Valur Pálsson fæddist á Siglufirði 2. september 1932, sonur hjónanna Páls Einarssonar (1901-1965) frá Geirakoti í Flóa og Hermínu Halldórsdóttur (1905-1984) frá Seyðisfirði. Valur ólst upp á Siglufirði í miðju síldarævintýrinu, en fluttist ungur til Reykjavíkur þar sem faðir hans opnaði rakarastofu og síðar raftækjaverslunina Luktina á horni Njálsgötu og Snorrabrautar. Árið 1953 að loknu námi í Verslunarskóla Íslands hélt Valur til framhaldsnáms í viðskiptafræðum við Columbia-háskólann í New York þar sem hann lauk námi 1957. Heim kominn rak hann Luktina í samstarfi við föður sinn, og sjálfur eftir hans dag. Síðan söðlaði hann um og vann um árabil fyrir Jóhann Ólafsson og co. Valur hóf svo störf hjá Hafskip 1982 og síðar Eimskip og vann þar fram á eftirlaunaaldur. Þá settist Valur aftur á skólabekk og lauk prófi frá Leiðsögumannaskólanum og starfaði svo við leiðsögn allt fram á allra síðustu ár, mest fyrir Guðmund Jónasson. Valur var virkur í ýmsum félagsmálum og var ma. formaður skíðadeildar ÍR í áratug, meðan uppbygging félagsins í Hamragili stóð sem hæst.
Valur kvæntist árið 1960 Ernu Maríusdóttur (f. 1941), dóttur Maríusar Helgasonar (1905-1985) og Sigríðar Carlsdóttur Berndsen (1910-1978), og eignuðust þau fjóra syni: 1) Páll (f. 1960), rithöfundur og útgáfustjóri, kvæntur Nönnu Hlíf Ingvadóttur (f. 1970). Dætur hans og Höllu Kjartansdóttur eru Álfrún (f.1983), gift Viktori Bjarka Arnarsyni og eiga þau 2 börn, Höllu Elísabetu og Arnar Pál; Védísi (f. 1990) í sambúð með Grími Stígssyni og eiga þau dótturina Áshildi; og Steinunn Vala (f. 1992) í sambúð með Jakobi van Oosterhout; 2) Karl Steinar (f. 1963), yfirlögregluþjónn, kvæntur Erlu Dögg Guðmundsdóttur (f. 1982). Dætur hans og Gyðu Olgeirsdóttur eru Sigríður Bára og Auður Edda. 3) Hermann Valsson (f. 1965), lýðheilsufræðingur, kvæntur Þóru Magneu Magnúsdóttur (f. 1966). Börn þeirra eru Erna Hrund Hermannsdóttir, í sambúð með Jóni Kristófer Sturlusyni, synir hennar og Aðalsteins Kjartanssonar eru Tinni og Tumi; og Magnús Valur Hermannsson, í sambúð með Rannveigu Hafsteinsdóttur. 4) Sigurður Valur Valsson (f. 1973).
Valur og Erna reistu sér hús að Álftamýri 29 og bjuggu þar frá 1966, allt fram til ársins 2006 er þau fluttu á Strandveg í Garðabæ. Síðan 2018 hafa þau búið í Mörkinni við Suðurlandsbraut. Valur Pálsson lést á Landspítalanum 23. nóvember síðastliðinn.
Útför Vals fer fram frá Grafarvogskirkju 9. desember kl. 13. Vegna sóttvarnarreglna er athöfnin einungis opin nánustu aðstandendum en streymt verður frá henni á slóðinni https://tinyurl.com/y6kcurur

