Óskar Ólason málarameistari f: Eskifirði 13. apríl 1923 d: 27.ágúst 2010. Faðir: Óli Þorleifsson: 27. nóvember 1892 d: 6. október 1931 Móðir: Jóhanna Lára Guðjónsdóttir f: Vopnafirði 3. október 1900 d:17. apríl 1960 Alsystkin: 7 alsystkin öll látin, 1 hálfsystir sammæðra á lífi. Guðjón Björgvin Ólason 1921 - 1962 Hörður Ólason 1922 - 1963 Helga Óladóttir 1924 - 1999 Þorleifur Ólason 1925-? Jóhanna Lára Óladóttir 1925-? Erla Óladóttir 1927 - 1943 Óla Óladóttir 1931 - 1987 Ólafía K Óskarsdóttir 1936 Maki: Arnfríður Ísaksdóttir f: Seltjarnanesi 08.07.1930 d:21.05.2003 Börn: Óli Þorleifur, hann á með fyrri maka Jónínu Sigurjónsdóttur þrjú börn, þau Sigrúnu, Óskar Örn og Vilhjálm Snæ. Dóttir Óskars Arnar er Hrefna Sól. Björg Óskarsdóttir, maki er Sigurður Rúnar Jakobsson þau eiga tvö börn, Jakob Jóhannes og Óskar. Sambýliskona Jakobs er Dagmar Ögn Guðfinnsdóttir og eiga þau Véstein Rúnar. Sambýliskona Óskars er Sandra Rut Falk. Lára Óskarsdóttir, maki Ólafur Þór Jóelsson. Lára á þrjú börn með fyrri maka Gísla Kristjáni Birgissyni þau Erlu, Arnór, Kristján Helga og með núverandi maka á hún Friðrik Þór. Sambýliskona Arnórs er Þóra Ágústsdóttir og börn hans eru Birta Líf og Erpur. Helgi Rúnar Óskarsson, sambýliskona Bjarney Harðardóttir. Börn Helga með fyrri maka Ásdísi Ósk Erlingsdóttur eru Eva Sif, Sandra Björg, Ísak Óli og Arnfríður. Óskar lést að Sólvangi saddur lífdaga 87 ára að aldri. Útför Óskars fór fram í kyrrþey að eigin ósk.

Ég sit við rúmstokkinn og held um hendur föður míns, þessar merkilegu hendur. Mér verður hugsað til alls þess sem þessar hendur hafa áorkað. Þessar þreyttu hendur, sem nú vart hreyfast, eru lúnar og visnar vegna veikinda. Þær eru svo ólíkar þeim sterku og kraftmiklu höndum sem þær ávallt voru; en samt eru þær enn svo fallegar; fingurnir beinir, neglurnar snyrtilegar, æðarnar áberandi. Þó þær hafi að mestu misst máttinn bera þær vott um atorkusemi og kraft en jafnframt natni og fágun; það er ró yfir þessum höndum.

Saga þeirra er saga 87 ára gamals manns sem notaði hendurnar til að skapa, til að byggja, til að vinna, til að rækta, til að elska. Þessar hendur voru aðeins barnshendur þegar þær mokuðu af bryggjunni kolum sem höfðu fallið af vörubílspöllum svo hægt væri að halda hita á þessum höndum, sem og öðrum smáum höndum systkina, sem skulfu í kulda kreppunnar.

Þetta eru sömu hendurnar og tóku nokkrum árum seinna þéttingsfast um fallega konu sem vott um ást, þrá og umhyggju; þessar hendur tóku sér hamar í hönd og úr varð heimili; önnur verkfæri léku í þessum höndum og úr urðu fleiri hús, vinnustaðir og sumarhús.

Þessar hendur sköpuðu verðmæti fyrir litla fjölskyldu sem stækkaði og þær sköpuðu umhverfi jafnt heima fyrir sem og úti í náttúrunni sem fjölskylda og vinir fengu að njóta. Frá þessum höndum streymdu tilfinningar þegar þær opnuðust í stóran faðm sem í senn var þéttur, hlýr og verndandi. Slík faðmlög segja meira en nokkur orð.

En þessar hendur tjáðu ekki aðeins ást og hlýju í garð sinna nánustu; þær framkölluðu hugmyndir - drauma og veruleika á striga, þær sköpuðu list. Þær fóru stöðugt nýjar leiðir, þær reyndu að fóta sig í frumskógi hugmynda, reyndu að tjá það sem barðist um í brjósti manns, sem í senn var sterkur en jafnframt ótrúlega viðkvæmur. Þær hjálpuðu honum að fá útrás fyrir hæfileika sem hann vissi að byggi yfir, eða vissi hann það?

Hvenær er maður alveg viss? Hvenær trúir maður því að maður búi yfir einhverju einstöku? Einhverju sem er svo óáþreifanlegt; einhverju sem verður ekki neitt nema það fái tíma og yfirlegu og engan venjulegan tíma, heldur tíma þar sem hjarta manns og sál verður að vera undirorpið því verki sem tekist er á við í hvert skipti.

Ef við erum ekki viss, skapast innra með okkur togstreita; og þó við séum viss þá smýgur togstreitan í gegnum merg og bein því það eru fórnir; við þurfum að velja; við þurfum að velja á milli þess að fylgja því sem hjartað segir og því að eiga í okkur og á, og það fer ekki alltaf saman.

Við kveðjum hér mann sem hafði val rétt eins og við öll; hann valdi leið manns sem var markaður af fátækt, brotnu heimili, veikindum og dauðsföllum sinna nánustu langt um aldur fram; aldrei skyldi hann, né hans afkomendur upplifa annað eins - aldrei; allt myndi víkja til að tryggja að svo yrði ekki.

En togstreitan var þarna; hvað EF? Hvað ef ég myndi? Hvað ef ég hefði? Hvert hefði það leitt mig? Hvað hefði ég skapað? Hvað hefði ég skilið eftir?

Pabbi sagði ávallt: ef maður byggir ekki loftkastala, byggir maður enga kastala.

Og er það ekki stóra spurningin á þessum tímamótum? Hvað skiljum við eftir? Hvaða kastala byggðum við?

Kastalar pabba voru ekki bara veraldlegir; hann byggði kastala ástar, hlýju og umhyggju; hann byggði okkur börnunum og barnabörnum kastala minninga, minninga um ljúf æskuár sem í senn voru látlaus en samt svo margbreytileg; hann gekk í lið með náttúrunni og tókst að skapa með henni kastala sem mun ekki bara lifa skapara sinn heldur afkomendur hans um ókomna framtíð, rétt eins og alvöru kastalar gera; hann byggði kastala vonar á rústum vonleysis tregablandinar æsku.

Pabbi byggði líka kastala fegurðar í gegnum list sína og listsköpun og það var sá kastali sem olli honum ávallt mestri togstreitu.

Pabbi skilur eftir sig boðskap, boðskap til okkar allra; boðskap um það að horfa inn á við, djúpt inn á við og spyrja á sama tíma; hvaða kastala get ég byggt?

Hans boðskapur er spyrja okkur hvaða hæfileikar búa í sálu okkar; hvað var það sem Guð gaf okkur og verður aldrei frá okkur tekið?

Hann sýndi okkur líka að togstreitan er eðlilegur hluti lífins; frelsinu fylgja innri átök og pabbi sýndi okkur að hvert sem valið verður höfum við aðeins um einn kost að velja þegar við kveðjum og það er að vera sátt við þá kastala sem við byggðum.

Helgi Rúnar Óskarsson