Rafn Þorvaldsson fæddist 15. september árið 1957 á Akranesi. Hann lést að morgni 19. nóvember 2020 á líknardeild Landspítalans.
Foreldrar Rafns eru Þorvaldur Loftsson (11. júní 1933, Vík) og Svanfríður Valdimarsdóttir (21. mars 1934, Akranesi) og eru þau búsett á Akranesi. Rafn var í hópi átta systkina en tvíburabróðir hans lést skömmu eftir fæðingu. Eftirlifandi systkini Rafns eru þau Valdimar Þorvaldsson (1954), Erla Lind Þorvaldsdóttir (1956), Hildur Þorvaldsdóttir (1959), Þorvaldur Svanur Þorvaldsson (1960), Fjóla Þorvaldsdóttir (1961) og Atli Þorvaldsson (1963).

Um tíma bjó hann með Elínu Kristínu Helgadóttir og áttu þau saman soninn Þorvald Sveinsson (29. júlí 1979), maki hans er Alrún Ýr Steinarsdóttir. Börn þeirra eru Elías Ingi Þorvaldsson (2005), Helgi Snær Þorvaldsson (2007), Arnar Freyr Þorvaldsson (2009) og Lilja Rakel Þorvaldsdóttir (2013).

Hann kvæntist Kristínu Auði Elíasdóttur 4. ágúst árið 1984 en leiðir þeirra skildu 1996. Saman áttu þau börnin Hrafnhildi Ýri Rafnsdóttur (19. júní 1984) sem gift er Jóni Ólafi Gunnarssyni og saman eiga þau börnin Mikael Rafn Jónsson (2010), Helgu Birnu Jónsdóttir (2011) og Elmu Kristínu Jónsdóttur (2015). Dag Hákon Rafnsson (27. ágúst 1985) en sambýliskona hans er Eygló Valdimarsdóttir og saman eiga þau Kolbein Yl Dagsson (2020). Friðrikku Árnýju Rafnsdóttur (29. júní 1987) en sambýlismaður hennar er Matthías Matthíasson og saman eiga þau börnin Myrru Hólm Matthíasdóttur (2013), Aron Erni Gunnarsson (2015) og óskírða Matthíasdóttur (2020). Heiðrúnu Örnu Rafnsdóttur (3. nóvember 1993).

Í apríl 2004 kvæntist hann Ásdísi Ásgeirsdóttir (14. september 1963), leiðir þeirra skildi árið 2012. Bjuggu þau saman ásamt börnunum Ernu Sólrúnu Haraldsdóttur (2. júlí 1992) og Andra Viðari Haraldssyni (2. júlí 1992).

Eftirlifandi sambýliskona Rafns  er Björk Gunnarsdóttir (30. sept 1952). Börn Bjarkar eru Dagrún Matthíasdóttir (18. september 1971), Guðný Matthíasdóttir (24. mars 1973), Steinunn Matthíasdóttir (2. febrúar 1976) og Gunnar Júl Matthíasson (7. desember 1977).

Rafn Þorvaldsson ólst upp á Akranesi, í Vík við Steingrímsfjörð og Hveravík. Miðbiki ævinnar varði hann á Vestfjörðum, aðallega á Þingeyri við Dýrafjörð. Hann varði árunum 1997 til andláts á höfuðborgarsvæðinu og einhverjum hluta erlendis á Gran Canaria.

Hugur Rafns beygðist snemma að sjómennsku sem varð hans ævistarf eða fram að árinu 2002.

Útför hans fer fram í Grafarvogskirkju 1. desember 2020 kl. 13 að viðstöddum nánustu aðstandendum og verður streymt á slóðinni www.promynd.is/rafn

Virkan hlekk á slóð má nálgast á:

httpsL//www.mbl.is/andlat

Elsku pabbi.

