Haraldur Guðnason fæddist á Brekkum í Hvolhreppi, Rangárvallarsýslu 14. desember 1928. Hann lést á líknardeild Landspítalans 17. janúar 2021. Foreldrar hans voru Guðni Guðjónsson, f. 11.6. 1898, d. 14.4. 1995, og Jónína Guðný Jónsdóttir, f. 5.6. 1902, d. 16.6. 1969. Haraldur var fimmti í röð 12 systkina en þau eru: Valgerður, f. 14.6. 1923, Ingólfur, f. 21.2. 1925, Guðni Björgvin, f. 1.4. 1926, Ágústa, f. 20.8. 1927, d. 5.2. 1980, Gunnar, f. 7.3. 1930, d. 1.6. 2013, Hafsteinn, f. 22.10. 1932, d. 20.2. 1995, Júlíus, f. 16.10. 1933, d. 30.10. 1968, Guðjón Sverrir, f. 31.5. 1935, Drengur, f. 31.5. 1935, d. 15.2. 1936, Dagbjört Jóna, f. 1.9. 1939, og Þorsteinn, f. 19.6. 1942, d. 25.4. 1990.

Haraldur kvæntist árið 1955 Ragnhildi Guðrúnu Pálsdóttur, f. 27.9. 1935, frá Kirkjulæk II í Fljótshlíð, Rangárvallasýslu. Foreldrar hennar voru Páll Nikulásson, f. 27.9. 1899, d. 30.10. 1968, og Helga Metúsalemsdóttir, f. 7.10. 1907, d. 12.6. 1980.

Börn Haraldar og Ragnhildar eru: 1) Helga, f. 10.6. 1955, d. 4.12. 1993, maki Naguib Zaglouhl, f. 18.2. 1929, d. 5.11. 2012. 2) Páll, f. 13.7. 1958, maki Björg Sigurðardóttir, f. 24.3. 1958. Börn þeirra eru: a) Ragnhildur Guðrún, f. 8.6. 1979. b) Sigurður Bóas, f. 18.8. 1980. c) Haraldur Rafn, f. 2.12. 1987, og d) Helga Rún, f. 9.9. 1994. 3) Gunnar, f. 31.3. 1963, maki Kristín Ögmundsdóttir, f. 25.2. 1966. Börn þeirra eru: a) Magdalena, f. 5.10. 1988. b) Ögmundur Páll, f. 6.8. 1992. c) Helgi Ragnar, f. 18.7. 1995. d) Hildur Kristín Margrét, f. 17.10. 2003. Barnabarnabörnin eru níu talsins.

Haraldur starfaði við landbúnaðarstörf á búi foreldra sinna á Brekkum, þá vann hann við vegagerð, varnargarða við Markarfljót og byggingarvinnu, meðal annars við smíði félagsheimilisins Hvols á Hvolsvelli. Hann átti vörubíl með Gunnari bróður sínum sem þeir ráku saman í nokkur ár. Fór meðal annars nokkrar ferðir á bílnum vestur á firði til að kaupa ásetningslömb fyrir bændur í Hvolhreppi vegna fjárskipta árið 1953, en sauðfé hafði verið skorið þar niður vegna mæðiveiki. Hann fór jafnframt á margar vertíðir til Vestmannaeyja og stundaði þar störf við fiskvinnslu.

Árið 1953 kynntist hann Ragnhildi. Þau settust að á Brekkum og tóku við búinu af foreldrum Haraldar árið 1955 og bjuggu þar til ársins 1957. Þá fluttu þau til Reykjavíkur og Haraldur byrjaði fljótlega að vinna hjá Hitaveitu Reykjavíkur og síðar Orkuveitu Reykjavíkur þegar það fyrirtæki varð til við sameiningu hitaveitu, rafmagnsveitu og vatnsveitu Reykjavíkur. Haraldur starfaði samfleytt í 42 ár hjá þessum fyrirtækjum við viðgerðir og hitaveitulagnir inn í hús, jafnframt var unnið við borholur í Reykjavík, í Mosfellsbæ og á Nesjavöllum en hin síðari ár við skipti á hitaveitumælum í húsum.

Útför Haraldar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 1. febrúar 2021, klukkan 13. Útförinni verður streymt og nálgast má streymið á slóðinni:
https://tinyurl.com/y3urxszq/. Virkan hlekk á streymið má finna á: https://www.mbl.is/andlat/minningar/utfarastreymi/.

