Berghreinn Guðni Þorsteinsson fæddist á Siglufirði 17. febrúar 1936. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 1. janúar 2018.
Foreldrar hans voru Þorsteinn Bergmann Loftsson garðyrkjubóndi, f. 17. febrúar 1911, d. 20. maí 1946, og Vilhelmína Theodora Tijmstra Loftsson, náttúrufræðingur og húsfreyja, f. 26. janúar 1912 á eyjunni Jövu í Austur-Indíum, d. 28. október 1998.
Albræður hans voru: Geirharður Jakob, f. 1934, d. 2017, maki Guðný Helgadóttir leikkona, f. 1938. Þau eignuðust fjögur börn. Vilhjálmur Þorsteinn, f. 1943, d. 2016. Maki 1: Harpa Möller, þau áttu þrjú börn. Maki 2: Stefanía Júlíusdóttir bókasafns- og upplýsingafræðingur, f. 1944. Hún átti fyrir tvær dætur af fyrra hjónabandi og eru þær kjördætur Vilhjálms. Hálfbróðir Berghreins er Helgi Skúta listfræðingur, f. 1953. Með Önnu S. Gunnarsdóttur átti hann son en maki Helga er Sharon Helgason Gallagher, heimspekingur og útgefandi, f. 1959, þau eiga dóttur.

Eiginkona Berghreins er Randý Sigurðardóttir, f. 2. apríl 1940. Átti hún fyrir Sigurð Rafn Þorgeirsson, sem fæddist 26. september 1959, og gekk hann honum í föðurstað. Sigurður eignaðist fimm börn. Þau eru Hildur Þóra (fósturdóttir), f. 1979, og Kristín Lilja, f. 1982, móðir þeirra er Súsanna Friðriksdóttir. Guðrún Randý, f. 1986, og Sara Björg, f. 1987, móðir þeirra er Ellý Vilhjálmsdóttir, og Daníel Pitsuk, f. 2005, móðir hans er Svetlana Pitsuk. Maki Hildar Þóru er Halldór Gunnlaugsson og maki Kristínar Lilju er Karl Á. Ágústsson. Berghreinn á sex barnabarnabörn.

Saman eignuðust Randý og Berghreinn fjögur börn. Þau eru: 1) Vilhjálmur, f. 20. apríl 1962. 2) Bryndís Ósk nuddari, f. 25. október 1963. Sambýlismaður hennar er Ásberg Pétursson. Börn Bryndísar eru Birkir Freyr, f. 1987, og Theodóra Listalín, f. 1995, faðir þeirra er Þröstur Sverrisson. 3) Berglind, f. 28. ágúst 1965. Börn Berglindar eru Fannar Örn, f. 1996, og Guðný María, f. 1999, faðir þeirra er Torfi Arnarson. 4) Þorsteinn Guðni, mannfræðingur og sérkennari, f. 18. mars 1972. Börn Þorsteins Guðna eru Signý, f. 2005, og Hugrún, f. 2007. Móðir þeirra er Vigdís Einarsdóttir.

Berghreinn stundaði um tíma nám við Bændaskólann á Hólum. Áhuginn beindist hins vegar að flugvirkjun og fór hann þaðan í nám í Spartan School of Aeronautics í Ameríku. Eftir að hann lauk þar námi hóf hann flugvirkjastörf í janúar 1958 hjá Flugfélagi Íslands. Þá var hann einnig með vélstjóraréttindi og einkaflugmannsréttindi. Hinn 2. maí 1961 var Berghreinn ráðinn til Landhelgisgæslu Íslands (LHG). Þar varð hann fyrsti flugvirki á Íslandi sem öðlaðist réttindi til að viðhalda þyrlum. Það var á Bell 47 sem var fyrsta þyrlan sem Landhelgisgæslan tók til notkunar árið 1965 og bar hún nafnið TF-EIR. Öðlaðist hann jafnframt réttindi á þær þyrlur sem Landhelgisgæslan keypti á þeim 42 árum sem hann starfaði þar. Hann var einnig flugvélstjóri á fyrstu flugvél gæslunnar, var spilmaður í þyrluáhöfn, var yfirflugvirki, gæðastjóri og starfaði svo við skráningu og áætlunargerð síðustu árin. Auk þess fólst í hans starfi að fara á fjölda námskeiða erlendis, til að læra á allar nýjar þyrlur LHG, fara í vitatúra og auk þess voru björgunarstörf hluti af hans vinnu. Þá kenndi hann ungum mönnum sem þar unnu, í lengri eða skemmri tíma, og hlúði að þeim.
Berghreinn og Randý bjuggu alltaf í Reykjavík.
Berghreinn var jarðaður í kyrrþey að eigin ósk.

