Ragnar Jóhannesson, fæddur 30.06. 1932 í Vegg í Vestmannaeyjum, dáinn 10.12. 2020.
Foreldrar Ragnars, Kristín Sigmundsdóttir frá Hamraendum á Snæfellsnesi, ættuð frá Skammadal í Mýrdal. Fædd 02.01. 1894, dáin 01.07. 1936, og Jóhannes J. Albertsson frá Ytri-Kárastöðum í Húnavatnssýslu, fæddur 19.11. 1899, dáinn 04.02. 1975, í Ástralíu, en þangað fóru hann og þáverandi kona hans til yngstu dóttur þeirra, Lillýjar, eftir eldgosið í Vestmannaeyjum 1973. Foreldrar Ragnars, Jóhannes og Kristín, misstu tvo elstu drengi sína nýfædda. Þau sem upp komust voru Albert Jóhannesson, fæddur 21.07. 1925, dáinn 05.02. 2001. Grettir Jóhannesson, fæddur 11.02. 1927, dáinn 12.04. 2000. Gréta Jóhannesdóttir fædd 08.01. 1929, dáin 12.03. 2002. Elínborg Jóhannesdóttir, fædd 27.04. 1930, búsett í Kaliforníu. Jóhanna Maggý Jóhannesdóttir, fædd 28.05. 1931, dáin 14.04. 2020. Ragnar Jóhannesson, fæddur 30.06. 1932, dáinn 10.12. 2020. Seinni kona Jóhannesar var Marta Pétursdóttir frá Stóru-Hildisey í Landeyjum, fædd 06.04. 1914, dáin 27.08. 1989. Þeirra börn Sævar Þorbjörn Jóhannesson, fæddur 08.05. 1938, búsettur í Reykjavík, Soffía Lillý Jóhannesdóttir, fædd 20.06. 1940, dáin 09.07. 2016, hún var búsett í Ástralíu.
Þann 26.03. 1967 kvæntist Ragnar Hólmfríði Sigurðardóttur, fæddri 24.02. 1940. Börn þeirra: A) Ragnheiður Anna Georgsdóttir, fædd 17.05. 1960, dóttir Hólmfríðar. Ragnar gekk henni í föðurstað. Eiginmaður Einar Þórðarson Waldorff , barn þeirra a) Bjarney Linda Einarsdóttir. Synir Einars af fyrra hjónabandi eru Daníel og Jónas. B) Linda Kristín Ragnarsdóttir, fædd 13.01. 1964. Fyrri maður Lindu er Ómar Bragi Birkisson, þau skildu. Börn þeirra a) Tanja Björk Ómarsdóttir. Börn Tönju Nataníel Logi og Bergdís Linda. b) Rakel Ýr Ómarsdóttir, gift Michael Boyd. c) Birkir Jóhannes Ómarsson. Sambýlismaður Lindu er Miguel Ribeiro. C) Sigurður Ingi Ragnarsson, fæddur 16.10. 1965. Eiginkona Guðfinna Evý Sigurðardóttir. Börn þeirra a) Arnór Ingi Sigurðsson. b) Ingi Þór Sigurðsson. D) Ragnar Þór Ragnarsson, fæddur 28.07. 1972. Fyrri kona Ragnars er Stella Mjöll Aðalsteinsdóttir, þau skildu. Börn þeirra a) Sölvi Fannar Ragnarsson, b) Ragnar Snær Ragnarsson. Eiginkona Hildur Vattnes Kristjánsdóttir. Börn þeirra c) Kristján Ólafur Vattnes Hilmarsson, sonur Hildar d) Theódór Sævar Vattnes Ragnarsson. E) Sindri Freyr Ragnarsson, fæddur 22.01. 1981. Ókvæntur og barnlaus.
Ragnar stundaði sjómennsku mest sitt líf og reri á ýmsum bátum frá Vestmannaeyjum. Árið 1952 lagði hann ásamt vini sínum Gísla Steingrímssyni upp í ævintýraferð og kom heim aftur átta árum síðar, þann 15.10. 1960, og hafði hann þá siglt um öll heimsins höf. Eftir heimkomuna kvæntist hann Hólmfríði Sigurðardóttur þann 26.03. 1967. Bjuggu þau í Vestmannaeyjum alla sína tíð. Ragnar rak Friðarhafnarskýlið um árabil ásamt konu sinni.
