Guðný Magnúsdóttir fæddist á Seyðisfirði 17. mars 1929. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 3. febrúar 2017.
Foreldrar hennar voru Vilborg Júlíana Guðmundsdóttir, f. 18. júlí 1898, d. 21. apríl 1978 og Magnús Símon Guðfinnsson f. 4. desember 1898, d. 18. janúar 1978.
Guðný var sjötta í röð tólf systkina. Systkini hennar eru Óskar 1922-1991, Einar Ársæll 1923-1923, Vilhelmína 1925-2015, Guðmundur 1927-1946, Oddný 1928-2016, Gunnar f. 1931, Ólafur f. 1932, Árni 1933-1952, Helga f. 1935, Ottó f. 1936 og Hrefna f. 1939.
9. október 1954 giftist Guðný eftirlifandi eignmanni sínum, Vilbergi V. Vilbergssyni, f. 26. maí 1930. Þeirra börn eru: 1) Rúnar Hartmann, f. 1951. Eiginkona hans er Tamila Gámez Garcell. Þeirra sonur er a) Vilberg Samúel, f. 2007. Dætur Rúnars eru b) Ylfa Mist, f. 1974, móðir: Rafnhildur Eyrbekk Ívarsdóttir, kjörforeldrar: Svanhildur Björgvinsdóttir og Helgi Þorsteinsson. Eiginmaður Ylfu er Haraldur Ringsted. Synir þeirra eru Birnir og Baldur Hrafn. Fyrir átti Ylfa soninn Björgúlf með Páli Einarssyni. c) Guðný, f. 1980, móðir: Inga Rósa S. Joensen. Sonur Guðnýjar og Markúsar Bjarnasonar er Kári. 2) Sara Jóhanna, f. 1956. Hennar maður er Gísli Guðmundsson. Fyrir átti hún soninn Viðar Hákon, f. 1974. Faðir hans er Gísli Karlsson. Sambýliskona Viðars er Hanna Björg Jónsdóttir, sonur þeirra er Jón Jaki. Dóttir Gísla Guðmundssonar er Hrafnhildur f. 1983. Sambýlismaður hennar er Ólafur Geir Sigurjónsson. Þeirra sonur er Aron Breki. Fyrir átti Hrafnhildur dótturina Ásdísi Örnu með Styrmi Magnússyni. 3) Bryndís Vilbergsdóttir, f. 1959. Eiginmaður hennar er Garðar Erlingsson. Dætur þeirra eru a) Björg, f. 1998 og b) Sólrún, f. 2000. Fyrir átti Bryndís soninn c) Vilberg, f. 1986. Faðir hans er Kristinn Kristjánsson. 4) Svanhildur, f. 1964. Sambýlismaður hennar er Hjörtur Svavarsson. Sonur hennar og Gunnars Gram Franck er Bjartur Dagur, f. 1991. Börn Hjartar eru: Katla Margrét, f. 1986, Svavar Birnir, f. 1987 og Birgir Rafn, f. 1989.
Guðný Magnúsdóttir fæddist á Seyðisfirði í Björgvin, húsi ömmu sinnar og afa, Guðnýjar Einarsdóttur og Guðfinns Jónssonar. Fyrstu árin ólst hún upp hjá þeim en níu ára gömul fór hún í fóstur til föðursystur sinnar Guðrúnar og manns hennar, Teits Hartmann í Neskaupstað. Þegar Guðný var þrettán ára gömul fluttust þau búferlum til Ísafjarðar. Ekki leið á löngu þar til hún fór að taka þátt í menningarlífi staðarins, söng í Sunnukórnum og kirkjukórnum og tók þátt í mörgum uppfærslum Leikfélags Ísafjarðar og síðar Litla leikklúbbsins. Guðný var heimskona sem hafði unun af að ferðast, læra tungumál og kynnast menningu annarra þjóða. Hún var mjög listfeng, hafði unun af að teikna, mála og taka listrænar ljósmyndir. Utan heimilis vann Guðný ýmis störf, m.a. í Bókaverzlun Jónasar Tómassonar, Rækjuverksmiðju Böðvars Sveinbjörnssonar og Hraðfrystihúsinu Norðurtanga, en best naut hún sín í móttökunni á Hótel Ísafirði þar sem hún vann lengst af.
Útför Guðnýjar fer fram í kyrrþey að hennar ósk.
Elsku mamma.
Nú ertu flogin útúr púpunni sem þú varst orðin svo þreytt í, og orðin að fiðrildinu sem þú hefur alltaf verið í kjarnanum. Þú ert sú dýpsta, fallegasta og þroskaðasta sál sem ég hef kynnst á ævinni. Þú ert skærasta stjarnan á mínum himni.
Við börnin þín höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga bestu foreldra í heimi. Ég orðaði það við ykkur á sínum tíma að mér liði eins og ég ætti tvær sólir; þig og pabba. Það eru forréttindi sem ég er endalaust þakklát fyrir. Þið pabbi gáfuð okkur frelsi og mitt lífsmottó er einmitt fengið frá ykkur; að allir fái að vera til eins og þeir eru.
