Þórunn Ingibjörg Friðfinnsdóttir fæddist að Nýlendugötu 16, Reykjvík þann 4. júlí 1930.  Hún var dóttir hjónanna Stefaníu G. Guðmundusdóttur, f. 11. apríl 1900, d. 28.07.1983, húsfreyju, frá Hvassahrauni, Vatnsleysuströnd og Friðfinns Gíslasonar, f. 18.október 1893, d. 13.06.1959, verkstjóra hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur.

Þórunn, sem alltaf var kölluð Tóta, var næstelst fjögurra systkina, Ingibjargar, Guðmundar Einars og Margrétar Kolbrúnar, sem öll eru látin.

Þórunn giftist ung Sigfúsi Jónssyni, rafvirkjameistara (f. 10.12.1930, d. 20.01.2013), þann 7. 7. 1951 og voru þau hjón til dauðadags Sigfúsar, eða í 62 ár.

Þau eignuðust fimm börn, sem öll eru á lífi. Þau eru Jórunn f. 22. nóvember 1950; Stefanía Stella f.13. janúar 1953; Jón 9. febrúar 1954; Kolbrún Edda f. 8.apríl 1960 og Friðfinnur Gunnar 16. des. 1962. Sigfús og Þórunn eignuðust að auki 16 barnabörn og 17 barnabarnabörn.

Þórunn lést að Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík sunnudaginn 25. janúar 2015, eftir skammvinn veikindi, 84ja ára að aldri.

Jarðarförin hefur farið fram í kyrrþey, að ósk hinnar látnu.