Útför Ragnars fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 19.12. 2020 klukkan 11. Streymt á vef Landakirkju:
Virkan hlekk á streymi má einnig nálgast á:
Móðurmissirinn markaði allt hans líf. Fjögurra ára gamall varð hann móðurlaus, heimilið leyst upp og hann eina barnið af sex sem varð eftir hjá syrgjandi föður. Þá var engin félagsleg aðstoð og harkan ein sem dugði. Systkinin báru þó gæfu til að rækta samband sitt þegar þau urðu nógu gömul til að hafa stjórn á eigin lífi og var á milli þeirra sterkur strengur og mikill kærleikur alla tíð.
Ungur fór hann á sjóinn, fór sinn fyrsta túr þegar hann var tólf ára og seinna sagði hann frá því að hann hafi verið svo sjóveikur að á milli þess sem hann hrærði í pottunum, sem aðstoðarmaður kokksins um borð, þá stakk hann höfðinu út um opið kýraugað og kastaði upp. Sjóveikin háði honum alla tíð, ef hann var lengi í landi þá var hann sjóveikur fyrsta sólarhringinn. Það var samt aldrei í boði að gefast upp og hætta.
Heimdraganum var hleypt á unga aldri. Þeir vinirnir Ragnar og Gísli Steingríms réðu sig í sumarvist á norskum sveitabæjum en ævintýraþráin var sterk og það endaði með því að þeir munstruðu sig á fraktara og ferðaðist Raggi/pabbi um heimsins höf í tæpan áratug og lenti þar í ýmsum ævintýrum sem urðu uppspretta stærri heimsmyndar en eyjaskeggjar áttu að venjast sem og skemmtilegra sagna. Auk þess að sigla um allan heim staldraði hann við í Ástralíu um hríð þar sem hann vann við stíflugerð, í námuvinnu, við skurð á sykurreyr og í niðursuðuverksmiðju. Svo leitaði hugurinn heim og mamma og pabbi hittust og felldu hugi saman. Þau örkuðu saman æviveginn á enda og ólu upp fimm börn.
Snemma í hjónabandi þeirra fórst Eyjabergið, báturinn sem pabbi var á, við Faxasker. Mamma vissi ekkert fyrr en þeir mættu báðir, afi Sigurður og afi Jóhannes. Mamma var heima með tvö ung börn og það þriðja hjá ömmu og afa á Þrúðvangi. Engar fréttir bárust langt fram eftir kvöldi en að lokum varð ljóst að um mannbjörg var að ræða og pabbi skilaði sér heim, hrakinn og kaldur. Afi Sigurður sá að nú var þörf á koníakinu sem hann geymdi til að dreypa á við sérstakar aðstæður. Hann brá sér á Þrúðvang og sótti flöskuna í þeirri vona að koníakið myndi ylja hinum hrakta og kalda tengdasyni.
Okkar heimilislíf var á margan hátt öðruvísi þar sem báðir foreldrarnir voru sigldir, höfðu dvalið erlendis. Sem sjómaður, oftast bryti um borð í fiskiskipum, þá sigldi hann oft til að selja aflann erlendis. Hann tryggði það að við myndum njóta þess sem heimurinn hafði upp á að bjóða en ekki hægt að nálgast á Íslandi á þeim árum. Hann keypti handa okkur alls konar dót sem bara var hægt að nálgast með því að skoða príslista á Íslandi. Við borðuðum kjúklinga, nautakjöt og beikon áður en hægt var að kaupa þessar vörur á landinu. Á sjó hirti hann humar sem enginn hafði áhuga á á þeim árum og flakaði fisk fyrir fjölskylduna. Eðalkokkur sem naut þess mjög að elda fyrir fjölskyldu og vini.
Eftir að við börnin fórum að heiman voru þeir ófáir kassarnir sem hann sendi okkar með alls kyns fiski sem hann hafði flakað fyrir okkur. Einnig keypti hann forláta frönskugræju í einni siglingunni, og þótti okkur systkinunum mikið um þegar okkur, sem börnum, var treyst fyrir græjunni, að skræla kartöflur og renna þeim í gegnum græjuna þannig að kartöflustautar komu út hinum megin, tilbúnir til steikingar, komnir langleiðina að frönskum. Á okkar matseðli voru beikon og egg, fish and chips, humar og franskar. Hann kom líka heim með sinn sjósigna og saltfisk.
