Dóra María Ingólfsdóttir fæddist í Reykjavík 20. október 1926. Hún lést 13. nóvember 2020.

Hún var dóttir Lilju Halldórsdóttur húsfreyju, f. 7.6. 1881, d. 6.11. 1956 og Ingólfs Daðasonar verkstjóra, f. 23.12. 1886, d. 24.6. 1947. Foreldrar Lilju voru hjónin Elín Bárðardóttir húsfreyja á Miðhrauni, f. í Kolbeinsthr. 24.6. 1844, d. 19.4. 1931, og Halldór Guðmundsson bóndi á Miðhrauni, f. í Miklaholtssókn, Hnapp. 3.4. 1842, d. 10.7. 1905. Foreldrar Ingólfs voru hjónin Daði Daníelsson bóndi á Snæfellsnesi, f. 10.10. 1850, d. 26.11. 1939, og María Magdalena Andrésdóttir húsfreyja á Snæfellsnesi, f. 22.7. 1859, d. 3.9. 1965.

Systkini Dóru Maríu eru þessi: 1) Oddfríður Ingibjörg, f. 25.6. 1908, d. 23.3. 1995, 2) Kristín Laufey, f. 2.7. 1910, d. 22.1. 2011, 3) Elín Fanney, f. 15.9. 1912, d. 20.1. 2000, 4) Örn, f. 21.3. 1917, d. 3.11. 1922, 5) Hrefna Solveig, f. 19.9. 1921, d. 17.11. 1946, 6) Erna, f. 9.5. 1924, d. 28.7. 2003.

Dóra María giftist Sigurði Ragnari Ingimundarsyni verslunarmanni, f. á Siglufirði 25.5. 1924, d. 27.8. 2003. Börn þeirra eru: 1) Lilja f. 1951. Börn: Dóra María Baldvinsdóttir f. 1970. Synir Dóru Maríu eru Magnús Chan f. 2002 og Thor Chan f. 2004. 2) Anna f. 1953, gift Konráð Inga Jónssyni f. 1956. Börn: a) Sesselja f. 1978, b) Lilja f. 1982. Synir Lilju eru Konráð Jónsson f. 2013 og Unnar Leo Jóhannsson f. 2019. c) Edda f. 1992. 3) Erna f. 1957, gift Tonny Espersen f. 1962. Börn: a) Díana f. 1983, b) Sandra f. 1986. Börn Söndru eru Karitas Tómasdóttir f. 2016 og Markús Alexander Tómasson f. 2019. c) Alex Ingi f. 1990. 4) Gylfi Ingi f. 1960. 5) Berglind f. 1963. Börn: Sigurður Ragnar Arnarsson f. 1987. Dætur Sigurðar eru Berglind María f. 2015 og Emilía Björk f. 2018.Dóra María tók í fóstur systurson sinn Róbert Róbertsson f. 1943, d. 2020.

Dóra María var fædd og uppalin í Vesturbænum, nánar tiltekið á Framnesvegi og Nýlendugötu. Eftir hefðbundna barnaskólagöngu í Ingimarsskóla fór Dóra María að vinna á saumastofu og verslun Matthildar. Eftir það hóf hún störf í Austurbæjarbíó áður en hún lauk námi við Húsmæðraskólann í Reykjavík á árunum 1945-1946. Á unglingsárum flutti Dóra María með fjölskyldu sinni á Laugateig og tók svo við því æskuheimili ásamt eiginmanni sínum eftir andlát foreldra sinna. Dóra María giftist eiginmanni sínum á gamlaársdag 1951. Árið 1957 fluttu þau í Hvammsgerði og hófu verslunarrekstur við Grensásveg og Laugalæk, áður en þau byggðu verslunar- og íbúðarhúsnæðið við Álfheima 2-4 og hófu þá verslunarrekstur þar sem þau bjuggu næstu áratugina. Eftir andlát eiginmanns síns flutti Dóra María í Miðleiti 7 og bjó þar síðasta áratuginn.

