Rut Petersen Sigurhannesdóttir fæddist á Vesturgötu í Reykjavík 11. ágúst 1927. Hún lést á heimili sínu í Kópavogi 2. desember 2020. Foreldrar hennar voru Sigurhannes Petersen Ólafsson, f. 26.3. 1905, d. 21.8. 1936, sjómaður í Reykjavík, ættaður af Álftanesi, og k.h., Ingibjörg Guðmundsdóttir, f. 3.6. 1904, d. 16.6. 1971, húsmóðir og verkakona, frá Ámundakoti í Fljótshlíð.
Alsystur Rutar voru Þórunn f. 1928, d. 2010, húsfreyja í Bandaríkjunum; Sigurbjörg, f. 1931, d. 2001, húsfreyja í Reykjavík; og Eiríka, f. 1946, d. 1988, iðjuþjálfi í Reykjavík. Hálfsystir Rutar, sammæðra, er Sigrún Eliseusdóttir, f. 1943, fyrrverandi heilbrigðisritari, búsett í Kópavogi.
Rut giftist 1946 Jóni Guðmundssyni, f. 1925, d. 2013, rafvirkjameistara og flugmanni. Þau skildu. Dóttir Rutar og Jóns er Sigríður Nanna, f. 13.6. 1947, býr í Reykjavík og stundaði lengi viðskipti í Flórída, maður hennar er William K. Wright og eru börn hennar Wendy, f. 1967, Jón, f. 1970, maður hans er Ágúst Stefánsson, og Patricia, f. 1978, en maður hennar er Svavar Þórisson. Börn Wendyar eru Erik, Nanna Rakel og Viktor, sonur Nönnu Rakelar er Kaynalu Thor. Börn Patriciu eru Ava Jennifer og Jax David.
Rut var trúlofuð Steinþóri Sigurðssyni myndlistarmanni og eignuðust þau dóttur, Sigrúnu Eddu, f. 30.7. 1953, d. 1983, flugfreyju. Rut og Steinþór slitu samvistum.
Rut giftist 19.1. 1957 Sigurði Stefáni Bjarnasyni, f. 11.1. 1932, d. 1983, pípulagningameistara. Þau bjuggu lengst af í Kópavogi. Börn Rutar og Sigurðar eru: 1) Birna Björk, f. 25.3. 1957, starfar í hugbúnaðarfyrirtæki í Danmörku, en maður hennar er Guðmundur Rúnar Heiðarsson. 2) Bjarni Þór, f. 4.9. 1958, markaðsstjóri í Reykjavík, en kona hans er Kristjana Arnarsdóttir. 3) Ingibjörg, f. 8.10. 1963, ferðafræðingur í Reykjavík en maður hennar er Victor Pétur Kiernan. 4) Ásdís Guðrún, f. 20.12. 1965, sálfræðimennuð, ráðgjafi hjá Reykjavíkurborg en maður hennar er Björn Már Bollason.
Börn Birnu og Guðmundar eru Ragnar, f. 1983, dóttir hans er Sarah Isabellé, Ragnar er trúlofaður Emmu Seiding, hún á einn son; Stefanía Katrín, f. 1989, maður hennar er Sharooz Hooshyar og eru synir þeirra Benjamin Rúnar og Lucas Valur.
Börn Bjarna Þórs eru Melkorka Rut, f. 1989, en maður hennar er Hafþór Gunnlaugsson og dóttir þeirra Arney María; Baldur Þór, f. 1992, en kona hans er Berglind Hönnudóttir og eru börn þeirra Cýrus Elí og Eldey Katrín. Börn Kristjönu eru Lovísa María Emilsdóttir, f. 1980, börn hennar eru Ívar Uggi og Sunna María, og Ívar Emilsson, f. 1984. Sonur Bjarna og Kristjönu er Sigurður Stefán, f. 1995.
Börn Ingibjargar og Victors eru Sunneva Mist, f. 1987, maður hennar er Kristján Óli Emilsson og sonur þeirra Óliver Stormur, og Sigurður Victor, f. 1991.
Börn Ásdísar eru Íris Tanja f. 1989 og eiga Íris og Valur Hrafn Einarsson börnin Aron Þór og Kolbrá Sögu; Þór Örn, f. 1992, og Sigurður Stefán f. 1994, sambýliskona hans er Sofie Wengander.
Rut ólst upp í vesturbæ og Þingholtunum í Reykjavík. Hún var í Miðbæjar-, Austurbæjar-, og Laugarnesskóla.
