Guðbjörg Jóna Hjálmarsdóttir fæddist í Reykjavík 23. nóvember 1939. Hún lést 16. janúar 2021. Foreldrar hennar voru hjónin Kristín Ingimarsdóttir, f. 26. ágúst 1895, d. 3. september 1984, og Hjálmar Þórður Jónsson, f. 26. mars 1905, d. 2. september 1977. Systkini Guðbjargar voru Anna og Aðalsteinn.

Guðbjörg ólst upp í Reykjavík og gekk í Austurbæjarskóla. Hún lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Hún hóf 16 ára störf hjá Hans Petersen hf., fyrstu árin í versluninni í Bankastræti 4, en lengst af vann hún á skrifstofu fyrirtækisins þar sem hún sá um innflutning á þeim vörum sem fyrirtækið seldi.

Pétur Sölvi Þorleifsson fæddist í Reykjavík 2. júlí 1933. Hann lést 6. janúar 2021. Foreldrar hans voru Jónína Guðfinna Kristjánsdóttir, f. 21. apríl 1905, d. 1. júní 1989, og Þorleifur Þorleifsson, f. 23. september 1903, d. 27. desember 1936. Uppeldisforeldrar Péturs voru Sölvína Baldvina Konráðsdóttir, f. 18. apríl 1898, d. 7. ágúst 1974, og Pétur Björgvin Björnsson, f. 21. mars 1904, d. 16. mars 1975. Systkini Péturs voru Anna Laufey (ættleidd), Hrafnhildur Laxdal, María Þórleif og hálfbróðirinn Þórður Rúnar Thordarson Jónsson (ættleiddur). Uppeldisbræður Péturs voru Konráð Bjarnar Pétursson og Stefán Pétursson.


Pétur lærði reiðhjólasmíði hjá Reiðhjólaverkstæðinu Óðni. Hann vann við fagið, fyrst í stað hjá Fálkanum en síðar rak hann í félagi við tvo aðra Gamla-verkstæðið, sem varð reiðhjólaverkstæði í samstarfi við Fálkann.


Pétur stundaði ferðalög um Ísland af kappi alla tíð fram að því að heilsan fór að þverra. Hann var virkur í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík, Ferðafélagi Íslands og Jöklarannsóknafélagi Íslands, þar sem hann sat í stjórn ásamt því að vera heiðursfélagi. Pétur gekk í Karlakór Reykjavíkur árið 1972. Hann fór í nokkrar utanlandsferðir með kórnum, m.a. til Mið-Evrópu, Kanada og Bandaríkjanna. Pétur skrifaði tvær bækur um fjallgöngur á Íslandi. Fyrri bókin var skrifuð í félagi við Ara Trausta Guðmundsson en þá seinni skrifaði hann einn og óstuddur.


Guðbjörg og Pétur gengu í hjónaband 26. ágúst árið 1961. Sonur þeirra er Hjálmar Pétur, f. 7. mars 1972. Einnig fæddist andvana sonur 20. febrúar 1978. Dóttir Péturs og Margrétar Jónu Magnúsdóttur er Kristín Júlía, f. 14. febrúar 1959. Börn hennar eru Bjarnar Hrafnkell Magnússon, f. 29. desember 1979, Margrét Rún Magnúsdóttir, f. 30. mars 1991, og Arngunnur Ýr Magnúsdóttir, f. 22. desember 1994. Synir Bjarnars eru Mikael Breki, f. 15. maí 2018, og Gabríel Leó, f. 19. desember 2019.

Útför þeirra hjóna verður frá Langholtskirkju í dag, 25. janúar 2021, og hefst athöfnin klukkan 11.

Afar fáir Íslendingar hafa sameinað ferðalög um landið og staðþekkingu af jafn mikilli elju og yfirvegun og Pétur Þorleifsson. Hann var þekktur fyrir frammistöðu í spurningakeppni um landafræði og upplýsingabanki ótal aðila sem vantaði að vita hvar gömul eða ný ljósmynd væri tekin, hvaða landslag sæist á henni eða hvaða mótíf tiltekið málverk sýndi. Ferðirnar voru honum ekki aðeins útivist og nánd við náttúruna heldur líka einhvers konar könnun, rannsókn eða frumherjaframkvæmd. Hann virtist hafa lesið flestar bækur og tímarit um land og náttúru og hafði stálminni. Pétur var vel ritfær, skrifaði fjölda tímarits- og blaðagreina, og var ágætur ljósmyndari.

Af Pétri stafaði ávallt, í minni návist, rósemd og seigla og hann gladdist á sinn hæverska hátt þegar áfanga var náð. Hann var fjallamaður í orðsins fyllstu merkingu, kunni vel til verka, útsjónarsamur, þrekmikill og góður skíðamaður, og virkur í Flugbjörgunarsveitinni. Hann leitaði á fáfarnar slóðir og var fljótur að tileinka sér nýjungar, til dæmis vélsleða þegar þeir voru sjaldséðir. Og eins og fjallamanna er siður leitaði hann uppgöngu á tinda landsins. Hann kleif slíkan sæg fjalla og komst í svo marga króka og kima helstu jökla landsins að leitun er að jafnokum hans. Til marks um það og honum til heiðurs var hátt og hvassbrýnt jökulsker í Langjökli heitið eftir Pétri fyrir mörgum árum: Péturshorn.

Okkar leiðir lágu saman 1965, fyrst í ferðum með Farfuglum og Ferðafélagi Íslands og síðar Jöklarannsóknarfélaginu. Hann var mun eldri og reyndari en ég og góður og hæverskur kennari í óeiginlegri merkingu. Var jafningi í einu og öllu. Við gengum saman um Þórsmörk, skoðuðum Hrafntinnusker og Eiríksjökul, lágum fönn í illviðri á Langjökli og stóðum á Heklutindi í sumarsól. Eftir langt hlé, þar sem ég sá Pétur helst á félagsfundum, unnum við fáein verkefni saman. Við lögðum Reykjaveginn í samvinnu við Reykjavíkurborg og sveitarfélög á SV-horninu, vikulanga, stikaða gönguleið frá Nesjavöllum að Reykjanesvita, og unnum saman bækurnar tvær um uppgöngu á fjöll, fyrst 101 fjall (Fólk á fjöllum) en svo á 151 fjall (Íslensk fjöll). Skiptum fjöllum í fyrri bókinni jafnt á milli okkar við ritun, fimmtíu og hálft á mann! Í þeirri seinni fékk Pétur eitt fjall í vinning. Hann bætti svo um betur með eigin bók (Fjöll á Fróni) með leiðarlýsingum á 103 fjöll.

Síðasta ferð okkar saman var heimsókn á Baulu til þess að fagna með Páli Guðmundssyni hjá Ferðafélaginu og garpinum Þórhalli Ólafssyni því afreki að hann varð fyrstur manna til þess að ná efstu hæðum allra fjallanna í seinni bókinni. Mér er ljúft og skylt að þakka viðkynningu, samveru og samvinnu við Pétur Þorleifsson og mun minnast hans með hlýju við mörg tækifæri. Eiginkona Péturs, Guðbjörg Hjálmarsdóttir, er einnig nýlátin. Hennar minnist ég með hlýju og þökk fyrir viðmót, viðurgjörning og þolinmæði heima fyrir þegar við Pétur höfðum sökkt okkur í langar jarðtengdar pælingar. Færi Hjálmari, vinum og vandamönum samúðarkveðjur vegna fráfalls þeirra beggja.

Ari Trausti Guðmundsson.