Árni Sigurðsson, fv. sóknarprestur á Blönduósi, fæddist á Sauðárkróki 13. nóvember 1927 og ólst þar upp. Hann lést á Litlu-Grund 26. október 2020.
Foreldrar hans voru Sigurður Sigurðsson, f. 19.9. 1887, d. 20.6. 1963, sýslumaður í Skagafirði, og Guðríður Stefanía Arnórsdóttir, f. 15.4. 1889, d. 14.6. 1948, húsfreyja.
Systkini Árna voru Margrét Þórunn, f. 4.5. 1915, d. 23.5. 1994, hjúkrunarfræðingur og bæjarfulltrúi í Helsingborg í Svíþjóð; Sigurður, f. 29.10. 1916, d. 7.12. 1996, cand. phil. og listmálari í Kópavogi; Stefanía Guðríður, f. 5.1. 1918, d. 12.7. 1993, skrifstofumaður í Reykjavík; Arnór, f. 1.3. 1919, d. 14.11. 1998, sýsluskrifari og verslunarmaður á Sauðárkróki; Stefán, f. 5.10. 1920, d. 8.2. 1993, lögmaður á Akranesi; Hrólfur, f. 10.12. 1922, d. 17.9. 2002, listmálari í Kópavogi; Guðrún Ragnheiður Urup, f. 25.7. l925, d. 28.6. 2012, listmálari og húsmóðir í Holte í Danmörku; Snorri, f. 15.4. 1929, d. 26.5. 2009, skógfræðingur í Kópavogi.
Árni kvæntist 30.3. 1952 Eyrúnu Gísladóttur, f. 17.1. 1931, d. 2.12. 1997, hjúkrunarkonu. Börn Árna og Eyrúnar eru: 1) Arnór, f. 6.7. 1952, sagnfræðingur og fv. kennari við Árbæjarskóla, kvæntur Ástu Ragnarsdóttur bókasafnsfræðingi, börn þeirra eru Stefanía Embla, f. 1980, Kolbeinn, f. 1985, og Árni, f. 1985. Fyrir átti Ásta Sigurð Snorra, f. 1972. 2) Hildur, f. 21.7. 1956, ljósmóðir og skurðhjúkrunarfræðingur á Landspítala í Reykjavík, gift Pétri Böðvarssyni, f. 19.4. 1955, skipatæknifræðingi. Börn þeirra eru Sif, f. 1992, og Þór, f. 1994, fyrir átti Hildur Eyrúnu Ýri, f. 1976.
Árni lauk stúdentsprófi frá MA 1949, guðfræðiprófi frá HÍ 1953, stundaði framhaldsnám í guðfræði við háskólann í Lundi 1960-61.
Árni gegndi predikunarþjónustu á Stað í Grunnavík sumarið 1952, var aðstoðarprestur á Hvanneyri 1953-54, sóknarprestur á Hofsósi 1955-62, sóknarprestur á Norðfirði 1962-67 og sóknarprestur á Blönduósi 1968-97 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.
Jafnframt prestsstörfum kenndi hann við Bændaskólann á Hvanneyri, við barna- og unglingaskólann á Hofsósi 1955-62, við barna- og gagnfræðaskólann í Neskaupstað 1962-67, við MA 1967-68 og við gagnfræðaskólann á Blönduósi 1968-79.
Árni verður jarðsunginn frá Bústaðakirkju í dag, 5. nóvember 2020, klukkan 13.
Útförinni verður streymt á slóðinni: https://www.sonik.is/arni/.
Virkan hlekk á slóð má einnig nálgast á: https://www.mbl.is/andlat/.

Árni móðurbróðir og prestur er fallinn frá og mig langar til að rifja upp nokkur atriði úr lífi fjölskyldunnar.




Árni fæddist í nýja Sýslumannshúsinu við Suðurgötu á Sauðárkróki. Móðir hans var Stefanía Arnórsdóttir og faðir Sigurður Sigurðsson, en hann hafði látið reisa húsið sem Steindór smiður teiknaði. Niðri var sýsluskrifstofan, sparisjóðurinn og eldhúsið, en fjölskyldan bjó, oftast með vinnukonu, á efri hæð. Elst barnanna var Margrét Þórunn, móðir mín, sem var tólf ára þegar Árni fæddist. Afi Arnór skírði hann heima. Svo tveimum árum síðar kom Snorri, níunda barnið, og mamma mín kallaði þá litlu strákana alla tíð.




