Gunnar Magnús Jónsson fæddist 8. september 1938.
Hann lést 12. janúar 2017.
Magnús fæddist á Brekku í Hvalfirði, þar sem faðir hans, Jón Magnússon, var fæddur. Magnús var sonur þeirra Jóns og Sigríðar Beinteinsdóttur frá Draghálsi, en yngri tvíburabróðir hans er Grétar, bóndi á Hávarsstöðum. Jón og Sigríður eignuðust þrjá syni, yngstur er Georg Pétur, fæddur árið 1946, búsettur í Reykjavík. Tveggja ára gamall flutti Magnús frá Brekku ásamt fjölskyldu sinni og að Litla-Lambhaga í Skilmannahreppi þar sem þau bjuggu í þrjú ár en því næst að Draghálsi, þar sem þau Jón og Sigríður önnuðust bú foreldra hennar um eins árs skeið. Magnús var því rétt um sex ára þegar hann árið 1944 fluttist að Hávarsstöðum, þar sem heimili fjölskyldunnar átti eftir að standa upp frá því. Það kom snemma fram hve bráðlaginn og útsjónarsamur Magnús var þegar vélar og tæki voru annars vegar, en hann var fljótur að átta sig á eðli þeirra og hvað það var sem þurfti til að halda þeim gangandi. Lauk hann prófi í vélvirkjun á Akranesi. Að því búnu fór hann í Vélskólann á Akranesi og náði sér í vélstjórnarréttindi. Þá í nám í rafmagnsdeild vélskólans, þegar því lauk var hann kominn með full réttindi sem vélstjóri á öll skip, var hann m.a. til sjós á Hamrafellinu í kringum 1960, en Hamrafellið var þá stærsta skip íslenska flotans. Þegar námi lauk hér heima fór hann í framhaldsnám til útlanda, en 24 ára gamall hélt hann til náms í tæknifræði í Danmörku. Námið tók fjögur ár og þar kynntist hann eiginkonu sinni til nærri 10 ára, Önnu Maríu Skjøldager, sem var honum 8 árum yngri, fædd 12. ágúst 1946. Foreldrar hennar voru Grethe Jensine og Edmund Borge Skjøldager. Þau Magnús og Anna María giftu sig í kirkju Heilags Jakobs við Österbro þann 26. apríl 1966 og í því hverfi stóð heimili þeirra lengst af. Þeim Magnúsi og Önnu Maríu varð tveggja barna auðið, Gísla, sem er fæddur árið 1972, og Ingibjargar, sem er fædd árið 1973. Gísli hefur verið starfandi hér á Íslandi undanfarin tvö og hálft ár sem lektor í dönsku við Háskóla Íslands, en hann er doktor í þýskum bókmenntum og á hann soninn Jóhannes Birklund, sem er 12 ára. Ingibjörg er aftur á móti búsett í Danmörku, og er hún er doktor í stærðfræðikennslu. Sonur hennar er Magnús Jarl, 16 ára. Magnús og Anna María skildu árið 1975. Um það leyti sem náminu í tæknifræðinni lauk, var hann ráðinn til tölvurisans UNIVAC og var þar í áratug. Eftir heimkomu starfaði hann í um þrjú ár sem vélstjóri á skipum, en síðan tók við kennsla við Iðnskólann í Keflavík. Þá vann hann hjá RARIK um nokkurt skeið, þar sem hann sá um viðhald á rafbúnaði í virkjunum og einnig starfaði hann við Háskóla Íslands, þar sem hann sá um viðhald á tækjum, auk þess að koma aðeins að kennslu. Síðustu ár starfsævinnar vann hann sem vélstjóri hjá Þvottahúsi Ríkisspítalanna.

Gunnar var jarðsunginn frá Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd 21. janúar 2017.

Upphaf okkar kynna var að hann stóð fyrir framan mig í biðröð við afgreiðslu borð í matsal skólans okkar og bað um bröð ekki eitt stykki mad ég hugsaði strax að þetta væri landi minn, því hann talaði dönsku á íslensku eins og ég. Ég tók hann tali þar og við upplýstum hvor annan, hvaðan af landinu okkar, við værum.

Ég þekkti hans umhverfi vel eftir vinnu mína við að rafvæða sveitina hans nokkrum árum áður, Við kvöddust svo eftir stutt rabb, með að óska hver öðrum velgengi í komandi inntökuprófi. Enginn nöfn voru nefnd nema Hávarðsstaðir en þaðan væri hann.



Nokkru eftir inntöku í skóla hringdi lögreglan í mig og bað mig að mæta hjá þeim, sem ég og gerði, með ótta í brjósti um að ég væri grunaður um lögbrot. Þeirra erindi var hinsvegar hvort ég þekkti til mans sem hafði stórslasaður án meðvitundar verið innlagður á sjúkrahús eftir bílslys. Ástæðu þess að þeir leituðu til mín var að eina vísbending sem maðurinn hafði í fötum sínum, var skrifað símanúmer og heimilisfang systur minnar neðan við nafn mitt. Engar aðrar upplýsingar fundust.

Ég var færður að sjúkrarými óþekktra slasaðra manna til að bera kennsl á slasaðan manninn og eftir stund gat mér til að þarna væri skólabróðir minn, vafin í klæði og fætur upphífðar, gifsi klæddar,

Þessi vettvangur var sem sönnun á hending þjóðskáldsins við lifum sem blakandi strá eins og segir í söng okkar allra. Árætið er allstaðar, gott og illt. Það er kannski þess vegna sem við verðum að halda fastar um einföldu gildin í hinni kristnu siðfræði og móta skipti okkar við náungann með vonina að vopni. Vonin er okkar dýrasti fjársjóður. Vonin um að allt þetta sé til einhvers, var okkur gefin við upprisu frelsarans. En hver var þessi skólabróðir minn með símanúmerið systir minnar í vasanum?