Elsku pabbi minn, nú hefur þú fengið hvíldina, eftir stutt en erfið veikindi. Þú varst alla tíð heilsuhraustur og naust þess að takast á við erfiða vinnu sem reyndi bæði á úthald og þrek. Það átti því ekki við þig þegar heilsan gaf sig, enda sagðist þú frekar vilja fá að fara en vera svona á þig kominn.

Á svona stundum hlaðast upp minningarnar sem eru ótalmargar allt frá því maður man fyrst eftir sér. Minningar frá því maður var strákur í Fljótshlíðinni og mamma og pabbi voru að koma í heimsókn um helgar mér fannst það alltaf svo spennandi, minningar frá því maður var að koma gangandi heim úr skólanum og maður rakst á pabba þar sem hann var að vinna við hitaveituborholurnar sem voru víða um í Reykjavík og dældu upp heitu vatni til að hita upp húsin. Ég var svo hreykinn á þessum tíma af að sjá pabba vinna við þetta og fannst hann vera mikil hetja, því þetta var mikil erfiðisvinna. Minningar þegar hann keyrði mig alla morgna þegar ég byrjaði í Verslunarskólanum sem var þá á Grundarstígnum. Minningar þegar pabbi fór með mig niður í bæ á 17. júní-hátíð í Reykjavík og ég týndist í mannfjöldanum. Minningar þegar mig langaði að byrja að selja dagblöð en búið var að loka blaðaafgreiðslunni og pabbi vildi þá kaupa nokkur blöð sem ég gæti selt. Svona væri hæglega hægt halda áfram og telja upp fleiri minningar um pabba.

Óhætt er að segja að pabbi hafi verið afburðaduglegur maður og eftirsóttur í vinnu, sökum ósérhlífni og driftar sinnar við vinnu. Mikil ákefð og hugur fylgdi öllu því sem hann tók sér fyrir hendur og það var helst ekki hætt fyrr en verkinu var lokið. Hann var morgunmaður, fór snemma á fætur til að sinna hinum ýmsu verkum, sagði ætíð: Morgunstund gefur gull í mund. Hann var mjög bóngóður og aðstoðaði mig ætíð þegar maður var að mála, smíða eða eiga við pípulagnir á mínu heimili. Hann var bæði samviskusamur og heiðarlegur og vildi aldrei skulda neinum neitt. Alla reikninga varð að borga strax og þeir birtust honum. Hann var til að mynda að koma úr bankaferð, þar sem var verið að greiða aðeins einn happdrættismiða, þegar hann datt í hálku og upp frá því hrakaði heilsu hans. Pabbi var einnig mjög fastur fyrir og stífur á skoðunum sínum og því oftast erfitt að breyta þegar búið var að taka ákvörðun.

Pabbi var ekki mikið fyrir að fara til útlanda, þess vegna er minnisstæð ferðin sem við fórum með hann til Hollands í kringum 1990 og dvöldum þar í sumarhúsi ásamt fleira fólki. Hann naut sín vel í þeirri ferð og talaði oft um hana. Þar var bæði hjólað og gengið mikið.

Pabbi og mamma reistu sumarbústað í Fljótshlíðinni árið 1987 og áttu mörg mjög góð ár saman í Hlíðinni fögru og nutu sín vel við gróðurinn og önnur störf úti í náttúrunni. Sumarbústaðurinn átti hug hans allan og þar sá maður hvar rætur hans lágu enda talaði hann oft um uppeldisár sín á Brekkum þar sem hann ólst upp ásamt 11 systkinum sínum og að það hefði oft verið fjörugt á svo barnmörgu heimili. Þá var gengið í skólann út í Hvolsvöll sem er um 1 km leið í hvað veðri sem var. Brekkurnar áttu vissan stað í hjarta pabba sem leyndi sér ekki þegar hann ók þar fram hjá á leið inn í Fljótshlíð.