Margrét fór í hjúkrun og út síðsumars 1939, en þá var Árni í sveit hjá hjónunum á Bakka í Viðvíkursveit, Jóni Björnssyni og Guðrúnu Guðmundsdóttur. Þau voru bæði fædd upp úr 1870 og lifðu að hefðbundnum hætti. Torfbærinn sneri að sjó og þar var frambær, gestastofa, skáli og innbær eða baðstofan sem var þrískipt. Þar var eldavél og svo var hlóðaeldhús. Í skálanum var geymt mjöl og ýmislegt og þar var hefilbekkur. Hvorki var sími né rafmagn á bænum og póstur kom einu sinni í viku. Jón var Jónasarsinni og keypti Tímann. Árni talaði mest um hjónin og Rúnu, dóttur þeirra.

Jón á Bakka borðaði einn í baðstofu við lítið borð, en hin frammi. Hann geymdi skeið sína undir sperru. Guðrún stóð við dyrastafinn þegar gestir mötuðust. Níu ára gamall fór hann í göngur á Heljardalsheiði og það var agalegt að vera á skinnskóm, en hann átti bæði hversdagsskó og sunnudagsskó.

Daginn eftir að landið var hernumið í maí 1940 fór hann í sveitina. Árni teymdi hestana þegar Jón fór ríðandi með ullina og þegar þeir komu að Bifröst sáu þeir hermann og hesturinn prjónaði. Þeir voru allan daginn á Króknum. Árni var fjögur sumur á Bakka og taldi sig hafa lært að vinna hjá Jóni og Guðrúnu. Þegar hann kom heim sögðu eldri strákarnir, sem voru stríðnir: Þarna kemur sá sem er reyktur. Árni var ekki alltaf hátíðlegur. Þegar Jón og Guðrún fluttu suður gáfu þau Árna ýmsa gamla muni sem hann hefur fært Byggðasafni Skagafjarðar.




Sigurður sýslumaður borgaði með strákunum í Menntaskólanum á Akureyri. Árni nefndi að fyrir jól gengu þeir heim Öxnadalinn, vegurinn var lélegur og snjór mikill, en bíll sótti þá á Silfrastöðum, Skagafjarðarmegin.

Bæði Sigurður í Vigur og Arnór í Hvammi, afar Árna, voru prestar og hann sagði að það hafi þótt sjálfsagt að einhver af strákunum sex færi í prestskap.

Nokkur sumur vann Árni á Siglufirði og var við kvörnina sem hakkaði hratið í Síldarverksmiðju ríkisins, embættið erfði hann af eldri bróður. Þar var heitt og ekki erfið vinna, en honum líkaði vel. Þegar síldin hvarf var hann í snatti. Síðar var hann í vegavinnu í Vatnsdalnum í Húnavatnssýslu og var stoltur af því að hirða mokstursvélina sína mjög vel. Það var góður tími og hann kynntist mörgu góðu fólki. Þarna kemur ýtuprestur, sagði Fúsi á Torfastöðum. Árni gat sjálfur kostað námið í guðfræði í háskólanum.




Margrét, móðir mín, fór eftir ár í Danmörku til Svíþjóðar og settist að í Helsingjaborg. Fyrst sumarið 1947 gat hún komið heim á Sauðárkrók með mér, Gunnari bróður mínum og föður okkar, Olle Hermansson. Guðrún systir hennar kom frá Danmörku með manni sínum. Þau giftust í Sýslumannshúsinu og séra Gunnar Gíslason skírði okkur Gunnar. Stefanía, móðir Árna, lá þá veik og varð svo að leita lækninga í Danmörku. Árni kvaddi hana þegar hún fór suður fyrir jól og sá hana ekki aftur.




