Tryggvina Steinsdóttir fæddist á Hrauni á Skaga 7. apríl 1922. Hún lést 11. janúar 2021 á hjúkrunarheimilinu Seltjörn á Seltjarnarnesi.
Foreldrar hennar voru hjónin Guðrún Kristmundsdóttir húsfreyja, f. 12. október 1892, d. 24. október 1978, og Steinn Leó Sveinsson, bóndi og hreppstjóri, f. 17. janúar 1886, d. 27. nóvember 1957.
Systkini Tryggvinu eru Gunnsteinn Sigurður, f. 10. janúar 1915, d. 19. desember 2000. Guðrún, f. 4. september 1916, d. 7. mars 1999. Rögnvaldur, f. 3. október 1918, d. 16. október 2013. Svava, f. 17. nóvember 1919, d. 8. desember 2001. Guðbjörg Jónína, f. 30. janúar 1921, d. 19. janúar 2018. Kristmundur, f. 5. janúar 1924, d. 5. apríl 2006. Svanfríður, f. 18. október 1926, Sveinn, f. 8. september 1929. Ásta, f. 27. nóvember 1930, d. 24. október 2012. Hafsteinn, f. 7. maí 1933, d. 25. júní 2019, og Hrefna, f. 11. maí 1935, d. 19. ágúst sama ár.
Tryggvina giftist 2. ágúst 1953 Hrólfi Ásmundssyni vegaverkstjóra, f. 24. júlí 1911, d. 24. desember 2000. Börn þeirra eru: 1) Ásmundur Jósep, f. 23. september 1954, d. 24. október 1995, sonur hans og Ragnheiðar Fossdal er Hrólfur, f. 1985. 2) Kristrún Guðrún, f. 7. desember 1958, dóttir hennar er Hildur Sif, f. 1984, en dóttir Hildar Sifjar er Annabella Sif, f. 2020. 3) Gestur, f. 22. nóvember 1962.
Tryggvina ólst upp á Hrauni á Skaga og hún stundaði nám við Kvennaskólann á Blönduósi veturinn 1942-43. Eins og þá tíðkaðist byrjaði hún að vinna fyrir sér upp úr fermingu, fyrst í stað sem kaupakona á sveitabæjum og síðan við ýmis störf, m.a. við Bændaskólann á Hvanneyri, Garðyrkjuskólann í Hveragerði og Hótel Fornahvamm á Holtavörðuheiði. Eftir að hún giftist vann hún tólf sumur sem ráðskona hjá Vegagerðinni, lengst af með börnin sín með sér sem hún sinnti með fullu starfi. Þegar börnin hennar fóru að stálpast, hóf hún störf hjá Pósti og síma, fyrst sem bréfberi og síðan sem póstafgreiðslumaður, og starfaði þar í 15 ár.
Útför Tryggvinu verður frá Áskirkju í dag, 22. janúar 2021, klukkan 15. Streymt verður frá athöfninni og hlekkurinn er: https://tinyurl.com/tryggvina
Virkan hlekk á slóð má nálgast á:
Tryggvina er tengdamóðir mín. Hún var á sama aldri og ég er nú þegar við
kynntumst. Hún bar aldurinn einstaklega vel og var ungleg og snör í
snúningum. Ég var fyrirfram dálítið smeyk við þessa konu sem var fullkomin
í frásögn Ása sonar hennar. Hún var falleg, klár, dugleg og skapandi og gat
gengið í öll verk hvort sem þau voru hefðbundið unnin af kven- eða
karlmanni. Ási fór með mig í heimsókn í Blönduhlíðina, á fallega heimilið
hennar og Hrólfs. Þar var tekið vel á móti mér og af virðingu, með ljúfu
atlæti og góðum veitingum eins og venja var af húsmóðurinni og manni
hennar. Hjá Tryggvinu og Hrólfi voru allir velkomnir, ættingjar, vinir og
einstæðingar sem voru oft og tíðum í mat og þjónustu hjá Tryggvinu. Hún tók
að sér barnabörnin tvö hvenær sem þörf var á og var þeim einstakur styrkur
og góð fyrirmynd.
Ég sá fljótt að þarna var heilsteypt og flott kona sem engin ástæða var að
óttast. Það var stutt í grínið og hláturinn við eldhúsborðið hjá Tryggvinu.
