Pedro Ólafsson Riba, Pétur Ólafsson, fæddist 22. október 1935 í Barcelona, Katalóníu á Spáni. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 17. desember 2017.Foreldrar hans voru José Magrina Riba, tónlistarmaður og hljóðfæraleikari, fæddur í Vilanova y La Geltrú, Katalóníu, 2. október 1907, látinn í Reykjavík 16. mars 1995, og Maja Pétursdóttir Ólafsson, áður Bendtsen, húsfreyja og bókasafnsfræðingur í Reykjavík, fædd 22. apríl 1908, látin 18. apríl 2005.
Pedro Riba var tvígiftur. Fyrri maki: Hrafnhildur Schram listfræðingur. Þau skildu 1976. Börn þeirra eru: 1) Hrafndís Tekla Pétursdóttir sálfræðingur. 2) Karl Pétursson öryrki.
Seinni maki: Hjördís Sveina Sigurgeirsdóttir húsfreyja. Þau skildu 1989. Börn: 1) Jósep Freyr Riba Pétursson sálfræðinemi. 2) Guðný Maja Riba Pétursdóttir kennari. 3) Rannveig Lilja Pétursdóttur Riba sjúkraliði. Stjúpsonur Pedros, sonur Hjördísar, er Auðunn Sigurður Hermannsson stýrimaður.
Bróðir Pedros var Jóhann Ólafsson Riba rafvirki, f. 9. maí 1941, d. 15. september 2008. Hálfbróðir Pedros var Hilmar Bendtsen, sonur Maju Olafsson. Hálfsystur Pedros eru Kristín Kristjánsdóttir og Bryndís Kristjánsdóttir.
Útförin fór fram 27. desember 2017.
Eitt sinn ákvað Kalli bróðir, sem er með Downs heilkenni, að hlaupast á brott af Hávallagötunni, þar sem við bjuggum með mömmu okkar eftir að þau pabbi skildu 1976. Lýst var eftir honum án árangurs en þegar leið á daginn hafði kollegi pabba samband frá röntgendeildinni, þar sem Kalli birtist í leit að pabba, með fullan poka af fiskibollum sem hann hafði verslað einhvers staðar á leiðinni. Pabbi giftist aftur og við eignuðumst þrjú hálfsystkini, sem ég verð ævinlega þakklát fyrir.
Eftir að ég hafði stundað háskólanám erlendis og flutti aftur heim, eignaðist pabbi sitt fyrsta barnabarn árið 2000. Þá styrktust feðginatengslin aftur en nánast var sambandið milli elsta sonar míns við afa sinn, af mínum þrem börnum. Skemmtilegt var sumarið 1999 þar sem við störfuðum saman á FSA, ég sem sálfræðingur á geðdeildinni. Árið 2005 ferðaðist hann með okkur fjölskyldunni til Egyptalands og sitja eftir dýrmætar minningar þaðan. Eftir þessa ferð höfum við alltaf ávarpað hvert annað sem binti (bint á arabísku er dóttir) og abi (faðir). Sjálfsagt ýtti það undir þessa hefð hjá okkur að maðurinn minn talar m.a. arabísku.
Pabbi var með mikinn húmor, glettinn og kom til dyranna eins og hann var klæddur. Hann var réttsýnn og samviskusamur. Lýsandi eru verðlaun sem hann fékk frá hinum lærða skóla, Menntaskólanum í Reykjavík, árið 1955, fyrir samviskusemi, kurteisi og stundvísi. Hann var vinamargur en samt sjálfum sér nægur. Hann hvatti okkur börnin og barnabörnin til að læra á hljóðfæri og sýndi starfi mínu og námi ávallt mikinn áhuga. Hann bar sérstakar taugar til Miðjarðarhafsins, þar sem hann fæddist og ólst upp í Barcelona til 15 ára aldurs. Hann dvaldi hvert sumar hjá föðurömmu sinni í fiskimannaþorpinu Villanova y Geltrú sem var fæðingarbær föðurafa míns, José Riba fiðluleikara. Árið 2009 bauð pabbi öllum börnum og barnabörnum í fjölskyldunni þangað í ferð, sem seint gleymist. Bróðir hans Jóhann Riba hafði látist 2008 og óskað þess, að sér gengnum, að ösku hans yrði dreift undan ströndum Spánar en sú ósk var uppfyllt í þessari ferð með dætrum Jóhanns og barnabörnum. Pabbi lýsti sjálfum sér sem sólarfíkli og sennilega hef ég erft þau gen.
Pabbi lét ekki deigan síga í baráttu sinni við krabbameinið og það í heil 16 ár. Hann hafði ávallt lifað hófsömu lífi með heilbrigðan lífstíl sem hann bjó lengi að og hann skokkaði í Kjarnaskógi þar til hnén leyfðu það ekki lengur. Síðastliðið vor var svo komið að hann fór að eiga erfitt með gang og hann saknaði þess sárlega að geta ekki synt lengur. Veikindin breyttu að nokkru viðhorfi hans til líðandi stundar. Hann var alltaf bjartsýnn og virkur í veikindum sínum og einsetti sér að njóta lífsins, ferðast og fræðast. Tók til að mynda aftur upp píanónám um sjötugt, sem hann hafði stundað við Tónlistarakademíu Barcelona sem unglingur. Hann lagði áherslu á að staðna aldrei eða hætta alveg störfum sínum og leit á það sem vörn gegn Alzheimer sjúkdómnum. Hann var farsæll í starfi sínu sem læknir langt fram á efri ár og var mikið í mun að skapa dýrmætar minningar með ástvinum sínum. Hann hefur ávallt verið mjög sjálfstæður og var sjálfbjarga fram á sumar með dyggri aðstoð og eftirliti systkina minna. Þakklát er ég fyrir þann gæðatíma saman á Akureyri með barnabörnum sl. sumar, stuttu áður en hann flutti suður til systur minnar í lok ágúst. Þegar þangað var komið hafði heilsunni hrakað, lagðist hann inn á krabbameinsdeild LSP og var tekin sú ákvörðum að hann færi á hjúkrunarheimili. Dvaldi hann á bið eftir hjúkrunarheimili á Heilbrigðistofnun Suðurlands þar til 12. desember sl. þegar hann var lagður aftur inn á 11E. Pabba er sárt saknað af barnabörnum og tengdasyni. Ég kveð þig, elsku pabbi minn, með fyrsta erindi úr þessum sígilda sálmi og er sannfærð um að þú dveljir á góðum stað, laus úr fjötrum líkamans sem því miður færðu þér aðeins sársauka og andlega þjáningu undir lokin.
Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum
lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum,
þar sem ég má næðis njóta.
(23. Davíðssálmur)
Þín dóttir
Hrafndís Tekla Pétursdóttir Riba.