Svava Snorradóttir fæddist á Fáskrúðsfirði 12. febrúar 1934. Hún lést á kvennadeild Landspítalans 23. janúar 2021.
Foreldrar hennar voru Snorri Magnússon rafvirkjameistari, f. á Gagnstöð í Hjaltastaðaþinghá 12. maí 1906, d. 16. maí 1990, og Anna Gunnlaug Guðmundsdóttir, f. á Akureyri 7. september 1901, d. 14. desember 1953.  Systkini Svövu eru Magnús, f. 1935, eiginkona hans var Sylvía Arnardóttir, f. 9. febrúar 1935, d. 4. febrúar 2016; Elínbjörg, f. 13. september 1939, eiginmaður hennar er Bergsveinn Gíslason, f. 2. febrúar 1938.
Svava eignaðist tvö börn, Snorra Bogason, f. 18. september 1952, og Önnu Rósu Sigurgeirsdóttur, f. 22. september 1953. Fyrri kona Snorra var Ragnheiður Alfreðsdóttir. Þeirra börn eru Kristjana Milla, f. 1978, sambýlismaður hennar er Guðmundur Gunnarsson og eiga þau tvö börn; Bergsveinn Magnús, f. 1980, sambýliskona hans er Herborg Eiríksdóttir. Þau eiga tvö börn; Inga Sigríður, f. 1984, sambýlismaður hennar er Óli Finnsson. Móðir Ingu Sigríðar er Anna Margrét. Seinni kona Snorra er Agnes Ásgeirsdóttir, f. 1962. Þeirra sonur er Jóakim, f. 1987, en fyrir átti Agnes soninn Ásgeir Kristinsson, f. 1982, sem Snorri gekk í föðurstað, sambýliskona hans er Arna Rannveig Guðmundsdóttir og eiga þau tvö börn. Eiginmaður Önnu Rósu er Halldór Leifsson og þeirra börn eru Svava Björk, f. 1972,  eiginmaður Björn Þorgeirsson. Þau eiga tvo syni; Berglind Adda, f. 1973, eiginmaður Jónas Árnason. Þau eiga tvo syni; Sigurrós, f. 1978, eiginmaður Daði Gränz. Þau eiga tvö börn.
Svava flytur með föður sínum og börnum að Mjólkárvirkjun við Arnarfjörð þar sem þau hefja störf við virkjunina. Þaðan flytur Svava með börnin til Kópavogs, þar hóf hún störf á leikskóla og síðan ýmis önnur störf, var lengi á Hótel Loftleiðum þar sem hún lærði smurbrauðsgerð og rak á tímabili veisluþjónustu. Hún starfaði við smurbrauð og fleira á ýmsum veitingastöðum, síðast sem matráður hjá Ríkisútvarpinu.
Síðustu árin hefur Svava búið í Hæðargarði 33 í Reykjavík.

Útför Svövu fer fram frá Bústaðakirkju í dag 3. febrúar 2021 og hefst athöfnin klukkan 13.

Í ljósi aðstæðna verða einungis nánustu ættingjar og vinir viðstaddir athöfnina en henni verður streymt á

https://youtu.be/icW6ZXzuK8A

Finna má virkan hlekk á streymi á slóðinni:

https://www.mbl.is/andlat

Það er erfitt að hugsa til þess að hún amma mín sé farin. Ég á svo margar og góðar minningar um ömmu og ég elskaði að koma í heimsókn til hennar. Í einni heimsókninni sátum við saman og sagði hún mér frá áhugaverðri ævi sinni. Ég tók niður þessa frásögn hennar og langar mig að birta hana hér.

Vatnsberi
Þegar ég spyr ömmu hvernig hún myndi lýsa persónuleikanum sínum, byrjar hún á að segja mér að hún sé vatnsberi. Hún segir að vatnsberinn sé ekki frekur, svolítið ljúfur og heldur listrænn, en bætir einnig við að ættingjar hennar og vinir myndu ekki taka undir þessi orð. Hún er nefnilega frekar ákveðin og beinskeytt, en segir að hún hafi orðið svoleiðis eftir að hafa þurft að taka stórar ákvarðanir og mikla ábyrgð.