En Tryggvina var líka ákveðin og föst fyrir þegar á þurfti að halda. Hjá
henni var ekkert bull látið viðgangast. Hún gekk sjálf í lausn verkefna ef
þörf var á en sýndi líka mikinn þroska og ró í öðrum málum þar sem aðrir
fengu að njóta sín. Lífið var ekki alltaf auðvelt hjá fjölskyldu hennar,
frekar en öðrum af hennar kynslóð. En aldrei heyrði ég hana kvarta eða tala
illa um fólk. Frásagnir Tryggvinu báru ekki með sér fleipur eða sögusagnir.
Hún lýsti hlutum og atburðum af nákvæmni, á heilbrigðan hátt og með
skemmtilegum atvikum enda konan stálminnug.
Gamli tíminn var Tryggvinu einstaklega dýrmætur og sérstaklega æskuárin á
Hrauni á Skaga með 11 systkinum, en hún var sú 6. í röðinni. Hún rifjaði
upp aðstæður í sveitinni, vinnuna, skemmtanir og ferðamáta sem var aðallega
á tveimur jafnfljótum og þar sem strákarnir báru stelpurnar á bakinu yfir
ár og læki eða að hestum var flengriðið yfir móana. Kindur og kýr voru á
bænum og sjórinn og vötnin gáfu mat í bú. Einu sinni rak heilmikið af fötum
á land við Hraun og mamma Tryggvinu nýtti fötin og saumaði m.a. á Tryggvinu
kápu úr rekanum. Aðallega var þó um að ræða rekavið, sem var seldur inn á
Sauðárkrók og notaður í byggingar þar. Róið var til fiskjar, mikið var
veitt af silungi á vorin og á sumrin og æðarvarpið var að byrja þegar
Tryggvina var ung. Allir heimilismenn tóku þátt í vinnunni. Amma Tryggvinu
var framúrstefnuleg í hugsun og keypti á stelpurnar, barnabörnin sín,
síðbuxur sem Tryggvina sagði að hefðu gert alla vinnu mun auðveldari. En
undir buxunum voru þær áfram í ullarsíðbrók eins og tíðkaðist undir
pilsinu.
Mikið var kveðið og sungið heima á Hrauni. Steinn pabbi Tryggvinu var t.d.
forsöngvari í Ketukirkju og Svava systir hennar hafði einstaklega fallega
rödd. Tryggvina var stolt af fjölskyldu sinni og sérstaklega afa sínum og
ömmu sem voru virk í rekstri æskuheimilisins og umönnun barnanna.
Heimakennsla var í hreppnum á þessum árum og á meðan börnin voru svona mörg
þá var hún haldin á Hrauni en einnig á Mallandi og Hóli. Eitt sinn voru
þrír mánuðir kenndir heima hjá Tryggvinu og bjuggu börnin af hinum bæjunum
og kennarinn á Hrauni á meðan. Kennarinn, Gunnar Einarsson, setti m.a. upp
söngleik þar sem hann og Svava systir hennar sungu. Mættu gestir af næstu
bæjum til að hlýða á og á eftir var dansað og veitingar veittar. Allir á
bænum tóku þátt og unnu saman í lífs- og félagsstarfi.
Margir úr fjölskyldunni voru hagmæltir, sérstaklega móðurafi og móðuramma
Tryggvinu. Tryggvina vildi ekki viðurkenna slíka hæfileika en hafði gott
minni til að rifja upp kveðskapinn.
Árni í Vík húsasmiður var staddur á Hrauni að byggja þegar Tryggvina var
3ja ára. Amma hennar bauð honum auðvitað í afmælið. Árni reykti tóbak sem
var geymt í logagylltum kassa. Hann setti 2 krónur í kassann og gaf
Tryggvinu (sem kölluð var Vina af systkinum sínum). Þá orti afi
hennar:
Eignast vilt þú unga mær
eins og sumar hinar
kassa fékk og krónur tvær
klæða sólin Vina
Afi Tryggvinu orti líka stökur um systkini hennar sem hún flutti mér. Þau
elstu fengu eftirfarandi:
Ungur fríður fjörugur
frægur verður smiður
greindur vel og gjafmildur
Gunnsteins er hann niður.
Fögur er sú fanta sunna
falleg er hún litla Gunna.
Ekki vill hún neina klunna
auminginn hún litla Gunna.
Oft vill halda á hafið kalda
hátt þó aldan reisi sig
Siglu-Valdi súðabaldi
samt hann aldrei kærir sig.
Heitir Svava hýr og góð
sönginn afa nett og fróð.
Ég er í vafa að yrkja óð
eða skrafa meira um fljóð.