Rut sinnti afgreiðslustörfum við bókabúð Stellu í Bankastræti á unglingsárunum og vann síðan á saumastofu Belgjagerðarinnar, hún var annáluð saumakona. Hún var síðan heimavinnandi á meðan börnin uxu úr grasi, starfaði síðan við barnafataverlunina Bangsa og við leikskólann Sólbakka.
Rut var einn af stofnendum Klúbbs 44 sem var skemmti- og góðgerðarfélag eiginkvenna pípulagningameistara, og tók virkan þátt í starfi þess um árabil. Hún tók þátt í starfi Leikfélags Kópavogs og saumaði leikbúninga fyrir félagið. Þá lék hún golf um árabil.
Útförin fer fram frá Dómkirkjunni í dag klukkan 15.
Stytt slóð á streymi: https://tinyurl.com/yxcmjzzv
Virkan hlekk á streymi má nálgast á https://www.mbl.is/andlat
Við vorum svo lánsamar að alast upp á þeim tíma þar sem við gátum verið með mömmu sem var heimavinnandi og sinnti heimilinu af alúð. Barnahópurinn var stór, allt frá unglingum niður í smábörn, og hún var dugleg að láta hlutina ganga vel fyrir sig. Alltaf hafði hún heimilið hreint og snyrtilegt, hún fór vel með hlutina sína og átti þá lengi. Mamma var góð saumakona og saumaði falleg föt á okkur systkinin. Jólafötin saumaði hún á okkur á milli þess sem hún bakaði jólasmákökurnar, hélt heimilinu hreinu og fínu og undirbjó barnaafmæli, þar sem ég, Ásdís, á afmæli fjórum dögum fyrir jól. Hún hélt alltaf fallega upp á afmælið mitt með veislu þótt mikið væri að gera á stóru heimili svona rétt fyrir jólin, eins og hún hélt upp á afmæli okkar allra barnanna.
Mamma var mikill vinur okkar systkinanna og einnig vinur vina okkar. Hún fylgdist með og tók þátt í því sem við vorum að gera á hvaða aldursskeiði sem við vorum á, hvort heldur sem við vorum litlar stelpur í dúkkuleik eða því sem við vorum að fást við á unglingsárunum.
Það voru mikil forréttindi að alast upp í Kópavoginum með mömmu og pabba og stórum systkinahópi á þeim tíma þegar bærinn var enn svolítil sveit. Þá var alltaf gott að vera úti að leika frjáls í náttúrunni og hafa alltaf tilfinningu um öryggi að vita af mömmu innan seilingar.
Þó að hún hafi verið frjálslynd og opin fyrir nýjungum var hún samt fyrir hefðir á ákveðnum sviðum, hún vildi til dæmis alltaf gefa ástvinum sínum afmæliskort. Hún lagði mikið upp úr því að myndirnar á afmæliskortunum sem hún valdi pössuðu vel við afmælisbarnið. Hún var enn að senda jólakort. Hún vildi gleðja fólkið sitt og þá sem voru í kringum hana og þar voru kisurnar okkar systra ekki undantekning, því þær fengu einnig jólapakka. Mamma okkar hafði mjög gaman af að hitta fólk og fylgdist vel með mannlífi líðandi stundar.
Alltaf var hún glæsileg og vel tilhöfð. Ungleg, ekki bara í útliti heldur einnig í anda. Hún fylgdist með því sem var að gerast hverju sinni og þekkti deili á ungu tónlistarfólki í sviðsljósi líðandi stundar, en þó var Haukur Morthens alltaf í uppáhaldi hjá henni.
Hún hafði óskaplega gaman af að dansa og þegar hún hlustaði á lög í útvarpinu sem henni fannst skemmtileg dansaði hún og söng með hátt og af innlifun. Hún dansaði meira að segja stundum eftir að fæturnir voru farnir að gefa sig og hún studdist við hækju. Í seinni tíð dillaði hún sér og ljómaði þegar hún heyrði lög sem hún þekkti og þótti falleg. Það var stutt í hláturinn og það var gaman að hlæja og grínast með henni.
Hún var til staðar fyrir okkur í erfiðleikum og fagnaði með okkur þegar vel gekk.
Ótrúlega dugleg kona hún mamma okkar og gafst aldrei upp þótt á móti blési. Hún hafði mikla seiglu og hún var þrautseigasta kona sem við vitum um og var góð fyrirmynd. Eftir að hafa gengið í gegnum margt á lífsleiðinni stóð hún alltaf upprétt og var sjálfstæð eins og hún vildi vera. Mamma vissi hvað hún vildi og hvað hún vildi ekki.