Sérhvert upphaf nýs árs mun héðan í frá, óhjákvæmilega, vekja upp sterka minningu um pabba og öll þau góðu gildi sem hann stóð fyrir. Hann andaðist að morgni nýársdags aðframkominn eftir áralanga sligandi samfylgd alzheimers sem miskunnarlaust yfirtók alla starfsemi hægum skrefum. Lífið skuldar engum svo sem neitt. Það eitt að fæðast er blessun. Engu að síður sækir á mann ónotaleg vanmáttarkennd við tilhugsunina um það hvernig maður eins og pabbi, sem dag hvern ræktaði heilsu sína af alúð, svona ótrúlega sanngjarn og gegnheill maður, skyldi á tiltölulega skömmum tíma tapa heilsunni, í hugarþoku. Í minningunni leiftra samt ótal myndir af einstaklega góðri manneskju sem alla tíð lagði sig fram af miklum heilindum um að reynast fjölskyldu sinni og öðrum samferðamönnum vel. Pabbi var svo margt. Hann var hreystimenni og okkur börnunum mikil fyrirmynd í lífsstíl og hollum lífsháttum. Aðspurður hvers vegna hann tæki ekki þátt í skemmtanalífinu af sama krafti og aðrir, svaraði hann einatt: Ég er áhugamaður um vellíðan. Hann hafði einfaldan smekk og var látlaus í orðum og æði. Á sama tíma var hann óttalegur dellukarl og bjó að ríkum sjóði áhugamála sem spönnuðu vítt svið, allt frá ljósmyndun yfir í kajakróður með tíðum skíðaferðum upp í Bláfjöll og hjólatúrum í nágrenni Reykjavíkur. Við þóttum sérlundaðir feðgarnir sem fórum allra okkar ferða á reiðhjólum fyrir nokkrum áratugum. Það einfaldlega tíðkaðist ekki og var nánast litið hornauga. Pabbi fór oftast sínar eigin leiðir og var lítið fyrir það að sýnast. Yfirborðsmennska, einkennisföt og glysgirni áttu ekki upp á pallborðið hjá honum. Rómantík, til að mynda, snerist í hans huga ekki um skraut og yfirborðskennt hjal heldur birtist hún í raunverulegri umhyggju þar sem hann af vandvirkni og alúð gætti að öryggi og vellíðan. Pabbi var nærgætinn en líka afar réttsýnn og átti erfitt með að umbera óheiðarleika í fari fólks. Hann stundaði af þeim sökum frekar einstaklingsíþróttir en hópíþróttir og hafði óbeit á stjórnmálum. Við bræðurnir gerðum okkar til að smita pabba af eigin áhuga á boltaíþróttum og drógum hann yfirleitt að skjánum þegar Holland spilaði fótbolta. Hann átti rætur að rekja þangað í móðurætt og dáðist að stíl liðsins en staðnæmdist jafnan við svindlið og leikaraskapinn sem í fótboltanum er landlægur. Pabbi dáðist samt alltaf að líkamlegu atgervi íþróttamanna, hvar sem það birtist, þó einkum fimleikafólks, dansara og bardagakappa og hafði sérstakan áhuga á liðleika og styrk. Áhuginn birtist einnig í dálæti hans á vestrum, karatemyndum og kvikmyndum þar sem hefðbundin karlmennska fær svigrúm til að njóta sín. Eftirlætisleikarar hans voru menn fárra orða, sem gengu hreint til verks, eins og Clint Eastwood, Paul Newman og Bruce Lee. Listrænar kvikmyndir höfðuðu síður til pabba nema