Útförin fer fram frá Langholtskirkju 30. nóvember 2020, klukkan 15. Vegna aðstæðna verða aðeins nánustu aðstandendur viðstaddir. Athöfninni verður streymt á slóðinni:

Stytt slóð á streymi:

https://tinyurl.com/y2rcfl38

Elsku besta mamma mín nú er komið að leiðarlokum og kveðjustund. Ég hef kviðið þessum degi lengi, en sársaukinn mildaðist aðeins þegar ég sá hvert stefndi og þú varst farin að þrá hvíldina í þínum erfiðu veikindum, það er huggun harmi að við börnin þín fimm vorum hjá þér er þú kvaddir þessa jarðvist elsku mamma mín. Þú kvaddir okkur snemma morguns föstudaginn 13. nóv. sem var fallegur og sólríkur vetrardagur. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að hafa þig þetta lengi hjá mér og notið þinnar ástar og yndislegu nærveru. Þú varst ótrúlega hress à afmæli þínu þann 20. okt náðir að fagna 94. ára afmæli. Vinkonur og fjölskyldan sungu fyrir þig afmælissönginn og var fengið sér sherrý tár í tilefni dagsins. Mér er efst í huga að hafa átt þig sem móður alltaf gott að leita til þín ef eitthvað bjátaði á og fá góðar ráðleggingar. Ég vann stóra vinninginn að að fá þig sem mömmu, ljúf, yndisleg hláturmild og alltaf tilbúin að rétta út hjálparhönd, aldrei gerðir þú mannamun, allir sem voru svo heppnir að kynnast þér elskuðu þig og dáðu. Við leiðarlok er margs að minnast og á þessum tímamótum hlaðast upp ótal ljúfar minningar bæði frá uppvaxtarárunum og allt til þíns dánardægurs. Þín ljúfmennska og umhyggja var engu lík, alltaf svo fórnfús og viljug til að gera allt fyrir alla en settir þig aldrei í fyrsta sætið. Ég var ekki eina barnið þitt við vorum 6 með elsku Róberti (Bibba bró) þú sinntir okkur af þinni ótrúlegu fórnfýsi og elsku við aðstæður sem þættu erfiðar í dag. Aldrei heyrði ég þig kvarta elsku mamma mín enda varst þú kletturinn í okkar lífi. Þú varst sú sem við gátum leitað til með allt sem var að hrjá okkur. Er við hófum skólagöngu vaktir þú okkur á hverjum skóladegi og gafst okkur morgunmat og nesti, tókst síðan á móti okkur heim úr skólanum með faðminn útbreiddan. Þú varst ávallt til staðar eins og þú varst alla mína tíð elsku mamma mín. Ekki minnist ég þess að hafa heyrt þig kvarta því oft hefur þú verið að niðurlotum komin, hjúkraðir okkur þegar pestir gengu yfir okkur og hjálpaðir til með skólalærdóminn og heimilishaldið sem var ekki auðvelt, vaktir heilu og hálfu næturnar við að sauma á okkur fallegar flíkur sem biðu okkar að morgni. Ekki má gleyma að þú stóðst þína plikt í verslunar rekstrinum. þessar lýsingar lýsa móður og húsmóður í hæsta gæðaflokki ekki minnkaði ástúð þín og umhyggja þegar barnabörn og barnabarnabörn fóru að koma allt dafnaði undir þínum verndarvæng. Þið pabbi hófuð ykkar búskap á Laugateig 4 þar bjuggum við þrjár kynslóðir saman í íbúð ömmu Lilju móður ömmu minnar þar hjúkraðir þú móður þinni heima elsku mamma mín þar til hún skildi við. Þið pabbi voruð ótrúleg, með seiglu og dugnaði og tvær hendur tómar reistu þið stórt og glæsilegt verslunarhús í Álfheimum 4 með hjálp elsku Róberts sem var lærður húsasmiður og fagmaður fram í fingurgóma. Það reyndist þér erfitt að þurfa að kveðja elsku drenginn þinn hann Róbert 1. júní sl. eftir erfið veikindi, þar sýndir þú ótrúlegan styrk í jarðaför hans. Það er stutt á milli ykkar mamma mín en nú eru þið í Paradís og laus við allar þrautir. Það var yndislegt, fallegt og kærleiksríkt heimilið okkar í Álfheimum mikið um gestagang hátíðar og veisluborðin svignuðu af glæsilegum og dásamlegum kræsingum sem þið pabbi voruð listamenn í að framreiða. Ferðalög voru ykkur pabba hugleikin til fjarlægra landa, ég fór með ykkur til Brasilíu Río, Mexíkó og þrisvar sinnum til Hawaii sem var í uppáhaldi hjá ykkur þetta eru ógleymanlegar minningar sem ég bý að og mun aldrei gleyma. Elsku mamma mín ég vil þakka þér og pabba alla þá aðstoð umhyggju ást og kærleik sem þið veittuð mér og Dóru dóttur minni það var mikil guðsgjöf að eiga ykkur að og gerði mér kleift að stunda mína vinnu sem flugfreyja. Þið áttuð ykkar sælureit á Spáni og elskuðu að dvelja þar á meðan heilsan leyfði, ég á margar yndislegar minningar þaðan með ykkur sem ég geymi í hjarta mínu. Ég átti dýrmætan tíma með þér elsku mamma mín í vor þegar Covid vírusinn helltist yfir okkur og loka átti á allar heimsóknir inn á hjúkrunarheimilið sem þú dvaldir á. Við Anna tókum þá ákvörðun að taka þig heim í fallegu íbúðina þína í Miðleitið. Ég flutti inn og annaðist þig í rúma tvo mánuði og sé ekki eftir því. Þú hefðir ekki þolað að fá ekki ástvini þína í heimsókn og vera lokuð inni í þetta langan tíma það hefði reynst þér erfitt og haft slæmar afleiðingar. Þú blómstraðir heima og elskaðir að horfa á útsýnið úr fallegu íbúðinni þinni og að fara í bíltúr, helst á hverjum degi sem við gerðum oft og út fyrir borgarmörkin á Þingvöll eða í Hveragerði. Þú áttir þína barna trú elsku mamma mín ég elskaði að hlusta á þig fara með fallegar bænir og faðirvorið og biðja fyrir okkur öllum á hverju kvöldi í Miðleitinu áður en þú lagðir fallegu brúnu augun þín aftur. Ég sæti líklega ekki hér að skrifa þessa minningargrein til þín elsku besta mamma mín ef ég hefði ekki átt þig og pabba að er ég veiktist alvarlega 1987 af bráðahvítblæði og var hætt komin og vart hugað líf í þeirri meðferð. Þið pabbi og ekki má ég gleyma Önnu systur minni sem var ómetanleg í sinni umönnun en mest mæddi þetta á þér elsku mamma mín þú varst verndar engillinn minn og verður það alla tíð. Þú varst dugleg að hringja í mig stundum oft á dag á meðan heilsan leyfði eða fékkst hjálp við það á hjúkrunarheimilinu, mikið á ég eftir að sakna þess að fá ekki þessi símtöl frá þér mamma mín, þú sagðir alltaf við mig ertu ekki að fara að koma.




