Kristján Friðbergsson fæddist í Reykjavík 5. júní 1930. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 4. ágúst 2016.
Foreldrar hans voru Friðberg Kristjánsson frá Hellisandi, f. 1. febrúar 1905, d. 10. september 1989, og Guðrún Guðmundsdóttir frá Ísafirði, f. 23. nóvember 1906, d. 15. ágúst 1984. Systkin Kristjáns eru: Geir, f. 2.1. 1932, d. 19.2. 1997, Edda Bakke, f. 23.3. 1941, og Guðni Gils, f. 1.7. 1945.
Kristján kvæntist árið 1953 Hönnu G. Halldórsdóttur, f. 28. september 1931, d. 24. mars 1992. Kristján og Hanna eignuðust tvo syni. Þeir eru: 1) Guðni G. Kristjánsson, f. 5.9. 1953, kvæntur Kirsten B. Larsen, f. 27.12. 1949. Börn þeirra eru: a) Karl Jóhann, f. 26.3. 1981. b) Anna Brödsgaard, f. 18.8. 1982, maki Klaus Aspli. Þau eiga tvö börn. c) Sonja Brödsgaard, f. 21.2. 1985, maki Birgir W. Óskarsson. Þau eiga tvö börn. d) Kristína Guðrún, f. 24.3. 1987, maki Aaron Peltonen, þau eiga eitt barn. d) Hanna Lilja, f. 17.6. 1991. 2) Halldór J. Kristjánsson, f. 13.1. 1955, kvæntur Karólínu F. Söebech, f. 5.4. 1964. Börn þeirra eru: a) Hanna Guðrún, f. 10.9. 1989, b) Kristján Guðmundur, f. 19.9. 1991. Auk sona sinna tóku Hanna og Kristján mörg börn í fóstur á árnum 1965 til 1972 og gengu mörgum þeirra í foreldrastað er fram liðu stundir.
Þann 1. maí 1996 kvæntist Kristján eftirlifandi eiginkonu sinniUnni Halldórsdóttur, f. 3. september 1941. Börn Unnar frá fyrra hjónabandi eru Lamont Halldór Murdoch, f. 1966, Ann Heiðrún Negladuik, f. 1968, William Björn Leví, f. 1970, John Todd Murdoch, f. 1974. Unnur á þrjú barnabörn.
Kristján ólst upp við ýmis störf til sjávar og sveita en eftir að hann kvæntist Hönnu stofnuðu þau heimili, fyrst í Reykjavík en síðar í Vestmannaeyjum þar sem Kristján sinnti verslunarstörfum. Á árunum 1961 til 1963 dvöldu þau hjónin í Kaupmannahöfn þar sem Kristján var við nám og störf. Eftir heimkomu frá Danmörku starfaði Kristján hjá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur og Fangahjálpinni Vernd og kynntist vel högum fjölskyldna sem bjuggu við erfiðar aðstæður. Árið 1964 festu Kristján og Hanna kaup á öllum húsum á jörðinni Kumbaravogi við Stokkseyri og réðust í gagngerar endurbætur á húsakosti. Þar settu þau á fót fjölskylduheimilið Kumbaravog árið 1965 fyrir börn sem vegna fjölskylduaðstæðna gátu ekki dvalið hjá eigin foreldrum. Árið 1975 stofnsettu þau dvalar- og hjúkrunarheimili fyrir aldraða á Stokkseyri. Ásamt starfseminni á Kumbaravogi stofnuðu Hanna og Kristján dvalarheimilið Fell í Skipholti 21 í Reykjavík. Árið 1970 stofnsettu þau innflutnings- og framleiðslufyrirtækið Baldur sf. sem Kristján rak fram á síðasta dag, hin síðari ár ásamt Unni. Kristján var alla tíð virkur í söfnuði Sjöunda dags aðventista og fékk ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín að atvinnu- og félagsmálum á Stokkseyri. Kristján stofnaði Menningarsjóð Kumbaravogs árið 1990 sem veitti fjármunum til ýmissa góðgerðarverkefna til stuðnings börnum, ásamt því að styðja ungmenni til náms.
Útför Kristjáns verður gerð frá Selfosskirkju í dag, 12. ágúst 2016, klukkan 13.30.

Kristján á Kumbaravogi var hluti af lífi mínu í hartnær hálfa öld, ýmist í forgrunni eða bakgrunni. Nú þegar þessi úrræðagóði maður, óhagganlegi bústólpi, hefur lokið hérvist sinni, flæða fram ótal minningar frá ólíkum skeiðum ævinnar. Ég sá Kristján og konu hans, Hönnu, fyrst þegar ég stóð sjö ára gamall á hlaðinu á Kumbaravogi eftir að hafa kvatt mína indælu en lánlitlu foreldra. Þá þegar var ég orðinn dálítill óbóklærður sérfræðingur um íslenskar uppeldisstofnanir og uppeldisaðferðir hafandi haft margar viðkomur í ólíkum vöggustofum og vistheimilum landsins.
