Friðrik Hafsteinn Guðjónsson fæddist í Reykjavík 8. febrúar 1927. Hann andaðist á hjúkrunarheimili Hrafnistu við Sléttuveg 20. desember 2020. Foreldrar hans voru Guðjón Guðmundsson frá Arnkötludal í Kirkjubólshreppi, f. 11. maí 1873, d. 13. júní 1951, verkstjóri hjá Reykjavíkurbæ, og Sigríður Hákonía Bjarnadóttir frá Reykhólum í Reykhólasveit, f. 26. júní 1888, d. 27. ágúst 1953. Þau eignuðust sex börn; Bjarndísi er lést í æsku, Jóhönnu Sigríði, Sigurdísi, Þorbjörgu, Jóhönnu Kristínu og Friðrik Hafstein. Börn Guðjóns frá fyrra hjónabandi voru Halldóra, Haflína og Guðmundur.

Hafsteinn kvæntist 16. júlí 1949 Halldóru Ólöfu Jensdóttur, f. á Patreksfirði 3. september 1929, d. 19. apríl 1979, þau skildu. Börn þeirra: 1) Sjöfn, f. 3. júní 1949, maki Ólafur Snorri Sigurðsson, f. 26. nóvember 1947. Dóttir þeirra er Sigrún, f. 24. desember 1977, maki Ólafur Fáfnir Sigurgeirsson, f. 2. apríl 1972, þau skildu. Börn þeirra: Snorri Már, f. 27. október 2006, og Brynja Sjöfn, f. 11. október 2011. 2) Jens Gunnar, f. 26. október 1950, d. 26. apríl 2000. Maki Guðríður Óskarsdóttir, f. 25. febrúar 1948. Dóttir þeirra er Hafdís Björk, f. 27. mars 1982. Sambýlismaður hennar er Ívar Freyr Hafsteinsson, f. 7. maí 1985. Börn þeirra eru Gunnar Daði, f. 9. mars 2018, og Vigdís Edda, f. 19. júní 2020. Fóstursonur Jens og sonur Guðríðar er Óskar Daði Pétursson, f. 24. desember 1975.

Hafsteinn kvæntist 9. febrúar 1974 Guðmundu Sigurveigu Kristjánsdóttur, f. 12. mars 1930, d. 7. júní 1974.

Hinn 5. desember 1975 gekk Hafsteinn síðan í hjónaband með Ingibjörgu Jónu Jónsdóttur, f. í Reykjavík 5. desember 1927, d. 20. nóvember 1999.


Sambýliskona Hafsteins er Guðbjörg Sigríður Kristjónsdóttir.

Hafsteinn ólst upp á Laugaveginum í Reykjavík. Hann fór ungur að vinna eins og tíðkaðist þá um krakka en hóf síðan nám í skipasmíði og vélvirkjun og lauk meistaraprófi í þeim iðngreinum. Hafsteinn vann í Vélsmiðju Jens Árnasonar við Spítalastíg 6 hjá tengdaföður sínum og tók seinna við rekstri smiðjunnar. Þegar verkefnum fjölgaði byggði Hafsteinn nýja vélsmiðju í Súðarvogi 14 og Dugguvogi 1b. Rekstur vélsmiðjunnar varð ævistarf hans.

Útför Hafsteins fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 5. janúar 2021, klukkan 11. Vegna aðstæðna verða aðeins nánustu aðstandendur viðstaddir.



