Guðrún Helgadóttir fæddist í Kollsvík í Rauðasandshreppi 10. október 1919. Hún lést á Hrafnistu Reykjavík 6. desember 2020.

Foreldrar Guðrúnar voru Ásbjörn Helgi Árnason, f. 13. apríl 1889, d. 1965, og Sigrún Össurardóttir, f. 6. maí 1898, d. 1977. Guðrún var elst af sex systkinum, hin voru: Árni, f. 1922, d. 2011, Anna Marta, f. 1924, d. 2012, Ólafur Helgi, f. 1925, d. 1986, Halldóra, f. 1930, d. 2019, og Kristrún Björt, f. 1939, d. 2019.

Guðrún giftist 31. desember 1948 Helga Guðmundssyni skipstjóra frá Patreksfirði, f. 1. júlí 1912, d. 13. ágúst 1985. Foreldrar hans voru Guðmundur Ólafur Þórðarson, f. 18. september 1876, d. 14. nóvember 1946, og Anna Helgadóttir, f. 9. maí 1885, d. 18. ágúst 1929. Guðrún og Helgi eignuðust fimm börn en áður átti Guðrún eina dóttur með unnusta sínum Guðmundi Elentínusi Guðmundssyni, f. 16. mars 1916, d. 2. nóvember 1938.

Dóttir þeirra er Elín Guðmunda, f. 1939, maki Bjarni Benedikt Ásgeirsson, f. 1937, d. 2009.

Börn Guðrúnar og Helga eru: Anna f. 1947, maki Egon Th. Marcher, f. 1945; Sigrún Sjöfn, f. 1948, maki Helgi Sigurður Guðmundsson, f. 1948, d. 2013, í sambúð með Óla M. Lúðvíkssyni, f. 1943; Hafdís, f. 1949, maki Björgvin Andersen, f. 1959; Kjartan Hrafn, f. 1957, maki Ástríður Ólöf Gunnarsdóttir, f. 1956; Helgi, f. 1959, maki María Baldursdóttir, f. 1956.

Barnabörnin eru 21, langömmubörnin 55 og langalangömmubörnin 16.

Guðrún ólst upp í Kollsvík í faðmi fjölskyldunnar, fyrstu tvö árin bjuggu þau hjá móðurforeldrum á Láganúpi, en fluttust þá í Tröðina. Móar, klettabelti, tún og hvít fjaran fyrir opnu hafi voru leiksviðið. Sjóróðrar og bústörf voru lífsviðurværið og sem elstu systur var Guðrúnu snemma falið að passa yngri systkini og sinna ýmsum störfum. Á fyrri hluta síðustu aldar var ekki boðið upp á skólagöngu í Kollsvík utan farkennslu og heimalesturs. Guðrún náði snemma tökum á handavinnu og lærði kjólasaum á saumastofu Kötu og Dísu við Amtmannsstíg í Reykjavík. Áður var Guðrún í húsmæðraskólanum á Laugarvatni.

Guðrún og Helgi hófu búskap á Patreksfirði en fluttu til Reykjavíkur 1951 og bjuggu þar upp frá því, lengst af í Ljósheimum 8 sem þau byggðu í samvinnu við aðra íbúa. 2006 flutti Guðrún að Brúnavegi 9, en síðustu mánuðina dvaldi hún á Hrafnistu Laugarási.

Meðfram uppeldi barnahópsins og heimilisstörfum stundaði Guðrún ýmis störf, aðallega tengd saumaskap, bæði innan og utan heimilis. Guðrún tók einnig virkan þátt í félagsstörfum, aðallega í Langholtssókn og hjá átthagafélagi Barðstrendinga.

Útförin fór fram 17. desember 2020.