Elsku besta mamma mín þú varst svo sannarlega hetjan mín og fyrirmynd, ég vil þakka þér allt það góða er gafstu mér fyrst og fremst kærleiksríka og yndislega æsku, þú varst einstök trygglind og trú, móðir umfram allt. Takk fyrir gleðina, hláturinn, húmorinn ást þína og umhyggju alla tíð. Ég veit að þú ert komin í sumarlandið til pabba og allra ástvina sem bíða spennt með útbreiddan faðminn til að taka á móti þér, þú varst alveg sátt og tilbúin í þetta ferðalag þar sem sársauki finnst ekki og friður ríkir yfir öllu. elsku fallega mamma mín.Það er tómt pláss í hjarta mínu þar var plássið þitt og engin mun fylla það pláss. En við verðum saman á ný elsku mamma mín og þangað til varðveittu hjarta mitt og ást mína til þín. Við hittumst yfirleitt daglega ég mun sakna þín ekki bara sem mömmu heldur líka sem bestu vinkonu, þú ert og verður alltaf Perlan mín. g kvaddi þig daglega með að segja ég elska þig mamma mín og síðan I love you og þú endurtókst kveðjuna til mín eftir stórt knús. Ég kveð þig með sorg í hjarta með von um að hitta þig aftur á nýjum stað elsku fallega mamma mín.

Hún mamma mín er höll sem aldrei hrinur
í hennar skjóli ávallt dafna ég.
Hún mamma er minn blíði, besti vinur
og brosið hennar fegrar lífsins veg.

Hún hefur fylgt mér bæði úti og inni,
hún er sú besta sál sem ég hef kynnst
því lítið, fallegt bros frá mömmu minni
er mesti dýrgripur sem hérna finnst.

(Kristján Hreinsson)

Þín elskandi dóttir

Lilja.