Virkan hlekk á streymi má nálgast á https://www.mbl.is/andlat

Elsku pabbi, það er óraunverulegt og sárt að hugsa til þess að geta ekki lengur átt skemmtileg samtöl við þig um lífið og tilveruna. Þú varst svo skemmtilegur viðmælandi. Þú elskaðir að heyra hvað væri að gerast og kynnast nýjum hlutum, sérstaklega ef það tengdist ferðalögum og náttúru. Það er því ekki að undra að svo margar góðar minningar eru því tengdar. Minningar um fjölmargar ferðir okkar fjölskyldunnar um landið og síðar utanlands. Sammerkt þeim öllum hvað þær voru skemmtilegar, þú duglegur að fræða okkur um staðhætti, menningu og fróðlega hluti. Þið mamma svo samrýnd og elskuðuð hvort annað og nutuð þess að vera saman og í hópi góðra vina.
Það er líka svo margt sem þú kenndir mér. Þú hafðir unun af því að veiða og varst fyrirtaksveiðimaður, þolinmóðari en flestir og því fiskinn með afbrigðum. Kenndir okkur að lesa ána og skilja hvernig fiskurinn hegðar sér í straumvötnum og hvar hann gæti legið. Eða þegar við nenntum ekki að veiða og lögðumst í grasbala, tókum strá í munn, horfðum upp í himininn og töldum fugla. Í Stóra-Langadal, sem var auðvitað uppáhaldsstaðurinn okkar, urðu líka til margar góðar minningar. Þar lágum við líka oft og biðum eftir því að örninn myndi koma inn í sjónarsviðið en þá gátum við sagt frá því við heimkomu í skúrana, eins og við kölluðum alltaf bústaðina.
Skíðamennskan var fyrirferðarmikil hjá okkur og þú vannst af mikilli hugsjón við að byggja upp skemmtilegt svæði til að skíða á og njóta skemmtilegrar útiveru og smá keppni í bland. Minningin er sú að það boðaði gott skíðaár ef hægt væri að fara fyrir áramót í fjallið, helst fyrir jól. Lögleg afsökun frá jólaboðum og jólastússi var að fara á skíði í desember, afsökun frá öllum boðum nema annan í jólum því þá var gleði með Glaðheimum og það var aðalheimboð ársins, ekki spurning. Eftir áramót voru svo allar helgar nýttar í fjallinu, líka þegar nær glórulaust veður var úti því aldrei var útilokað að logn væri í Hamragili, að minnsta kosti væri þess virði að kanna það. Það var líka ökuferðin sjálf sem var gæðastund, yfirleitt öll fjölskyldan með nesti og samverunnar notið í botn. Bíllinn alltaf yfirfullur af skíðadóti og oftast einhverjum boðið með þó að hvert sæti í bifreiðinni væri þegar skipað, þröngt máttu sáttir sitja.
Það var mikil hvatning frá þér þegar ég fór fyrst til útlanda í nám, þú studdir mig með ráðum og dáð og talaðir skemmtilega um þinn námstíma í New York. Það hefur svo sannarlega verið ævintýri líkast og ég var svo heppinn að fá að ganga með þér um borgina 40 árum síðar, sem þá var í fyrsta skipti sem þú komst aftur þangað eftir útskrift. Það var hreint magnað hvað þú rataðir og mundir af sögum og lýsingum frá eftirminnilegum tíma í þínu lífi.
Í seinni tíð komu ógleymanlegar stundir þegar þið mamma og Siggi komuð í heimsókn til Hollands. Þið nutuð borgarinnar sem þið elskuðuð og við fórum í styttri ferðir um næsta nágrenni en alltaf varð að njóta góðra veitinga og smakka gott vín. Þú áttir þar uppáhaldsveitingastaði og þér þótti gaman að smakka mat frá ýmsum heimsálfum, alltaf opinn fyrir einhverju nýju og spennandi, lífið var að njóta og það var þín lífssýn.
Mér er ofarlega í huga gleðin og virðingin sem þú sýndir öllum og komst alltaf til dyra með bros á vör og tilbúinn að hjálpa ef þess væri nokkur kostur. Það var alveg dæmigert fyrir þig, þegar þú varst orðinn veikur, að þú svaraðir aðspurður hvernig þér liði: Jú, þetta er allt að koma, finnst ég betri í dag en í gær, alltaf jákvæður og trúðir á það góða.
Þú varst líka góður í að finna lausn á deilum eða vandamálum, lausnamiðaður mannasættir væri líklega góð lýsing. Þú kenndir mér nefnilega það mikilvægasta og það er að sýna ávallt virðingu fyrir mönnum og málefnum. Þú varst svo fordómalaus og svo langt á undan þinni samtíð.
Það er svo margt sem ég vil þakka þér fyrir að hafa sýnt mér og kennt.
Far í friði, elsku pabbi. Þinn sonur,

Karl Steinar.