Stefán Kjartansson, fyrrverandi umdæmisstjóri hjá Vegagerð ríkisins í Rangárvallasýslu, fæddist 1. nóv. 1934 á Bjólu í Djúpárhreppi. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 17. desember 2020. Foreldrar hans voru hjónin Kjartan Jóhannsson (f. 24.10. 1903, d. 1.3. 1991) bóndi á Bjólu og síðar á Brekkum í Holtum og Guðfinna Stefánsdóttir (f. 4.3. 1905, d. 27.6. 1992) húsfreyja. Kjartan var frá Haga í Holtum í Rangárvallasýslu. Guðfinna átti ættir sínar að rekja undir Eyjafjöll en var fædd á Bjólu í Djúpárhreppi.
Stefán var þriðji í röð fimm bræðra. Eldri bræður hans voru Björgvin Ottó (f. 10.3. 1932, d. 18.5. 2015), var kvæntur Þuríði Jónsdóttur (f. 23.9. 1932, d. 9.3. 2013) og Ásgeir (f. 24.3. 1933, d. 19.11. 2013), var kvæntur Pálínu Gunnmarsdóttur (f. 5.3. 1939). Yngri bræður hans eru Jóhann (f. 13.1. 1937), kvæntur Ingibjörgu Þorgilsdóttur (f. 28.4. 1937) og Sigurður Rúnar (f. 29.11. 1949), kvæntur Sólveigu Smith (f. 2.12. 1950).

Stefán kvæntist Guðrúnu Gunnarsdóttur 4. júlí 1959. Guðrún fæddist 13. september 1937 að Hofgörðum í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Hún var næstelst fjögurra systkina. Karl (f. 23.1. 1934) er þeirra elstur en Bjarndís (f. 30.3. 1943, d. 7.10. 2016) og Sigvaldi (f. 10.6. 1945) yngri en Guðrún. Foreldrar Guðrúnar voru Gunnar Ásgeirsson (f. 6.10. 1910, d. 25.4. 1987) og Laufey Karlsdóttir (f. 9.6. 1912, d. 16.8. 2006).

Börn Stefáns og Guðrúnar eru fjögur. Gunnar Leifur (f. 28.6. 1956), kvæntur Þórunni Ásgeirsdóttur (f. 6.10. 1958). Börn þeirra eru Samúel Jón, Rakel Björk og Guðrún og barnabörnin eru sjö. Guðfinna Stefánsdóttir (f. 31.10. 1957), gift Helga Harðarsyni (f. 18.3. 1957). Börn þeirra eru Stefán Davíð og Dröfn og barnabörnin eru sex. Hreinn Stefánsson (f. 18.6. 1964), kvæntur Sveinbjörgu Pálmarsdóttur (3.11. 1962). Börn þeirra eru Hinrik Már, Aðalheiður, Harpa Guðrún og Stefán Haukur og eiga þau eitt barnabarn. Hilmar Stefánsson (f. 8.9. 1967), kvæntur Írisi Dóru Unnsteinsdóttur (f. 26.3. 1966). Börn þeirra eru Hildur, Andri Steinn og Freyja Rún og barnabörnin eru tvö.

Stefán og Guðrún kynntust árið 1955 þegar Guðrún fór ásamt vinkonu sinni frá Akranesi austur á Hvolsvöll í sumarvinnu en þar felldu þau Stefán og Guðrún hugi saman. Næsta vetur bjuggu þau hjá foreldrum Stefáns að Brekkum í Holtum en færðu sig síðan um set til Akraness og bjuggu hjá foreldrum Guðrúnar á meðan Stefán lærði húsasmíði. Stefán lauk sveinsprófi 1960 og vann m.a. við uppbyggingu á hafnarmannvirkjum á Akranesi. Síðar starfaði hann sem verkstjóri hjá Vegagerð ríkisins á Akranesi, á árunum 1963 til 1973 og sem umdæmisstjóri Vegagerðarinnar í Rangárvallasýslu frá 1973 til 1998.

Útför hefur farið fram.

