Þóroddur Gissurarson fæddist í Hafnarfirði 2. júní 1957. Hann lést á heimili sínu í Hafnarfirði fimmtudaginn 15. október síðastliðinn. Foreldrar hans eru Gissur Grétar Þóroddsson, f. 1. febrúar 1936, og Bára Hildur Guðbjartsdóttir, f. 8. júní 1938. Systkini Þórodds eru: Guðbjartur Grétar, f. 1. desember 1954, Guðbjörg, f. 18. nóvember 1958, Helgi, f. 24. ágúst 1960, Gyða, f. 9. október 1962, og Róbert, f. 6. júlí 1970.

Þóroddur kvæntist 2. júní 1979 Guðbjörgu Þorvaldsdóttur frá Neskaupstað, f. 18. júlí 1959. Þau eignuðust fjögur börn og bjuggu lengst af í Neskaupstað. Þau slitu samvistum. Eftirlifandi unnusta Þórodds er Gabríela E. Þorbergsdóttir, f. 26. mars 1962. Þau bjuggu í Hafnarfirði og sinntu fjölskyldum sínum af umhyggju og alúð.

Börn Þórodds eru: 1) Þorvaldur, f. 2. ágúst 1977, kvæntur Ólöfu Ásu Benediktsdóttur, f. 30. janúar 1980, börn þeirra eru Telma, f. 16. júní 2004, og Benedikt Már, f. 14. júní 2010. 2) Gissur Freyr, f. 14. janúar 1980, sambýliskona hans er Sigrún Hólm Þórleifsdóttir, f. 21. október 1983, synir þeirra eru Hilmir Hólm, f. 1. maí 2006, og Þórleifur Hólm, f. 2. október 2009. 3) Sif, f. 2. október 1986, gift Daniel Sam Harley, f. 22. janúar 1987, börn þeirra eru Lana Sif, f. 16. apríl 2005, Baldur Sam, f. 4. júní 2010, og Katla Robin, f. 14. október 2015. 4) Níels, f. 19. maí 1993, sambýliskona hans er Elísabet Rósa Gunnarsdóttir, f. 8. júní 1998, dóttir þeirra er Emanúela Rósa, f. 11. desember 2018.

Þóroddur ólst upp í Hafnarfirði fyrstu 12 árin en fluttist með foreldrum sínum og systkinum til Perth í Ástralíu árið 1969. Hann bjó þar til ársins 1976 þegar hann flutti til Neskaupstaðar. Í Neskaupstað stofnaði hann fjölskyldu og þar eignaðist hann öll sín börn. Hann var sjómaður allt sitt líf og var á sjó í Neskaupstað og Hafnarfirði lengst af. Sjómennskan átti hug hans allan og var bæði atvinna og áhugamál. Síðustu tvo áratugina bjó Þóroddur á Álftanesi og í Hafnarfirði. Þóroddur átti stóra fjölskyldu og þau Gabríela áttu fjölbreyttan vinahóp á Íslandi, Ástralíu, Spáni og víðar. Barnabörnin áttu stóran þátt í lífi hans síðustu árin og voru einstaklega hænd að honum.

Útför Þórodds fer fram frá Garðakirkju í dag, föstudaginn 23. október 2020, klukkan 11:00.

https://www.facebook.com/groups/1473409346382974

Virkan hlekk á slóð má nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat

Í dag kveðjum við tengdaföður minn, Þórodd Gissurarson, sem lést á heimili sínu þann 15. október langt fyrir aldur fram.
Þegar við Þorvaldur byrjuðum saman fyrir hartnær tuttugu árum fylgdi í kaupbæti tengdafjölskylda eins og gengur. Að öðrum ólöstuðum var hann Þóroddur stærsta persónan, mesti karakterinn algjörlega ógleymanlegur öllum sem kynntust honum. Hann Þóroddur hafði marga fjöruna sopið eins og sagt er, átti að baki líf sem hann lifði svo sannarlega lifandi og til fulls. Hann var Hafnfirðingur í báðar ættir og fyrstu æskuárin átti hann í Hafnarfirði. Þegar Þóroddur var 12 ára fluttist fjölskyldan til Ástralíu þar sem hann sleit barnsskónum og mótaðist á unglingsárum. Árið 1976, þá 19 ára gamall, flutti hann aftur til Íslands og stofnaði fjölskyldu í Neskaupstað með Guðbjörgu tengdamóður minni. Þau eignuðust öll sín fjögur börn í Neskaupstað sem urðu stolt og gleði Þórodds fram á síðasta dag.

