Salman Tamimi fæddist 1. mars 1955 í Jerúsalem, Palestínu. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á heimili sínu, Dalseli 34, 3. desember síðastliðinn.
Foreldrar hans voru Salim Abu Khaled Al-Tamimi, f. 1900, d. 1967, og Nazima Tamimi, f. 1930, d. 1982. Salman var næstyngstur systkina sinna en hin eru Younes Tamimi, f. 1947, Rawda Odeh, f. 1948, Safieh Agha, f. 1949, Amneh Agha, f. 1950, og Amal Tamimi, f. 1960.
Salman kvæntist fyrrverandi eiginkonu sinni, Þórstínu Björgu Þorsteinsdóttur, 7. ágúst 1976. Börn þeirra eru: 1) María Björg, f. 1974, maki Hallur Ingólfsson, börn þeirra eru Hera, Gabríel Máni og Mikael Dagur. 2) Nadia, f. 1979, maki Jón Baldur Valdimarsson, börn þeirra eru Safír Freyr og Jasmín Erla, fyrir átti Nadia soninn Cesar Ali Júlíusson.
Salman kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Ingibjörgu Tamimi Sigurjónsdóttur, 11. júní 1994. Börn þeirra eru: 1) Yousef Ingi, f. 1988, maki Linda Ósk Árnadóttir, börn þeirra eru Samir Örn og Salman Snær. 2) Nazima Kristín, f. 1995, maki Bjarki Ernis Óðinsson. Ingibjörg átti fyrir: 1) Rakel Dögg, f. 1976, stjúpdóttur Salmans, maki Daníel Örn Wirkner. Rakel átti fyrir börnin Söru Ósk Vífilsdóttur, Tristan Ismael Vífilsson og Ísak Diljan Vífilsson. 2) Guðbjart Þorvarðarson, f. 1979. 3) Inga Magnús Gíslason, f. 1983.
Salman kom til Íslands árið 1971 eftir að hafa lokið menntaskóla í Palestínu. Hann stundaði sjómennsku og vann í byggingarvinnu í fyrstu en starfaði svo sem kennari við Iðnskólann í Reykjavík í nokkur ár. Salman var einnig virkur í fyrirtækjarekstri en hann og Ingibjörg kona hans ráku saman barnafataverslunina Tinnu og seinna meir stofnuðu þau verslunina Kizz í Kringlunni og veitingastaðinn Garðabæjarpizzu. Salman menntaði sig síðar sem tölvunarfræðingur við Háskóla Íslands og vann lengst af hjá Borgarspítalanum, síðar Landspítalanum.
Hann stofnaði, ásamt fleirum, Félag múslima á Íslandi árið 1997 og var hann lengst af og til dauðadags formaður þess. Hann var ötull talsmaður réttinda Palestínumanna alla tíð og stofnfélagi í Félaginu Ísland-Palestína sem var stofnað 29. nóvember 1987. Mannréttindi voru Salman mjög hugleikin og barðist hann alla ævi fyrir réttindum manna og gegn fordómum. Hann var í framvarðarsveit mannréttindamála á Íslandi og lét sitt ekki eftir liggja í baráttunni fyrir betri heimi. Salmans verður ávallt minnst með hlýjum hug af fjölskyldu og vinum.
Ég trúi ekki enn þá að þú sért farinn frá okkur, það er svo tómlegt án þín. Það styttist í jólin of hratt og það er óbærilegt að hugsa til þess að þú verðir ekki hjá okkur um jólin með öll þín skemmtiatriði, jólasöngva (þína útgáfu af þeim) og gítarglamur sem er toppurinn á jólunum okkar og besta skemmtiatriði barnanna og okkar allra. Tókum við öll undir, sungum og dönsuðum fram að mat ásamt því að vera að elda jólamatinn.
En eitt er víst að þú skilur eftir stórt tómarúm í hjarta okkar.
Það verður erfitt að halda lífinu áfram án þín en við höfum hvert annað og erum við svo heppin að vera mjög samheldin fjölskylda og styðjum hvert annað á þessum erfiðu tímum.
Ég er svo heppin að hafa átt þig að sem pabba og ég gæti ekki verið stoltari. Þú varst svo mikill gleðigjafi, hrókur alls fagnaðar, hjartahlýr, umhyggjusamur, barngóður og umburðarlyndur, máttir ekkert aumt sjá, allir áttu rétt á öðru tækifæri, stoð mín og stytta og enginn var sekur fyrr en sekt var sönnuð. Það verður erfitt að venjast því að heyra ekki hlátur þinn, grínið þitt og fíflaskapinn og þau frábæru lög sem þú breyttir og gerðir að þínum með kjánalegum textum og danstaktarnir þínir sem við hlógum okkur máttlaus að. Og þegar þú hringdir í mig kl. 8 á laugardagsmorgni til þess eins að kvarta við mig yfir að mamma nennti ekki að laga fyrir þig kaffi og ég bara yrði að koma yfir í kaffi og redda málunum.
