Vignir Þorbjörnsson fæddist á Höfn í Hornafirði 25. júní 1947. Hann lést á hjúkrunarheimilinu á Hornafirði 2. janúar 2019.
Foreldrar hans voru Ágústa Margrét Vignisdóttir húsfreyja, f. 4. ágúst 1923, d. 31. maí 2015, og Þorbjörn Sigurðsson, flugvallarstarfsmaður og vitavörður, f. 7. febrúar 1918, d. 16. apríl 1988. Vignir var annar í röð sex bræðra, hinir eru Sigurbergur, f. 1946, d. 2007, Ólafur Björn, f. 1948, Örn Þór, f. 1951, Ágúst Hilmar, f. 1952, d. 2010, og Guðjón Hermann, f. 1962.
Eiginkona Vignis er Sigríður Ragnhildur Eymundsdóttir, f. í Dilksnesi 22. desember 1948. Foreldrar hennar voru Helga Bjarnadóttir húsfreyja, f. 17. janúar 1909, d. 6. apríl 1996, og Eymundur Björnsson bóndi, f. 15. nóvember 1898, d. 12. mars 1996. Vignir og Ragna gengu í hjónaband 27. desember 1969 og eignuðust þau tvö börn. Þau eru: 1) Helga Guðlaug f. 8. febrúar 1969. Eiginmaður hennar er Borgar Antonsson og eru börn þeirra: Ragnhildur Lind, f. 1989. Sonur hennar er Böðvar og fósturdóttir Gullveig Katrín. Brynja Rut, f. 1992. Sambýlismaður hennar er Sindri Snær. Vigdís María, f. 1995. Aron Freyr, f. 2005. Vignir Snær, f. 2007. 2) Þorbjörn, f. 23. september 1970, eiginkona hans er Jónína Ó. Kárdal, f. 8. nóvember 1966. Dætur þeirra eru Helga Fanney, f. 2003, og Hugrún, f. 2006.
Vignir byrjaði ungur að aldri að aðstoða föður sinn og afa við afgreiðslu flugvéla á Hornafirði og tók hann síðar við sem umdæmisstjóri á flugvellinum á Hornafirði eftir að hann hafði lokið landsprófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni og samvinnuskólaprófi frá Samvinnuskólanum á Bifröst. Alls áttu árin á launaskrá hjá hinum ýmsu flugfélögum, þá aðallega Flugfélagi Íslands og flugfélaginu Erni, allt í allt eftir að verða 53 en hann starfaði á flugvellinum allt þar til hann hætti störfum sökum aldurs 1. desember 2015. Meðfram flugafgreiðslunni vann Vignir ýmis störf, til dæmis við vitavörslu, eldsneytisafgreiðslu og fleira. Vignir sat í hreppsnefnd og ýmsum öðrum nefndum á Hornafirði um árabil.
Útförin fór fram í kyrrþey.


Látinn er góður vinur og skólabróðir, eftir baráttu við illvígan sjúkdóm. Ég vil fyrir hönd okkar bekkjarsystkinanna minnast hans með nokkrum orðum. Það var haustið 1965 að kynni okkar hófust. Við vorum að hefja nám við Samvinnuskólann á Bifröst. Fljótlega kom í ljós, að Vignir hafði einstaklega góða nærveru. Hann var glettinn og hafði oft hnyttin tilsvör og athugasemdir við það sem rætt var um hverju sinni og varð fljótlega vinsæll í hópi skólasystkina. Hann var frá Hornafirði og var mjög stoltur af heimaslóðum sínum. Þar væru hlutirnir í góðu lagi, eflaust mun betri en víðast hvar annars staðar.