kvikmyndatakan væri þeim mun eftirtektarverðari (þá fékk sín vel notið listrænt auga hans). Pabbi hafði einfaldar en skýrar lífsskoðanir. Matur var honum fyrst og fremst næring (mömmumatur var samt alltaf í uppáhaldi). Hann drakk vatnið volgt (helst við stofuhita) en kaffið heitt (helst úr heitum bolla) og unni þögninni umfram nokkra tónlist. Þó hreifst hann með þeim tónlistarmönnum sem tjáðu sig áreynslulaust og afslappað (upp í hugann koma Ivan Rebroff, Pavarotti og Harry Belafonte og ýmsir stimamjúkir karlakórar). Pabbi var glettinn og hafði sérstaka ánægju af orðaleikjum og útúrsnúningum og gat lengi hlegið að góðum brandara (Ekki er jakki frakki, nema síður sé!). Hann var jarðbundinn og fannst náttúrulífsmyndir mun áhugaverðari en fantasíur og kunni betur að meta raunsæismálverk en óhlutbundna list. Hann aðhylltist hvorki háleita heimspeki né sérstakar trúarskoðanir en var opinn fyrir skoðunum annarra. Sjálfur sagðist pabbi einfaldlega vera "skynsemistrúar". Hann naut sín alla tíð vel undir beru lofti, helst í náttúrunni, og þegar hann glímdi við tækni og hvers konar viðgerðir. Pabbi lifði lífi sínu af öryggi og varfærni, var forsjáll, fyrirhyggjusamur og lausnamiðaður. Hann gat verið hlédrægur, steig varlega til jarðar í allri ákvarðanatöku og var akkerið í samvinnu hans og mömmu (sem bjó í staðinn yfir meiri félagslegum drifkrafti). Saman bættu þau hvort annað upp svo eftir var tekið og báru virðingu fyrir þörfum hvors annars. Pabbi var alla tíð mikill dugnaðarforkur. Það var því þeim mun sársaukafyllra að horfa upp á hann, klettinn í fjölskyldunni, veikjast smátt og smátt og fylgjast með hvernig kvarnaðist upp úr sjálfsmyndinni þegar hann hætti að ráða við venjubundin verkefni. Við fórum, eftir því sem veikindin ágerðust, að hlífa honum við reddingum sem áður höfðu verið minniháttar svo að hann upplifði ekki hugarvíl af óvissu og ráðaleysi. Alzheimer er skelfilegur sjúkdómur og ræðst í áföngum að rótum persónuleikans. Boðleiðir heilans rofna, minningar hverfa og hömlur í samskiptum geta í sumum tilvikum bælst. Þannig geta stundum opinberast óvæntar og jafnvel óþægilegar hliðar á persónuleikanum. Þannig fór sem betur fer ekki fyrir pabba. Fyrir það erum við þakklát. Það losnaði reyndar aðeins um vissar hömlur, ábyrgðarkennd og aga, þannig að hann gerðist óvænt meiri barnagæla og almennt galsafyllri en við höfðum vanist en hann hélt blessunarlega áfram að vera gamli góði pabbi; vinnusamur, yfirvegaður, rólyndur og notalegur. Það var alltaf undarlega mikill friður yfir honum í hvert sinn sem ég heimsótti hann á Skógarbæ, þar sem hann dvaldi síðustu æviárin. Það var nánast eins og hann fyndi fyrir nýju jafnvægi, án orða. Þannig ferðaðist hann á endanum, yfirvegað og með djúpum markvissum andardrætti, yfir í nýjan heim á nýársdag.