Mamma passaði vel upp á okkur og signdi okkur alltaf eftir bað áður en farið var í fötin.
Pönnukökurnar hennar voru frægar í stórfjölskyldunni og hún var stolt af þeim. Hún talaði oft um þegar pabbi kom til hennar í kaffi í fyrsta sinn, þá bakaði hún pönnukökur sem honum fannst þær bestu sem hann hafði smakkað. Lengi vel bakaði hún alltaf pönnukökur fyrir þá sem áttu afmæli í fjölskyldunni og keyrði með þær til þeirra á afmælisdaginn. Hún var lífsglöð og kraftmikil sem sést til dæmis á því að á hverju sumri bjó hún til rabarbarasultu og gaf okkur börnunum sínum og nú síðast síðastliðið haust á nítugasta og fjórða aldursári. Hún eldaði fyrir sig sjálf og keyrði bílinn sinn til síðasta dags.
Hún var mikið fyrir veislur og mannfögnuði og bjó oft til veislur þar sem börnin hennar og barnabörnin komu til hennar. Barnabörnin eiga sérstaklega góðar minningar um það, því hún fann upp á ýmsum leikjum fyrir þau og þeim fannst hún mjög skemmtileg amma.
Athyglin beindist oft að henni þar sem fólk kom saman því hún var uppátækjasöm og hristi oft upp í stemningunni því hún hafði ekki mikla þolinmæði fyrir leiðindum.
Mamma var óhrædd við að standa með börnum og minnimáttar þegar þeim var sýnt óréttlæti, þá var hún fljót að láta í sér heyra og koma þeim til hjálpar. Hún var þekkt fyrir það af krökkunum í hverfinu og núna síðustu daga höfum við systurnar heyrt frá æskuvinum okkar að þeim fannst hún mikill karakter og báru mikla virðingu fyrir henni.
Söknuðurinn er mikill en minningarnar um elsku mömmu eru gimsteinar sem við munum alltaf geyma í hjörtum okkar. Heimilið var höllin hennar og hún var drottningin.
Elsku fallega, góða mamma okkar, takk fyrir allt.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum)
Ingibjörg og Ásdís.
Maður er aldrei undirbúinn þegar dauðann ber að garði og tekur frá manni
þá sem við elskum og eru okkur kærastir. Það er sárt að missa ástvin og
söknuðurinn er mikill. Eina stundina hvarflar hugurinn að góðum og hlýjum
minningum æskunnar, sem ylja og hjálpa til við að takast á við sorgina og
söknuðinn. Hina stundina hellist yfir sorg og eftirsjá. Í hugann koma upp
spurningar; hefði ég átt að taka betur eftir þegar hún sagði mér sögur frá
sínu eigin lífi og lífshlaupi, sagði mér frá samferðafólki sem mótaði og
hafði oft á tíðum mikil áhrif á það hvernig manneskja hún var og hvernig
hún lifði?
Sorgin kvaddi snemma dyra hjá mömmu en pabbi hennar lést þegar hún var
aðeins níu ára gömul. Ingibjörg amma varð þar með ekkja með fjórar stelpur,
móðir mín elst, Eiríka aðeins tveggja mánaða og Tóta og Lilla þar á milli.
Öryggisnet samfélagsins eins og við þekkjum í dag var ekki til staðar og
við tók fátækt og erfiðleikar ungrar móður með fjórar ungar stúlkur.
Mamma fæddist á Vesturgötunni og var alla sína æsku í vestur- og miðbæ
Reykjavíkur og þekkti þar hvern krók og kima. Hún sagði mér oft frá
samheldni í fjölskyldunni, frá föðurömmu og -afa á Tjarnargötunni og
vinskap systkinabarna Sigurhannesar afa. Hún talaði líka mikið um frænkur í
móðurætt, þær Steinunni og Ráðhildi, og hversu vel þær reyndust henni á
unglingsárunum og sem ungri konu.
Foreldrar mínir byggðu sér hús sem var æskuheimili mitt og systra minna.
Það stóð við Nýbýlaveg í landi Snælands í Kópavogi. Kópavogur var að
byggjast upp en umhverfið var í raun sveit. Fjöldi barna var í hverju húsi
og ævintýri á hverju strái hjá okkur krökkunum. Móðir okkar var alltaf til
staðar fyrir okkur og lagði sig fram við að þekkja krakkana í hverfinu. Það
voru forréttindi að fara út að leika sér eða í skólann og koma heim í
morgunkaffi, hádegismat, síðdegiskaffi, kvöldmat og kvöldkaffi. Alltaf,
alla daga. Ég veit að hún þurfti að hafa mikið fyrir mér og ég náði
einhvern veginn alltaf að koma heim blautur og óhreinn. Hún tók því alltaf
vel en þakkaði fyrir að systur mínar voru ekki eins fyrirferðarmiklar. Hún
þurfti líka oft að fara með mig á slysavarðstofuna. Einhvern veginn náði ég
reglulega að slasa mig; fá gat á hausinn sem þurfti að sauma, fara úr lið
eða brjóta bein. Og alltaf fór elsku mamma með litla strákinn sinn á slysó.
