Sigríður Guðmundsdóttir, Sigga okkar, fæddist í Reykjavík 26. ágúst 1968. Hún lést að kvöldi 23. janúar 2021 á Landspítalanum deild 11E. Foreldrar hennar eru Guðmundur Egilsson, f. 31. ágúst 1949, foreldrar hans Egill H. Hjálmarsson, f. 8. október 1910, d. 6. júní 1990, Helga Jasonardóttir, f. 20. janúar 1920, d. 23. apríl 1994, móðir Hulda Pétursdóttir, f. 18. ágúst 1949, foreldrar hennar Pétur Pétursson, f. 16. maí 1917, d. 12. nóvember 2004, Sigríður Skarphéðinsdóttir, f. 3. júlí 1923. Systur Siggu eru Helga Guðmundsdóttir, f. 13. nóvember 1973, maki Jón Gunnlaugur Sævarsson, f. 16. júlí 1972. Fanney Guðmundsdóttir, f. 23. desember 1982, maki Svavar Már Gunnarsson, f. 10. júní 1980. Eiginmaður Siggu er Bjarni Einarsson, f. 16. janúar 1966. Foreldrar hans Einar K. Sumarliðason, f. 6. júlí 1919, d. 31. janúar 2008, Ingibjörg Guðmundsdóttir, f. 20. janúar 1927, d. 10. desember 1994. Systkini Bjarna eru Jóhanna Einarsdóttir, f. 6. september 1947, maki Hilmar Sæmundsson, f. 3. september 1944. Hákon Ólafsson, f. 29. mars 1960, d. 20. maí 2015, maki Sunneva Gissurardóttir, f. 31. október 1960, og tvíburarnir Sumarliði Gísli Einarsson og Sveinbjörn Einarsson, f. 12. febrúar 1962. Börn Siggu og Bjarna eru Guðmundur Bjarnason, f. 23. október 1992, unnusta Esther Friðriksdóttir, f. 9. nóvember 1994, Dagur Bjarnason, f. 9. mars 1996, og Birta Bjarnadóttir, f. 9. desember 2004. Sigga ólst upp í Álftamýri til 7 ára aldurs og eftir það í Álfheimum þar sem hún bjó ásamt foreldrum sínum og systrum. Sigga var 18 ára gömul þegar hún kynntist Bjarna sínum og flutti hún til hans 19 ára. Þau giftu sig 31. ágúst 1991 og fluttu í Rofabæ og höfðu þau aðsetur í Árbænum nánast allar götur síðan. Sigga gekk í Langholtsskóla og þaðan lá leiðin í Verslunarskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist vorið 1988. Seinna stundaði hún nám í viðskiptafræði, með vinnu, auk þess að halda heimili, og lauk svo viðskiptafræðiprófi BSc frá Háskólanum í Reykjavík í júní 2007. Sigga tók líka hin ýmsu námskeið til stuðnings við menntun sína. Á unglingsárum vann Sigga með skóla hjá versluninni Kjalfell, eftir stúdentspróf starfaði Sigga við bókhald, t.d. hjá Hagvirki hf., Lögmannsstofunni Síðumúla 9, Ellingsen hf., Rauða krossi Íslands, Össuri hf., Deloitte hf., Askar Capital hf. og hafði á þeim tíma einnig umsjón með sjálfstæðum rekstri eiginmanns síns, var aðalbókari hjá skrifstofu Listaháskóla Íslands og síðast starfaði hún hjá Íslandspósti þar til heilsan leyfði ekki meir í apríl 2019. Íslandspóstur studdi vel við bakið á Siggu í veikindunum sem var ómetanlegt. Stofnaður hefur verið minningarsjóður sem verður nýttur til tækjakaupa fyrir Landspítala Íslands, banki 0331 13 905355, kt. 160166-5419, í vörslu Bjarna Einarssonar. Útför Siggu okkar fer fram frá Langholtskirkju í dag, fimmtudaginn 4. febrúar 2021, vegna fjöldtakmarkana verða aðeins nánustu ættingjar og vinir viðstaddir. Streymt verður frá athöfninni á slóðinni: https://youtu.be/RoU6YEldGpI
Virkan hlekk má nálgast á:
Við vorum samferða í lífinu. Fyrst og fremst sem vinkonur en líka sem bekkjarsystur, samstarfskonur, ská-svilkonur, nágrannar og saumaklúbbssystur. Kynni okkar hófust í Versló, í þriðja bekk C. Við náðum strax vel saman og urðum óaðskiljanlegar, við Sigga og Þórdís. Á Verslóárunum var margt brallað. Upp í hugann koma lærdómsferðirnar í Þrastarból, útilegurnar sem farnar voru á appelsínugulu Simcunni, útskriftarferðin til Acapulco með viðkomu í New York og saumaklúbburinn Friðjón.
Sumarið eftir fjórða bekk bauðst okkur Siggu að fara sem ráðskonur norður í Fljót í nokkrar vikur og elda ofan í vinnuflokk hjá Fljótalaxi. Við tókum áskoruninni og héldum norður vopnaðar bókinni Unga fólkið og eldhússtörfin og þannig blessaðist eldamennskan, lax í flest mál og karlarnir voru alsælir með ráðskonurnar kátu.
Um haustið fórum við Sigga í örlagaríka Hollywoodferð. Sigga hafði fyrr um sumarið hitt ungan pilt í Þórsmörk sem henni leist frekar mikið vel á. Pilturinn var Bjarni og þarna kom Sigga auga á hann aftur. Hún var skotin, en þorði ekki að nálgast hann svo ég dró piltinn út á dansgólfið til okkar. Bjarni og félagar hans vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið. Félagarnir komu í humátt á eftir í dansinn og úr urðu tvö hjónabönd: Sigga og Bjarni og ég og Einar náfrændi Bjarna. Við Sigga tengdumst þar með fjölskylduböndum sem styrkti enn frekar vináttu okkar.
Eftir að Versló lauk snerist lífið um að mennta okkur og koma okkur fyrir í atvinnulífinu, eignast húsnæði og börn. Hanna Hrund kom fyrst, þá Guðmundur þremur árum seinna og Þórunn og Dagur ári síðar. Við vorum nágrannar, fyrst í Rofabænum og svo í Selásnum. Haldin voru ótal matarboð og krakkarnir gistu sitt á hvað. Við ferðuðumst um landið og utan þess, minningarnar eru óteljandi.
Eftir að leiðir okkar Einars skildi fundum við Sigga og Bjarni nýjan takt í vináttuna. Birta kom í heiminn og þau fluttu í Norðlingaholtið. Seinna kynnist ég Orra mínum og þau tóku honum opnum örmum.
Siggu biðu stór verkefni. Fyrst tókst hún á við brjóstakrabbamein og það gerði hún með stæl, dyggilega studd af Bjarna sínum, fjölskyldu og góðum vinum. Nokkrum árum síðar komu upp alvarleg veikindi hjá Degi. Þá sáum við sem stóðum álengdar að samstaða, kærleikur og styrkur þessarar fjölskyldu er engu líkur.
Það var gott að vera vinkona Siggu. Hún var jákvæð og ráðagóð og sagði það sem manni var hollt að heyra. Svo var tími til að gleðjast, slá á létta strengi og skála í búbblum eða rauðu.
Elsku Bjarni, Guðmundur, Dagur, Birta, Hulda, Guðmundur, Helga, Fanney og Sigga amma, megið þið finna styrk til að takast á við sorgina og söknuðinn. Minningin um yndislegu Siggu lifir í hjarta okkar allra.
Anna Rún Ingvarsdóttir.