Jóhanna Guðrún Sveinsdóttir fæddist 15.10. 1932 að Reynivöllum í Suðursveit. Hún lést 21. júní 2011. Foreldrar hennar voru Sveinn Mikael Einarsson, f. 1900, d. 1988 og Auðbjörg Jónsdóttir, f. 1896, d. 1993. Bróðir Guðrúnar var Þorgils Bjarni Sveinsson, fæddur að Sandfelli í Öræfum, f. 1934, d. 1996. Hjónin Sveinn og Auðbjörg flytja að Sléttaleiti árið 1935, þegar Guðrún er á þriðja ári, og búa þar fram til 1951 að þau flytjast að Dynjanda í Nesjum en þaðan á Höfn í Hornafirði þar sem þau bjuggu til æviloka. Eiginmaður Guðrúnar var Jóhann Karl Stefán Albertsson f. 1904, d. 1992, hafnsögumaður, frá Lækjarnesi í Nesjum, þau voru gefin saman 1951 og bjuggu fyrst í Lækjarnesi en fluttu 1954 á Höfn. Fósturdætur þeirra Guðrúnar og Jóhanns eru Jóna Myrtle Ryan, f. 25.11. 1955, og Elín Mazelma Ryan, f. 12.8. 1954. Vinur Guðrúnar og sambýlismaður um tíma síðustu árin var Jón Jóhannes Sigurðsson, f. 1930, d. 2007. Útför Guðrúnar fór fram í kyrrþey.
Jóhanna Guðrún Sveinsdóttir fæddist að Reynivöllum í Suðursveit 15.
október 1932. Foreldrar hennar voru Sveinn Mikael Einarsson og Auðbjörg
Jónsdóttir en Sveinn var bróðir Brynjólfs föur míns. Sveinn og Auðbjörg
fluttu að Sléttaleiti í Suðursveit. Þar ólst Gunna upp ásamt Bjarna bróður
sínum. Þau kynntust sveitastörfum þess tíma þegar handaflinu var beitt við
flest störf. Ekki var Sléttaleiti nein kosta jörð ekki hafði verið búið þar
nema frá árinu 1829 en það ár fór bærinn Steinar austan undir Steinafjalli,
en flóð tók bæinn. Hjónin bjuggu um sig í stórgrýti undir fjallshlíðinni og
þar ól kona barn. Hjónin byggðu bæ dálítið vestar í urðinni undir
Steinafjalli sem þau kölluðu Sléttaleiti. Var sú nafngift með ólíkindum í
þessu umhverfi. Þarna bjó lengi langalangafi okkar frændsystkina Þorsteinn
Sigurðson skipasmiður frá Steig í Mýrdal og kona hans Guðný Einarsdóttir
frá Skógum undir Eyjafjöllum. Löngu seinna settist Sveinn og fjölskylda þar
að. Síðar byggið hann steinhús að Sléttaleiti sem flestir vegfarendur sáu
eins og kastalarúst upp í hlíðinni þegar ekið var fram hjá.
Árið 1951 fluttu Sveinn og Auðbjörg að Dynjanda í Nesjum ásamt börnum
tveim. Þegar þau brugðu búi þar og settust að á Höfn tók Sveinn allt timbur
úr húsunum á Sléttaleiti og gerði sér fjárhús.
Þegar Gunna frænka var 17 ára kom hún til Vestmannaeyja til að taka
landspróf í Gagnfræðaskóla Vm. Hún bjó hjá foreldrum mínum. Hún var afar
námsfús og átti gott með að læra. Handavinna var henni auðveld og saumaði
hún stássdúk fyrir konuna mín og mátti vart sjá hvað var rétta eða ranga á
dúknum.