Þegar ég var ellefu ára datt ég af bílskúr og slasaðist illa, braut báðar
hendur og fótbrotnaði og ég man hvað þetta var óumræðilega sárt. Mamma sat
hjá mér allan sólarhringinn fyrstu dagana, strauk mér um vangann og
hughreysti.
Eftir að ég varð orðinn fullorðinn og hitti vini sem ég hafði ekki hitt
lengi fékk ég nær undantekningarlaust spurninguna hvernig hefur mamma þín
það? og í kjölfarið skilaðu kveðju til hennar. Einn vinur okkar systkina
átti erfiða æsku, hann bjó hjá ömmu sinni og afa, miklum heiðurshjónum.
Hann varð fyrir aðkasti sem í dag er einfaldlega kallað einelti. Mamma
skynjaði varnarleysi hans og oftar en ekki kom hún honum til aðstoðar.
Mörgum árum seinna hitti ég hann í bænum. Hann gekk rakleitt að mér og
faðmaði mig og spurði: Hvernig hefur mamma þín það? Við töluðum lengi
saman og hann lýsti því fyrir mér hvað mamma hefði alltaf verið góð við
hann þegar hann var lítill og hvað það skipti hann miklu máli.
Mamma fylgist alltaf vel með því sem við systkinin vorum að gera og setti
sig inn í áhugamál okkar. Á unglingsárum mínum og tveggja yngri systra
minna var leikfélagið okkar annað heimili. Mamma fylgist með okkur þar og
fyrr en varði var hún byrjuð að sauma leikbúninga, meðal annars í
leikritinu Gúmmí-Tarzan. Ég held að Páll Óskar hafi stigið fyrst á svið
þar. Ég veit ekki hvort hún hafði gaman af pönki, þegar það helltist yfir
okkur Kópavogsunglingana, en hún hallmælti því í það minnsta aldrei eins og
flestir fullorðnir.
Ég varð aldrei þess áskynja að móðir okkar gerði upp á milli okkar
systkina, þó skynjaði ég sérstakan streng á milli Sigrúnar Eddu og mömmu.
Þær voru ekki eingöngu móðir og dóttir heldu líka vinkonur. Mamma eignaðist
Sigrúnu Eddu ung og ól hana ein upp í fjögur ár.
Árið 1983 var ekki gott ár fyrir fjölskyldu okkar. Sigrún Edda systir okkar
lést í janúar það ár, aðeins 29 ára, eftir erfið veikindi. Pabbi okkar lést
fimm vikum seinna, aðeins 51 árs. Mikill harmur og sársauki er missa barn
og í kjölfarið eiginmann. Ég sé mikið eftir því að hafa ekki verið móður
minni meiri stoð og stytta í sorginni. Ég hafði sótt um skólavist í París
og flutti til Frakklands þremur mánuðum eftir að pabbi dó. Mamma kom ári
síðar í heimsókn til mín til Parísar og við áttum góðan tíma saman. Hún
rifjaði oft upp atvik frá þessari ferð, margt sem ég hafði löngu gleymt en
hún mundi eins og gerst hefði í gær.
Ég á ótal góðar minningar um elskulega móður mína. Ég hef ekki minnst á
fjölmörg uppátæki hennar. Eins og þegar hún fór í fallhlífarstökk þegar hún
átti sjötugsafmæli. Eða þegar hún þeysti um bæinn aftan á mótorhjóli þegar
hún varð 80 ára. Mamma var dugleg þrátt fyrir að fæturnir væru að gefa sig.
Það var henni mikils virði að geta keyrt sinn eigin bíl alla daga fram í
andlátið, það gaf henni sjálfstæði og frelsi eins og hún sagði alltaf. Hún
reykti aldrei og smakkaði varla vín en hún elskaði að dansa og fara út á
meðal fólks. Henni fannst verst að geta ekki dansað þegar hreyfigetan fór
þverrandi.
Takk fyrir mig elsku mamma mín, ég sakna þín mikið en ég veit að nú dansar þú á nýjum stað meðal vina.
Bjarni Þór Sigurðsson.