Sótt í sveitina
Amma bjó á Akureyri frá níu ára aldri og þar til hún varð fimmtán ára. Á þeim tíma var hún mikið í íþróttum og vann verðlaunapeningana hvern á eftir öðrum fyrir hlaup, stökk og fleira. Hún þótti alltaf best í handbolta og fékk alltaf hæstu einkunnir í sundi. Á sumrin fór hún í sveit á bæ rétt fyrir utan Akureyri og hún þótti svo efnileg að þegar kom að íþróttamótum var hún sótt í sveitina svo hún gæti tekið þátt fyrir hönd KA, Knattspyrnufélags Akureyrar. Hún eyddi miklum tíma á íþróttavellinum og segir frá því þegar hún hljóp fyrst í takkaskóm. Hryllilega var það vont, manni fannst maður ekki drullast neitt áfram, segir hún hlæjandi. Hún segist þó aldrei hafa skilið af hverju þeim var kennt að hoppa yfir hesta og klifra í köðlum, hún vildi mikið frekar læra dans, því henni þótti dansinn svo skemmtilegur. En dans og föt voru hennar helstu áhugamál. Hún bætir við: Þegar ég var tíu ára vorum við vinkonurnar alveg fatasjúkar, við elskuðum að fara heim eftir skóla og klæða okkur upp í föt af mömmu. Vinkonurnar stífmáluðu sig, fóru í eitthvað fínt, settu á sig hatta og gengu niður í bæ með regnhlífar í glampandi sólskini. Mamma hafði verið úti í Danmörku og átti eitthvað agalega sniðugt, sem var kallað naglalakk, segir hún brosandi. Hún lýsir þessum stundum sem dásamlegum.

Hermenn á Akureyri
Það var spennandi þegar hermennirnir komu á Akureyri. Krakkarnir fylgdust grannt með þegar herskipin sigldu upp að höfn Akureyrar og bærinn fylltist af flottum hermönnum. Amma var mikið hjá frænku sinni árin sem hermennirnir komu til Akureyrar en húsið hennar var með gott útsýni yfir braggana þar sem hermennirnir áttu heima. Þegar ég spyr hana hvernig henni hafi litist á hermennina svarar hún: Ég var svo hryllilega hrædd við þá maður, ég ætla ekki lifandi að segja þér það, svo hlógum við báðar. En hún segir að þeir hefðu staðið vörð með byssur og í öllum skrúðanum, en það þótti henni ofboðslega hræðilegt. Hermennirnir voru samt alltaf mjög glaðir og pössuðu vel upp á börnin, gáfu þeim lakkrís og ýmis sætindi. Maggi bróðir fékk stundum að fara til hermannanna og kom oft til baka með tyggjó alveg einstaklega montinn, segir hún.

Gaf upp draumana
Fimmtán ára flytur amma á Akranes, þar fara hún og tvö yngri systkini hennar í skóla en mamma þeirra lá á sjúkrahúsi í Reykjavík þar sem hún barðist við beinkrabbamein. Pabbi þeirra fór allar helgar og dvaldi í Reykjavík. Á meðan sá amma um sig og systkini sín, aðeins fimmtán ára gömul. Seinna fluttu þau til Reykjavíkur og stefndi þá amma á að verða fóstra. Hún vann á leikskóla og ætlaði að fara í fóstruskólann. Heimilisaðstæður gáfu henni ekki svigrúm til að elta þá drauma og var hún því knúin til að vera heima og vinna. En móðir hennar lá fárveik á sjúkrahúsi og lést svo tveimur árum síðar.

Heimilisstörfin tímafrek
Margt breyttist við andlát móður ömmu, hún þurfti algjörlega að setja áhugamálin sín til hliðar og einungis sjá um heimilið. Hún segir að henni hefðu alltaf fundist heimilisstörfin vera tímafrek og vildi hún helst eyða tímanum sínum á íþróttavellinum. Ég ætlaði aldrei að elda, aldrei, segir hún. Þegar hún var átján ára eignaðist hún sitt fyrsta barn og ári síðar sitt annað, sem er móðuramma mín. Svava amma var alltaf ein með börnin og bjó heima hjá föður sínum ásamt systkinum en þau voru öll svo hænd honum að þau ætluðu sér alltaf að búa hjá honum.