Hvar byrjar maður svona kveðju? Ég trúi því varla enn að þú sért farinn. Við áttum svo ótrúlega margt eftir! Ég ætla að byrja á segja þér að ég er þakklát. Já, ég ætla að byrja á að þakka þér. Ég er þakklát fyrir minningarnar sem við áttum og þessi djúpu tengsl. Við vorum ekki alltaf sammála en þó oftast nær. Því að svo mörgu leyti vorum við svo lík. Þú varst mjög sterkur og litríkur karakter. Og ef það er eitthvað sem ég mun sakna allra mest þá er það hláturinn þinn. Hann var svo hár og skemmtilegur, og oftar en ekki kom hann í kjölfarið á stríðni. Þú varst agalegur, svo stríðinn og hrekkjóttur. Það er eitthvað sem ég minnist mest úr minni æsku. En ótrúlegt en satt þá trúði ég alltaf ÖLLU sem þú sagðir, jafnvel þegar þú sagðist vera Íslandsmeistari í jójó og já, ég sagði öllum vinum mínum það. Og það var ekki bara af því að ég var svo auðtrúa, heldur varstu hetjan mín. Ég leit upp til þín og fannst þú kunna og geta allt! Svo ótrúlega klár og ótrúlega klár í höndunum.

Þú varst einnig sagnameistari og sennilegast er það það sem ég mun sakna næstmest. Þegar þú sagðir frá þá náðir þú að hrífa mann með. Allar sögur voru svo ljóslifandi að manni fannst næstum að þetta væru manns eigin minningar. Þær voru þó ævinlega vel skreyttar alls konar slaufum og dúlli. Og sjálfsagt bara helmingurinn sannur, en það er það sem gerir góða sögu. Þú sagðir ávallt þína meiningu og gafst ekkert eftir. Svo ótrúlega hvatvís að stundum gleymdirðu að maður segir bara ekki svona. Sumt af því alveg frekar vandræðalegt, en alltaf skemmtilegt eftir á. Og ég veit ekki hversu oft ég hef viljað hafa nákvæmlega þennan eiginleika, segja bara nákvæmlega það sem mér dettur í hug. Og mögulega hef ég hann án þess hreinlega að gera mér grein fyrir því.

Æskan mín; ferðalögin okkar, fiskiferðirnar niðrá bryggju, sjóferðirnar á Framnesi og tíminn niðri í bílskúr er eitthvað sem ég mun ávallt hugsa til með hlýju. Jafnvel þótt ein fiskiferðin hafi verið stytt eftir að Dagur bróðir náði að húkka þig í efri vörina. En það er efni í lengri ritgerð. Tónlistin, sem mér enn í dag er svo mikilvæg, þú kenndir mér að hlusta á og elska tónlist. Þú varst alltaf að færa mér alls konar tónlist á geisladiskum. Eitthvað sem þú vissir að við bæði myndum elska. Allir dagar hjá mér eru litaðir af tónlist og ég get ekki byrjað daginn öðruvísi. Mínar sterkustu minningar og tilfinningar tengi ég við tónlist og það tek ég frá þér. Það er þér að þakka að ég er alæta á tónlist, þótt þú hafir nú ekki alltaf verið sammála valinu. Þú gast með engu móti þolað hipphopp-tónlistina en varst þó sá sem gaf mér fyrstu hipphopp-plötuna mína. Svo varstu jú alveg ófeiminn við að segja mér hvaða tónlist þér fyndist alger tímasóun.

Tíminn okkar í Reykjavík, þegar ég bjó fyrst hjá þér en svo eyddum við öllum stundum saman í íbúðinni sem ég keypti, sem við gerðum svo upp í sameiningu. Þú kenndir mér allt sem ég kann á verkfæri og get ég þess vegna sagt stolt að ég kunni að leggja parket og flísar. Næturnar sem þú ókst til mín til að taka bryggjurúnta þegar ég var í ástarsorg og fannst ég ekki finna neina leið út á þessum sama tíma. Það þótti mér ótrúlega vænt um og alla bryggjurúntana okkar ef því er að skipta.

Tíminn okkar fyrir vestan, þegar ég keypti mitt fyrsta hús og þú komst að sjálfsögðu til að hjálpa mér að rifja upp smíðatæknina. Þú bjóst hjá okkur í þrjá mánuði og það gladdi okkur svo. Börnin okkar fengu að vera mikið með afa Rabba sem var bara fínasta barnapía líka. Það fennti svo mikið að við komumst ekki út úr húsi í nokkra daga. Og þar sem það var rafmagnslaust í meira en tvo sólarhringa, þá sátum við bara og spiluðum. Við áttum dásamleg jól saman, sem voru þau fyrstu í mörg ár. Bara fjölskyldan mín, ég og þú. Það er vert að taka það fram í þessu samhengi að þú gerðir jafnframt bestu jólasósu í heiminum. Reyndar var allur matur sem þú eldaðir eins og á fimm stjörnu veitingastöðum. Ekki var það heldur verra að það þótti engum nema þér skemmtilegt að vaska upp, svo maður losnaði við það. Þú varst svo mikill snyrtipinni, sem ég held að hafi nú doldið smitast yfir á mig, Jóni mínum til mikils ama.

