Björn Arnar Bergsson var fæddur í Reykjavík 13. júlí 1935, sonur hjónanna Söru Ólafsdóttur og Bergs Arnbjörnssonar (Bíla-Bergs) sem bjuggu lengst af á Akranesi. Björn lést í faðmi ástvina sinna á líknardeild Landspítalans í Kópavogi þann 22. október.

Björn ólst upp í Reykjavík, Borgarnesi og Akranesi. Systkini hans voru Ólafur
f. 1927, d. 2008, Þorgerður, f. 1928, d. 2008, Guðrún, f. 1933, d. 2018 og Auður, f. 1945, d. 1963.

Björn kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Ingibjörgu Ingólfsdóttur, þann 1. janúar 1958. Þau áttu gott líf saman fram að hans hinsta degi. Foreldrar Ingibjargar voru Ingólfur Gunnlaugsson og Sesselja Sveinsdóttir. Björn og Inga bjuggu lengst af á Garðabrautinni á Akranesi, í húsinu sem þau byggðu þar. Síðustu sautján árin áttu þau heimili á Prestastíg í Grafarholti.

Björn lauk meistaraprófi í rafvirkjun 1959 og varð síðar meistari í rafveituvirkjun. Hann vann alla tíð hjá RARIK og sá um Borgarfjörðinn. Hann var bæði í línuviðgerðum og sá um að tengja bæi og bústaði. Einnig las hann af mælum og sinnti viðhaldi. Fjölskyldan fór ósjaldan með honum í ferðirnar upp í Borgarfjörð.

Börn Björns og Ingibjargar eru: 1) Sesselja, fædd 30. október 1957. Hún á Ingu Maríu og Ara Björn með fyrrverandi eiginmanni sínum, Ólafi Unnari Kristjánssyni. Inga María er gift Ásgeiri Viðari Árnasyni og eiga þau saman Freyju Rún og Írisi Kötlu. Ari Björn á soninn Ólaf Árna með fyrrverandi sambýliskonu sinni, Hildi Árnadóttur. 2) Sara, fædd 16. febrúar 1962, gift Gulleik Løvskar. Hún á Arnar Ólaf Hvanndal með fyrrverandi sambýlismanni sínum, Ólafi Hvanndal, f. 1962, d. 2014. Fyrri sambýliskona Arnars er Fanney Hólm Margrétardóttir og saman eignuðust þau Kristófer Eggert. Núverandi sambýliskona Arnars er Þórunn Hafdal og saman eiga þau Storm Gulleik. Fyrir á Þórunn synina Berg Andra og Hávarð Arnar. 3) Inga Birna, fædd 6. júlí 1965. Inga Birna á Stellu Björt með Gunnari Bergmann Traustasyni og Guðmund Ámundason með eiginmanni sínum, Ámunda Guðmundssyni. Stella er í sambúð með Alexander Fannari Kristjánssyni og eiga þau soninn Véstein Flóka. 4) Ingólfur Arnar, fæddur 17. ágúst 1976. Hann er giftur Carynu Gladys Bolivar og saman eiga þau Ingibjörgu Carmen.

Björn var mikið í veiði, bæði skot- og laxveiði. Hann sinnti því kannski meira framan af, því eftir að þau hjónin hann og Inga byggðu bústað við Vesturhópsvatn undu þau löngum stundum þar með fjölskyldu og vinum. Þar ræktuðu þau upp landið og fiskuðu í vatninu. Þar áttu þau góðar stundir saman. Þar sem hann var í björgunar- og hjálparsveitinni á Akranesi fóru þau hjónin á sumrin í æfingaferðir upp á hálendi Íslands, löngu áður en ferðir þangað tíðkuðust. Þau ferðuðust alla tíð mikið um landið sitt og fóru og heimsóttu önnur lönd í Evrópu.

Útför Björns fer fram frá Áskirkju þriðjudaginn 3. nóvember. Í ljósi aðstæðna verða aðeins hans nánustu viðstaddir.

Faðir okkar er farinn í sína hinstu för og við minnumst hans með söknuði og þakklæti.

Pabbi var afar heiðarlegur og traustur maður. Hann átti góða vini í gegnum lífið og var mjög trygglyndur. Hann var með góðan húmor og fannst gaman að koma okkur til að hlæja. Hann lagði töluvert í grínið og var mjög hugmyndaríkur, enda munum við eftir honum með glens og grín og mömmu hlæjandi.

