Ottó J. Björnsson fæddist. 27. ágúst 1934 í Reykjavík. Hann lést 10. september 2016.
Foreldrar hans voru Júlíus Björnsson verkfræðingur í Reykjavík, f. 25. júlí 1904 á Blönduósi, d. 26. nóvember 1991, og Estella Dagmar Björnsson húsmóðir, f. 26. júlí 1907 í Danmörku, d. 2. janúar 1984. Systur Ottós eru Ellen, f. 18. október 1935, og Þóra, f. 12. október 1941.
Ottó kvæntist Ragnhildi Jórunni Þórðardóttur hjúkrunarkonu, f. 5. júní 1935, d. 12. janúar 1992, þann 12. júlí 1961, þau skildu.
Börn þeirra eru: a) Júlíus, f. 9. nóvember 1961 í Danmörku, sonur hans er Þórður Valtýr, f. 9. mars 1998. b) Þórður, f. 8. ágúst 1963 í Danmörku. c)Ragnhildur, f. 10. febrúar 1965 í Danmörku, d. 17. janúar 1987. d) Estella Dagmar, f. 15. mars 1968 í Reykjavík, maki Helgi Bogason, f. 18. október 1968, sonur hans Steinþór Örn, f. 16. desember 1997, sonur þeirra Ottó Vignir, f. 14. október 2011. e) Einar f. 16. nóvember 1970 í Reykjavík, maki Soffía Rut Jónsdóttir, f. 3. desember 1966, börn þeirra eru Dagbjört Þórey og Ásmundur Hjörtur, bæði f. 21. júlí 1995. Dóttir Dagbjartar er Anita Þórey, f. 4. desember 2012.
Ottó kvæntist Þóru Eyjalínu Gísladóttur, f. 24. júlí 1937, d. 7. maí 2007, þann 20. apríl 1977, þau skildu. Dóttir þeirra er Ingibjörg Vigdís, f. 15. mars 1978 í Reykjavík, maki Jónas H. Jónasson. Dætur Ingibjargar eru Karólína Ingibjörg, f. 27. apríl 2002, og Dagmar Ísabella, f. 16. apríl 2007.
Ottó var stúdent frá MR 1954 og nam stærðfræði við verkfræðideild Háskóla Íslands 1954-1955 og lauk cand. phil.-prófi 1955, nam stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði við Kaupmannahafnarháskóla á árunum 1955 til 1958 og eftir það tryggingastærðfræði og tölfræði og lauk fyrrihlutaprófi 1963 og lokaprófi í tölfræði (cand.stat.) 1966.
Hann kenndi stærðfræði við ýmsa framhaldsskóla á Íslandi og við Kaupmannahafnarháskóla á árunum 1963-1966. Var við Raunvísindastofnun Háskólans og Reiknistofnun 1967-1971. Tölfræðilegur ráðunautur Hjartaverndar 1967-1986. Stundakennari í stærðfræði við Háskóla Íslands frá 1967, síðar aðjúnkt 1971-1975 og dósent frá ársbyrjun 1976 og prófessor frá 1997 til starfsloka. Ottó var einn af stofnendum Félags háskólakennara og í fyrstu stjórn þess 1969-1970, og síðar fulltrúi þess í háskólaráði og einnig launamálaráði BHM. Rannsóknir hans voru á sviði almennrar tölfræði og líkindafræði, líftölfræði og sögu stærðfræðinnar o.fl.
Ottó var jarðsunginn frá Neskirkju 20. september 2016.

Hann sat við borðið fremst til vinstri. Þegar gengið var inn. Leirljós frakk-inn. Stíf brot. Brúnir enskir leðurskór. Velburstaðir. Drakk kaffi og hafði með því ristað brauð og ost. Einn, en stundum á tali hljóðlega við annan. Áður reykti hann vindil líka. Nú varð að reykja þá úti. Hann reykti mikið. Sætu fleiri við borið, sagði hann fátt. Á næstu borðum gaus upp hlátur svona á einnar mínútu fresti. Ráp í ungu fólki. Stólaskark. Símhringingar. Ekkert sannfærði mig betur, að í kaffistofu Þjóðarbókhlöðunnar ætti að vera senior common room. Á mögrum launum lengst af vissi ég ekki um önnur áhugamál en að lesa og safna góðum bókum og reykja vindla. Hann lét binda þær inn hjá tveimur úrvals bókbindurum. Ofurvandlátur. Hann átti fullkomnasta safn reikningsbóka á íslenzku. Mér er til efs, að nokkurt bókasafn eigi jafngott safn, hvað þá betra. Þegar við bættist, að hver bók var bundin inn í dýrt band og gyllt, þá átti safn hans sér enga líka. Þegar hann veiktist, hafði hann ekki ráðstafað reikningsbókunum. Engu munaði, að bókasafnið fordjarfaðist í íslenzku samfélagi. Því var bjargað. Í hjólastól á 60 ára stúdents-afmæli gat hann afhent reikningsbækurnar Menntaskólanum, dúxinn í stærðfræði, með stærðfræðieinkunnir upp á 10. Sjálfur gaf hann þá hógværu skýringu, að í 6. bekk hefði hann lesið námsefni verkfræðinema, svona aukalega.

