María Guðrún Guðjónsdóttir fæddist á Hesti í Önundarfirði 19. mars 1932. Hún lést 9. október síðastliðinn á hjúkrunarheimilinu Sóltúni.
Foreldrar hennar voru hjónin Guðjón Gísli Guðjónsson, bóndi á Hesti, f. 28.10. 1897, d. 29.3. 1980, og Guðbjörg Sveinfríður Sigurðardóttir húsfrú, f. 22.8. 1901, d. 25.3. 1980. Systkini Maríu eru: Þorvarður, f. 28.1. 1929, d. 24.1. 2011, Sigurbjörg Hervör, f. 27.1. 1931, Helga Jóna, f. 27.4. 1933, d. 17.11. 2019, Svava, f. 19.5. 1934, d. 20.10. 2019, Ingólfur Hafsteinn, f. 16.7. 1935, d. 25.7. 1987, og Sveinbjörn Guðjón, f. 14.6. 1940, d. 20.7. 2007.
María Guðrún ólst upp í stórum systkinahópi. Alls voru systkinin þrettán, sex barnanna dóu í frumbernsku.
María bjó ætíð nálægt foreldrum sínum en hún var mjög náin móður sinni. Þegar þau létust keyptu María og Hafsteinn bróðir hennar saman íbúð þeirra á Laugarnesvegi 40, en það var hennar síðasta heimili.
María stundaði nám við Húsmæðraskóla Reykjavíkur veturinn 1956-1957. Hún vann alla sína tíð sem verkakona, meðal annars á Júpíter og Mars og Þvottahúsi Ríkisspítalanna.
Elsku Mæja mín, nú eru okkar stundum lokið í bili, ég trúi því að þú sért í góðum höndum með þínu fólki. Við höfum átt dásamlegar stundir saman og hvert bros, hvert orð og hvert andartak skal geymast.
Ég er svo þakklát fyrir allar minningarnar sem ég hef. Þegar ég er að rifja þær upp man svo vel eftir því þegar við bjuggum öll í sama stigagangi á Laugarnesvegi 108, amma, afi og Haddi frændi í einni íbúð, Varði frændi og fjölskylda í annarri og við svo í þeirri þriðju. Einnig vorum við með herbergi niðri sem voru notuð af okkur fjölskyldunni, þar á meðal þér og Svövu með Gunnar Pétur. Í minningunni fannst mér svo gaman að geta farið á milli íbúða í heimsókn eða pössun. Síðar fór Varði í Kópavoginn, við í Breiðholtið og þið hin á Laugarnesveg 40 en þar var þitt síðasta heimili.
Ég minnist þess að heimsækja ykkur ömmu og Svövu frænku á matmálstíma í vinnuna á Júpiter og Mars. Svava að vinna í mötuneytinu og þið í salnum, svo kom ég með mitt nesti eða Svava og þið gaukuðuð að mér einhverju góðgæti (vel smurðu brauði), það var allt svo snyrtilegt og fallegt hjá ykkur þremur enda þekktar fyrir það. En þar lendir þú í slysi við þrif og missir fingur, ég man hvað það var erfitt hjá þér þá, þér fannst þetta vera svo mikið lýti. Þú nefndir það oft við mig hvað amma hefði hjálpað þér mikið á þessum tíma, styrkti þig, enda misstir þú mikið þegar hún fór, bæði móður þína og bestu vinkonu.
Elsku Mæja mín, þú varst svo mikill sérviskupúki að það var dásemdin ein. Ég man þegar við pabbi gáfum þér fyrsta farsímann (takkasími), þér fannst hann mikil gersemi enda saumaðir þú poka utan um hann og hafðir hann svo í öðrum poka sem var ofan í veskinu. Svo var hringt í þig, þá var oft búið að hringja út þegar þú loksins náðir honum úr þessum pokum og við hlógum oft að þessu. En síminn var hafður í þessari múnderingu því hann mátti ekki rispast. Þannig er þér rétt lýst, þú fórst alltaf rosalega vel með allt sem þú áttir og allt sett í poka inn í skáp, straujað og vel brotið saman.
Við fórum ófáar ferðir saman innanlands sem utan og var þá vel skipulagt í töskuna og ekkert mátti missa sín, enda varstu með alla hluti sem þurfti. Spilastokkur var alltaf í töskunni, því þér þótti bæði róandi og gaman að leggja kapal og að spila vist var í uppáhaldi hjá þér. Stundum gerðum við að gamni okkar og spurðum kapalinn spurninga en vorum ekki alltaf hressar yfir svarinu. Dagblöðin voru alltaf tekin með og lesin spjaldanna á milli.
Það var yndislegt að ferðast með þér, elsku Mæja mín, við áttum svo skemmtilegar stundir saman og hlógum mikið. Þó þú hafir verið 30 árum eldri en ég var alltaf eins og að vera með jafnaldra í þessum ferðum, þú varst svo frá á fæti enda í góðri þjálfun þar sem þú fórst allra ferða þinna gangandi og í strætó. Þó allar okkar ferðir hafi verið góðar þá held ég að besta ferðin okkar hafi verið þegar við fórum til Spánar saman, þú, ég og Ugla, þá áttum við báðar stórafmæli, þú áttræð og ég fimmtug. Mikið var það skemmtileg ferð enda gerðum við rosalega mikið og mjög mikið hlegið.
Eftir löng ferðalög fannst þér bæði erfitt og gott að koma heim. Þú óttaðist einsemdina og nefndir alltaf við mig hvað yrði skrýtið að vera allt í einu ein. Þá gerði ég í því að koma til þín á hverjum degi dálítið á eftir. Þú elskaðir heimilið þitt og fannst mjög gaman að breyta til, færa til húsgögn og fleira fyrir jólin. Þú hafðir svo mikið dálæti af öllu smáu, litlum hlutum. Og á jólum bakaðir þú alltaf þínar jólakökur sem voru vínabrauð, snúðar og bleiku glassúrkökurnar, uppáhaldið hans pabba. Og alltaf bakaðir þú líka fyrir hann til að taka með sér heim og nutum við góðs af. En hjá honum varst þú nánast öll jól og áramót.
Pönnukökugerð varstu snillingur í, ekki lengi að henda í pönnukökudeig meðan maður var hjá þér í heimsókn, þetta þekkja allir. Þær mættu örugglega teljast í tonnum allar pönnukökurnar sem þú hefur bakað í gegnum árin. Takk fyrir allar pönnukökurnar, elsku frænka.
Þú varst kona með skoðanir og ekki alltaf auðveld í samskiptum við þína nánustu en við okkur systkinin varstu frábær mamma/amma, allra besta frænka. Börnin mín elskuðu þig.
Ég vil þakka þér, elsku Mæja mín, fyrir allt sem þú hefur kennt mér, allar skemmtilegu stundirnar, gæskuna og alla samveruna í þessu lífi. Þú varst heimsins besta frænka og elskuð af mér.
Mamma biður að heilsa og vill þakka þér fyrir allt, fyrir að vera svona góð við okkur systkinin og börnin okkar.
Gjöfin
Ég veit ekki hvort þú hefur
huga þinn við það fest,
að fegursta gjöf sem þú gefur,
er gjöfin sem varla sést.
Ástúð í andartaki,
augað sem glaðlega hlær,
hlýja í handartaki,
hjarta sem örar slær.
Allt sem þú hugsar í hljóði
heiminum breytir til.
Gef þú úr sálarsjóði
sakleysi fegurð og yl.
(Úlfur Ragnarsson.)
Þín alltaf,
Fríða Sveinbjarnar.