Jóhannes Eðvaldsson fæddist í Vestmannaeyjum 3. september 1950. Hann lést á sjúkrahúsi í Glasgow 24. janúar 2021. Hann var sonur Eðvalds Hinrikssonar Mikson sjúkraþjálfara f. 12. júlí 1911, d. 27. desember 1993, og Sigríðar Bjarnadóttir sjúkranuddara, f. 6. janúar 1921, d. 25. júní 1990. Búbbi var næstelstur fjögurra systkina. Elstur var Bjarni Þ. Jónsson vaktmaður (sammæðra) f. 8. nóv. 1941, d. 28. júli 2016, giftur Öldu Sigurðardóttur, hann átti einn son, Stefán Pétur.
Atli Eðvaldsson íþróttakennari/þjálfari f. 3. mars 1957, d. 2. september 2019. Hann átti 4 börn, Egil, Sif , Söru og Emil. Anna Eðvaldóttir ljósmóðir/hjfr. f. 15. desember 1958. Gift Gísla Á. Guðmundssyni og eiga þau 4 syni, Eðvald Inga, Fannar, Garðar og Pálmar.
Jóhannes (Búbbi) var kvæntur Catherine Bradley Edvaldsson f. 30. júní 1963. Börnin þeirra eru, Ellen Sigríður, f. 22. janúar 1993, Anna Elisabeth, f. 12. september 2001, og Andrew Atli, f. 8. ágúst 2004. Frá fyrra hjónabandi átti Búbbi: Joey (Johannes) f. 13. apríl 1979. Hann er í sambúð með Paula Diver.
Jóhannes lauk námi frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni 1969. Hann kenndi íþróttir í Stykkishólmi 1969-1970, þaðan fór hann að kenna við Öldutúnsskóla í Hafnarfirði. Á þeim tíma lék hann með körfuknattleiksliði Hauka. Hann var kjörinn körfuknattleiksmaður Hafnarfjarðar það ár. Árið 1975 var hann kosinn Íþróttamaður ársins á Íslandi. Fyrsta atvinnumannatilboðið fékk hann frá Cape Town í Suður-Afríku. Þar sem hann var í 6 mánuði. Eftir það kom hann heim aftur og lék með Val í 2 ár og var fyrirliði Valsmanna um skeið. Hann var valinn í íslenska landsliðið í knattspyrnu þar sem hann spilaði 34 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og var einnig fyrirliði landsliðsins. Búbbi fór svo til danska liðsins Holbæk og þaðan í Glasgow Celtic þar sem hann lék frá árinu 1975-1980. Þaðan flyst hann til Tulsa í Oklahoma þar sem hann spilaði um árabil. Á leiðinni aftur til Skotlands kom hann við í Hannover í Þýskalandi og síðast í Motherwell í Skotlandi áður en atvinnumannaferlinum lauk 1984. Þau hjónin ráku hótel í Inverness í Norður-Skotlandi frá 1985. Eftir að hann fékk heilablóðfall 42ja ára gamall gat hann ekki stundað vinnu. Hann helgaði sig þá föðurhlutverkinu.
Útför Jóhannesar verður gerð frá Craigton Crematorium í Glasgow 5. febrúar 2021 og hefst hún kl. 12.30 Streymt verður frá athöfninni:  https://www.wesleymedia.co.uk/webcast-view
login Order ID: 72708 lykilorð: jzjtehap

Það er skammt stórra högga á milli. Mér finnst ég vera svo nýbúin að kveðja Atla minn þegar sú fregn berst að Búbbi bróðir minn hafi líka tapað sinni baráttu. Bræður mínir, sem í minningu minni unnu sigra í flestum keppnum sem þeir tóku þátt i, töpuðu sinni baráttu alltof ungir. Ég vil meina að þeir hefðu hvorugir þurft að fara svona ungir, ef þeir hefðu spilað öðruvísi síðustu lífskeppni sína.

Ég var bara níu ára þegar Búbbi fór að heiman. Hann fór í lýðháskóla í Noregi, og eftir það fór hann í Íþróttaskólann á Laugarvatni og eiginlega beint í atvinnumennskuna eftir það.