Honum var mjög umhugað um að við hefðum allt sem við þyrftum, alltaf. Í Vestmannaeyjum, líkt og á Íslandi öllu, var eggja- og smjörskortur viðvarandi á okkar uppvaxtarárum enda takmarkað framleitt af þessum vörum og ekkert flutt inn. Hann leysti það með því að kaupa heilan kassa af eggjum og Lurpak-smjöri sem var geymt niðri í brunni og dugði mánuðum saman. Okkur systrum fannst þó miður þegar hann kom heim með fjórar eins mussur, við vorum allar eins, amma, mamma og við systur, en þá hafði hann lent á Sonderangebot í Þýskalandi og fengið fjórar fyrir tvær og hann elskaði okkur allar jafn mikið!
Auk þess að vilja hag okkar sem bestan hafði hann gaman af að skemmta sér. Lyfta glasi, segja sögur og syngja Te manu pukarua sem við heyrðum alltaf sem er það nú púkahrúga.
Pabbi og mamma ráku Friðarhafnarskýlið í Vestmannaeyjum árum saman. Oftast var pabbi á sjó í upphafi rekstursins en mamma stóð vaktina. Seinna meir unnu þau jöfnum höndum við reksturinn þar til þau sneru sér að öðru.
Í gosinu var hann um hríð við björgunarstörf í Eyjum og var oft vont að vita af honum þar enda óvissan mikil um hver framvinda mála yrði. Hann skilaði sér þó heill heim aftur, hann minnti á stundum á kött sem átti sér níu líf.
Skömmu eftir goslok keypti hann bát í félagi við Fúsa vin sinn, þeir voru frumkvöðlar í ferðamannaiðnaði, að sigla með túrista í kringum eyjuna. Það voru nokkrar ferðir á dag, síðasta ferðin kom í höfn um miðnætti. Þá var búið að loka sjoppunum í bænum en pabbi gat ekki hugsað sér að ferðamennirnir færu svangir í bólið þannig að hann bauð þeim heim og mamma steikti beikon og egg ofan í ótalmarga ferðamenn á þessum árum og mynduðu þau mörg vinasambönd í kjölfarið.
Fjölskyldan ferðaðist stundum á sumrin, með okkur elstu var ferðinni heitið um landið, Í Birkihvamminn til Distu frænku og Arnþórs, í Þykkvabæinn til Grettis og Fanneyjar og til Ólafsvíkur til Grétu og Halla og Alla. Í Grenlæk til að veiða. Seinni árin var meira farið utan.
Þau fjárfestu í sumarbústað í Flóanum og varð sumarbústaðurinn Heiðtún mikill griðastaður fyrir fjölskylduna, þar útbjó pabbi mínígolfvöll og í nokkur ár var þar haldið Heiðtún open fyrir fjölskylduna. Þar hittumst við og nutum samvista. Pabbi naut þess að rækta landið, gróðursetja, slétta, rækta. Þar átti hann góðar stundir og eignaðist góða vini í sveitinni. Hann var handlaginn og í sveitasælunni smíðaði hann burstabæ og kirkju sem hann setti í gróðursælan reit. Það minnti á jólaskrautið, burstabæ og kirkju, sem hann bjó til úr pappakössum 1968, á árum þegar ekki mikið var til.
Hann dyttaði að og gerði við og smíðaði og sagaði og málaði.
Pabbi var örlátur maður sem vildi öllum vel og mátti ekkert aumt sjá. Hann var viðkvæmur og auðsærður en með þykkan skráp. Þeir sem komust inn fyrir skrápinn voru heppnir. Hann gerði allt sem hann gat fyrir þá sem honum þótti vænt um, elskaði.
Síðustu árin voru honum erfið. Alzheimersjúkdómurinn er grimmur og eirir engu. Hann fjaraði út sem sá maður sem við þekktum en eftir stóð skugginn af honum. Það var sárt að horfa á hann hverfa smám saman, en eftir lifir minningin um fjölskylduföður sem gerði allt sem hann gat til að við hefðum það gott. Fyrir það ber að þakka.
Fríða og fjölskyldan.