Eina sem ég vissi var að hann átti fjölskyldu að Hávarðsstöðum í Svínadalnum. Svo ég fór eftir ábendingum lögreglunar sem sagði að þar sem við hefðum sagt skilið við Kónginn í Amelíuborg og þá hefðum við íslendingar sennilega komið upp sendiráði í Köben og þeirra hlutverk væri að aðstoða íslenskar sálir í vanda. Enn á þessum árum var beinlínis erfitt að hringja til Íslands. Sendiráðið var því heimsótt þar sem ég sagði sendifulltrúa að erindi mitt væri að fá sendiráðið til að ná sambandi við fjölskyldu að Hávarðstöðum í Leirársveit og segja frá stöðu máls á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga. Móttakan í sendiráðinu voru mikil vonbrigði, beinlínis var sagt að ég skildi skunda á járnbrautar stöð og panta þar símtal við Hávarðsstaði á Íslandi. Það braust út mikill hávaði með dylgjum og afneytingu fulltrúans á að eftirgrennslan væri á hlutverka skrá sendiráðsins. Hávaðin var svo magnaður að fyrrverandi forsætisráðherra Íslands mætti í sal og að strax skildi haft samband við símakerfi Íslands frá varðturni þeirra og húsbóndanum á Hávarðstöðum greint frá málavöxtum, en rétt þætti honum að ég yrði boðberinn.

Auðvita var erfitt að verða boðberi slæmra frétta, en Jón bóndi virtist sterkur og fór þess á leit við mig að ég annaðist þarfir sonar síns Gunnars Magnúsar eins og ég teldi þörf á þar til væntanlegri meðvitund hans væri tryggð og þar eftir ef vel gengi, en ef ekki fyndum við hvað gera skildi

Allt fór á betri vegu og ég gerði það sem gera þurfti og kynntist Gunnari vel. Hann var maður mjög aðlaðandi og gefandinn í samveru. Hann gat varla hafa sært einhvern, því það var ekki hans háttur að særa. Hann bar virðingu fyrir mannkostum en krafðist þeirra ekki. Hann kom sá og sigraði, svo oft, en þurfti líka að lúta höfði, finna til og gráta gengin spor. Hann gekk ekki um torg og syrgði í annarra áheyrn. Hollusta og heiðarleiki voru hans aðalsmerki. Hann kunni að finna til og gráta hvert blóm sem dó. Hann kunni að finna til með þeim sem til hlés eru settir. Hann bar ekki virðingu fyrir valda eða öðru brölti á kostnað náungans. Hann fór ekki troðnar slóðir, hann vildi gefa og kenna. Hann var örlátur á kærleika og tíma fyrir aðra. hann var drengur góður sem átti líf og andardrátt sem hann varði löngum fyrir okkur hinna í nálægð og fjarlægð. Hann var hámenntaður ungur maður, með skólum í vélsmíði, og með lokapróf með hæðstu einkunn frá Vélskóla Íslands og hafði starfsreynslu sem vélstjóri á Hamrafelli, stærsta farmskipi íslendinga. Nú ætlaði hann að læra allt um rafeindafræði og tölvutækni í Köben þótt aðeins væru tvær tölvur væru aðgengilegar í Köben. Gunnar sá lengra inní framtíðina en við hin, Hann gaf okkur hinum löngun að reyna að lifa á leiksvið lífsins. en ekki í skúmaskotum freistinga.

Hann starfaði eftir nám hjá Tölvudeild SAS flugfélagsins um árabil, síðan vélstjórn á Samvinnuskipum og æði oft við að lagfæra og endur stilla rafeindabúnað í virkjunum og annars staðar. Allir við sem ábyrgð báru á þessum búnaði voru hólpnir að njóta hans miklu þekkingar í vél og rafeindafræði. Hann kynntist yndislegum kennaranema Önnu Maríu Skjöldager, sem urðu þeirri gleði gefin að eignast tvö börn, þau heita Gísli Magnússon fæddur 1972 og Ingibjörgu Skjoldager (áður Sif Ingibjörg Magnúsdóttir Skjöldager fædd 1973), sem bæði eru doktors menntaðir fræðimenn. Gísli er nú kennari við Háskóla Íslands en Sif doktor í stærðfræði við störf í Danmörk.

Hann stóð upp af danskri sjúkrasæng, með báðar fætur upp að nára gifsi klæddur, eftir slys við að stytta sér leið yfir hraðbraut í austurbæ Kaupmannahafnar til að kaupa sér mjólk. Sveitaruppeldið og ákveðni bjargaði honum. Hann hafði glettin sagt mér að hann kæmist ekki inní 500 Fíatinn minn með þessar stífu fætur. Ég spurði ef við leysum ekki þann vanda eigum við ekkert að gera í að læra tæknifræðinginn, ég fjarlægi framsætið, fyrir gifs lappirnar þínar og þannig verður það áfram svo þú komist í skólann svaraði ég. Síðustu ár tókst hann á við meinvarp andlegs myrkurs og á þeim tíma höfðu við lítil samskipti og nánar skoðað brást ég þá Gunnari vini mínum sem ég harma mjög mikið. Ég vissi ekki og veit ekki enn hvernig á því stóð.

Samúðarkveðjur til þess góða fólks sem nánastir voru honum og barnabarna hans. Huggun mín er að drengur góður gaf mér margar innihaldsríkar samverustundir. Guð blessi minningu Gunnars Magnúsar.

Erling Garðar Jónasson, tæknifræðingur.