Það var alltaf stutt í bóndann hjá pabba, hann fylgdist vel með málefnum landbúnaðarins og hafði sterka skoðun á þeim málum. Að vera úti í náttúrunni og vinna við að slá gras eða moka jarðveg átti vel við hann. Og ekki má gleyma að minnast á hversu gaman hann hafði af að setja niður kartöflur á vorin og taka þær síðan upp að hausti og spennan yfir því að sjá uppskeruna. Börnin mín eiga góðar minningar úr sumarbústaðnum með pabba og mömmu, þar fengu þau yfirleitt eitthvað að aðstoða því þar var alltaf eitthvað verið að dytta að. Gaman var að sjá hversu hreykinn pabbi var af öllum afabörnum sínum. Fylgdist vel með hvernig þeim gengi í lífinu og hann tók líka vel eftir því hvernig þau tókust á við verkefnin og sagði oft við þau hversu efnileg þau væru.

Elsku pabbi minn, mig langar að þakka þér fyrir fylgdina í gegnum lífið og hversu góður og umhyggjusamur þú varst við börnin, þau munu sakna Hadda afa mikið og það er erfitt að skýra út fyrir þeim að nú sért þú kominn til Guðs. Við munum kenna þeim að minnast þín í bænum sínum.

Góða ferð í sumarlandið elsku pabbi minn, með kærri þökk fyrir allt og allt.

Blessuð sé minning þín.

Þinn sonur,

Páll.

Ég minnist afa míns í dag með miklum söknuði. Núna ert þú kominn til Helgu okkar og Mola sem þér þótti svo vænt um, keyrandi um með þeim á flottum nýbónuðum bíl. Afi, Helga og Moli eiga það sameiginlegt að krabbameinið sigraði á endanum.

Haddi afi var afskaplega barngóður og hjálpsamur maður sem vildi öllum vel. Í afabæ sótti ég mikið sem barn því þar þótti mér afskaplega gott að vera. Við afi áttum ofsalega gott samband sem er ómetanlegt fyrir barn að fá að upplifa. Hann hafði svo gaman af því að fá að hjálpa okkur. Hann var alltaf fyrstur að koma þegar snjóaði og þá kom hann með skófluna sína og mokaði fyrir okkur svalir eða hvað það var sem þurfti að moka. Hann mokaði meira að segja stéttina fyrir utan heimili þeirra ömmu í Hörðalandi. Það þótti aðdáunarvert í augum nágranna hans hvað hann var iðinn og duglegur við það. Hann var einnig alltaf tilbúinn að hjálpa til við ýmis dagleg störf eins og að skutla, passa eða aðstoða á einhvern máta. Bílinn hans var alltaf hreinn og hann hafði mikla unun af að keyra á milli staða. Hann sagði sjálfur að þegar hann mætti ekki keyra lengur þá gæti hann alveg eins farið. Það væri ekkert líf að fá ekki að keyra. Það segir allt um hans miklu ánægju af bílnum sínum og akstursferðum.

Moli hundurinn okkar var svæfður sumarið 2020 vegna veikinda. Hann kom nokkrum sinnum í pössun til afa og ömmu síðustu árin í afabæ. Þann tíma sá maður hvað afi var afskaplega mikill dýravinur. Afi dekraði við Mola eins og hann væri á fimm stjörnu hóteli, sauð pylsur fyrir hann og skar þær niður í bita. Þetta þótti Mola ofsalega gott og afi hafði mikla ánægju af stundunum þeirra saman enda hljóp Moli alltaf strax til hans.

Það var alveg sama hvað maður var að óhlýðnast sem barn, aldrei var maður skammaður af afa. Hann vildi ekki skamma börn fyrir óþekkt heldur ræða við þau og benda þeim á hvað þau gerðu rangt. Þetta get ég sagt bæði fyrir mig og dætur mínar en þær voru mikið með afa og ömmu bæði í afabæ og svo í sumarhúsi þeirra í Fljótshlíðinni. Þær, eins og mamma þeirra, eru grallarar en því hafði Haddi afi gaman af og hló að vitleysisganginum í okkur.

Fljótshlíðin er sveitin okkar og þangað þótti afa alltaf óskaplega gaman að fara. Í ferðum okkar austur þuldum við upp nöfnin á öllum fjöllunum á leiðinni frá Reykjavík og þær ár sem á vegi okkar urðu. Frá Fljótshlíð á ég margar góðar minningar og hlakka ég til að halda þeim á lofti og heiðra minningu afa míns. Þar liggja mörg handtökin sem við fjölskyldan áttum saman og munum varðveita.