Ég hef aldrei séð jafn ástfangið par eins og ykkur! Eins ólík eins og þið eruð, þá báruð þið alltaf ótakmarkaða virðingu fyrir hvort öðru og voruð eftir 68 ára sambúð alltaf jafn bálskotin í hvort öðru! og mamma það var alltaf svo fallegt þegar þú tókst utanum pabba og sagðir við okkur Finnst ykkur hann ekki sætur! Ég er alltaf jafnskotin í þessum strák! Þetta sagðir þú líka síðast þegar við hittumst.
Ég veit fyrir víst að stjarna þín skín skært í hugum allra þeirra sem voru svo heppnir að kynnast þér. Þú ert alveg einstök manneskja og lífskúnstner af hæsta kalíberi. Anarkismi er útópía, en þú ert eina manneskjan sem ég hef fyrirhitt sem hefur að bera þann þroska og dýpt og mannelsku til að standa undir þeirri nafngift að vera anarkisti í praxís. Þú bjargaðir mannslífum með elsku þinni, vísdómi og fordómaleysi, það geta vinkonur mínar og vinir okkar barnanna þinna vitnað um. Hafnarstræti 11 var athvarf og vin í eyðimörkinni. Þar var ekki talað illa um fólk, það var heilað. Þar var sálum veitt virðing, alúð og hlýja. Sami andinn flutti með ykkur í Silfurgötu 9 og skemmtilegt líka að þar var happatalan 9 komin aftur; lukkutalan ykkar; Frumburðurinn 9. febrúar, giftingin 9. október, æskuheimilið keypt þann 9.líka. og þú þurftir ekki að flytja neitt eftir það, þér leið best heima með kærastanum þínum með brúnu augun papagöyja" eins og þú kallaðir hann oft með ljóma í augunum og lofsamaðir hann fyrir hvað hann hugsaði alltaf vel um þig.
Þú ert gersemi mamma mín og ég skrifa þetta í nútíð til þín, því að fyrir mér ertu lifandi að eilífu. Þú ert inní hjartanu mínu og allt um kring. Nú geturðu verið allsstaðar og bakverkirnir eru horfnir. Ég samgleðst með þér elsku besta fiðrildið mitt og sé þig fyrir mér núna á spjalli við jafningja þína; Jesú, Buddha, Lao Tse og alla þessa gaura sem voru á sömu bylgjulengd og þú, og Brahman og Shakti, svo maður tali nú ekki um ömmu á Flateyri,Gróu og Söru frænku! Það sást til ykkar sko haha.
Hér kemur texti e.Kahlil Gibran, sem þú hefur sjálf vitnað í og ekki síst lifað eftir;
OG KONA EIN, sem hélt á ungbarni á armi, sagði: Talaðu við okkur um börn. Og hann sagði: Börn ykkar eru ekki börn ykkar. Þau eru synir og dætur lífsins og eiga sér sínar eigin langanir. Þið eruð farvegur þeirra, en þau koma ekki frá ykkur. Og þó að þau séu hjá ykkur, heyra þau ekki ykkur til. Þið megið gefa þeim ást ykkar, en ekki hugsanir ykkar, þau eiga sér sínar eigin hugsanir. Þið megið hýsa líkami þeira, en ekki sálir þeirra, því að sálir þeirra búa í húsi framtíðarinnar, sem þið getið ekki heimsótt, jafnvel ekki í draumi. Þið megið reyna að líkjast þeim, en ekki gera þau lík ykkur. Því að lífið fer ekki aftur á bak og verður ekki grafið í gröf gærdagsins. Þið eruð boginn, sem börnum ykar er skotið af eins og lifandi örvum. En mark bogmannsins er á vegi eilífðarinnar, og hann beygir ykkur með afli sínu, svo að örvar hans fljúgi hratt og langt. Látið sveigjuna í hendi bogmannsins vera hamingju ykkar, því að eins og hann elskar örina, sem flýgur, eins elskar hann bogann í hendi sér."
Lokaorðin sæki ég líka í rann Kahlil Gibran því þau eiga svo vel við þig;
Hin leynda uppsretta sálarinnar á að brjótast fram og renna niðandi til sjávar. Og perlur þinna ómælisdjúpa eiga að birtast í augum þínum. En leggðu hina óþekktu dýrgripi þína ekki á metaskálar. Og kanna þú ekki dýpi þekkingar þinnar með staf eða kvarða, því að haf sálarinnar á sér engin takmörk. Segðu ekki: Ég hef fundið sannleikann", segðu heldur Ég hef fundið sannleika" Segðu ekki : Ég hef mætt sál minni á veginum" Því að sálin gengur allar leiðir. Hún dansar ekki á línu og vex ekki eins og reyr, heldur opnast hún eins og þúsundblaða lótusblóm."
Takk fyrir allt og allt elsku mamma, fjólubláa lótusblóm lífs míns og fiðrildi sálardjúpanna. Ég elska þig útaf lífinu! Þín Svaddinur",
Svanhildur Vilbergsdóttir.