Á þessum tíma byrjaði Samvinnuskólinn fyrr á haustin en aðrir skólar og var alltaf slitið 1. maí á afmælisdegi Jónasar frá Hriflu, stofnanda skólans. Námsefni var mikið og fjölbreytt og var full kennsla sex daga vikunnar. Nemendur þurftu því að halda sig vel að náminu, enda var ekki annað í boði hjá skólastjóranum sr. Guðmundi Sveinssyni. Vignir var duglegur og góður námsmaður og þátttaka hans í skólalífinu var einnig mikil. Hann var virkur í útivistinni, tók til máls á málfundum skólafélagsins og eftirminnileg var þátttaka hans í söngkeppni skólans, þegar hann söng lagið um Ólaf sjómann með miklum tilþrifum svo nokkuð sé nefnt. Skólaárið 1966-1967 urðum við Vignir herbergisfélagar ásamt Jörundi Ákasyni, sem starfaði lengst af sem kennari, en lést árið 2016. Þetta var gott samfélag og við herbergisfélagarnir allir góðir vinir. Stundum var tekist á um landsmálin, en Vignir keypti Morgunblaðið sem sannur Sjálfstæðismaður og voru m.a. leiðarar blaðsins teknir fyrir stöku sinnum. Vignir varðist að sjálfsögðu fimlega eins og honum var einum lagið. Við útskrifuðumst svo frá Bifröst vorið 1967. Vignir fór að sjálfsögðu beint heim til Hafnar í Hornafirði, en undirritaður lenti óvænt til Fáskrúðsfjarðar og varð þar nokkuð lengur en áætlað var. Það var því tiltölulega stutt á milli okkar félaganna eftir skólaárin.

Vignir vann allan sinn starfsaldur á flugvellinum á Hornafirði sem umdæmisstjóri eða í 53 ár, fyrst hjá Flugfélagi Íslands og síðar hjá arftökum þess. Hann var mjög vel látinn í starfi og heyrði ég það m.a. hjá Kristjáni heitnum Egilssyni flugstjóra hversu gott var að koma á Hornafjörð og njóta þjónustu og samskipta við Vigni á flugvellinum. Vignir var reyndar þriðji ættliður sem þjónustaði flug til Hornafjarðar, en áður hafði afi hans, Sigurður Ólafsson og síðar faðir hans, Þorbjörn Sigurðsson, annast þessa þjónustu og enn mun þessu starfi sinnt innan fjölskyldunnar.

Vignir og hans góða kona, Ragna, reistu sér fyrst hús á Höfn en fluttu 1980 í annað hús sem þau höfðu byggt í Nesjahreppi rétt fyrir utan Höfn og nefndu Holt. Fleiri ættmenni Vignis og Rögnu reistu einnig hús á þessum slóðum, enda eru húsin í landi Hjarðarness á æskuslóðum Rögnu. Vignir átti sæti í hreppsnefnd Hafnarhrepps sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins um skeið og sat í ýmsum nefndum á vegum flokksins í Hafnarhreppi. Vignir var mikill fjölskyldumaður og hélt vel utan um fólkið sitt í gegnum tíðina, alltaf tilbúinn að aðstoða ef að á þurfti að halda.

Við Sigrún vorum svo heppin að eiga með þeim hjónum góða dagsstund í Holti í júní síðastliðið sumar. Þar var farið yfir málefni líðandi stundar og auk þess rifjað upp ýmislegt frá fyrri tíð. Við fengum einnig að fylgjast með tjaldinum sem var fastagestur hjá þeim í garðinum í sumar og var smám saman að kynna fyrir maka sínum og afkvæmum þennan góða stað og fyrir kræsingunum, sem þau höfðu notið frá Rögnu og Vigni. Dásamlegt að fylgjast með slíku samspili manna og fugla í náttúrunni.

Vignir var ekki mikið á ferðinni um dagana, var heimakær með afbrigðum og hitti því miður skólafélagana alltof sjaldan. Við Vignir vorum samt alla tíð í góðu símasambandi og fórum reglulega yfir máefni Fáskrúðsfjarðar og Hornafjarðar og annað sem efst var á baugi hverju sinni. Mér eru sérstaklega minnisstæð samskipti okkar og þáttur hans í björgun flutningaskipsins Ölmu í nóvember 2011 út af Hornafirði en stöðugar upplýsingar hans, m.a. um flug þyrlu Landhelgisgæslunnar léku þar veigamikið hlutverk í björgun skipsins og allt fór vel að lokum.

Við bekkjarsystkinin frá Bifröst minnumst Vignis með mikilli hlýju og virðingu. Við þökkum góð kynni og biðjum honum blessunar Guðs á nýjum vettvangi. Rögnu, börnum þeirra og öðrum ástvinum vottum við okkar dýpstu samúð.

Gísli Jónatansson.