Hafsteinn, eins og hann var ætíð kallaður, var fæddur í Reykjavík, sonur hjónanna Guðjóns Guðmundssonar, bónda í Arnkötludal í Tungusveit síðar verkstjóra hjá Reykjavíkurborg, og Sigríðar Bjarnadóttur húsmóður. Þau bjuggu á Laugavegi 165. Hafsteinn var yngstur fjögurra systra og þriggja hálfsystkina samfeðra. Á hans uppvaxtarárum var eftirsóknarvert að komast í iðnnám. Í gegnum mág sinn Sigurberg Benediktsson hóf hann nám í skipasmíði hjá Slippnum í Reykjavík. Snemma bar á dugnaði hans og vandvirkni, í náminu fékk hann oft að heyra sem ungur lærlingur, þegar farið var í kvöld- og næturverk: Takið Hafstein með ykkur. Á námsárunum kynntist hann konu sinni Halldóru Jensdóttur. Þau byggðu sér stórt og myndarlegt hús á Melabraut 2 á Seltjarnarnesi og eignuðust 2 börn, Sjöfn og Jens. Stórfjölskyldan var samhent, minnisstæð eru jólaboðin sem þau héldu til skiptis heima. Sem smiður smíðaði Hafsteinn hús og innréttaði íbúð fyrir systur sínar, allt í launalausri samhjálp. Halldóra var dóttir Jens Árnasonar járnsmiðs sem flutt hafði frá Patreksfirði til Reykjavíkur og stofnaði renniverkstæði í lágreistu húsi í portinu þar sem hann bjó við Spítalastíg í Reykjavík. Hafsteini og Jens varð fljótt vel til vina og sá hann fljótlega hvað í stráknum bjó. Þó Jens hafi átt tvo syni stóð hugur þeirra ekki til járnsmíða. Jens var efnaður maður og kom að máli við Hafstein og bauð honum að koma á samning til sín og læra rennismíði og taka svo við rekstri smiðjunnar sem yrði arfur hans til þeirra hjóna. Hafsteinn gekk að þessu og hóf nám í rennismíði sem varð hans ævistarf og framkvæmdastjóri Vélsmiðju Jens Árnasonar. Svo samofin er samvinna þeirra að minning Hafseins verður ekki skráð án Jens Árnasonar sem var stórhuga frumkvöðull. Hafsteinn hélt merki hans á lofti með mikilli virðingu svo lengi sem hann gat. Sá tími sem þeir störfuðu á er nútímamanninum orðinn framandi og kemur vonandi aldrei aftur. Síðari heimsstyrjöldinni nýlokið, borgir meginlandsins í rústum og atvinnulíf rofið og fólk í sárum styrjaldarinnar. En Íslendingar áttu mikið af innfluttum vélum í skipum og farartækjum sem þurfti að halda við. Landið var þá mun einangraðra, allar vörur fluttar með skipum, flug lítið og í mótun. Símsamband og símskeyti fjarskiptamátinn. Tungumálakunnátta lítil og mun minni en nú er. Ef svo samband náðist til að afla varahluta var svarið oftast: Verksmiðjan ekki lengur til, sprengd upp í loftárás, starfsemi hætt. Svo eftir stóð aðeins eitt: Hvað getum við sjálfir gert? Nú hófst blómaskeið járniðnaðar. Vélsmiðjurnar urðu að smíða þá varahluti og sinna bilunum sem þau leystu á mjög frambærilegan máta. Í Vélsmiðjunni Héðni störfuðu um 300 manns. Vélsmiðjan Hamar var með um 130 manns. Ungir menn þess tíma sóttust eftir járnsmíðanámi. 1950 var haldin mikil iðnsýning í Austurbæjarbarnaskólanum, þar á meðal komu tékkneskir rennibekkjaframleiðendur með rennibekki og fræsara sína til kynningar, styrktir af tékkneska ríkinu. Engum þeirra kom til hugar að þessi tæki yrðu eftir á Íslandi, en Jens Árnason mætti á svæðið og leist vel á tækin og spurði um verð. Ekki lá það á lausu svo sýnendurnir urðu að hringja til síns heima. Ekki var víst um neina smáupphæð að ræða. En Jens hafði svarað með sínu alkunna eðlislæga svari: Jæja já. Sem hann og smiðjumenn tóku upp og svöruðu mönnum með þegar útlokað þótti að smíða hlutinn. Skildu þetta, eftir var sag og hluturinn smíðaður. En áður en sýningunni lauk þurfti hann að bregða sér frá úr vinnunni og koma við í bankanum. Jens var meðalmaður á hæð og þrekvaxinn, haft var á orði að brjóstkassinn hafi talsvert þanist út í dvölinni í bankanum. Á sýninguna var haldið í annað sinn og þegar þangað kom var peysunni lyft upp og seðlabúnt tekin úr brjóstvasanum og lögð á borðið með þeim orðum: Þið ættuð kannske