Þegar Hálfdán bróðir minn drukknaði með Helga Ve 333 við Faxasker var Gunna
nýkomin í heimilið. Af þeim sökum lenti hún inn í þennan sorgarferil og var
þetta ekki síður áfall fyrir hana. Þá kom sér vel að í næsta nágrenni átti
heima ung stúlka, Guðlaug Sigurðardóttir, sem tók hana að sér í frístundum
meðan þetta sorgarástand varði. Með þeim var ætíð vinátta síðan. Gunna var
hjá okkur tvo vetur og var alla tíð gott samband milli hennar og
fjölskyldunnar. Eftir landspróf giftist Gunna Jóhanni Albertssyni lóðs á
Höfn. Þeim varð ekki barna auðið en tóku tvær systur í fóstur, þær Jónu og
Elínu. Líklega kom Gunna tvisvar til Eyja eftir það þegar þau Jóhann komu
með stelpurnar með sér, þá á leið austur með skipi. Í seinna skiptið þegar
faðir minn var jarðaður árið 1996. Þá var með henni í för Sigrún
Þorseinsdóttir sem einnig var bróðurdóttir föður míns.
Ég reyndi að heimsækja Gunnu eins oft og unnt var. Einu sinni hittumst
við á skemmtun eldri borgara á Höfn. Við dönsuðum saman og var hún svo létt
í dansi að það var eins og hún hafði aldrei gert neitt annað en dansa. Árið
2001 hitti ég Gunnu og dætur hennar á ættarmóti afkomenda afa okkar og ömmu
Einars og Guðnýjar á Hofi í Öræfum en þar var afi fæddur.
Gunna vann lengi í Kaupfélaginu á Höfn og þótti afar lipur við afgreiðslu.
Hún var ætíð létt á fæti og leysti vel af hendi sitt starf. Síðar setti hún
upp handavinnubúð heima hjá sér að Höfðavegi 9 á Höfn. Um árabil sinnti hún
líka veðurmælingum fyrir Veðurstofu Íslands.
Fyrir þremur árum gisti ég hjá Gunnu. Það endaði með því að hún fór með mér
norður. Í þeim túr heimsóttum við Þórunni frænku okkar og Albert Kemp á
Fáskrúðsfirði, einnig Önnu systur Þórunnar á Reyðarfirði. Við gistum á
Egilstöðum hjá bróðurdætrum mínum. Á Akureyri dvaldi hún hjá mér, dóttur
minni og tengdasyni um tíma. Þar naut hún lífsins og fór m.a með mér í
Víðilund, félagsmiðstöð eldri borgara og ekki vantaði hana dansherrana þar.
Hún fór síðan suður með dóttur minni og tengdasyni þar sem tók við henni
Sigurjón sonur Jóns frá Merki í Borgarfirði eystra og ók með hana aftur til
Hafnar. Jón var ferðafélagi Gunnu um árabil eftir að hún hafði misst
eiginmann sinn, foreldra og bróður.
Ekki var frænku minni fisjað saman en hún reisti sumarhús á bæjarstæði Sléttaleitis og þegar hún naut ekki Jóns lengur við sakir heilsuleysis hans þá gaf hún bústaðinn Rithöfundasambandi Íslands í minningu foreldra sinna og Einars Braga rithöfundar en við vorum öll syskinabörn. Borghildur móðir hans var systir Sveins föður Gunnu og Brynjólfs föður míns.
Gunna átti við veikindi að stríða seinni hluta æfi sinnar og var oft inn
á sjúkrastofnunum og síðustu árin nær alveg föst við hjúkrunarheimilið á
Höfn.
Ég hitti hana í síðasta sinn fyrir ári síðan er ég fór til Hafnar með
tengdasyni mínum. Þá spilaði ég á harmónikuna fyrir hana og aðra sem þar
dvöldust.
Þetta eru helstu minningar mínar um Gunnu frænku. Drottinn blessi minningu
hennar. Ég mun ætíð sakna hennar. Hinsta kveðja frá dóttur minni Hrefnu
Brynju og Snorra tengdasyni mínum.
Gísli H. Brynjólfsson, áður í Vestmannaeyjum.