Ég man hversu stolt ég var af þessum stóra bróður mínum, sem spilaði fótbolta í útlöndum. Ég man einnig eftir því þegar mamma og pabbi sátu miður sín í stofunni heima Því Búbbi hafði víst ekki verið með vegabréfið sitt þegar hann fór til Suður-Afríku, þar sem hann hafði gert samning um að spila fótbolta. Hann ætlaði bara að klappa landamæravörðunum á öxlina og fá þá til að hleypa sér inn í landið, en nei - þannig var ekki unnið í Suður-Afríku. Hann sat í einangrun í sólarhring, þar til honum var bjargað um vegabréf og inn í landið fór hann. Mamma sagði mér alltaf að í Suður-Afríku hefði sólin verið svo sterk að hún hefði brennt hvirfilinn á honum og þess vegna hefði hann fengið skalla. Það er nefnilega í ættinni að búa til góðar sögur af því sem mögulega fellur ekki alveg rétt inn í ættartréð. Ég man þegar ég fór til Glasgow að heimsækja hann þegar ég var táningur. Það var ekkert smá gaman að heimsækja stórstjörnuna sem allir fótboltaunnendur þekktu sem the Iceman. Hann dekraði litlu systur sína og kom alltaf færandi hendi með útlensk tískuföt til að gleðja uppáhaldssysturina þegar hann kom til að spila landsleiki. Hann lagði metnað sinn í að spila hvern einasta leik fyrir Íslands hönd sem hann var valinn í. Ég man þegar hann skoraði stórkostlegasta mark fyrr og síðar með hjólhestaspyrnunni. Ég sat uppi í stúku sem stoltasta systirin. Ég man þegar hann var kosinn íþróttamaður ársins. Sannarlega verðugur þess heiðurs.

Búbbi kom víða við. Hann var hrókur alls fagnaðar á gleðistundum. Mjög svo vinsæll í leik og starfi. Hann spilaði á gítar og söng og átti það til að vekja litlu systur sína um miðjar nætur, þegar hann kom heim eftir landsleikjafögnuði, til að spila á gítar með sér obladí oblada. Bítlasöngvar voru hans uppáhald.

Eftir að atvinnuferlinum lauk rak hann hótel í Inverness í Skotlandi ásamt Catherine eiginkonu sinni. Þegar hann var aðeins 42 ára fékk hann heilablóðfall, í kjölfarið þurfti hann að fara í stóra aðgerð, þar sem gert var að blóðfallinu. Hjarta hans hætti að slá tvisvar í aðgerðinni. Mikið var rætt um það hvernig stæði á því að svona ungur maður fengi heilablóðfall. Getgátur eru um að knattspyrnumenn sem voru skallamenn, þar sem heil æfing var þannig að teknar voru spyrnur til að æfa skalla í teig með níðþungum, oft blautum, leðurboltum, fengju frekar skaða á æðar í heila, sem gætu sprungið. Eftir þessa raun fannst mér Búbbi breytast. Hann hlustaði minna á það sem aðrir höfðu að segja en talaði kannski því meira. Það sem kom frá honum var oft á tíðum óborganlegt. Hann hægði á sér, mátti ekki keyra bíl og átti á hættu að fá flog ef hann fór ekki vel með sig. Búbbi eignaðist samt tvö yngstu börnin sín eftir að hann fékk heilablóðfallið, eða 51 og 54 ára.

Hann kom með fjölskyldu sína til Íslands og oft var hann líka einn á ferð þegar þannig stóð á. Hann gisti alltaf hjá okkur Gísla í þeim ferðum. Sagðist eiga herbergið sitt hjá okkur.

Síðast gisti hann í Gauksásnum vikuna áður en Atli bróðir okkar dó. Það var erfiður tími og mikil sorg sem hann átti mjög erfitt með að tala um. Hann, sem alltaf hafði verið svo opinn, lokaði á raunveruleikann og hélt í vonina fram á síðustu stundu.

Síðustu samskipti okkar Búbba voru á Skype tveimur dögum fyrir andlátið. Hann var á sjúkrahúsi. Hafði verið þar frá því í desember vegna sýkinga í nýrum. Hann var að ljúka við sýklalyfjagjöf í æð inni á spítalanum, rétt fyrir jól, þegar hann fær Covid-19 frá starfsmanni sjúkrahússins. Hann fékk lungnabólgu í kjölfarið og náði sér aldrei eftir það.

Ég kveð bróður minn með sorg í hjarta.

Sorgin er mikil hjá Cathy eiginkonu hans og öllum fjórum börnunum, þeim Joey, Ellen Sigríði, Önnu Elísabeth og Andrew Atla.

Blessuð sé minning bróður míns.

Þín systir,

Anna Eðvaldsdóttir.

https://www.wesleymedia.co.uk/webcast-view

Order ID: : 72708

lykilorð: jzjtehap