Ævintýri við Mjólkárvirkjun
Jæja, svo gengur þetta svona, allt í orden, segir amma. Pabbi fór að vinna hjá Rarik og þeir bjóða honum vinnu við Mjólkárvirkjun. Þá flytja þau vestur við Arnarfjörð, þar sem búið var að byggja tvær hallir eins og hún kallaði þær, aðra fyrir umjónarmann virkjunarinnar og hina fyrir fjölskyldu Svövu ömmu. Þau flytja öll saman, amma með börnin sín tvö, faðir hennar og systkini. Þetta var sko þvílíkt geðveikislega gaman að krakkarnir áttu ekki til orð, þetta var sko meira en ævintýri, segir amma. Við Mjólkárvirkjun hélt amma áfram að sjá um börnin og heimilið, heimilið okkar pabba, eins og hún lýsti því það var heilmikið umleikis þegar við áttum heima þar, endalaus gestagangur og heilt ævintýri. Hún segir að það hafi verið mikill munur að búa fyrir vestan og í Reykjavík. Fyrir vestan komu ævintýrin hvert á eftir öðru. Skemmtilegast fannst henni að fara yfir á Þingeyri. Á veturna þurftu þau að ferðast á milli staða með trillu eða einfaldlega að hlaupa yfir Hrafnseyrarheiðina. Vandræðin redduðust alltaf, segir hún. Það var yfirleitt nóg um að vera á Þingeyri, hvort sem það var að fara í leikhús, á dansleik, eða fara í Kaupfélagið, sem var hápunkturinn.

Lansinn
Árin líða og amma sækir um nám í smurbrauðsgerð. Þá tók við um tveggja ára bið til að komast þar að. Í biðinni leysti hún vinkonu sína af á Landspítalanum, eða Lansanum eins og hún kallar hann. Hún segir mér að vinkona hennar hafi þurft að fara heim og sjá um karlana þar sem móðir hennar hafði veikst. Þegar ég spyr hana hvort karlarnir hefðu ekki getað séð um sig sjálfir fussar hún og segir: Nei, nei, nei, ertu frá þér, Karen Rós, ekki til í dæminu, í þá daga átti konan að vera bak við eldavélina, þær voru bara svo vitlausar. Hún segist aldrei hafa velt því fyrir sér af hverju konurnar voru látnar sjá um heimilið þetta var bara svona, segir hún.

Hjartnæm meðmæli
Loks komst hún að í smurbrauðsgerðinni og gerðist smurbrauðsdama. Hún vann í Leikhúskjallaranum, Skíðaskálanum í Hveradölum og Ríkisútvarpinu, RÚV. Sögu segir hún mér frá því þegar hún sækir um starf hjá Ríkisútvarpinu, þá þurfti hún að koma með meðmæli frá fyrrum vinnuveitenda. Hún komst að því að forstjóri Þjóðleikhúskjallarans hefði skilið eftir meðmæli fyrir hana, svona ef hún myndi þurfa á því að halda. Hún fékk bréfið í hendurnar eftir að maðurinn lést og tók það mikið á hana þar sem þetta voru einstaklega falleg skrif og segir hún að hún hafi fellt nokkur tár við lesturinn. Hún segir: Ég var svo grobbin þegar ég fór með það að ég ætla ekki að segja þér það, alveg að drepast úr monti.

Skemmtilegra að versla föt
Lífið var þannig að það hjálpuðust allir að, segir hún og bætir við að sig hafi aldrei skort eitt eða neitt þrátt fyrir heljarinnar strit. Í gamla daga þurfti ekki eins mikla peninga, hún keypti sér saumavél þegar hún átti heima við Mjólkárvirkjun og saumaði hún alla sína kjóla og öll föt á krakkana sjálf. Þegar ég spyr hana hvort henni finnist ekki skemmtilegra að kaupa sér föt svarar hún: Jú almáttugur, ég ætla nú bara ekki að geta lýst því fyrir þér hvað það er skemmtilegt.
Að lokum segir amma: Það er ýmislegt sem hefur á daga manns drifið, Karen Rós mín.

Í dag býr þetta hörkukvendi í þjónustubyggingu ásamt sínum nánustu vinum. Skundar um Kringluna og skoðar föt í sínu fínasta pússi og dansar sig í gegnum baráttu við krabbamein. Dansinn er mér allt, hann læknaði mig síðast þegar ég fékk krabbamein og mun gera það aftur. En ég hef fulla trú á ömmu, að hún muni sigra þessa baráttu eins og allt annað sem hún hefur þurft að takast á við.



