Leó fæddist á fæðingardeild Landspítalans í Reykjavík þann 12. mars 1981. Hann lést af slysförum, í Reykjavík, þann 17. nóvember 2020.

Foreldrar Leós eru Hrönn Jónsdóttir f. 1960 og Jóhann Heiðmundsson f. 1956, giftur Unni Ármannsdóttur

Systkini Leós eru, sammæðra,  Atli Guðjónsson, f. 1988, sambýliskona Íris Scheving Edwardsdóttir, þau eiga tvær dætur, Tjörvi Guðjónsson, f. 1990, sambýliskona Ingunn Grétarsdóttir, samfeðra, Kristján Geir Fenger f. 1981, giftur Eyleifi Þóru Heimisdóttur, þau eiga 2 syni, Kristján Geir á tvö börn úr fyrra sambandi, Hanna Carla, f. 1986, gift Ólafi Víði  Ólafssyni þau eiga 3 börn og Elvar f. 1990. Einnig átti Leó 3 stjúpbræður frá hjónabandi móður. Þeir eru Þórður Guðjónsson f. 1973, giftur Önnu Lilju Valsdóttur þau eiga 3 dætur, Bjarni Guðjónsson f. 1979, giftur Önnu Maríu Gísladóttur þau eiga 3 börn og Jóhannes Karl Guðjónsson f. 1980, giftur Jófríði Maríu Guðlaugsdóttur þau eiga 4 syni.

Leó á eina dóttur Ísey Hrönn f. 2014

Leó bjó hjá foreldrum sínum fyrstu tvö ár ævi sinnar í Vestmannaeyjum. Hann flutti þaðan með móður sinni til Akraness og bjó þar með hléum, til 19 ára aldurs. Hann bjó tímabundið með móður og fjölskyldu á Akureyri og í Reykjavík.  Leó flutti síðan alfarið til Reykjavíkur þegar hann var 19 ára. Leó bjó um tíma í Hafnarfirði með dóttur sinni og barnsmóður. Þaðan fluttu hann og dóttir hans til móður í Garðabæ. Síðustu ár ævi sinnar bjó Leó með hléum með móður sinni og dóttur í Garðabæ.

Leó var menntaður Vélvirki frá Iðnskólanum í Reykjavík og síðar sem atvinnu-kafari frá Noregi

Leó byrjaði ungur að vinna hjá Óla Gonna á Akranesi þar sem hann lærði til  vélvirkja, hann vann sem vélvirki bæði á Akranesi og í Reykjavík um árabil.  Hann vann einnig um tíma sem smiður í Danmörku, við námuvinnslu á Grænlandi og við ýmis verkefni neðansjávar í Noregi. Eftir að hann flutti heim frá Noregi vann hann sem neðansjávar vélvirki allt fram að þeim tíma að hann gat ekki unnið lengur vegna bakverkja og vanlíðanar.

Útför Leós fer fram frá Vídalínskirkju þann 3.12.2020. Henni verður streymt frá eftirfarandi streymislink  www.sonik.is/leo

Það er eitthvað svo undarlegt að skrifa texta sem felur í sér að kveðja þig Leó minn. Mér finnst ég fyrst hafa náð almennilega að tengjast þér þegar þú komst til okkar til Englands. Þá tókst þú fyrst eftir því að litli nördabróðir þinn var að þróast heldur mikið í nördaáttina. Þú fórst með mig rakleiðis á rúntinn þar sem þú skelltir White Stripes á fóninn. Ég man alltaf eftir því að hafa hugsað, vá, ég mun aldrei ná að vera svona nettur. Ég held að ég hafi beðið þig að spila Seven Nation Army svona 10 sinnum þennan fyrsta rúnt. Þér fannst það svolítið pirrandi en í raun meira fyndið. Litli bróðir var farinn að læra að hlusta á tónlist.


Þetta er nú ekki það eina sem þú kenndir mér í þeirri samleið sem við áttum. Þú kenndir mér hvað felist í því að vinna en ég var nú ekki sérlega góður verkamaður og kannski ekki með besta verkvitið. Þegar þú áttaðir þig á því reyndir þú að halda mér á floti ásamt Atla bróður. Þegar ég byrjaði kannski að dunda mér við eitthvað allt annað en að vinna mína vinnu. Þetta voru samt góðir tímar fyrir mig, þessar sumarvinnur sem ég átti með þér og Atla. Ýmist boraði ég í gegnum veggi sem ég átti alls ekki að bora gat í, setti vitlausar einingar upp á veggi sem þær áttu alls ekki heima á eða hreinlega sló hamri á putta þína fyrir mistök. Alltaf hugsaði ég, úff hvað ég er heppinn að vera ég en ekki Atli. Ég fékk svo væga meðferð frá þér. Það sást á þér að þú skildir að ég var bara ekki alveg að ná að gera þetta.