Síðustu árin voru okkur erfið, en við náðum að leggja það að baki. Við náðum að taka utan um hvort annað og fyrirgefa hvort öðru. Mikið rosalega er ég enn og aftur þakklát fyrir það. Þakklát fyrir að það sé eitthvað sem við náðum að leggja að baki okkur. Og getum því sagt að á lokasprettinum var ekkert nema væntumþykja.

Ég get farið endalaust dýpra í þetta og sagt endalaust af sögum af þér. En akkúrat núna eru það sögurnar sem ég kann. Ég vona svo innilega að allt góða fólkið sem þú kynntist á þinni ævi noti frekar tækifærið núna til að segja mér sínar sögur. Þær sem ég ekki kann. Svo ég geti kynnst þér enn betur, þótt þú sért farinn.

Ég var búin að ákveða að ég myndi skrifa þessa kveðju áður en þú kveddir. Ég hafði vonast eftir því að geta lesið hana upp fyrir þig orð fyrir orð áður. Því mér fannst það svo miklu mikilvægara. Mér fannst mikilvægara að þú heyrðir þessi orð frá mér áður en þú færir en ekki eftir á.

En svo barst mér símtal þess eðlis að nú væri stutt eftir og að þú værir sofandi eða án meðvitundar og að líklegast myndir þú ekki vakna aftur. Það braut í mér hjartað í þúsund mola! Við vorum búin að vera dugleg að talast við í síma og eins og venjulega þegar við kveðjumst þá sögðum við hvort öðru hve vænt okkur þykir hvoru um annað, í hvert einasta skipti. Eitthvað sem við höfum alltaf gert og ég er svo óendanlega þakklát fyrir. Þannig varst þú, mikil tilfinningavera þótt þú værir alltaf þessi töffari. En ég vildi meira. Mig langaði til að geta tekið utan um þig, þéttingsfast svo að þú fyndir það. Svo þú fyndir hvað mér þykir virkilega vænt um þig. Ég var því ekki tilbúin að gefa þig upp á bátinn strax og náði að hringja í þig þetta sama kvöld og mér var sagt að þú vaknaðir sennilegast ekki meir. Ég náði í gegn og gegn öllum líkindum þá varstu vakandi, með opin augun og síminn var lagður að eyra þínu. Það helltist út úr mér eins og hellt væri úr fötu og ég náði að segja þér hversu óendanlega mikið mér þykir vænt um þig og þú reyndir af öllum kröftum að svara mér. Ég veit innst í hjarta mínu að það var til að segja mér slíkt hið sama. Þetta verð ég alltaf þakklát fyrir, við náðum að kveðjast þótt ég næði ekki að halda utan um þig.

Elsku pabbi, ég er þakklát. Þakklát fyrir líf okkar saman og þakklát fyrir að hafa elskað og verið elskuð. Við sjáumst á endanum og veit ég að þá getum við tekið utan um hvort annað, þéttingsfast, eins og við áttum að gera áður en þú fórst. En eitt máttu vita og það er það að ég mun hugsa til þín hvern einasta dag og tala við þig á hverju einasta kvöldi áður en ég leggst á koddann.

Ég elska þig.

Ég bið Guð að gæta mín,
góða anda að hugga mig.
Sama ósk er eins til þín:
Almættið það sjái um þig.



Hrafnhildur Ýr Rafnsdóttir

Elsku pabbi.

Þegar mér bárust fréttirnar af þér var ég mjög slegin. Mér fannst það erfitt af því að samskiptin okkar voru engin og mjög erfið. Eitthvað sem óþarfi er að rekja og kannski hefðum við getað farið öðruvísi að. Maður fer að hugsa aftur og kannski líka dálítið fram í tímann. Maður fer í gegnum bæði góðu og erfiðu málin í huganum. Og kannski ósjálfrátt byrjar að syrgja þau tímabil, jafnt sem þau tímabil sem maður fær ekki nokkurn tímann að upplifa. Mér þykir til að mynda nær óhugsandi að þú fáir ekki að taka þátt í mínum stóru áföngum. Hvort sem það verður þegar að ég skíri stúlkuna mína, þegar ég fermi drenginn minn eða þegar Matti loksins fer á hnén. Þetta eru allt tímabil sem ég veit að ég hefði viljað að þú værir partur af.

