónu Margrétar Sigurjónsdóttur, f. 13.2. 1942, d. 6.5. 2005. Börn Hrafnhildar og Sigurjóns eru: 1) Garðar Hrafn, f. 12.3. 1985, kvæntur Önnu Ósk Stefánsdóttur, f. 2.5. 1990, 2) Kristinn Örn, f. 29.8. 1992, í sambúð með Rakel Hjelm Jónsdóttur, f. 28.8. 1996, 3) Hanna Jóna, f. 20.8. 1999, í sambandi með Stefáni Birni Björnssyni f. 6.11. 1997.

Hrafnhildur ólst upp í Hafnarfirði, stundaði nám í Öldutúnsskóla og Flensborgarskóla. Hún lauk prófi sem framreiðslumaður og þjónn 1989 og vann við hótel- og veitingageirann í tvo áratugi, fyrst á Hótel Sögu og Holiday Inn og seinna í Þjóðleikhúskjallaranum. Hún rak Hótel Hvolsvöll með manni sínum frá 1985 til 1987 og Hótel Flókalund í áratug eftir það. Á sama tíma var hún í stjórn ferðamálasamtaka Vestfjarða. Hrafnhildur söðlaði um og lauk námi í viðskiptafræði í Viðskiptaháskólanum á Bifröst 2005 og lauk meistaranámi MLM og stjórnun veturinn 2015. Hún starfaði hjá Glitni frá 2005 til 2008 og var viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka frá 2009 til 2020.

Hrafnhildur æfði handbolta með Haukum og lagði stund á skíði og sund á sínum yngri árum. Hún var varaformaður skíðadeildar KR á tíunda áratug síðustu aldar. Hún var mikill göngugarpur og var í stjórn gönguklúbbs Íslandsbanka. Hún stundaði mikla útivist, skíði, kajaksiglingar, hjólreiðar og líkamsrækt af kappi. Fjölskyldan ferðaðist um lág- og hálendi Íslands, oftar en ekki í þjónustu við erlent ferðafólk. Hún var líka í golfi sem átti hug hennar allan í seinni tíð. Hrafnhildur var einn af stofnendum foreldrafélags Lækjarskólakórs og formaður félagsins í nokkur ár. Hún sinnti alls konar félagsmálum af miklum krafti og lét víða til sín taka. Hún var vinamörg og ræktaði vel vináttuna við fólk sem hún kynntist hvort sem það var í æsku, á námsárunum, í tengslum við vinnu eða áhugamálin. Þegar hún veiktist stóðu þessir hópar þétt við bakið á henni og fjölskyldunni.

Jarðarförin fer fram í Hafnarfjarðarkirkju föstudaginn 2. október kl. 11:00. Takmarkað verður við gestalista í kirkjuna vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Athöfninni verður streymt á Facebook á þessari slóð: https://youtu.be/H_PE7ORDcDw

