Ásta Marta Róbertsdóttir fæddist í Reykjavík 26. september 1973. Foreldrar hennar eru Kristjana Guðjónsdóttir, f. 1955, og Róbert Scobie, f. 1954. Fósturfaðir hennar frá 5 ára aldri er Guðlaugur Stefánsson, f. 1952. Eiginkona Róberts er Helena Óskarsdóttir.
Systkin Ástu sammæðra eru Eva Hrund Guðlaugsdóttir, f. 1982 og Guðjón Ingi Guðlaugsson, f. 1987.
Systkin Ástu samfeðra eru Lydia Grace Scobie, f. 1993, og Christopher Steven Scobie, f. 1995.
Börn Ástu eru: 1) Guðlaugur Victor Pálsson, f. 30.4.1991. Sonur hans er Axel Aron Victorsson, f. 7.6.2017. 2) Kristjana Marta Marteinsdóttir, f. 13.5.2001.
Eftir grunnskólanám lauk Ásta námi í margmiðlunarhönnun frá Borgarholtsskóla og námi í ferðamálafræði frá sérhæfðum skóla í Brussel. Þá stundaði Ásta auk þess nám í tölvu- og markaðsfræðum við háskóla í Árósum í Danmörku og Liverpool í Englandi.
Ásta sinnti ýmsum störfum m.a. tengdum ferðaþjónustu og vann til dæmis við markaðsstörf hjá Flugfélagi Íslands og Íshestum.
Útför hennar verður gerð frá Grafarvogskirkju
15. desember klukkan 13 að viðstöddum nánum ættingjum og vinum. Streymt verður frá athöfninni á youtube-síðu kirkjunnar. Stytt slóð á streymið er: https://tinyurl.com/y6ep8w9q/. Virkan hlekk á streymið má einnig nálgast á: https://www.mbl.is/andlat/.
Ég var 25 ára gamall, nýkominn úr háskólanámi í London, og þóttist
aldeilis kunna á heiminn. Ég fór á ball og hitti þar sæta stelpu sem ég
varð skotinn í. Eitthvað sá hún líka við mig. Það varð ekki aftur snúið.
Við urðum kærustupar, giftum okkur, eignuðumst tvö yndisleg börn og höfum
búið saman síðan í yfir 40 ár.
En kærastan átti fimm ára dóttur. Ég hafði engan þroska til að takast á við
slíkt; háskólanámið var vita gagnslaust. Stúlkan litla var eitthvert
fallegasta barn sem ég hef augum litið. Þannig er hún og verður ávallt í
minningunni, fósturdóttir mín, Ásta Marta; falleg utan sem innan.
Það var örugglega ekki auðvelt fyrir litlu stúlkuna að fá inn í líf sitt
einhvern kall sem sem var skotinn í mömmu hennar. Ég fann þó aldrei fyrir
því. Við urðum fljótt góðir vinir. Hún átti sinn pabba sem hún leitaði
eftir og þótti vænt um. Aldrei datt mér í hug að taka það frá henni. Ég var
bara Gulli pabbi og nægði mér vel. Hún bar ávallt virðingu fyrir mér sem
pabba og sýndi mér mikla hlýju.
Það væri þó ekki sannleikanum samkvæmt að segja að Ásta hafi ávallt verið
auðvelt barn, sérstaklega ekki þegar kom fram á unglingsárin. Hún var opin
og þurfti oft mikla athygli, gat verið fyrirferðarmikil en í senn
tilfinningarík. En skemmtileg var hún, hláturmild og oft hin mesti
prakkari. Hún var félagslynd, vinmörg og hæfileikarík. Hún lagði m.a. stund
á og sýndi dans að hætti tónlistar níunda áratugarins.
Ásta var sannkallað jólabarn. Þegar þau nálguðust vildi hún helst taka
fulla stjórn á heimilinu. Það átti að skreyta mikið, við þurftum fleiri og
stærri jólapakka, ekki aðeins fyrir hana, heldur líka aðra.
Ásta var stolt stóra systir yngri barna okkar, Evu Hrundar og Guðjóns Inga,
passaði þau og verndaði. Litu þau að sjálfsögðu upp til hennar. Þegar þau
stofnuðu heimili og eignuðust börn náði Ásta frænka og barnagæla sterku og
hlýju sambandi við þau öll og vildi hún t.d. ávallt vera þátttakandi í
afmælum þeirra.
Áður en lengra er haldið kýs ég að fara fáeinum orðum um sjúkdóminn
alkóhólisma sem stráfellir fólk í blóma lífsins í tugatali á ári hverju. Ég
vona að þeir sem þessar línur lesa geri sér grein fyrir alvarleika þess
sjúkdóms, en hann sótti á Ástu mína allt frá unglingsaldri. En alkóhólismi
er líka fjölskyldusjúkdómur. Hjálparsveit hennar getur engu bjargað.
