Guðrún S. Kristjánsdóttir fæddist í Skuld á Eskifirði 7. desember 1917. Hún lést 7. desember 2020, á 103 ára afmælisdaginn sinn, á hjúkrunarheimilinu Sóltúni.
Foreldrar hennar voru hjónin Stefanía Bjarnadóttir, f. 1886, d. 1954, og Kristján Jónsson, f. 1891, d. 1974. Systur Guðrúnar voru: Jóhanna, f. 1916, d. 2000, Jónína, f. 1920, d. 1992, og Ingibjörg, f. 1922, d. 2012.
Guðrún ólst upp á Eskifirði, ung að árum fór hún til Reykjavíkur til að læra kjólasaum. Hún tók sveinspróf í kjólasaumi árið 1947. Árið 1948 réð Guðrún sig í vist hjá Alberti Guðmundssyni knattspyrnumanni og konu hans Brynhildi. Hún dvaldi með þeim í Frakklandi og á Ítalíu í eitt ár. Árið 1957 var Guðrún skipuð í prófnefnd við sveinspróf í kjólasaumi, hún sinnti því starfi til 1963. Guðrún vann á ýmsum stöðum í Reykjavík; á prjónastofunni Iðunni, á skrifstofum Ríkisspítalanna þar sem hún sá um mat og kaffi og í Vörðunni þar sem hún sá um viðgerðir á barnavögnum. Guðrún vann í Vörðunni til 75 ára aldurs.
Guðrún var 95 ára þegar hún flutti í þjónustuíbúð aldraðra í Lönguhlíð 3 en vegna veikinda árið 2019 flutti hún á hjúkrunarheimilið Sóltún.
Útför Guðrúnar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 21. desember 2020, klukkan 15. Vegna aðstæðna verða aðeins nánustu aðstandendur og vinir viðstaddir athöfnina.
Síðastliðið ár bjó Guðrún í Sóltúni. Þar var gott að vita af henni, öll umhugsun og aðbúnaður góður. Þar áður bjó hún í þjónustuíbúð við Lönguhlíð um árabil. Alltaf tók hún okkur fagnandi með bros á vör og svo var tekið skrabble. Spilamennska var henni í blóð borin enda vinsæl tómstundaiðja fjölskyldunnar. Guðrún bar sig vel og tók því sem að höndum bar. Síðustu árin fann hún sér ýmislegt til tómstunda enda var henni margt til lista lagt. Hún las mikið og átti gott samfélag með íbúum Lönguhlíðar. Falleg handavinna var hennar aðalsmerki, fjölmargar prjónaðar ungbarnapeysur fengu börn ættingja og vina að gjöf. Handbragðið var fullkomið og greinilegt að þarna var að verki manneskja með skýran huga.
Enginn lifir svo lengi án þess að kynnast erfiðleikum lífsins og Guðrún fór ekki varhluta af þeim. Ýmis veikindi settu strik í reikninginn en alltaf lánaðist henni að ná heilsu. Guðrún átti einnig margar gleðistundir og þó hún eignaðist ekki eigin fjölskyldu átti hún þátt í lífi margra barna sem að henni stóðu. Hún fylgdist ánægð með velgengni þeirra og börnin virtu hana og sýndu þakklæti sitt í verki.
Vinnusemi einkenndi æskuna og raunar alla hennar æfi. 15 ára fór Guðrún að heiman til að vinna fyrir sér. Eftir það kom hún heim í Skuld í fríum að hitta fjölskyldu og vini og lagði hönd á plóg af sinni alkunnu hjálpsemi. Síðar lærði hún kjólasaum og var í prófnefnd Iðnskólans um árabil. Guðrún fékk tækifæri til að dvelja í Frakklandi og á Ítalíu sem var henni mikil upplifun. Lengst af vann hún í barnavöruversluninni Vörðunni við ýmislegt tengt saumaskap. Vináttu Vörðufjölskyldunnar átti hún óskipta alla tíð eins og raunar allra sem henni kynntust.
Fyrst man ég eftir Guðrúnu á Rauðarárstíg í lítilli íbúð, gisting var boðin þeim sem þess þurftu og hiklaust gekk hún úr rúmi fyrir gesti sína. Útivist stundaði Guðrún og ferðuðust þær Halldóra Eggerstdóttir vinkona hennar oft um landið. Þórsmörkin var henni kærust. Frábært var að sjá hversu hrærð hún var þegar við Ívar fórum með henni þangað, þá hátt á tíræðisaldri.
Á skólaárum mínum passaði Guðrún oft Boga elsta son minn sem þá var á fyrsta ári. Hún lét m.a. útbúa stóra útdraganlega skúffu undir rúmið sitt. Bogi var oft næturgestur í skúffunni. Síðar horfði hann margoft á þættina um Nonna og Manna sem Guðrún tók upp á ásamt öðru efni sem börnin höfðu gagn og gaman af.
Eiríkur náði líka sérstöku sambandi við frænku sína sem í seinni tíð einkenndist af bréfaskiptum vegna búsetu hans erlendis. Þegar hann heimsótti Ísland var komið við í Lönguhlíð, skrabblað og þeginn hádegisverður. Þegar Eiríkur var lítill sagði hann vinum sínum að hún væri þriðja amma sín, mörg okkar geta eflaust tengt við það. Nýjasta barnið í fjölskyldunni er sonur Eiríks og var Guðrún fyrir löngu búin að prjóna peysu fyrir Eika sinn. Hún vissi sem var að þegar aldurinn er yfir 100 ár er ekki á vísan að róa þegar barnið kæmi.
Ingi Davíð undi sér best hjá frænku sinni, lék sér í friði að leikfangahúsinu, fljótlega settist Guðrún hjá honum, lék við hann og svo spiluðu þau. Þegar hann eignaðist svo dóttur fyrir nokkrum árum var hún skírð í höfuðið á Guðrúnu.
Á 100 ára afmælinu hélt hún veislu sem er okkur ógleymanleg, Þann dag var Guðrún eins og drottning, naut þess að vera umvafin ættingjum og vinum sem hún hafði svo mikið gefið.
Ég sendi nöfnu hennar Guðrúnu Völu og öllum þeim sem næst Guðrúnu stóðu hugheilar samúðarkveðjur. Sjálf hef ég misst kæra móðursystur sem var mér betri en flestir aðrir. Drengirnir mínir og fjölskyldur þeirra minnast Guðrúnar frænku með hlýhug og virðingu og þakka fyrir sig.
Jóhanna Eiríksdóttir