Leiðir tengdaforeldra minna skildu eftir um 20 ára hjónaband og síðustu árin bjó hann með Gabríelu í Hafnarfirði. Þóroddur og Gabríela áttu einstaklega gott samband og vógu hvort annað upp eins og best verður á kosið. Þau sinntu fjölskyldum hvort annars af alúð, Þóroddur talaði mikið um foreldra Gabríelu og þótti óskaplega vænt um þau. Gabríela hefur alltaf verið barnabörnum Þórodds eins og hún ætti þau sjálf og fyrir það erum við þakklát.

Ég hafði óendanlega gaman af því að hlusta á Þórodd segja sögur. Ég var reyndar ekki ein um það, barnabörnin elskuðu að hlusta á hann segja sögur frá sjónum, frá óbyggðum Ástralíu, frá Spáni og svo mætti lengi telja. Þóroddur hafði unun af mat og matargerð og var oft ansi stórtækur. Mér líður seint úr minni fyrsta búðarferðin okkar, þá bjuggum við Þorvaldur tvö og hann var í heimsókn. Við röltum yfir í Hagkaup frá Eiðsvallagötunni og ætluðum að kaupa smávegis í matinn. Alltaf þegar ég steig frá körfunni hafði hann sett tvö lambalæri, fjóra smjörvadalla, átta lítra af mjólk eða eitthvað álíka ofan í körfuna! Ég hafði aldrei séð annað eins magn af mat og það fyrir okkur þrjú! Þóroddur var nefnilega stórtækur maður með stórt hjarta. Hann gaf alltaf allt sem hann átti og hugsaði mest um aðra. Nægjusamari mann var erfitt að finna, hann var sáttur með kaupfélagspoka undir sundfötin, mat í ísskápnum og að komast annað slagið á sjó.
Það var líka ótrúlega skemmtilegt að hlusta á Þórodd segja frá fyrstu árunum í Neskaupstað. Hann kom náttúrulega með nýjungar frá Ástralíu sem enginn fyrir austan hafði séð. Grilluð rif í barbíkjúsósu, kjúklingur og pizza þetta voru framandi réttir á áttunda áratugnum austur á landi. Þóroddur var listakokkur, hafði gaman af því að elda góðan mat og bjóða í mat.
Það er ekki hægt að sleppa því að nefna hve barngóður tengdapabbi minn var. Það var algjörlega einstakt hvað hann hafði gaman af börnum og hafði gott lag á þeim. Barnabörnin hans voru líf hans og yndi og það var einstakt hvað hann tók hverju barni nákvæmlega eins og það var. Hann gerði aldrei upp á milli og bar þau aldrei saman. Hann annaðist þau sem ungabörn, fór seinna með þau í sund og ístúra, hlustaði á þau tala um sín áhugamál og hugðarefni og hrósaði og hvatti þau eins og best er á kosið.
Margs er að sakna og margs er að minnast. Það er svo ótalmargt sem mun minna mig á hann Þórodd um ókomna tíð og hann skilur eftir sig skarð sem ómögulegt er að fylla. Hann var maður sem straujaði til að róa taugarnar, fór að sofa klukkan níu eftir að hafa tekið kvöldmálið, vaknaði í birtingu og kveikti á kaffivélinni, beið eftir að það kæmu hlunkar í kassann, steig ölduna, passaði að rugga ekki bátnum en umfram allt vildi hann að öllu sínu fólki liði vel. Ég minnist manns sem gat alltaf fundið eitthvað að hlakka til og sem var að þroskast alla þá tíð sem við þekktumst.
Ég votta fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð, Gabríelu, foreldrum hans í Ástralíu, systkinum hans hér heima og úti, Sif, Níelsi og Gissuri Frey.

Ólöf Ása Benediktsdóttir.