Fjölskyldan hans pabba var stór og hann var náinn öllum sínum systkinum. Hann og Stella systir hans voru þau einu sem bjuggu á Akranesi mjög nálægt hvort öðru. Heimilin runnu saman og frændsystkinahópurinn var stór og náinn. Óli bróðir hans bjó í Reykjavík og Dúna í Kópavogi. Fjölskyldur þeirra voru líka barnmargar og það var hátíð í bæ, þegar þau komu í heimsókn á Akranes eða þegar við fórum suður til þeirra.

Pabbi og mamma voru saman í 65 ár og héldu upp á demantsbrúðkaupið sitt 1. janúar 2018. Þau kynntust sumarið 1955 þegar þau voru að vinna í Fornahvammi og voru saman alla tíð eftir það. Pabbi var hávaxinn og grannur, með eldrautt, liðað hár og glettinn augnsvip. Mamma var lítil og nett, með blásvart hár, bókelsk, jafnlynd og dul og gaf sig ekki að ókunnugum eins og pabbi. Eitt sinn voru þau að ferðast um landið og pabbi var að spjalla lengi við mann í Kaupfélaginu á Egilsstöðum. Mamma spurði hann hvort þetta hefði verið gamall skólafélagi, þar sem hún kannaðist ekkert við þennan mann. Nei, hann hafði hitt hann í Kaupfélaginu á Höfn deginum áður.

Foreldrar okkar ferðuðust mikið um landið bæði með okkur börnum sínum og með vinahópnum. Við fórum mjög oft í tjaldútilegur og stundum í dagsferðir með nesti á sólríkum sumardögum. Við munum líka eftir skautaferðum í Skorradal, þar sem pabbi dró okkur á snjóþotum á bílnum. Við fórum og skautuðum á stöðuvötnum hér og þar í Borgarfirði. Ef það fraus í stillu gat maður séð niður á botn, sem var bæði spennandi og ógnvekjandi. En maður varð aldrei hræddur, því pabbi var pottþéttur og vissi hvað hann var að gera. Ófáar helgarnar fórum við til Reykjavíkur, til fjölskyldu mömmu. Það var farið í öllum veðrum og stundum var snarvitlaust veður. En það var einmitt það sem pabbi var vanur að gera, að þvælast um sveitir í veðurofsa til að finna og laga slitnar rafmagnslínur. Eitt sinn sem oftar á leiðinni til Reykjavíkur skreiddumst við í gegnum snjóbyl, með þokuljósin á þar til við komum að stórum skafli. Það stoppaði ekki föður okkar, heldur fór hann út með skóflu og mokaði og mokaði. Setti síðan keðjur undir bílinn og kom okkur heilum í bæinn. Stundum vorum við marga klukkutíma að keyra fyrir fjörð.

Hann keypti gjarnan nýjustu græjurnar og sniðugt dót sem hann fann. Oft voru þetta raftæki og alls konar vasaljós, svo hann kom með ýmsar nýjungar handa mömmu. Eins og eitt sinn kom hann t.d. heim með öskubakka, sem var þannig hannaður að ef sígarettan var að brenna upp í þar til gerðri rennu, lyftist rennan og sturtaði stubbnum niður. Hann kom líka með græju til að skera kartöflur og gaf okkur fyrstu frönsku kartöflurnar sem við höfðum séð og bragðað. Enda var þetta áður en franskar fengust á veitingastöðum.

Pabbi var rómantískur og stjanaði við sína konu. Á veturna fór hann og skóf bílinn áður en mamma vaknaði, hitaði hann upp og hellti upp á könnuna. Hann var morgunhani en mamma mikill næturhrafn. Þau bættu hvort annað upp eins og dagur og nótt.

Í vinnunni hjá RARIK keyrði hann í kringum milljón kílómetra á E 27. Við gætum fundið nákvæmlega út hversu marga kílómetra hann keyrði, því hann skrásetti allt vegna vinnunnar og henti engu, svo nú eigum við systkinin þessar heimildir. Stundum þegar hann sat við skrifborðið og mamma var kannski að elda eða eitthvað að stússast, heyrðum við gjarnan kallað eitthvað á þessa leið: Inga, hvar var ég á fimmtudaginn í síðustu viku? Þú fórst upp í Andakílsárvirkjun um morguninn, hringdir í hádeginu frá Vatnshömrum og sagðist vera á leiðinni inn í Lundarreykjadal. Í bílnum var talstöð og maður heyrði oft kall úr henni og pabba svara og ljúka samtalinu með; yfir og út.

Við kveðjum pabba í dag með þakklæti í hjarta og minnumst lífsins með honum. Pabbi trúði á áframhaldandi líf og að eftir dauðann myndi hann hitta foreldra sína og systkini. Við sjáum hann því fyrir okkur glaðan og reifan með sinni upprunafjölskyldu og það er fallegt.


Sesselja, Sara og Inga Birna.