Þú styrkir mig, ég stend á hæstu tindum.
Þú styður mig í gegnum hverja þraut.
Þú gefur þyrstum veig af lífsins lindum.
Þú leiðir mig á gæfu minnar braut.
( Hjálmar Jónsson)

Ég er þakklátur. Ég þakka fyrir að hafa átt góðan pabba. Ég þakka fyrir að hafa haft hann svona lengi með mér og er feginn því að hann þjáðist ekki mikið undir það síðasta. Ég er líka þakklátur fyrir tækifærin sem ég fæ á hverju nýju ári héðan í frá til að endurnýja stolt mitt yfir að fá að bera einstakt föðurnafn. Berghreinsson. Takk fyrir pabbi. Takk fyrir allt.




Þorsteinn Guðni Berghreinsson.

Sérhvert upphaf nýs árs mun héðan í frá, óhjákvæmilega, vekja upp sterka minningu um pabba og öll þau góðu gildi sem hann stóð fyrir. Hann andaðist að morgni nýársdags aðframkominn eftir áralanga sligandi samfylgd alzheimers sem miskunnarlaust yfirtók alla starfsemi hægum skrefum. Lífið skuldar engum svo sem neitt. Það eitt að fæðast er blessun. Engu að síður sækir á mann ónotaleg vanmáttarkennd við tilhugsunina um það hvernig maður eins og pabbi, sem dag hvern ræktaði heilsu sína af alúð, svona ótrúlega sanngjarn og gegnheill maður, skyldi á tiltölulega skömmum tíma tapa heilsunni, í hugarþoku. Í minningunni leiftra samt ótal myndir af einstaklega góðri manneskju sem alla tíð lagði sig fram af miklum heilindum um að reynast fjölskyldu sinni og öðrum samferðamönnum vel. Pabbi var svo margt. Hann var hreystimenni og okkur börnunum mikil fyrirmynd í lífsstíl og hollum lífsháttum. Aðspurður hvers vegna hann tæki ekki þátt í skemmtanalífinu af sama krafti og aðrir, svaraði hann einatt: Ég er áhugamaður um vellíðan. Hann hafði einfaldan smekk og var látlaus í orðum og æði. Á sama tíma var hann óttalegur dellukarl og bjó að ríkum sjóði áhugamála sem spönnuðu vítt svið, allt frá ljósmyndun yfir í kajakróður með tíðum skíðaferðum upp í Bláfjöll og hjólatúrum í nágrenni Reykjavíkur. Við þóttum sérlundaðir feðgarnir sem fórum allra okkar ferða á reiðhjólum fyrir nokkrum áratugum. Það einfaldlega tíðkaðist ekki og var nánast litið hornauga. Pabbi fór oftast sínar eigin leiðir og var lítið fyrir það að sýnast. Yfirborðsmennska, einkennisföt og glysgirni áttu ekki upp á pallborðið hjá honum. Rómantík, til að mynda, snerist í hans huga ekki um skraut og yfirborðskennt hjal heldur birtist hún í raunverulegri umhyggju þar sem hann af vandvirkni og alúð gætti að öryggi og vellíðan. Pabbi var nærgætinn en líka afar réttsýnn og átti erfitt með að umbera óheiðarleika í fari fólks. Hann stundaði af þeim sökum frekar einstaklingsíþróttir en hópíþróttir og hafði óbeit á stjórnmálum. Við bræðurnir gerðum okkar til að smita pabba af eigin áhuga á boltaíþróttum og drógum hann yfirleitt að skjánum þegar Holland spilaði fótbolta. Hann átti rætur að rekja þangað í móðurætt og dáðist að stíl liðsins en staðnæmdist jafnan við svindlið og leikaraskapinn sem í fótboltanum er landlægur. Pabbi dáðist samt alltaf að líkamlegu atgervi íþróttamanna, hvar sem það birtist, þó einkum fimleikafólks, dansara og bardagakappa og hafði sérstakan áhuga á liðleika og styrk. Áhuginn birtist einnig í dálæti hans á vestrum, karatemyndum og kvikmyndum þar sem hefðbundin karlmennska fær svigrúm til að njóta sín. Eftirlætisleikarar hans voru menn fárra orða, sem gengu hreint til verks, eins og Clint Eastwood, Paul Newman og Bruce Lee. Listrænar kvikmyndir höfðuðu síður til pabba nema