Elsku hjartans Habba.
Vinátta okkar til næstum fjörutíu ára er samofin sögu okkar Kristins. Við hjónin höfum verið samferða ykkur Sía um lífsins ólgusjó alið upp börnin okkar saman, ferðast saman, fagnað saman, lært saman og þessar síðustu vikur grátið saman.
Samferða í fjörutíu ár. Á loftbelg um vínekrur Napa. Á hjólum um Suður-Frakkland. Á kajökum um Jökulfirði. Á gönguskóm um óteljandi fjöll og firnindi. Á skíðum á Norðurlandi. Á golfbílum á Spáni. Á jeppum upp jökla og yfir ár. Á línuskautum um Skerjafjörðinn. Á hestum meðfram Þjórsá með stelpurnar okkar. Á flúðabátum undir stjórn Kidda. Á blæjubílum með strákunum um stórborgir. Á tjaldvögnum um landið í þrjár vikur í þrjátíu og eitthvað ár. Alltaf með gleðina og forvitnina í farteskinu.
En merkilegt nokk í baksýnisspeglinum er okkur alveg ljóst að besta farartækið um lífið er vináttan. Samveran. Ferðalagið sjálft.
Við minnumst þín fyrir einstaka vináttu, djúpan og innilegan hlátur og skemmtilega samveru og samtöl. Það er svo merkilegt þegar við horfum til baka að þú hefur aldrei gert tilkall um athygli en varst sjálfkrafa í leiðandi hlutverki í öllum hópum. Mér er svo minnisstætt þegar við gengum Reykjaveginn á tveimur sumrum. Spúsurnar skokkuðu frá Reykjanestá að Nesjavöllum á þriðjudagskvöldum þegar heimilin voru komin í ró. Þá steigst þú inn í hlutverk leiðsögumannsins klár með kortið og áttavitann og nestið en umfram allt varst þú klár með ábyrgðina þegar á reyndi. Leyfðir mér að stríða þér þegar ein dagleiðin endaði í bíl björgunarsveitamanna við vorum allar jafn áttavilltar en þú tókst ábyrgðina á að koma okkur á leiðarenda. Aldrei beðin en alltaf boðin og búin.
Við minnumst þín fyrir dugnað þinn og atorku. Sem framkvæmdastjóra og frumkvöðuls í 10 sumur í Flókalundi leiðtoga í lífi svo margra starfsmanna á sama tíma og þú stýrðir fjölskyldunni og vinahópnum. Ólst upp Garðar Hrafn og Kristin Örn umvafin náttúru Vatnsfjarðar á sama tíma og þú tókst á móti tugum hótelgesta í mat og gistingu og skemmtir villtum liðsmönnum Veiðireglunnar á láði og landi. Hvernig fórst þú að því að hafa auga með gestum, starfsmönnum, fjölskyldu, fjármálunum og vinum á sama tíma og þú settir mark þitt á íslenska ferðaþjónustu og samfélagið á Vestfjörðum rétt rúmlega þrítug? Allt með bros á vör.
Við minnumst þín sem einstakrar móður það var unun að fylgjast með þér hlúa að velferð Garðars, Kidda og Hönnu í nútíð og framtíð. Þú varst fyrst af okkur öllum mamma og þú varst líka alltaf fyrst af öllu móðir. Hvað það var gott að eiga þig að í mömmuhópnum í Skerjó. Hvað þú varst natin við að prjóna og föndra, elda, rækta og græja. Og hvað það var lærdómsríkt að fylgjast með þér læra með börnum ykkar í gegnum allar hindranir í skóla, lífi og leik. Leirandi stafrófið. Á kafi í handboltanum með Hönnu Jónu, í háloftunum með Kidda og lifðir þig af hjartans lyst inn í mögnuð ævintýri Garðars. Og fagnaðir innlega tengdabörnunum sem hluta af teymi ykkar fjölskyldunnar.
Við minnumst þín sem nemanda lífsins. Alltaf klár í næsta slag. Tókst námið á þínum forsendum frumgreinarnar, háskólanámið og þjóninn, allt á þínum takti. Óhrædd við að taka önn í skiptinámi í Finnlandi. Ekkert mál að flytja fjölskylduna á Bifröst. Aukakúrs í Boston. Alltaf töff. Oft á móti vindi en nýttir mótvindinn til að fleyta þér á næstu mið. Og færa okkur hinum þannig byr undir báða vængi.
Við minnumst þín sem fagmanns hvort sem það var á mósaík-námskeiðum okkar eða sem vín connoisseur eða í eldhúsinu eða sem starfsmaður Íslandsbanka. Hvað það gerði okkur stolt að heyra viðskiptavini þína segja að þú værir ástæðan fyrir því að þeir kusu að versla við bankann. Að þú værir sönn birtingarmynd alls þess sem væri gott og einlægt við fjármálaþjónustu.
Við minnumst þín sem náttúrubarns og landkönnuðar. Fyrirmynd á sviði heilsu og hreysti fremst í röðinni hjólandi upp brekkurnar löngu í Luberon eða svífandi skælbrosandi á fjallahjólunum okkar suður frá Mývatni að Seljahjallagili. Eltandi uppi geitur í yfirliði í Kaliforníu eða rokkandi í eins kjólum í Valle del Este. Álfasögurnar þínar, uppskriftirnar, gönguskíðin, lunchinn í Ljósinu. Minningarnar eru endalausar og lexíurnar margar óskrifaðar.
Við eigum eftir að sakna þín óendanlega mikið elsku vinkona í árlegri kajakferð okkar um Hólaá og í hjólaferðinni um Burgundy og í Veiðiregluhittingum og á stórhátíðum og daglegum smáhátíðum. Við löbbum áfram með Höbbu í hjörtum okkar. Samferða áfram um lífsins veg. La vie est belle!




Guðrún Högnadóttir.