Hún er afa og ömmu kær
eyðir flestum drunga.
Guðbjörg mín er góðlát mær
glaða sprundið unga.
Verkin vinnur vel og mörg
er hún oft á róli.
Hún Tryggvina Ingibjörg
á sér nöfnu á Hóli.
Móðuramman var ekki síður hagmælt eins og mörg systkini Tryggvinu. Þegar
amman var að dekstra Valda bróður Tryggvinu til að hjálpa sér að koma börum
af mykju úr fjósinu áður en kýrnar kæmu heim, þá sagði Valdi: Amma ég skal
hjálpa þér ef þú gerir um mig vísu. Amman laumaði þá út úr sér:
Valdi litli kappinn knái
komdu nú á snúninginn.
Út í hauginn arka nái
ungur sveinn og kerlingin.
Tryggvina byrjaði snemma að vinna að heiman eins og tíðkaðist. Hún var
kaupakona í sveit og bæ, matráðskona í vegagerð, starfsmaður á plani og
síðast flokkari í póstinum í Reykjavík, svo eitthvað sé nefnt. Hjá ungu
konunni var grunnt á keppnisskapinu og hin síðari ár sagði hún mér sögur úr
sveitinni og af viðskiptum sínum við bændur og búalið sem reyndu að storka
henni þegar hún var ung og fá hana til að keppa við sig á ýmsa lund. Hún
lét ekki ganga lengi á eftir sér og fór margur karlmaðurinn halloka fyrir
henni eftir að hafa álitið sig vísan um sigur.
Fornihvammur er eyðibýli efst í Norðurárdal í Borgarfirði. Tryggvina vann
þar einn vetur þegar hún var 19 ára á meðan þar var rekið lítið hótel. Hún
sá um herbergin, þvottinn og mjólkaði kýrnar. Mismikið að gera eftir því
hvort Holtavörðuheiðin var fær eða ekki. Eftir stækkun hótelsins nokkrum
árum seinna vann hún þar aftur í hálft annað ár hjá Páli staðarhaldara.
Tryggvina minntist þessa tíma með gleði og stolti og sagðist yfirleitt hafa
borið meira úr býtum en venjuleg vinnukona því hún lagði sig alla fram og
hafði gaman af því.
Tryggvina var tvö ár kaupakona í Hvammi í Norðurárdal hjá Sverri Gíslasyni,
bónda og formanni Bændasamtakanna. Tryggvina bar honum vel söguna og sagði
hann vel greindan karl og úrræðagóðan. Var Sverrir einn af fjölmörgum
velunnurum Tryggvinu og þegar Tryggvina og Hrólfur ákváðu að kaupa sér
Willys-jeppa um 1947 þá var Sverrir þeim innan handar sem formaður
úthlutunarnefndar bifreiða. Skömmtun var á innflutningi bifreiða til
landsins á þessum tíma og gott að eiga góða að. En Tryggvina vildi samt
frekar vera gefandi en þiggjandi í öllum málum.
Tryggvina var hlaðin mannkostum sem hún hefur fengið í vöggugjöf
(okfrumugjöf). Sem dæmi þá hefur hún örugglega verið með einstakar gerðir
af æsku-, langlífis-, orku- og þrautseigjugenum og sennilega líka með dass
af ofvirkni í erfðaefninu. Það var ekkert gert með hálfum huga. En
Tryggvina bar þess líka merki að hafa verið ósérhlífin alla ævi því
liðirnir voru allir búnir. Hún var ekki ánægð með að liggja fyrir síðustu 2
árin og að geta ekki séð um sig sjálf þótt hugurinn væri skýr. Hún vísaði
til þess tíma þegar kraftur og vinnusemi var henni allt með orðunum þegar
ég var manneskja.
Tryggvina hefði orðið 99 ára eftir um 3 mánuði, jafnaldra Betty White,
leikkonu og skemmtikrafts, og fimm árum eldri en Elísabet II.
Bretadrottning. Tryggvina gaf öðrum öryggi, vellíðan og gleði í lífinu.
Sonur Tryggvinu og eiginmaður hafa nú tekið á móti henni í sumarlandinu og
ég sé þau öll fyrir mér í innilegum samræðum og með glettni í augunum. Ég
og sonur minn Hrólfur gengum lífsveginn að stórum hluta með Tryggvinu,
manneskju sem við virðum og elskum til æviloka. Takk fyrir okkur,
Tryggvina.
Ragnheiður Fossdal