kvikmyndatakan væri þeim mun eftirtektarverðari (þá fékk sín vel notið listrænt auga hans). Pabbi hafði einfaldar en skýrar lífsskoðanir. Matur var honum fyrst og fremst næring (mömmumatur var samt alltaf í uppáhaldi). Hann drakk vatnið volgt (helst við stofuhita) en kaffið heitt (helst úr heitum bolla) og unni þögninni umfram nokkra tónlist. Þó hreifst hann með þeim tónlistarmönnum sem tjáðu sig áreynslulaust og afslappað (upp í hugann koma Ivan Rebroff, Pavarotti og Harry Belafonte og ýmsir stimamjúkir karlakórar). Pabbi var glettinn og hafði sérstaka ánægju af orðaleikjum og útúrsnúningum og gat lengi hlegið að góðum brandara (Ekki er jakki frakki, nema síður sé!). Hann var jarðbundinn og fannst náttúrulífsmyndir mun áhugaverðari en fantasíur og kunni betur að meta raunsæismálverk en óhlutbundna list. Hann aðhylltist hvorki háleita heimspeki né sérstakar trúarskoðanir en var opinn fyrir skoðunum annarra. Sjálfur sagðist pabbi einfaldlega vera "skynsemistrúar". Hann naut sín alla tíð vel undir beru lofti, helst í náttúrunni, og þegar hann glímdi við tækni og hvers konar viðgerðir. Pabbi lifði lífi sínu af öryggi og varfærni, var forsjáll, fyrirhyggjusamur og lausnamiðaður. Hann gat verið hlédrægur, steig varlega til jarðar í allri ákvarðanatöku og var akkerið í samvinnu hans og mömmu (sem bjó í staðinn yfir meiri félagslegum drifkrafti). Saman bættu þau hvort annað upp svo eftir var tekið og báru virðingu fyrir þörfum hvors annars. Pabbi var alla tíð mikill dugnaðarforkur. Það var því þeim mun sársaukafyllra að horfa upp á hann, klettinn í fjölskyldunni, veikjast smátt og smátt og fylgjast með hvernig kvarnaðist upp úr sjálfsmyndinni þegar hann hætti að ráða við venjubundin verkefni. Við fórum, eftir því sem veikindin ágerðust, að hlífa honum við reddingum sem áður höfðu verið minniháttar svo að hann upplifði ekki hugarvíl af óvissu og ráðaleysi. Alzheimer er skelfilegur sjúkdómur og ræðst í áföngum að rótum persónuleikans. Boðleiðir heilans rofna, minningar hverfa og hömlur í samskiptum geta í sumum tilvikum bælst. Þannig geta stundum opinberast óvæntar og jafnvel óþægilegar hliðar á persónuleikanum. Þannig fór sem betur fer ekki fyrir pabba. Fyrir það erum við þakklát. Það losnaði reyndar aðeins um vissar hömlur, ábyrgðarkennd og aga, þannig að hann gerðist óvænt meiri barnagæla og almennt galsafyllri en við höfðum vanist en hann hélt blessunarlega áfram að vera gamli góði pabbi; vinnusamur, yfirvegaður, rólyndur og notalegur. Það var alltaf undarlega mikill friður yfir honum í hvert sinn sem ég heimsótti hann á Skógarbæ, þar sem hann dvaldi síðustu æviárin. Það var nánast eins og hann fyndi fyrir nýju jafnvægi, án orða. Þannig ferðaðist hann á endanum, yfirvegað og með djúpum markvissum andardrætti, yfir í nýjan heim á nýársdag.



Þú styrkir mig, ég stend á hæstu tindum.
Þú styður mig í gegnum hverja þraut.
Þú gefur þyrstum veig af lífsins lindum.
Þú leiðir mig á gæfu minnar braut.
( Hjálmar Jónsson)

Ég er þakklátur. Ég þakka fyrir að hafa átt góðan pabba. Ég þakka fyrir að hafa haft hann svona lengi með mér og er feginn því að hann þjáðist ekki mikið undir það síðasta. Ég er líka þakklátur fyrir tækifærin sem ég fæ á hverju nýju ári héðan í frá til að endurnýja stolt mitt yfir að fá að bera einstakt föðurnafn. Berghreinsson. Takk fyrir pabbi. Takk fyrir allt.




Þorsteinn Guðni Berghreinsson.