Við afi fórum mikið á leik- eða rólóvelli í Fossvoginum og svo hjólaði hann með mig, sem litla stelpu, um gangstéttir í Fossvoginum. Þá fengum við viðurnefnin Ingimundur fiðla og Tobba fylgikona. Ef lesa má um þau hjónin á svokölluðum veraldarvef þá kemur fram að Ingimundur var hæfileikaríkur fiðluleikari og konan hans hét Ingibjörg. Ekki veit ég af hverju okkur var líkt við þau en mikið sem þau amma og afi hlógu þegar hjólaferðir okkar afa voru ræddar við matarborðið. Afa þótti gaman að hugsa til þessara stunda okkar.

Afi var duglegur að hrósa fyrir framfarir í lífinu. Þegar ég stofnaði fyrirtækið mitt fékk ég aldeilis að heyra hvað hann væri ofsalega stoltur af mér. Hann talaði mikið um hvað ég væri dugleg og þegar auglýsingar komu í blöðunum frá fyrirtækinu hringdi hann alltaf í mig og sagði mér að hann hefði séð flotta auglýsingu í blaðinu. Það er mikils virði að fá hrós og þetta hef ég alltaf metið alveg ofsalega mikils. Ég vissi að hann var stoltur af mér og það þótti mér mjög vænt um.

Í hans stuttu og erfiðu veikindum talaði hann um hversu vænt honum þætti um okkur öll, dætur mínar og hvað ég væri heppin með eiginmann og tengdamóður sem hann hefur fengið að kynnast undanfarin ár.

Ég gleymi aldrei brosinu hans og hvað honum þótti gaman að tala og segja frá, en að tala illa um fólk gerði hann aldrei. Slíkan mann er sjaldgæft að finna í dag.

Afi minn var besti afi í öllum heiminum. Ég er afskaplega þakklát fyrir að hafa fengið að vera elsta barnabarnið hans og hafa haft hann í mínu lífi í 41 ár. Það eru forréttindi að hafa svona náið og gott samband við afa sinn. Ég er ómetanlega þakklát fyrir að dætur mínar hafa fengið að kynnast langafa sínum vel. Þær eiga alltaf eftir að muna eftir Hadda afa.

Afi fór mikið með vísur og sagði okkur Sigga bróður margar sögur. Í minningu um þig, elsku afi minn, vísan sem þú fórst alltaf með:

Fyrr var oft í koti kátt,
krakkar léku saman.
Þar var löngum hlegið hátt
hent að mörgu gaman.
Úti um stéttar urðu þar
einatt skrýtnar sögur,
þegar saman safnast var
sumarkvöldin fögur.

Eins við brugðum okkur þá
oft á milli bæja
til að kankast eitthvað á
eða til að hlæja.
Margt eitt kvöld og margan dag
máttum við í næði
æfa saman eitthvert lag
eða syngja kvæði.

Bænum mínum heima hjá
Hlíðar brekkum undir
er svo margt að minnast á,
margar glaðar stundir.
Því vill hvarfla hugurinn,
heillavinir góðir,
heim í gamla hópinn minn,
heim á fornar slóðir.

(Þorsteinn Erlingsson 1858-1914; ljóðið Í Hlíðarendakoti)





Elsku besti afi minn. Ég elska þig og sakna.

Þín

Ragnhildur Guðrún Pálsdóttir yngri (Ragga).

Elsku afi minn hefur nú kvatt þennan heim eftir stutt en erfið veikindi. Það er mikill söknuður og erfitt fyrir okkur sem eftir sitjum að átta okkur á því hversu snöggt lífið getur breyst. Afi var alla tíð afar heilsuhraustur, hugsaði vel um heilsuna og stundaði morgunsund og hjólaði þegar veður leyfði.
Afi minn var alveg einstakur maður. Fyrir mér er hann einhver fallegasta og besta manneskja sem hugsast getur, þessi hlýja sem hann gaf af sér með nærveru sinni, brosi sínu og minning mín sem lítill snáði sitjandi í kjöltu hans meðan hann hossaði manni á lærinu, hélt utan um mann og raulaði vísur eða fór með stökur. Ógleymanlegar minningar sem einkennast af svo mikilli væntumþykju, ást og hlýju. Þarna var maður öruggur og ekkert illt var til í heiminum.