að koma þessu heim fyrir mig. Það gerðu Tékkarnir og fylgdu tækjunum eftir með heimsóknum tveimur og fimm árum síðar. Nú gat Jens Árnason hf. tekið að sér að renna skrúfuöxla í skip, 5 til 6 metra langa. Einn rennibekkurinn var með hækkanlegri patrónu, þar með var hægt að renna göt í skipsskúfur. Jens deyr 1959 og Hafsteinn tekur við fyrirtækinu og flytur það í nýtt og glæsilegt húsnæði í Súðavogi 14 á sjöunda áratugnum. Mörg voru þau verkefni sem þeir tóku að sér, ekki væri litið við þeim í dag en þeir skiluðu á frambærilegum máta. Skipsskrúfur settar á skip, vaðið í sjó upp undir hendur svo ekki þyrfti að taka skipið í slipp. Eitt er það dæmið talandi þess tíma þegar Björgun hf. keypti í dýpkunarskipið Sandeyna, en þegar það var komið til landsins uppgötvaðist að skipið var ætlað til að dæla efni úr lestinni í stálþil eða ker til að sökkva í sæ fyrir varnargarða. En hér átti að dýpka hafnir með því að dæla sandi úr hafnarbotni og í lest skipsins. Forstjórinn Kristinn í Björgun, eins og hann var oftast nefndur, kom til Hafsteins og bar upp vandamál sitt. Einhverjar tilraunir voru gerðar til að fá annan gír með öfugri snúningsátt. En sú verksmiðja sem hafði smíðað gírinn, hvar var hún? og ef til vill ekki lengur til. Það var auðvelt að segja: Við bætum við einu tannhjóli í gírinn og þar með erum við búnir að snúa snúningsáttinni við. En framkvæmdin var þrautin þyngri. Tannhjólið var smíðað, til að halda því uppi þurfti öxul í gegnum það og legur og leguhús í sjálft gírhúsið báðum megin til að halda því uppi og tengja við drifhjól gírsins. Í dag myndi engum detta í hug að reyna þetta, það yrði pantaður nýr gír, en þeir gátu ekkert pantað. Skipið fór svo til sinna verkefna en engar sögur bárust af biluðum gír. Með nýjum verksmiðjum og bættum samgöngum hlaut að draga úr slíkri viðgerðarvinnu, varahlutir auðfáanlegir og verksmiðjuframleiddir með ábyrgð. En okkar menn héldu skipum og tækjum atvinnulífsins gangandi í sinni tíð við aðstæður sem nútímamenn þekkja ekki. Hafsteinn Guðjónsson er gildur fulltrúi þeirrar kynslóðar sem nú er að kveðja og vann tíma eftirstríðsáranna og færði okkur upp um þrep nýrrar tækni. Hafsteinn var glaðsinna maður, hlýr og nærgætinn með mjög hlýja nærveru, dugnaðarforkur og vandvirkur og stóð við sitt í hvívetna. Í einkalífinu varð hann að bergja þyngstu áföll lífsins. Hann kvæntist þremur konum sem hann missti allar, Halldóru við skilnað og hinar dóu langt um aldur fram. Guðmunda dó úr berklum eftir fjóra mánuði í hjónabandi. Ingibjörg dó úr hjartaáfalli 1999. Sonurinn Jens Gunnar andaðist ári síðar úr hjartaáfalli, um það leyti sem hann átti að taka við rekstri smiðjunnar. Aldamótaárið varð honum þungbært vegna mikillar sorgar, á einni nóttu var samningurinn sem hann hafði gert við tengdaföður sinn Jens Árnason rofinn, mynd hans sem hangið hafði á vegg á skrifstofu Hafsteins tekin niður, nú get ég ekki meir. Voru hans orð. Starfsemi smiðjunnar var sjálf hætt og hann orðinn 73 ára og einn. Síðar hóf hann sambúð með Guðbjörgu Kristjónsdóttur, Gígí, sem var orðin ekkja úr vinahópi þeirra. Hún flutti til hans í Miðleiti 7. Sambúð þeirra varð báðum til góðs þar áttu þau góða daga, þar til heilsan gaf sig. Niðjum Guðbjargar féll sambúð þeirra vel og naut hann fljótlega virðingar og vináttu. Hafsteinn skilur eftir sig ljúfa minningu, hann er maður sem kemur og er en aldrei fer. Þeim öllum votta ég innilegustu samúð. Gígi votta ég dýpstu virðingu og samúð með þakklæti fyrir allar ljúfu samverustundirnar og samveru við Hafstein. Sjöfn dóttir Hafsteins og Snorri maður hennar, Guðríður og Hafdís, kona og dóttir Jens Gunnars, innilega samúð og guðs blessun til ykkar allra.


Ólafur Jóhannsson kveður með virðingu og þökk fyrir allar samverustundir og ljúfa minningu.

Ólafur Jóhannsson.