Hann pabbi hefur nú kvatt þessa jarðnesku vist. Það er margs að minnast og ekki síst þakklæti fyrir svo margt.
Pabbi vann hjá Vegagerð ríkisins á Akranesi frá árinu 1963 til 1973 sem verkstjóri og hafði hann umsjón með svæðinu frá Hvalfjarðarbotni að Hvanneyri. Á þessum árum gistu vegagerðarmenn í skúrum á sumrin og var mamma matráðskona þar í mörg sumur. Að skóla loknum að vori var lagst út og flakkað um með vegagerðarskúrana þangað sem fyrirhugað var að framkvæma það sumarið. Verkefnin voru fjölbreytt, s.s. að byggja upp og viðhalda vegum í Skorradal, Svínadal og Hvalfirði. Skúrarnir voru færðir upp á vörubílspalla og svo var lagt af stað. Við börnin vorum með í för og leið okkur eins og við værum í sumarbústað sumarlangt. Við dunduðum okkur við hornsílaveiðar og annað sem náttúran hafði upp á að bjóða. Þetta voru skemmtileg sumur í fallegri náttúru enda komum við systkinin okkur upp sumarhúsum í Skorradal þegar við fullorðnuðumst og eigum við þaðan góðar minningar.
Pabbi var lærður húsasmiður og byggðu hann og starfsmenn Vegagerðarinnar á Akranesi, samhliða viðhaldi vega og snjómokstri, marga vinnuskúra á veturna. Grænu skúrarnir með hvítu listunum voru sendir um allt land en af því höfðu starfsmennirnir vetrarvinnu. Okkur krökkunum var alltaf vel tekið þegar við komum í vegagerðarhúsnæðið á Akranesi enda starfsmennirnir eins og hluti af fjölskyldunni eftir útilegurnar.
Árið 1973 fór pabbi austur á Hvolsvöll og tók þar við sem svæðisstjóri Vegagerðarinnar í Rangárvallasýslu og byggði íbúðarhús fyrir okkur fjölskylduna. Mamma og yngri bræðurnir fóru austur um áramót, Guðfinna ekki fyrr en um vorið 1974 en Gunnar og fjölskylda fluttust ekki með á Hvolsvöll en komu síðar. Vegagerðin var með mikil umsvif á þessum árum í Rangárvallasýslu, m.a. við uppbyggingu og malbikun Suðurlandsvegar. Þar kynntumst við góðum hópi fólks sem pabba líkaði vel að vinna með.
Pabbi þurfti alltaf að hafa mikið fyrir stafni. Hann var góður smiður, verkmaður og mikill athafnamaður. Féll honum sjaldan verk úr hendi.
Þegar við börnin fengum hesta að gjöf frá ömmu og afa á Fögrubrekku, þá byggði pabbi hesthús fyrir okkur. Hann sinnti líka hrossunum þannig að ekki væsti um þau og hafði hann gaman af hestamennskunni. Hestarnir og pabbi urðu miklir mátar. Hann sótti marga kerrufarma af síld sem hann saltaði og gaf hrossunum en fékk sér ávallt bita þeim til samlætis.
Hann kom að rekstri fyrirtækja og var t.d. með skeifnasmiðju í bílskúrnum og síðar rennibekki þar sem hann renndi pinna í handföng fyrir Alpan, skafla undir skeifur o.fl. Það var ósjaldan að hann nýtti tímann fyrir framan sjónvarpið við að reka karbít í skafla og oft var unnið að skeifnasmíðinni langt fram eftir kvöldum og um helgar.
Okkur er minnisstætt þegar hann fór eitt sinn að skoða pappírsverksmiðju sem var til sölu, verksmiðju sem framleiddi aðallega klósettpappír. Við hlógum mikið að þessum áformum, að hann ætlaði nú að fara að framleiða klósettpappír. Ekkert varð úr þeim fyrirætlunum en það lýsir e.t.v. hversu opinn hann var fyrir hugmyndum en varfærinn á sama tíma.
Pabbi fór á eftirlaun árið 1998 og þá fluttu foreldrar okkar í Kópavog. Pabbi keypti iðnaðarhúsnæði þar sem hann gat verið áfram með rennibekkina. Þrátt fyrir að hafa lokið fullri starfsævi hjá Vegagerðinni, þá var hann hvergi hættur. Hann hafði enn mikla starfsorku og rak hann framleiðslufyrirtæki sitt alveg þar til heilsu mömmu fór að hraka.
Foreldrar okkar hjálpuðu okkur systkinunum mikið þegar við vorum að byggja okkur hús. Mamma mætti með kaffi og með því og hann með tól og tæki ef hann vissi af framkvæmdum. Hann taldi ekki eftir sér að renna við um helgar til að smíða milliveggi, klæða loft eða hvaðeina það sem þurfti hverju sinni.
Hann var mikill fjölskyldumaður og afar hjálpsamur. Hús þeirra var oft þéttsetið börnum og barnabörnum og þau mamma fylgdust vel með störfum og áhugamálum afkomendanna.
Pabbi var mömmu stoð og stytta, ekki síst þegar hún varð fyrir því áfalli að missa heilsuna. Árið 2010 flutti hann í Árskóga 6 í Reykjavík þar sem mamma var komin í vistun á Skógarbæ en þaðan var innangengt yfir í Árskóga. Pabbi heimsótti hana daglega eftir að hún flutti inn á hjúkrunarheimilið og stytti henni stundir. Það var alveg einstakt hvað hann var natinn og góður við hana. Mamma lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 23.9. 2011.
Pabbi hafði áhuga á félagsmálum, hann var félagi í Kiwanis og í Frímúrarareglunni auk þess sem hann tók virkan þátt í sveitarstjórnarmálum. Hann hafði gaman af því að ferðast um landið og áttu þau mamma húsbíla og voru dugleg að ferðast saman á meðan heilsa þeirra leyfði. Það var gaman að hitta þau þegar þau voru á ferðinni, ávallt heitt á könnunni, bakkelsi á borðum og glatt á hjalla.
Elsku pabbi og afi, hvíl í friði og guð varðveiti þig.


Guðfinna, Gunnar, Hreinn, Hilmar og barnabörn.