Arabella Eymundsdóttir var fædd á Seyðisfirði 29.12.1939. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 27.9.2019. Foreldrar hennar voru Sigurborg Gunnarsdóttir, f. 9. apríl 1906, d. 22. nóvember 1983, og Eymundur Ingvarsson, f. 31. maí 1883, d. 9. júní 1959. Börn Sigurborgar og Eymundar eru Garðar, Hartmann, Stella Kristín, og Anna Erla.
Þann 27 febrúar 1960 giftist Arabella Baldvini Þorsteinssyni frá Neskaupstað. Foreldrar hans voru Þorsteinn Jakob Einarsson frá Miðbæ í Norðfjarðahreppi og Jarðþrúður Einarsdóttir frá Barðsnesi við Norðfjörð. Einkadóttir Arabellu og Baldvins er Linda Sigríður, fædd 25.11.1960. Fyrrverandi eiginmaður hennar er Samúel Ingi Þórisson, f. 1958. Börn þeirra eru: 1) Baldvin Arnar, f. 1979, í sambúð með Örnu Maríu Geirsdóttur en saman eiga þau soninn Huga Geir. Fyrir átti Baldvin Rebekku Ýri og Ísabellu Lind. Börn Örnu Maríu frá fyrra hjónabandi eru Viktoría Huld og Jörundur Ingi. 2) Valdís Rán, f. 1982, maki hennar er Guðjón Guðjónsson. Sonur þeirra er Samúel Ingi. 3) Arabella Ýr, f. 1987, maki Pedro Martins. Sonur þeirra er Tristan António en fyrir átti Arabella soninn Theodór Bjarna.
Þau hjónin Arabella og Baldvin bjuggu fyrst í Neskaupstað en fluttu þaðan til Seyðisfjarðar þar sem þau bjuggu allt fram til 1986 er þau fluttust búferlum til Reykjavíkur þar sem þau bjuggu alla tíð síðan.
Útför Arabellu fór fram í kyrrþey 10. október 2019.

Elsku amma mín, með ólýsanlegri sorg í hjarta þá þarf ég að kveðja þig að sinni. Ég veit ekki hvernig ég á að geta skrifað stutta grein um minningar mínar um þig því þú hefur verið svo stór partur af lífi mínu alla tíð. Allt frá því að ég fæddist höfum við nöfnurnar átt alveg einstakt samband sem í gegnum árin hefur einkennst af mikilli vináttu og trausti.

Elstu minningar mínar um okkur eru líklega frá því þið afi bjugguð í Strandaselinu. Þar man ég eftir því að sitja úti á svölum að hengja upp dúkkufötin mín eftir að hafa þvegið þau í rauða balanum. Ég man eftir bókunum í náttborðinu sem þú last fyrir mig fyrir svefninn (Dúmbó var þar í sérstöku uppáhaldi) og að hafa sofið uppi í á milli ykkar afa. Það var eitthvað svo extra kósí! Þegar ég var orðin aðeins eldri, þá minnist ég brauðbakstranna, handboltans, jólanna, Danmerkurævintýrisins og sunnudagsmatarins (reyndar var matur alla daga, en extra góður á sunnudögum). Ég minnist einnig spjallsins við eldhúsborðið, kasínu og hversu óheyrilega gott það var að leggja sig á sófanum ykkar.

Á seinni árum, eftir að afi dó, brölluðum við ýmislegt. Það sem klárlega stendur upp úr og ég er mjög þakklát fyrir er að þú hafir komist í brúðkaupið okkar Pedro í Portúgal. Þrátt fyrir að þú hafir dottið og verið hálfónýt mestallan tímann, þá talaðir þú oft um hversu gaman þér fannst að hafa farið. Við töluðum stundum um það að þú myndir einn daginn flytja með okkur fjölskyldunni til Portúgals og eyða síðustu ævidögunum í sólinni. Ég er viss um að ef þú getur munt þú fylgja okkur þangað við hvert tækifæri!

Þessi stutti tími sem þú varst veik var einn erfiðasti tími sem ég hef upplifað en á sama tíma er ég svo þakklát fyrir að hafa fengið þann tíma með þér. Í fimm mánuði hittumst við nánast á hverjum degi og náðum að spjalla mikið saman. Sú minning sem mér stendur næst er þegar þú fékkst loksins hjólastól og við komumst út í góða veðrið. Við röltum frá Vesturgötunni þar sem þú bjóst hjá Valdísi síðustu mánuðina, niður á Café París. Þar fékkstu loksins gott kakó en þig var búið að dreyma um það lengi. Svo gengum við um allan bæinn og upp brattar brekkur, þar sem þú hafðir miklar áhyggjur af því að ég væri að ofgera mér. Ég vissi það þá jafnvel og núna að ég myndi aldrei gleyma þessum yndislega degi.

Ef ég ætti að velja eitthvað sem ég er þakklátust fyrir, elsku amma, er það hversu yndisleg þú varst við börnin mín en Theodór var svo lánsamur að fá að kynnast þér eins vel og hann gerði. Honum fannst alltaf svo gaman að koma til þín í kósíkvöld og tók það jafnvel fram yfir leik með vinum. Ég man þegar ég sagði þér frá því að ég væri ófrík að Tristani, þá sagðist þú sko þurfa að lifa fram í mars til að ná að hitta hann. Þú gerðir nú gott betur en það og lifðir nógu lengi til að hitta hann og hina tvo sem komu svo árið eftir. Það gaf þér svo mikið að fá að hitta og kynnast þessum krílum og þú talaðir um hversu mikið þú vonaðist til að fá að fylgjast með þeim vaxa og dafna eftir að þú værir búin að kveðja. Ég vona það svo mikið líka, og er nokkuð viss um að svo sé, þeir fá allavega að kynnast þér, ég lofa þér því.

Elsku amma mín, til þess að klára þessa grein, verð ég að segja þér að þú varst svo miklu meira en bara amma, þú varst trúnaðarvinkona mín og klettur í einu og öllu. Þú tókst alltaf svari mínu og náðir að alltaf að hughreysta mig. Daginn sem þú kvaddir var ég alltaf á leiðinni að hringja í þig, því það er einmitt það sem ég var vön að gera ef mér leið illa eða eitthvað var að, þá gat ég alltaf treyst á að þú værir til staðar.

Elsku amma mín, takk fyrir að vera mér alltaf svo góð og veita mér alltaf öruggt skjól. Takk fyrir að hugga mig í þínum veikindum þegar ég átti að vera að hugga þig, takk fyrir að koma og kveðja mig í draumi og takk fyrir að elska börnin mín jafn mikið og þú elskaðir mig.

Þar til við hittumst á ný,

þín nafna,

Arabella.