En hvað gerir maður þegar maður veit að manns nánustu eru í stöðu eins og þú, maður rís upp og yfir ágreininginn og er til staðar. Og ég vona svo innilega að þú hafir fundið það pabbi minn að ég væri þarna fyrir þig. Mér var brugðið þegar ég sá þig, þessi sterki klettur, svo veikburða og máttvana. Það var ekki leiðin sem ég hélt þú myndir fara. En ég er mjög þakklát fyrir að ég gerði það og ég verð ætíð þakklát fyrir að hafa drifið mig af stað og að við höfum náð sátt, og að þú hafir náð að sjá litlu stelpuna okkar. Að sjá hvernig þú tókst hana í fangið og hvernig þið brostuð hlýtt til hvort annars.

Þegar ég fékk fregnirnar af andláti þínu leið mér eins og tíminn stöðvaðist en á sama tíma hefur hjartað mitt aldrei bankað jafn fast. Því þótt ég hafi vitað að tíminn væri naumur, þá hélt ég alltaf að ég ætti meiri tíma og að við ættum meiri tíma.

Og þó að það hafi aldrei litið út fyrir að við fengjum fleiri göngutúra eða fleiri kaffibolla, þá hefði ég viljað eiga aðeins fleiri samtöl. Á sama tíma er mér ótrúlega létt þótt erfitt sé að sleppa, létt yfir því að vita að þú hafir ekki þurft að heyja baráttu lengi sem vitað var að yrði aldrei til sigurs.

Ef ég horfi til baka og rifja upp stundirnar okkar og stundirnar sem ég mun deila með börnunum mínum, þá hugsa ég um kaffibollann sem aldrei mátti þrífa. Vonandi gerir enginn þau mistök á þínum nýja stað. Og ég ætla einnig að vona að þau eigi bolla með eftirlætisknattspyrnuliðinu þínu, Hrafnhildur verður ekki þarna til að brjóta hann.

Manstu þegar Heiðrún gerði þau mistök að halda með Liverpool? Engar áhyggjur það verður alið upp í öllum hér eftir að halda með Manchester United.

Veiðiáhuginn þinn verður einnig í hávegum hafður og alltaf til stöng hér fyrir litlar hendur. Það var enginn sem sýndi því jafn mikinn áhuga og þú og þegar ég segi enginn þá meina ég enginn. Enda stóð maður yfirleitt til hliðar og reyndi að láta sem minnst fyrir sér fara, ótrúlegt hvað fiskarnir í Sandá heyra vel. Og ekki vildi maður nú vera fiskifæla.

Og ef ég einhvern tímann skil það, þá skil ég það núna hvers vegna hópi af börnum var dröslað í alla vegana tímafrekar göngur í sumarbústaðaferðum. Það hefur eflaust verið erfitt á stundum að ferðast með 6 krakka, og sennilegast alla með orku á við þig. Við skulum orða það þannig, að ég er mjög dugleg að ganga núna sjálf með mín.

Elsku pabbi, ég vil þakka þér fyrir lærdóminn, ég veit að þú lifðir hratt og af ákefð og rakst þig oft á. En það var þess vegna sem þú varst góður leiðbeinandi. Því þú varst búinn að upplifa margt og alls konar og gafst því góð ráð. Því alltaf varstu tilbúinn til að hlusta og varst góður í því. Þakka þér fyrir eiginileikana sem ég sé núna í sjálfri mér. Þakka þér fyrir að gefa mér staðfestu, gefa mér húmor, áhugann á að vera úti og fylla lungun, kennslu í fiskibollugerð.

Elsku pabbi, takk fyrir allt sem við áttum saman og fyrir að vísa manni leiðina í lífinu. Ég veit að göngutúrarnir okkar verða ekki fleiri og það hryggir mig.

En þú mátt trúa því pabbi, að ég mun halda áfram að ganga hringinn okkar og veit að þú gengur hann með mér.

Þín dóttir
Friðrikka Árný

Friðrikka Árný Rafnsdóttir