Hjá Hönnu og Kristjáni var allt með öðru sniði en ég átti að venjast. Þau gáfu sig heil og óskipt að því verkefni að skapa stórum barnahópi bjart og snyrtilegt heimili þar sem reglusemi ríkti og allir höfðu nóg fyrir stafni í leik og starfi. Snemma fundum við að þessum hjónum gátum við treyst. Þau voru alltaf til staðar, tóku sér aldrei frí frá uppeldinu. Í sonum þeirra, Halla og Guðna, eignuðumst við líka eldri fósturbræður sem við litum upp til. Frá upphafi var áhersla lögð á menntun, heilbrigt líferni og ferðalög um náttúru Íslands. Hjá þeim lærðum við að sjálfstraustið eflist við hvert leyst verkefni og hverja unna þraut. Við byggðum kofa, ræktuðum garða, sáum um hænsnin, og lékum okkur í Stokkseyrarfjörunni og móunum landmegin við Kumbaravog, þar sem fuglalífið var ævintýralega fjölbreytt. Tilkomumesta sjónarspilið var hafið við klettótta ströndina. Að sjá spýting breytast í skarðalaust brim sem kom æðandi á móti ungum dreng, var ógleymanleg sjón. Þá var gott að vera snar í snúningum og rata á skerjunum aftur upp í fjöru. Betri stað fyrir heimili fullt af fjörmiklum krökkum gátu Hanna og Kristján vart hafa valið.
Þegar ég flutti aftur til minna elskulegu foreldra í Reykjavík, fimmtán ára gamall, fann ég að ég hafði lært að treysta á sjálfan mig. Það fékk ég líka að heyra frá öðrum. Gömul refaskytta á Vestfjörðum sem ég vann með í saltfiski sagði við mig svo aðrir heyrðu að það væri augljóst á öllu að ég kynni vel til verka. Þá varð mér hugsað til fósturforeldra minna. Síðan hófst flakk um menntastofnanir heimsins og samskiptin við Hönnu og Kristján urðu stopul um tíma. En þegar ég sneri heim frá námi erlendis tók ég aftur upp þráðinn, og heimsótti þau reglulega á Kumbaravog. Skömmu síðar lést Hanna og var hún öllum sem hana þekktu harmdauði, en birtu og yl stafar enn frá hverri minningu um þessa góðhjörtuðu og göfugu konu.
Nú hófst annar kafli í samskiptum mínum við Kristján. Ég fékk að kynnast honum sem mildum og eftirlátssömum afa og töluvert afslappaðri húmorista en mig hafði rekið minni til að hann væri þegar ég var að slíta barnsskónum á Stokkseyri. Hann varð maðurinn sem kom með páskaegg handa ófermdum barnabörnum sínum, mætti í fermingar og giftingar og hélt höfðinglegar veislur á annan dag jóla. Þannig hélt hann hópnum öllum saman og gat fylgst með framvindunni hjá nýjum fjölskyldumeðlimum sem áttu rætur að rekja til Kumbaravogs. Vart er hægt að hugsa sér betra ævikvöld en að sjá ný börn verða til og þroskast, og vita að maður á hlut í gæfu þeirra. Öfundsvert að sigla inn í rökkur efstu áranna með slíka ljósgeisla í kringum sig. En enginn veit sína ævi fyrr en öll er.
Síðasti kaflinn í samskiptum okkar Kristjáns hófst þegar hann þurfti fyrirvaralaust að svara fyrir ævistarf sitt og Hönnu undir gagnrýninni orrahríð fjölmiðla. Það öfugsnúna moldviðri sem tíðarandinn magnaði upp reyndi á þolrifin og hefði gengið mjög nærri honum ef ekki hefði komið til óbilandi stuðningur og ást Unnar, seinni konu hans, ásamt seiglunni sem bjó í innstu innum hans sjálfs, og Unnur laðaði fram aftur og aftur. Fósturbörn hans veittu honum líka flest mikinn stuðning. Sjálfur fékk ég ófá tækifæri til að setjast niður með honum, ræða liðna tíð, greina sundur rakalausar aðfinnslur, reyna að skilja, finna svör, og, eins hátíðlega og það kann að hljóma, fá botn í tilveruna. Kristján var mikill lífsspekingur sem vakti yfir hugskoti sínu, fór ekki með fleipur, en meinti það sem hann sagði. Hann hallmælti ekki öðrum í mín eyru og var óhræddur við að skoða allar hliðar erfiðra mála. Ég fann hvernig vinátta okkar dýpkaði eftir því sem samræður okkar teygðu sig yfir fleiri misseri. Á þessu lokaskeiði ævi hans, lærði ég að endingu mest af Kristjáni, ekki síst um hvernig haga beri seglum í mótvindi af fullri sjálfsvirðingu og sanngirni gagnvart öðrum. Það er með djúpum söknuði og þakklæti sem ég kveð Kristján fóstra minn og vin. Blessuð sé minning góðs manns.





Róbert H. Haraldsson.