Guðlaug Jónasdóttir fæddist á Akureyri 1934. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 17. nóvember 2020. Móðir hennar var Unnur Konráðsdóttir og faðir Jónas Jónasson.
Maki Guðlaugar var Lúðvík Ágústsson, sjómaður og síðar skipstjóri og útgerðarmaður. Börn þeirra eru þrjú,
Ágúst, Jónas og Unnur Kristrún.
Útför Guðlaugar fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 3. desember 2020, klukkan 13.
Vegna fjöldatakmarkana munu einungis nánustu aðstandendur verða viðstaddir athöfnina. Athöfninni verður streymt á https://www.facebook.com/groups/gudlaugk
Virkan hlekk á streymi má nálgast á
https://www.mbl.is/andat
Laula í áhaldaleigunni er látin. Guðlaug Jónasdóttir, þekkt undir nafninu Laula, var kunningi óskapa fjölda fólks á Suðurnesjum vegna áhaldaleigu hennar og Lúðvíks eiginmanns hennar. Það sem einkenndi hana var að hún var alltaf í drífandi verki, hvort heldur við vinnu eða á síðari árum í fríi á Kanaríeyjum. Hún fæddist á Akureyri 1934 í kreppunni. Unnur Konráðsdóttir móðir Guðlaugar og Jónas Jónasson faðir hennar voru stutt í sambúð en Jónas lést 1938 svo Guðlaug kynntist aldrei föður sínum. Hún ólst upp hjá móður sinni og afa sínum, Konráð Sigurðssyni, útgerðar- og netagerðarmanni, og ömmu, Guðlaugu Ólafsdóttur, sem höfðu flust frá Fáskrúðsfirði til Akureyrar. Guðlaug Ólafsdóttir lést 1943 og Konráð lést 1956. Kristrún móðursystir Guðlaugar var á heimilinu og sá um það, en Unnur móðir hennar vann utan heimils og rak verslun. Guðlaug var mjög hænd að móðusystur sinni og gerði ekki upp á milli hennar og móður sinnar. Guðlaug gekk í skóla á Akureyri og að lokinni skólagöngu fór hún sem au pair til Washington hjá íslensku sendiherrahjónunum og var þar í fjögur ár. Hún sneri heim til Íslands til að hefja ljósmóðurnám í Reykjavík. Guðlaug var vinaföst og átti vinkonur, sem urðu lífstíðarvinkonur, með reglulegum samskiptum. Frændi Guðlaugar var Rafn Hjaltalín og hann var kvæntur Sigrúnu Ágústsdóttur frá Djúpavogi, en bróðir hennar var Lúðvík Ágústsson, en hjá þeim hjónum kynntist Guðlaug Lúðvík og þau felldu hugi saman og gengu í hjónaband. Lúðvík var sjómaður og síðar skipstjóri og útgerðarmaður. Börn þeirra eru þrjú, Ágúst, Jónas og Unnur Kristrún. Þau voru um tíma í Neskaupstað, þar sem Lúðvík var skipstjóri á Bjarti á síldarárunum. En þegar yngsta barnið fæddist fór Lúðvík í land. Gerði út með öðrum bátinn Kristján og fór að vinna vaktavinnu í Fríhöfninni. En Guðlaug vann ljósmóðurstörf, en sýslaði aðeins við verslun, seldi egg og hákarl svo nokkuð sé nefnt. Þau framleiddu útidyramottur úr bíldekkjum, sem víða urðu vinsælar, í bílskúrnum á Melteignum. Börnin tóku þátt í framleiðslunni og voru snemma vanin til verka. Guðlaug og Lúðvík hófu áhaldaleigu á Melteignum, sem stækkaði og yfirtók bílskúrinn. Alltaf var starfað, Lúðvík stundaði grásleppu við félaga sinn í Fríhöfninni af gagnstæðri vakt. En þegar Guðlaugu tæmdist arfur var byggt iðnaðarhús yfir áhaldaleiguna og starfsemin mjög aukin. En áhaldaleigan var annað og meira, því þar var alltaf til kaffi og menn í framkvæmdum hittust þar í nokkrar mínútur og fréttu af gangi mála hver hjá öðrum. Við það urðu þau hjón nokkur miðpunktur í atvinnulífinu á Suðurnesjum. Guðlaug hafði vanist verslun ung hjá móður sinni og hafði mikinn aga á og óskapa minni. Eftir að þau seldu áhaldaleiguna 2008 hélst kjarni eldra fólks sem heimsótti Guðlaugu og Lúðvík heima daglega. Guðlaugu þótti hvergi betra að vera en á Gran Canaria. Ef talið er saman hversu oft og lengi hún dvaldi þar þá er það nærri sex ár samtalið og var því þekkt meðal Íslendinga á Kanaríeyjum. Eftir að þau seldu áhaldaleiguna fóru þau meira til Kanaríeyja. Við sem komum reglulega í heimsókn fengum að heyra af barnabörnunum sem þá voru sjö, sem voru þeim báðum hjartfólgin og þau hafa misst mikið við fráfall afa síns og ömmu. En sjúkdómur Lúðvíks gerði hann veikari og veikari, fékk nýrnabilun og varð alveg blindur. Guðlaug hafði fullt starf að sinna honum, sprauta hann með insúlíni eftir að hann sá ekki til. Þrautseigja hennar að sinna manni sínum var sérstök. Eftir að Lúðvík dó var Guðlaug nokkra vetur á Kanaríeyjum, en seldi Melteiginn og keypti sér þjónustuíbúð. Guðlaug hafði lyfjameðferð um nokkurn tíma, en svo kenndi hún sér meins af þrútnum fótum síðsumars og hlaut meðhöndlun á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Eftir nokkra sjúkrahúsvist lést hún með dóttur sína sér við hlið þann 17. nóvember síðastliðinn. Við kona mín Kristín þökkum starfsfólki umönnun Guðlaugar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og þökkum fyrir að hafa átt samleið með þeim hjónum, Guðlaugu og Lúðvík. Þorsteinn Hákonarson
Þorsteinn Hákonarson