Ýmislegt hefur gengið á hjá mér og ýmislegt gekk á hjá þér. Ég hef oft og tíðum getað hulið mig og mínar tilfinningar nokkuð vel. En fyrir þig gekk það sjaldnast upp. Þú sást mig alltaf í því ástandi sem ég var. Hvort sem það var skólinn að angra mig, sjálfsmatið eða allt það sem gengið hefur á, þá birtist þú reglulega á þeim tíma upp úr þurru. Ég man að þú sagðir svo oft við mig, þú mátt alveg knúsa mig sko. Þú vildir manni bara það besta.

Margar minningar poppa upp í huga mér. Eitt sinn hafði ég ekki séð þig í um mánuð eða svo. Ég hafði á þeim árum mikinn áhuga á því að stunda lyftingar. Kannski um of. Ég fór svona aðeins öfgaleið að því og þú sást það strax, um leið og þú sóttir mig. Þú spurðir: Hver ert þú? Borðaðir þú litla bróður minn? Þú fórst beint með mig í að koma mér á rétt ról, en það sem þú tókst strax eftir og ræddir við mig var að þarna var ég einfaldlega litli bróðir þinn sem var eitthvað óöruggur að reyna að feta sig og finna. Þú sagðir mér að ég þyrfti ekkert að vera að brasa í einhverju svona, ég væri bara geggjaður eins og ég var. Þú hvattir mig og studdir.

Það var samt ýmislegt sem gekk á sem var bæði fyndið og ég gæti í raun ekki ímyndað mér að gæti gerst með neinum nema þér. Þegar þú t.d. bjóst niðri í bæ og áttir þinn forláta snák. Þú baðst mig að fara niður í kjallara og gefa honum að éta. Jú jú, ég skelli mér niður og ætla að gefa honum eitthvað í gogginn. Kalla svo á þig og spyr hvar hann sé eiginlega? Hann er bara þarna einhvers staðar, passaðu þig bara, hann er líklega svolítið svangur. Þér fannst þetta á þeirri stundu örlítið fyndnara en mér, en saga sem eldist vel í minni minningu. Þú stríddir manni helst eins oft og þú gast.

Ég vil líka nefna eina viku sem við eyddum saman á Öldugrandanum hér í den. Mér fannst það geggjuð vika. Hún var þér held ég erfiðari. Við horfðum á myndir, átum eðlu og doritos, fórum á rúntinn og kíktum í bíó. Þú áttir erfitt þá viku, ég sá það í raun ekki, en erfið var hún. Það kom síðar í ljós. Eftir þessa viku fórst sem sé þú með mér og Atla í hádegismat og sagðir að þú hefðir skráð þig í meðferð. Ég hef alltaf geymt með mér að þú spurðir okkur hvort við skömmuðumst okkar fyrir þig. Við auðvitað sögðum nei, þú ert stóri bróðir okkar. Slíkt kæmi ekki til greina. Ég vildi að ég gæti sagt þér í persónu hversu stoltur ég er af þér sem stóra bróður mínum.

Þessi stutti pistill segir bara brotabrot af því sem þú gerðir fyrir mig, margt sem ég veit eflaust ekki einu sinni af. En allt gerðir þú sem í valdi þínu stóð, oftar en ekki meira. Það er dýrmæt lexía sem ég mun alltaf geyma. Ég mun alltaf geyma minninguna um frábæran stóra bróður.

Ég læt ljóð fylgja Leó minn. Seinasta skipti sem við ræddum saman byrjaðir þú á því að segja: Elsku besti litli bróðir minn, eins og þú svo oft gerðir. Því finnst mér þetta ljóð eiga vel við:

Hjartans elsku besti bróðir,
brosandi með þelið hlýja,
oft þú fórst um fjallaslóðir,
finna vildir staði nýja.
Nú í skjólin flest er fokið,
flæða úr augum heitu tárin,
fyrst að þinni leið er lokið,
lengi brenna hjartasárin.


Ég kveð þig hér, elsku Leó stóri bróðir minn. Við Ingunn munum halda áfram að hjálpa mömmu að vernda flottu stelpuna þína hana Ísey Hrönn. Við verðum áfram alltaf til staðar fyrir hana.

Hvíl í friði.
Þinn litli bróðir,

Tjörvi.