Árið er 1965 eða 1966. Skoppandi við hlið móður minnar vestur Gnoðarvoginn á leiðinni til ömmu í Ljósheimum. Það er fyrsta minning mín með ömmu minni og nöfnu. Alla tíð síðan skipaði amma stóran sess í lífi mínu og var fyrirmyndin mín og manneskjan sem ég vitnaði oft í. Göngutúrarnir til ömmu voru reglulegir og sama viðkvæðið alla tíð hjá mér um leið og ég var komin inn: Amma mín, ég er svo svöng. Eins og ég fengi aldrei ærlegan matarbita hjá mömmu minni. Önnur skýr bernskuminning með ömmu var á Skólavörðuholtinu, ég og amma að borða ís í brauðformi. Ég trúlega ekki mikið eldri en 4ra ára. Minningar mínar eru samofnar minningum annarra afkomenda ömmu, en við erum rétt um 100 talsins, beinir afkomendur og ættliðirnir orðnir 5 fyrir um 20 árum. Við eigum öll okkar sögur.
Fjölskyldan okkar, eða hrúgan hennar ömmu sem er aldrei kölluð annað en Hrugan, er sérstaklega samhent. Ég hélt að allar fjölskyldur væru svona. Saman um jólin - yfirleitt allir sem staddir eru á landinu og saman í útilegu á hverju ári, þar eru líka allir mættir sem mögulega komast. Í sumar hittumst við vel yfir 100 manns. Amma var þar hrókur alls fagnaðar, rétt að verða 101 árs. Hló og skemmti sér yfir látunum og leikjunum okkar. Ég átti þess kost að sitja hjá henni góðar stundir milli bylgju 2 og 3 í Covid-19 og spyrja hana spjörunum úr. Aðallega var ég að falast eftir sögu hennar milli 1936-1969. Minni ömmu var ótrúlegt. Ef við erum að tala um að harði diskurinn í tölvunni geti geymt einhver gígabæt, þá gat amma það líka. Hún mundi nöfn og ekki bara nöfnin, heldur einnig persónueinkenni margra sem hún hitti á lífsleiðinni, ártöl, hvað hún fékk í laun, hvað var greitt mikið í leigu og margt annað sem ég er svo rík af að hafa fengið að heyra. Yngsti sonur minn fékk það verkefni í samfélagsfræði fyrir örfáum árum, amma svona 98 ára eða svo, að taka viðtal við einhvern fullorðinn og að sjálfsögðu valdi hann langömmu sína. Verkefnið var að fá að heyra hvað hún teldi vera mestu byltinguna í tækni og nýjungum á sinni langri ævi. Amma var ekki lengi að finna svarið. Það var árið sem fyrstu gúmmístígvélin komu. Það gjörbreytti svo mörgu fyrir fólkið í sveitinni og sjómennina. Þessu áttum við ekki von á, en eftir á að hyggja þá hefur þetta breytt miklu til hins betra.
Ég bjó um árabil í Vestmannaeyjum og var að sjarma fyrir ömmu að koma á Þjóðhátíð, þar sem hún hafði aldrei gert það á sínum yngri árum. Hún lét tilleiðast árið 2000, þá 80 ára gömul. Hún lét ekki þar við sitja og kom aftur 2010, þá orðin 90 ára. Við göntuðumst með það að þetta væri orðin hefð hjá henni að koma á Þjóðhátíð á tíu ára fresti. Ef ekki hefði verið Covid þá hefðum við átt að vera á Þjóðhátíð í ár, en hún féll niður. Ég var reyndar flutt úr Eyjum, þannig að amma hélt að það myndi hvort sem er ekki verða eins skemmtilegt. Ég var m.a.s. búin að selja hvíta tjaldið okkar. Ein dásamleg minning frá Þjóðhátíð. Það gerði aftakaveður á föstudeginum. Við komum tjaldinu upp, öll húsgögn komin inn og mamma og amma sátu inni í tjaldi að prjóna. Vill ekki betur til en svo að rosaleg hviða skellur á götuna okkar og tjaldið flýgur upp í loft. Amma og mamma sátu inni í tjaldi, enn með prjónana í höndum. Fjölda fólks bar að, en í stað þess að drífa sig að hjálpa okkur að ná tjaldinu niður voru allir uppteknir af því að taka mynd af þeim, enda myndin dásamleg og þær sallarólegar. Eftir að tjaldið kom niður aftur sátu þær við að sauma það sem rifnað hafði á tjaldinu. Ein besta Þjóðhátíðin okkar.
Ömmu varð tíðrætt um það hvað okkur kom alltaf vel saman og hve fjölskyldan var samhent. Hún var svo þakklát fyrir börnin sín og ég lét hana vita að það sama væri hjá barnabörnum hennar, 3ju kynslóðinni. Við erum miklir vinir, höldum okkar þorrablót og næsta kynslóð, langömmubörnin, hittast líka og halda sitt þorrablót. Amma myndi seint samþykkja að kalla það þorrablót, því eitthvað er maturinn frjálslegri.
Skömmu fyrir andlátið sat ég hjá ömmu og fór með ljóð fyrir hana, nýtt ljóð frá manninum mínum, sem var í jólakortinu til hennar. Hvítvín og púrtvín áttu að fylgja kortinu með í ár, en við mamma ætlum að njóta þess heima í Skálholti í hennar minningu þar sem ekki náðist að skála við ömmu þessi jól. Eftir lesturinn leit hún á mig og sagði: Aftur. Ég las það því aftur og vil lesa það en einu sinni fyrir hana:
Lausnir

Ljúf er dýrð á ljóssins dögum

Lausnarans og friðar.

Birtir upp með bestu sögum,

blessun jóla siðar.



Heimur mætti háska pestar,

heima sátu lýðir.

Jesús, gef um jól til restar,

jafnar frelsis tíðir.

(KB, nóv. 2020)

Hvíl í friði.
Þín dótturdóttir,


Guðrún Helga Bjarnadóttir.