Þegar ég hugsa til baka í barnæskuna kemur fyrst upp þegar þú varst að vekja okkur stelpurnar með Pavarotti í botni á laugardagsmorgni eða sunnudagsmorgni og sagðir hopp hopp hopp því það var tími til þess að vakna og hjálpa til við vikulegu heimilisþrifin. Þannig var það, allir að hjálpa til á heimilinu, ekki bara mamma.
Þú hvattir okkur börnin áfram alla tíð og sagðir að við gætum allt sem við vildum og síðar meir það sama með barnabörnin þín. Þegar ég kom heim eftir hvert skólaár með einkunnirnar mínar til þess að sýna þér þá var mikill spenningur, því hrósið sem ég fékk var allt sem þurfti og sjálfsálitið rauk upp um 100%.
Það er enginn eins og þú, pabbi minn, enginn. Þú kenndir okkur að vera alltaf góð við alla og vera besta útgáfa af okkur sjálfum sama hvað, og alls ekki tala ílla um nágrannann eða þann sem reitti okkur til reiði, því kannski leið þeirri manneskju bara ekki vel þann daginn. Svo var verslunin Kiss stofnuð í Kringlunni sem var æðislegur tími og unnum við systur þar með ykkur oft eftir skóla og um helgar og gerðum við alls konar sem þú og mamma voruð nú ekki alveg hrifin af, t.d. að gefa dót úr búðinni ef krakkarnir áttu ekki pening fyrir því eða bara gáfum 50-90% afslátt og gáfum vinum okkar alls konar dót úr búðinni. Það var nú lagað fljótlega af ykkur. Svo árið 1988 kom lítill bróðir í heiminn og við systkinin orðin fjögur.
Svo fluttum við til Palestínu árið 1990. Þetta var æðislegur tími sem við áttum þar. Og að fá að skoða þínar heimaslóðir, húsið sem þú ólst upp í sem systir þín býr í enn þann daginn í dag var dásamlegt. Að fá að skoða þessa merkilegu borg sem maður hafði bara lesið um í kristinfræði og sögurnar frá þér var einstök upplifun á hverjum stað fyrir sig og mun aldrei gleymast.
Og þegar við ákváðum að labba til Jerúsalem frá Ramalla því það var búið að vera útgöngubann þar í marga daga og allur matur uppurinn á heimili okkar. Þá vorum við stoppuð af Ísraelshermönnum og okkur skipað að fara heim og einn þeirra miðaði riffilhlaupi að brjósti mér og þú gekkst í veg fyrir mig, komst mér fyrir aftan þig og varðst brjálaður og tilbúinn að verja mig og okkur með lífi þínu, ég mun aldrei gleyma þessu, svo mikið elskaðir þú mig, systur mínar, bróður og mömmu. Svona varst þú pabbi minn alla tíð, þú passaðir okkur alltaf með lífi þínu.
Þú varst svo góður við vini okkar, alltaf tilbúinn að spjalla og fíflast í þeim og sennilegast muna þau öll eftir setningunni Ertu búin að gifta þig?
Seinna kom svo litla systir 1995 og við systkinin orðin fimm. Hún var skemmtileg viðbót við fjölskylduna okkar og litla fjölskyldan okkar varð fullkomnari.
Við fórum í ótalmargar tjaldútilegur á sumrin út um allt land að ógleymdum sumarbústaðarferðum okkar, sem eru ógleymanlegar fyrir okkur og barnabörnin.
Svo þegar það átti að að vera kósý ferð upp í bústað fyrir þig og mömmu þá varstu búinn að bjóða okkur börnunum með og við með okkar barnaskara á eftir okkur og tróðum við okkur öll saman í lítinn bústað og það var sko fjör, þannig vildir þú hafa þetta, hafa okkur öll hjá þér.
Þú varst barnabörnunum þínum svo góður, alltaf að hvetja þau áfram. Og þau tóku við af okkur krökkunum að fá verðlaun fyrir góðar einkunnir og var mikill spenningur að fara til afa og sýna einkunnirnar í lok hvers skólaárs. Það verður erfitt að fá ekki símtal á afmælinu mínu og fá þennan yndislega og kjánalega afmælissöng þinn sem þú söngst fyrir okkur öll, þótt við börnin þín fimm værum orðin fullorðin og löngu flutt að heiman.
Pabbi minn, ég trúi því að þú sért kominn til Paradísar og sért að fíflast þar með fjölskyldu og vinum eins og þér er einum lagið. Við stöndum við loforð okkar um að passa mömmu og hvert annað alla tíð þangað til við hittumst á ný.
Elsku pabbi minn, nú kveð ég þig í hinsta sinn með trega og sorg í hjarta.
Ég elska þig pabbi,
þín dóttir
Rakel.