Fríður var fædd 21.mars 1935 í Blesugróf í Reykjavík, önnur í röð 7 systkina.
Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Selfossi, 17. október 2020.
Foreldrar Fríðar voru Pétur Björnsson Guðmundsson, f. 1906 vélstjóri og bóndi, d. 1978 og Guðbjörg Elín Sæmundsdóttir húsmóðir, f. 1910, d. 1963.
Systkini Fríðar: Theodór Heiðar, f. 1933, d. 1988, Gunnar Rúnar, f. 1938, d. 2017, Kristný, f. 1942, Elín Drífa, f. 1944 , Guðmundur, f. 1946, og Pétur Haukur, f. 1948.
Eiginmaður Fríðar var Hjalti Ólafur Elías Jakobsson, f. 15.3. 1929, d. 18.6. 1992, garðyrkjumaður. Foreldrar hans voru Jakob Narfason, f. 1891, og Etelríður Marta Hjaltadóttir, f. 1894. Árið 2000 hóf Fríður sambúð með Reyni Ásberg Níelssyni, f. 1931, rafvirkjameistara úr Borgarnesi
Börn Fríðar og Hjalta eru: 1)Pétur Ármann f. 1953. Kona hans er Rut Fjölnisdóttir. 2) Erlingur Hreinn f. 1955. Kona hans er Sjöfn Ólafsdóttir. 3) Hafsteinn Rúnar f. 1957. Kona hans er Anna Kristín Kjartansdóttir. 4) Jakob Narfi f. 1960. Kona hans er Alice Petersen. 5) Guðbjörg Elín f. 1964. Maður hennar er Björgvin Snorrason. 6) Marta Esther f. 1968. Maður hennar er Þór Guðnason. Barnabörnin eru 22 og barnabarnabörnin eru líka 22.
Fríður ólst upp víða á Reykjavíkursvæðinu en fjölskyldan fluttist á Siglufjörð þegar hún var 9 ára. Þar bjó hún til ársins 1952 að fjölskyldan fluttist að Laxnesi í Mosfellssveit. Þar kynntist hún mannsefninu sínu. Fríður og Hjalti hófu búskap í Reykholti í Biskupstungum 1954 þar sem Hjalti var ráðsmaður á garðyrkjustöð. Árið 1957 fluttust þau í Laugarás í sömu sveit og stofnuðu þar og byggðu upp garðyrkjubýlið Laugargerði. Fríður bjó í Laugarási til 2016 er þau Reynir fluttu á Selfoss.
Fríður var ötul í starfi kvenfélagsins í sveitinni, söng í kórum, starfaði með leikfélaginu og lét, ásamt manni sínum sveitarstjórnarmál til sín taka. Hún vann við saumaskap og eldhússtörf, hélt úti tjaldstæði á tímabili, bakaði mikið og seldi. Síðustu árin var hún virk í prjónhóp Rauða krossins á Selfossi.
Útför Fríðar verður gerð frá Selfosskirkju 23. október 2020 kl. 14.
Vegna aðstæðna verða aðeins nánustu aðstandendur viðstaddir.
Streymt verður frá athöfninni á vefsíðu Selfosskirkju.
Virkan hlekk á streymi má nálgast á:
Elsku stóra systir. Þetta er síðasta bréfið til þín frá mér. Ég hef alltaf kallað þig stóru systir, ekki bara vegna þess að þú ert 9 og hálfu ári eldri. Þú varst stærri en ég í öllu sem þú gerðir. Þú kunnir allt, hvort sem það var matargerð, saumaskapur eða að prjóna. Dugnaðarforkur í öllu sem þu tókst þér fyrir hendur. Fyrsta minning mín er frá Siglufirði. Þú og vinkonurnar Lillý og Gígja sátu á rúminu þínu og spiluðu á gítar og sungu skátasöngvana. Ég sat á gólfinu og horfði dáleiddum augum á ykkur. Mér hefur verið sagt að eg hafi ekki kunnað að tala neitt fyrr en við fjögurra ára aldur. En sungið gat ég, ég lærði alla skátasöngvana utan að. Uppáhaldsvísan mín var Sólin skín á hjalla, skalla alla enn, og þið hlóguð að hvernig ég bar fram orðin.
Þu elskaðir að vera á skíðum, það var nægur snjór á Sigló. Þú fórst ung i Síldarvinnu, þá var líka nóg síld á Sigló. Þú fékkst að prjóna sokka og vettlinga á okkur yngri systkinin og passa okkur. Gunnar kom tveimur og hálfu ári á eftir þér, síðan Kittý fjórum árum seinna, ég tveimur árum eftir henni og svo kom Gúndi tveimur árum eftir mér og síðastur kom Pétur Haukur einu og hálfu ári á eftir Gúnda.
Heiðar var tveimur árum eldri en þú, en hann var strákur, og ekki var hægt að krefjast barnapössunar af honum. Vorið 1944 ákváðu foreldrar okkar að flytja frá Reykjavík á Siglufjörð, pabbi hafði fengið vinnu við síldarverksmiðjuna. Lagt var af stað með Esjunni í ferð sem átti að taka tvo daga en það urðu tvær vikur út af hafís sem lá landfastur að mestu leyti. Mamma var ófrísk af mér og lá i koju allan tímann, sjóveik, þar sjóaðist eg sennilega. Þú og Heiðar spiluðuð og teflduð við ameríska hermenn,sem voru aðalfarþegarnir. Pabbi átti fullt í fangi með að passa Gunnar fjögurra og hálfs árs og Kiddy eins og hálfs árs. Fyrst var siglt vestur um, en á Ísafirði varð stopp, ísinn lá fast við land, aftur til Reykjavíkur og fylla á birgðirnar, Síðan suður fyrir land og með þolinmæði og dirfsku komst Esjan til Siglufjarðar 20. mars. Daginn fyrir 9 ára afmælið þitt. Mamma var svo máttlaus að það varð að bera hana í land. Unglingsárin þín voru full af bæði skyldu og leik, þú kepptir á skíðum og varst með í skátunum og eignaðist vini sem þú helst tryggð við alla ævi. Þú elskaðir alltaf Sigló.