Sjúkdómurinn rýfur heilbrigð samskipti og grefur sár í fjölskyldur. Verstir
eru feluleikurinn og fordómarnir. Þeir tryggja að enginn geti fengið bót
meina sinna. Fordómarnir ná hæstu hæðum í samfélaginu; það svo að þessi
heilasjúkdómur er í raun ekki viðurkenndur í hinu opinbera
heilbrigðiskerfi. Nýlegur söfnunarþáttur fyrir SÁÁ á RÚV, Fyrir
fjölskylduna, kom að kjarna málsins.
Ásta háði langa og stranga baráttu við sjúkdóminn, fór í ótal meðferðir og
náði inn á milli góðum árangri. Hún var greind og skynsöm, vissi allt um
sjúkdóminn og allt það mikla sem hún hafði að lifa fyrir. Hún vildi lifa og
ætlaði aldrei að gefast upp, hafði þá von að þegar hún hefði náð tökum á
þessum fjanda ætlaði hún að gerast ráðgjafi og reyna að hjálpa öðrum. Við
foreldrarnir, börn hennar og systkin höfðum líka alltaf von; hún gaf okkur
hana. Það sárasta er að nú er vonin slokknuð.
Sný ég mér þá á ný að fáeinum minningabrotum um Ástu, eins og hún var í
raun án fíknifjandans. Fyrir mér er Ásta, einnig eftir að fullorðinsárum
var náð, litla stúlkan með stóra hjartað. Eflaust hefur hún erft frá mörgum
gjafmildina og hjartahlýjuna. Fyrst kemur mér í hug móðuramman, Ingibjörg
Sigurðardóttir. Rétt eins og amman mátti Ásta ekkert aumt sjá og vildi
ávallt hjálpa, en sem barn var Ásta augasteinn Ingu ömmu og Guðjóns afa.
Eftirminnilegt atvik er úr bernsku þegar hún sex ára var í sveit hjá
Fanneyju frænku á Ísafirði. Sótti Ásta það fast að fá að taka þátt í
góðgerðarstarfsemi sem hvítasunnumenn ráku í bænum. Þar fann hún sig. Og
talandi um Fanneyju frænku; hún átti eftir að reynast Ástu ómetanlega allt
til hins síðasta þegar sjúkdómurinn hafði því miður rænt hana flestum
vinum. Guð blessi þig fyrir það, Fanney mín.
Ásta skilur eftir sig svo margt fallegt. Fyrst skulu nefnd yndislegu börnin
hennar, Guðlaugur Victor og Kristjana Marta. Hún gaf þeim lífið, fegurðina,
hjartalagið og allt það dásamlega í fari þeirra. Það er ein stærsta stund
lífs míns að vera viðstaddur fæðingu Guðlaugs Victors og síðan að halda
honum undir skírn. Ásta var mamman sem átti þessi dásamlegu börn,
afreksfólk í íþróttum, sem hún var svo stolt af, vildi og reyndi að gera
allt fyrir eftir fremsta megni, en var vanmáttug sökum þess sjúkdóms sem
hún bar.
Ég minnist ótal ánægjustunda með þeim. Það var t.d. ekki lítil gleðistund
sl. vor þegar Ásta ásamt okkur móðurfjölskyldu sinni hélt upp á
stúdentspróf Kristjönu Mörtu frá Kvennaskólanum. Ég óska þess bara að
duglega stúlkan hætti aldrei að droppa inn og chilla með ömmu og afa
eða sjoppa með ömmu.
Gullmolinn hans Guðlaugs Victors, Axel Aron, þriggja ára; fagur sem
foreldrarnir og amman, fjörugur en prúður, hefur yljað langömmu og langafa
á erfiðum tíma.
Ásta bjó börnum sínum fallegt heimili bæði í Reykjavík, tvívegis í Danmörku
og í Englandi. Þar ríkti gestrisni, hlýja og smekkvísi. Ég minnist margra
heimsókna okkar til þeirra þegar þau bjuggu í Árósum í Danmörku þar sem
Guðlaugur Victor var að stíga sín fyrstu skref í atvinnumennsku í
knattspyrnu, til dæmis hve hlýlega hún og börnin hennar tóku á móti
stórfjölskyldu minni þar þegar við héldum upp á áttræðisafmæli móður
minnar, Dísu ömmu hennar, en mikill kærleikur ríkti á milli þeirra.
Ásta mín var falleg utan sem innan. Hún færði mér kærleika. Líf hennar var
erfitt og átti hún skilið allt annað og betra. Sárt er að vonin er
slokknuð. Við hlýjum okkur við ótal góðar minningar og treystum því að hún
sé ekki lengur í kvölinni.
Gulli pabbi.
Guðlaugur.