Ég hef alltaf verið mikill afastrákur. Mér þótti gaman að vera hjá ömmu og afa þegar ég var lítill drengur. Afi var duglegur að fara með mig upp á leikvöll sem var bak við Hörðalandið (afabæ) og stundum var rölt út í Grímsbæ til að kaupa eitthvað gott í bakaríinu eða sjoppunni. Margar voru ferðirnar til Steina heitins bróður afa upp á bensínstöð Essó sem þá hét. Þar keypti afi iðulega happaþrennur fyrir mig sem ég skóf svo meðan hann þreif bílinn. Afi var alltaf að þrífa bílinn.

Afi vann hjá hitaveitunni á þessum tíma og fékk ég oft að fara með honum í vitjanir sem mér þótti afar skemmtilegt. Ég var uppátækjasamur og stríðinn krakki en aldrei minnist ég þess að afi hafi skammað mig eða verið mér reiður, hann hefur alla tíð haft sérlega gott lag á börnum enda vilja öll börn hjá honum vera.

Þegar sumarbústaðurinn í Fljótshlíðinni kom svo til sögunnar voru ferðirnar austur ófáar með ömmu og afa. Margar góðar minningar á ég frá þessum ferðum og sumarbústaðnum. Þarna fékk orkumikill og uppátækjasamur drengur að losa um orkuna hömlulaust ef svo má að orði komast en þó undir góðri handleiðslu og eftirliti. Afi hafði alltaf einhver verkefni handa manni, það var ekki verið að fara í bústaðinn til að slappa af, nei þvert á móti var alltaf eitthvað að gera og ég fékk að taka þátt í því. Afi fór iðulega með einhverjar vísur eða stökur þegar við vorum við störf, sagði sögur frá sveitinni og taldi upp bæina í Fljótshlíðinni og hver bjó á hvaða bæ. Svo þegar amma var að undirbúa matinn fór ég upp á loft með kíkinn og sagði henni stöðuna á bæjunum í kring, hverjir voru heima og hvaða bílar voru í hlaðinu á Kirkjulæk og Hlíðarbóli.

Ég minnist þess að í hvert sinni sem við komum austur byrjaði upptalningin á bæjum yfirleitt við Litla-Moshvol og gekk svo áleiðis þar til komið var að sumarbústaðnum. Oftar en ekki var aðeins hægt á ferðinni þegar kom að Brekkunum til að líta yfir og kanna ástandið á túninu heima við bæinn. Afi talaði oft um Brekkurnar og hans minningar sem ungur drengur að alast þar upp og á því leikur enginn vafi að þar mátti greina sterkar taugar.

Afi hefur alltaf verið til staðar. Þegar ég keypti mér mína fyrstu íbúð hjálpaði hann til við að mála og tók út ofnakerfið og sá til þess að þau mál væru í lagi. Oftar en ekki hefur hann boðið fram aðstoð sína að fyrra bragði, því hann nýtur þess að fá að aðstoða og vera með. Þannig er afi.



Elsku besti afi minn. Nú hefur þú lagt frá þér ljáinn, hrífuna og skófluna góðu en mörg eru þau handtökin sem liggja eftir þig í sumarbústaðnum í Fljótshlíðinni. Ég veit að þú ert á góðum stað og vel hefur verið tekið á móti þér. Ég vildi óska þess að ég hefði getað átt fleiri samverustundir með þér undir lokin en er óendanlega þakklátur fyrir þann tíma og það spjall sem við áttum. Minningarnar um einstakan mann sem kennt hefur mér svo ótalmargt og sýnt mér gott fordæmi lifa með mér. Ég mun reyna að tileinka mér allt það góða sem þú hafðir fram að færa og kannski einn daginn þegar ég er orðinn afi fæ ég hjálp að handan svo ég geti verið uppáhaldsafinn eins og þú.
Elsku afi minn, þetta er svo sárt, ég vil ekki kveðja en svona er lífið. Camilla, Emanúel, Hekla Líf og Tristan Nóel (Trítan eins og þú sagðir alltaf) biðja að heilsa og ég veit að þú munt vaka yfir þeim eins og þú baðst fyrir þeim á hverjum degi.

Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson frá Presthólum)



Þinn afastrákur,

Sigurður Bóas Pálsson.