Sumarið 1952 ákváðu foreldrar okkar að flytja suður, síldin var horfin og mamma sá að í framtíðinni myndu öll börnin tínast burtu, Heiðar var farinn suður í vinnu. Mamma fór í fyrstu ferðinni með litlu strákanna og búslóðina, Kiddy og Gunnar voru í sveit á Hraunum í Fljótum. Ég sjö ára var skilin eftir hjá Bjarna og Laugu og átti að passa litla tveggja ára stelpu. Þú varðst ráðskona hjá pabba, og vannst í síld ef kom inn bátur. Þú bjargaðir lífi mínu þegar ég fékk að borða í eitt skipti með ykkur pabba, Það voru bjúgu í matinn og mér svelgdist á, eitthvað festist í hálsinum. Eftir að pabbi hafði bankað í bakið á mér, hvolft mér upp og niður og ég orðin blá í framan, tókst þú völdin og dróst upp bjúgnaskinnið með fingrunum. Þetta hafðir þú lært hjá skátunum. Í ágúst fluttum við á tveimur vörubílum með kýr og kálfa. Það var æðislegt ferðalag, með gistingu á Hólum í Hjaltadal, eina skiptið sem ég kom þangað.
Að koma í Laxnes var eins og að koma í annað land. Enginn til að leika við, nema Kiddy og strákarnir, mér leiddist, grét og saknaði besta og eina vinar míns, Erlings. Pabbi hafði lesið söguna um Mjallhvíti sem fór yfir fjöllin sjö og hann sagði að það væri jafn langt til Sigló. Ekkert mál, ég lagði af stað en til öryggis tók ég Gúnda og Pétur Hauk með mér. Við komumst upp í hólana fyrir ofan bæinn, en þá höfðuð þið pabbi leitað dauðaleit að okkur. Í Mosfellssveitinni var íþróttafélag og ákvaðst þú að spila handbolta, það urðu örlög þín, þar hittir þú manninn í lífi þínu, Hjalta Jakobsson.
Hann kom í hlaðið á gamla Ford með verkfærakistu aftan á, ofsalega flottur fannst okkur. Eftir nokkra mánuði fluttu þið í Reykholt í Biskupstungum, í sumarbústað án rafmagns og heits vatns, en hverinn var með sjóðandi vatn fyrir utan húsvegginn.
Sumarið 1955 kom prins númer tvö, Erlingur Hreinn, síðan fluttuð þið í fjósið á Stóra-Fljóti sem hafði verið gert upp að fínum manna bústað. Það var alltaf svo yndislegt að koma til ykkar Hjalta, það var ekki bara heitavatnshiti í húsinu, heldur fann ég alla tíð umhyggju, ást og hamingju hjá ykkur.
Ég kom sem barnapía sumarið 1956, Pétur þá tveggja og hálfs og Erlingur eins árs í júlí. Þú treystir mér fyrir prinsunum þínum þótt ég væri bara 11 ára. Erling eins árs setti ég á bögglaberann og sagði honum að halda utan um mig og setti þriggja lítra mjólkurbrúsa á stýrið, svo hjóluðum við að Brautarhóli á hverjum degi að kaupa mjólk, ca. kílómetra leið. Erlingur svaf alltaf um miðjan daginn, þá tók ég Pétur með í sundlaugina. Við vinkonurnar vorum með bíldekksslöngu í lauginni. Eitt skipti setti ég Pétur í slönguhringinn og brýndi fyrir honum að alls ekki rétta upp hendurnar. Svo æfðum við vinkonurnar köfun. Allt í einu sáum við að hringurinn var tómur, enginn Pétur, við köfuðum allar niður á botn, og drógum hann upp, hann var orðinn blár i framan.
Aldrei hef eg verið hræddari í lífi mínu, ég henti honum yfir öxlina og hljóp í sundbolnum alla leið heim, þá hafði hann hóstað upp vatninu og öskraði hástöfum. Sjaldan hef ég verið svo glöð að heyra barn öskra. Fríður mín þú fékkst ekki að heyra þennan sannleika fyrr en hann varð fimmtugur. Erlingur elskaði mat og við stelpurnar vorum með bú, þar bökuðum við drullukökur og skreyttum þær með Sóleyjum og grasi. Þegar þú fékkst að vita að hann át þessar kökur þótti þér betra að ég fengi kakó, sykur og haframjöl og hnoðaði saman fyrir hann, honum varð ekkert meint af þessu og ekki stoppaði hann í vexti, náði næstum tveimur metrum fullorðinn. Þetta var yndislegt sumar, á sunnudögum fórum við út að keyra, skoða umhverfið og náttúruna. Ég sat aftur í með strákana sinn hvoru megin við mig, engin belti, engir barnastólar. Þið fram í og sunguð dúett, þetta var hamingja, ég minnist þessa sumars sem eins af mínum bestu.
Síðan kom haust og ég fór heim, þið bættuð við barnahópinn. Fjórir strákar í röð, þú sagðist vera hætt. En 1964 varð kraftaverkið. Í desember kom langþráða stelpan, Þvílík hamingja, en þið bættuð enn einni við í safnið 1968. Yndislegt fólk öll börnin ykkar sex. Nú ertu aftur komin Fríður mín til Hjalta og Guð blessi minninguna um ykkur.
Þín litla systir
Drífa.