Elsku mamma mín, það voru óvæntar sorgarfréttir, sem bárust okkur til Bandaríkjanna þann 25. janúar síðastliðinn, um snöggt andlát þitt. Eftir að hafa náð að tala við þig örstutt í síma fáeinum klukkustundum áður en þú skyldir við, þá var ég enn vongóð um, að þú næðir þér upp úr þessum óvæntu en erfiðu veikindum og að við fengjum að njóta nærveru þinnar um páskana. Þrátt fyrir að ég heyrði í símtalinu okkar hversu mjög var af þér dregið, þá fannst mér samt, að það væri ekki komið að því að þú kveddir þessa jarðvist svo fljótt, sem raun bar vitni.
Mamma mín, fátækleg orð fá engan veginn lýst þeirri sorg og raun sem fylgir því að kveðja þig hinstu kveðju og aldrei er hægt að undirbúa sig nægilega vel, til að mæta dauða sinna nánustu, ekki síst elskulegra foreldra. Þú ert nú komin til elsku pabba og við vitum að það hafa verið fagnaðarfundir með ykkur, enda misstir þú svo mikið þegar pabbi lést fyrir tveimur árum og vildir bara fá að fara til hans.
Minningarnar hrannast upp, nú þegar þú ert alfarin frá okkur öllum og sérstaklega minningin um það hversu fjölskyldan var þitt líf og yndi og hvað þið pabbi voruð alltaf einstaklega gestrisin og samrýmd. Oft var kátt á hjalla á Nesinu og alltaf var nóg af kræsingum á boðstólum, ef óvænta gesti bæri að garði, sem gerðist oftar en ekki.
Þú var aðeins á tólfta aldursári, er þú greindist með hjartasjúkdóm, sem varð þess valdandi að þú gast ekki lokið skólagöngu þinni sem skyldi. Margir vissu ekki, að þú varðst rúmliggjandi í heilt ár, af þessum sökum, aðeins 12 ára gömul og hafði það augljóslega djúpstæð áhrif á þig allt þitt líf. Þér var ráðlagt að stunda ekki íþróttir og að forðast alla líkamlega áreynslu og varst svo ung sett á lyf vegna sjúkdómsins og þurftir á mismunandi hjartalyfjum að halda allt þitt líf til dauðadags, þér til svo mikillar armæðu. Á þessum árum (er síðari heimstyrjöldin stóð yfir) var fátt um val á góðum lyfjum og oftar en ekki ullu langtíma lyfjagjafir miklum og alvarlegum aukaverkunum, sem raunin varð á, í þínu tilfelli.
Sífellt var bætt við þig lyfjum, sem voru augljóslega vegna slíkra alvarlegra aukaverkana, af þessum langvarandi lyfjatökum. Oft varstu hætt komin vegna hjartveikinnar og þá ekki síst vegna áreynslunnar við að fæða okkur fimm í þennan heim. Að sjá um stórt heimili, oft við þröngan kost, tók mikið á og kostaði þig ómældar fórnir, þar sem þú gekkst aldrei fyllilega heil til skógar. Þá fylgdi veikindunum þínum auðvitað oft mikið álag á pabba og okkur systkinin, þar sem við óttuðust sífellt að hjarta þitt gæfi sig af lífsins amstri. En þú reyndist hafa ótrúlega seiglu og lífsvilja og komst margsinnis yfir erfið og lífshættuleg veikindi, þar til hjartað loks gaf sig er þú barðist hetjulegri baráttu við lungnabólgu.
Þú hafðir alltaf mikið yndi af tónlist og þá sérstaklega af góðum, sígildum, íslenskum lögum. Voru Ellý Vilhjálms og Raggi Bjarna alltaf í miklu uppáhaldi hjá þér. Sem lindin tær og Litla flugan voru þér einkar hjartfólgin og því spiluðum við lögin þín við jarðarförina þína.
Þá fannst þér mjög gaman að spila á spil, meðal annars vist og svo varstu alltaf til í ólsen-ólsen´og fleiri góð barnaspil, sérstaklega á jólum, þegar þú naust þess að spila vil öll börnin og barnabörnin.
Þér þótti alltaf mjög skemmtilegt að ferðast, sérstaklega þó um landið sitt, enda svo mikill Íslendingur og hafðir oft á orði, að þú þyrftir ekki til útlanda til að ferðast, því landið þitt Ísland væri fegurst allra staða á jarðríki.
Þið pabbi ferðuðust þó víða erlendis og á yngri árum tókuð þið húsbílinn ykkar, sem þið innréttuðuð svo fallega til ferðalaga, margsinnis með ykkur til Noregs með Norrænu og ókuð síðan þaðan um fjölmörg lönd í Evrópu.
Þú hélst alltaf svo mikið upp á Mallorca og elskaðir líflega gítartónlistina og strandlífið við Miðjarðarhafið. Oft var haft á orði, að líklega rynni þér eitthvað suðrænt blóð í æðum, þar sem þú hafðir svo svart hár og tinnusvört, tindrandi augu, sem eru svo einkennandi fyrir suðrænar slóðir.
Hvað sem segja má um það, þá fannst þér einnig stórkostleg upplifun að koma til Bandaríkjanna og dvaldir þar oft vikum saman, annaðhvort hjá mér í Rhode Island og Florida, eða hjá Finna meðan hann var í námi í Colorado.
Sumarbústaðurinn ykkar í Borgarfirðinum var þér afar kær og mikið uppáhald og eyddir þú þar ómældum ánægjustundum með pabba og undir þér sérlega vel þar.
Heimilið og fjölskyldan var þó alla tíð það, sem mestu máli skipti fyrir þig. Heimilið ykkar á Tjarnarstígnum bar þessu skýr merki. Þar voru allir veggir, hillur og borð skreytt með fjölskyldumyndum og er okkur öllum mikill söknuður af því, að geta ekki lengur komið á Nesið, til að njóta alls þessa, ásamt dýrindis kökum og öðrum kræsingum, sem alltaf var þar á boðstólum.
Elsku mamma, þú varst bæði meistarakokkur og bakari af guðs náð og var ofgnótt af alls kyns góðgæti á boðstólum hjá þér alla tíð. Ég man hve oft þú talaðir um það í gamla daga, hversu mikið þig langaði sem ungri manneskju að fara í Húsmæðraskóla, en vegna veikinda þinna gat það ekki orðið að veruleika.
Það kom þó aldrei að sök, þar sem þú hafði fengið frábæra matreiðslu- og baksturshæfileika í vöggugjöf. Það lá því beinast við fyrir þig að falast eftir starfi, sem tengdist þessum áhuga þínum á bakstri og matseld og varst alsæl er þér bauðst starf í Björnsbakaríi við Hringbrautina í Reykjavík. Þar kynntist þú svo pabba, sem kom þangað að kaupa sér sætabrauð í hádeginu og var það eins og við manninn mælt, að þar varð til ást við fyrstu sín.
Nú þegar þrjú okkar systkinanna erum búsett erlendis, þá verður svo tómlegt fyrir okkur öll að koma í heimsókn til Íslands, þegar ekki er lengur hægt að fara í heimsókn til ykkar pabba á Nesinu. Svo ekki sé nú talað um missinn fyrir öll litlu börnin í fjölskyldunni, sem löðuðust að þér, kynslóð eftir kynslóð, og öllum fannst þeim jafngaman að koma á Nesið til ömmu og afa/langömmu og langafa, leika með gamla dótið og fá smá nammi frá ömmu með sér heim.
Allir elskuðu gómsætu hnallþórurnar þínar, rjómalöguðu jólasúpurnar, heimalagaða vínarsnitzelið þitt, svo ekki sé nú minnst á steikta fiskinn í raspi, sem enginn getur gert eins gómsætan og þú gerðir.
Við munum öll sakna þess sárt, að fá ekki lengur tækifæri til að gæða okkur á öllum dýrindis veislumatnum hennar mömmu (eða ömmu Tótu, eins og krakkarnir kölluðu þig alltaf), en minnigarnar um öllu góðu heimboðin, ógleymanlegu samverustundirnar og góðgætið munu lifa áfram með okkur öllum.
Ó, hve gott á lítil lind,
leika frjáls um hlíð og dal.
Líða áfram létt sem hind
og líta alltaf nýja mynd.
Hvísla ljóði að grænni grein,
glettast ögn við lítil blóm.
Lauma kossi á kaldan stein
kastast áfram tær og hrein.
/
Ég vildi að ég væri eins og þú
og vakað gæti bæði daga og nætur.
Þá öllum skyldi kveða um unað, ást og trú,
sem aldrei bregst er huggast lætur.
Já ef ég mætti lifa eins og lindin silfurtær,
sem lög á sína undrastrengi slær.

Elsku mamma, tengdamamma, amma og langamma, við kveðjum þig með söknuði í hjarta, en brosum gegnum tárin, er við yljum okkur við allar minningarnar um þig. Takk fyrir allt og megir þú hvíla í friði í faðmi pabba. Við hlökkum til að hittast aftur, þegar okkar ferðalagi mun ljúka hér á jörð og erum þess fullviss, að þá muni verða miklir fagnaðarfundir.

Ástar- og saknaðarkveðjur mamma mín, frá okkur öllum.

Stella og fjölskylda, Bandaríkjunum.