Við mig ræddi hann ekki stærðfræði. Ekki til neins. Við vorum frændur í Grenjaðarstaðarætt og ræktuðum þann frændskap. Hann hafði Grenjaðarstaðar-göngulagið. Mjúkt, hljóðlátt, fór hægt, en komst þó áfram, þangað sem hann ætlaði, en stundum einstrengingslegur. Þóra Júlíusdóttir, amma hans í föðurætt, var dóttir Ingibjargar Magnúsdóttur og Júlíusar Halldórssonar, héraðslæknis. Faðir Ingibjargar var séra Magnús Jónsson á Grenjaðarstað, sonur Jóns Jónssonar, prests þar og læknis, sem vó í sig matinn og drakk staup með. Latínulærður vel. Boðberi píetismans. Fátæktin er okkar gæfa, sagði séra Jón. Föðuramma Þóru Júlíusdóttur var Charlotte Caroline Leopoldine Degen (d. 1911), gift Halldóri Kr. Friðrikssyni, kennara í Lærða skólanum. Var hún skyld Carl Ferdinand Degen (17661825), þekktum stærðfræðiprófessor í Kaupmannahöfn?

Nokkru eftir nám í Hafnarháskóla eða vorið 1967 hóf Ottó að vinna með læknum að faraldsfræðirannsókn Hjartaverndar. Val á rannsóknarárgöngum, ákvarðanir um stærð rannsóknarhópa (valið úrtak), innköllun, gerð spurningalista, gæðaeftirlit, vandvirkni við skipulagningu og skráningu gagnanna, grunnurinn, sem áratuga rannsókn átti eftir að byggjast á. Þá um haustið var skoðaður til prufu læknanemahópur, og fékk sá, sem þetta ritar, þá að kynnast sem þátttakandi rannsókninni í frumupphafi. Í nóvember hófst skoðun á körlum á Reykjavíkursvæðinu og skoðun á konum ári seinna. Aðalstarf Ottós var stærðfræðikennsla við Háskólann (sérsvið hans var líkindafræði), en hann vann samhliða kennslunni að gagnaúrvinnslu Hjartaverndarrannsóknarinnar ásamt læknunum Nikulás Sigfússyni, Davíð Davíðssyni o. fl. og Helga Sigvaldasyni, verkfræðingi, sem sá um alla tölvuvinnslu. Ottó var í forsvari fyrir úrvinnslu og birtingu gagna fyrsta áratuginn (form. úrvinnslustjórnar til 1976). Á annan áratug var enn haldið áfram þolinmæðisverki, unnið af ósveigjanlegri alúð, eða þar til að hann sagði upp störfum 1988 og kom ekki að málum Hjartaverndar eftir það. Grundvallarskýrslur hættu að koma út. Starfstitil bar hann engan nema tölfræðilegur ráðgjafi. Lítið fór fyrir launagreiðslum, enda ekki gerðar kröfur til slíks. En var ekki byggt á þessum efnivið, þegar erlendar stofnanir völdu rannsóknir Hjartaverndar síðar og styrktu með stórfé?
Ekki þreyttust Davíð Davíðsson og Ottó á sögunni af bókaverðinum á há-skólasjúkrahúsinu, sem beðinn var um Skýrslur Hjartaverndar og svaraði, að bókasafnið fleygir þeim nú bara jafnóðum, það berst svo mikið af þessum skýrslum, Davíð minn! Heitinu var þá breytt í Rit Hjartaverndar. Þetta voru grundvallarrit, sem tímaritsgreinar sumpart byggðust á. Ólíklegt, að nokkrir hafi átt ritin komplett nema tölfræðingurinn og nánustu samstarfsmenn hans. Ekki Landsbókasafnið. Skyldu þau vera höfð frammi á Hjartavernd núna?

Læknisfræði vefur sína menn ljóma. Fyrir einni öld voru það Guðmundarnir. Svo kom Dungal. Ekki skal farið nær í tíma. Ottó vafðist aldrei í ljóma. Hann sankaði ekki heldur að sér fé út á lækningar eða lækningarannsóknir, en það hafa menn haft lag á að gera á öllum tímum. Ottó var ekki læknir. Heldur mátti hann þola andstöðu líkt og aðrir háskólamenn, sem Davíð bar að læknisfræðinni á seinnihluta síðustu aldar og ekki voru læknar; lífeðlisfræðingur, eðlisfræðingur, lífefnafræðingar. Þar var svifizt einskis. En jafnvel þótt Ottó hefði verið læknir, og yfirlæknir, þá sé ég ekki, að hann gengi inn til Davíðs með forstjórann á aðra hönd og á hina og tilkynnti, að velgjörðarmaður hans, Davíð, væri rekinn. Ottó var ekki þannig.


Ólafur Grímur Björnsson.