Karen Rós Gränz

Elsku besta amma mín er fallin frá, það er erfitt að hugsa til þess að ég fái ekki að sjá hana aftur. Eiginlega finnst mér það ótrúlegt þar sem ég hélt að hún yrði að minnsta kosti 100 ára, við héldum það báðar, svo hraust og lífsglöð sem hún var. Hún amma mín hefur alltaf verið hörkutól og algjör töffari. Mér hefur verið sagt að þegar amma var ung hafi hún verið ákveðin og dugleg kona og þannig var hún líka á sínum seinni árum, var sem stormsveipur. Hún var heilsuhraust kjarnakona allt þar til krabbinn náði henni.
Ég á margar góðar minningar um elsku ömmu og er þakklát fyrir allar góðu stundirnar okkar saman. Minningar sem seint gleymast, enda var hún yndisleg og mikill karakter. Ekkert eitt orð lýsir þeirri margbreytilegu manneskju sem hún amma mín var. Í mínum augum var hún einstök amma. Elskaði að dansa og klæða sig upp. Það var henni efst í huga að vera fín og mikill tími fór í að skoða föt, fallega og litríka kjóla. Held að Kringlan hafi verið einn af hennar uppáhaldsstöðum, þar gat hún eytt heilu og hálfu dögunum. Þegar elsku amma var komin inn á spítala og einungis nokkrum dögum áður en hún féll frá, hringdi hún í mig þar sem hún var á Facebook á útsölum, hana vantaði svo kjól, þessa elsku.
Þær eru ófáar minningarnar sem tengjast því að sitja með henni yfir kaffibollanum og ræða alla heimsins hluti, það var notalegt að tala við hana og alveg magnað að hún var alltaf með puttann á púlsinum sama hvert umræðuefnið var. Amma var alveg ofboðslega gestrisin kona og það var alltaf þannig að það sást ekki í borðið fyrir mat, þvílíka veislan hjá henni. Svona var þetta öllum stundum í Hæðargarði og líka í Furugerðinu, hvort sem það var þegar ég kom við hjá henni eða þegar ég kom í hléunum mínum úr skólanum.
Í Furugerðið var gott að koma, fá að leika með dótið hennar sem var sótt niður í geymslu og ég man að þegar við Milla vorum þarna sem litlar stelpur var íbúðin undirlögð eftir okkur og þá sérstaklega svefnherbergið hennar. Þar lá dúkkudótið úti um allt og eins listaverkin okkar sem við unnum á gólfinu og gáfum henni, þarna átti ég margar og góðar stundir. Amma kunni vel að meta allar þær gjafir sem hún fékk og það sem maður gerði sem barn í skólanum. Öll listaverkin frá barna- og barnabarnabörnunum fengu að fara upp og eru þau þar enn í litlu íbúðinni hennar í Hæðargarði. Hún nefndi eitt sinn við mig að fólki fyndist full mikið af dóti hjá henni en þá sagðist hún ekki geta sett neitt af þessu niður og fór svo að sýna mér hvað hver og einn gerði og gaf henni, þetta var henni allt sem fjársjóður.
Það var alltaf gaman og ómetanlegt að ferðast með ömmu. Vesturferðirnar með henni voru svo dýrmætar, þar sem hún auðvitað var búin að nesta okkur upp með gott kaffi og brauðmeti. Þvílíkur fróðleikur sem kom frá henni í hverri ferð, það voru sögur um hvern krók og kima á leiðinni. Hún var mikil sögukona, gaf sig alla í sögurnar og sagði svo skemmtilega frá. Svíþjóðarferðin þegar við fórum tvær til að heimsækja Millu og Begga var ógleymanleg og hvað þá þegar við fórum í stelpuferð til Alicante þar sem strandlengjan var þakin básum með litríkum kjólum, þar gat hún þrætt ströndina fram og til baka í sól og yl, þvílíkur sælustaður.
Amma var ofboðslega félagslynd, nærðist á því að vera með sem flesta hjá sér og hafði mikinn áhuga á fólkinu sínu og vildi vera með því sem oftast. Henni þótti svo vænt um börnin mín og ef þau komu ekki með mér í heimsókn til hennar þá spurði hún um þau og hafði mikinn áhuga á því sem þau voru að gera. Hún hafði mjög gaman af því að gefa og lána Karen Rós kjóla, þannig að yfirleitt fór ég klyfjuð heim með urmul af litríkum kjólum handa henni eða þegar hún fór sjálf frá henni. Ömmu þótti vænt um að sjá myndir af henni í fötum frá sér. Amma nefndi það oft hve hlýr og ljúfur hann Anton Orri er og þótti alltaf svo vænt um að fá símtal frá þeim systkinum til ömmu sinnar.
Ég get endalaust talað um hve mikið hörkutól hún amma mín var og hún kvartaði aldrei yfir neinu, t.d. þegar hún var orðin mikið veik þá lét hún mann aldrei heyra annað en að hún væri bara eldhress, bara svolítið löt. Þá var hún komin á það stig að vera hætt að geta gengið.
Ég kveð ömmu mína með sorg. Ég mun ávallt minnast hennar með hlýhug, væntumþykju og virðingu. Blessuð sé minning hennar.

Sigurrós.