Í Helsingjaborg var míkil gleði þegar Gísli Vilhjálmsson, Gísli Vill, síldarkaupmaður á Króknum, kom í heimsókn á leið til Bóhúsléns. Eyrún, dóttir hans, giftist Árna og ég man eftir þeim búsettum á Hofsósi. Á Jónsmessu 1960 ók Árni mér og mömmu yfir Skarðið til Siglufjarðar, ég var með síldarsvuntuna hennar Eyrúnar. Hann sagði okkur sögur af ættmönnum, af séra Jónmundi í Grunnavík og öðru góðu fólki. Um haustið voru þau hjónin í Lundi, þar sem hann hafði ánægju af að sækja nám í guðfræði. Hildur, dóttir þeirra, var þá með þeim, en ég sjálf þar í námi.




Þegar ég kom úr Færeyjum vorið 1974 í Árbæjarsafn var Árni prestur á Þingeyrum. Þau Eyrún bjuggu á Blönduósi og hún var hjúkrunarkona á Héraðsspítalanum. Sem formaður í Norræna félaginu bað hann mig að halda erindi um Færeyjar og ég spurði hvort hann vildi ekki gifta okkur Pétur Ottosson í leiðinni. Sjálfsagt, sagði hann. Á föstudegi fyrir Jónsmessu keyrðum við tvö norður og eins og oft vill verða varð vesen við að sýna litskyggnur, tækið bilaði, rafmagnið fór en áheyrendur biðu þolinmóðir í klukkutíma. Á eftir spurði ég Árna um giftinguna. Jú, hann hafði ekki gleymt því, var búinn að panta kirkjuna á Víðimýri. Það var mikilvægt að fara til Skagafjarðar. Laugardagurinn fyrir Jónsmessu var fegursti dagur sem hugsast gat, með 20 stiga hita í Vatnsdalnum. Eyrún var með og Arnór móðurbróðir kom af Króknum og á eftir dró prestur upp kampavínsflösku úr læknum og við sátum á bakkanum með glösin. Þar gaf hann okkur unaðslega stund. Brúðkaupsferð okkar lá um Hafnir á Skaga, en þaðan var Arnór, afi Árna. Í miðnætursól sáum við gamla íbúðarhúsið komið að falli. Vegurinn var mjög slæmur og við komum á Blönduós um nótt. Þegar við vöknuðum um morguninn var Eyrún þegar búin að leggja á borð hangikjöt með öllu, því prestur var að fara til að halda messu á Hólahátíð og vildi ekki fara svangur.




Auðsótt mál var að fá Árna til að skíra son okkar Stefán Gorm 1975 og svo Magnús 1976 í Silfrastaðakirkju í Árbæjarsafni þar við bjuggum. Fyrir jól var Árni vanur að skrifa Nokíu, vinabæ Blönduóss, til að biðja um jólatré og þá kom hann stundum í safnið til að fá sænskuna leiðrétta.




Mamma og pabbi höfðu 1947 ákveðið að þau vildu fá að hvíla uppi á Nöfunum, með útsýni yfir Skagafjörðinn. Það var aftur eins og sjálfsagt að Árni kæmi með okkur, sem komum að utan, að jarðsyngja í kirkjugarðinum þegar hún var öll 1994, og eins var það tíu árum seinna þegar hann var látinn.




Þegar Árni flutti í Sléttuhlíð bjuggum við Pétur í Stokkhólmi og okkur langaði til að eiga samastað í Reykjavík. Einn daginn 2009 hringdi hann og sagði mér að koma strax og kaupa íbúð í Espigerði, en hann þekkti húsið. Við Magnús fórum og gerðum það bara. Ári seinna fórum við Pétur með Árna norður á Hólahátíð og eins og fyrr var Árni fullur af góðum frásögnum alla leiðina. Þá höfum við átt margar ánægjulegar stundir með Árna og Hjördísi Jónsdóttur, vinkonu hans. Þræðir liggja oft saman, en hún var hjá okkur í Helsingjaborg þegar ég var ellefu ára og hún hefur fylgst með okkur í fjarska síðan. Þá komu þau bæði til Stokkhólms á Jónsmessu 2013 þegar Árni skírði Ellu Stefaníu, dóttur Magnúsar. Tveim árum síðar var hann aldursforseti á ættarmóti niðja Stefaníu og Sigurðar í Borstahusen, Landskrona.




Nú söknum við Árna en minnumst hans með þakklæti.


Nanna Stefanía Hermansson.