Kristjana Heiðberg Guðmundsdóttir fæddist 20. janúar 1932 á Siglufirði. Hún lést 29. janúar 2021 á Hrafnistu við Sléttuveg. Foreldrar hennar voru Guðmundur Guðmundsson, f. 06.04. 1905, d. 09.11. 1967, stórkaupmaður og Anna Lilja Steinþórsdóttir, f. 09.12. 1906, d. 04.08. 1980, matráðskona. Kristjana átti tvö hálfsystkini, samfeðra, þau Sigríði Theodóru Guðmundsdóttur, f. 14.02. 1931, hjúkrunarfræðing og Guðmund Eiríksson Guðmundsson, f. 08.03. 1934, d. 18.03. 1989, lögregluþjón.
Eiginmaður Kristjönu var Snorri Ásgeirsson, f. 15.07. 1926, d. 04.05. 1989, rafverktaki. Synir þeirra eru Björgvin Gylfi Snorrason, f. 07.07. 1951, myndhöggvari og Ásgeir Valur Snorrason, f. 28.12. 1961, svæfingahjúkrunarfræðingur. Eiginkona Björgvins Gylfa er Guðfinna Alda Skagfjörð, f. 02.11. 1953, viðskiptafræðingur. Börn þeirra eru Karen Lilja, f. 14.04. 1985, viðskiptafræðingur og Eva Björk, f. 28.11. 1988, stærðfræði-hagfræðingur. Maki Karenar Lilju er Christian Guterres, f. 16.05. 1984, viðskiptafræðingur. Synir þeirra eru Tao, f. 2012, Soul, f. 2014, og Matti, f. 2019. Eiginmaður Evu Bjarkar er Anders Ødum, f. 18.12. 1987, líftæknifræðingur og eiga þau eina dóttur, Solveigu, f. 2019.
Eiginkona Ásgeirs Vals er Hildur Gunnarsdóttir, f. 26.09. 1965, sjúkraliði. Dætur þeirra eru Þorbjörg, f. 22.11. 1990, sagnfræðingur, Dagný, f. 03.08. 1996, læknanemi og Anna Lilja, f. 16.09. 2002, menntaskólanemi.
Kristjana ólst upp á Siglufirði hjá móður sinni og flutti síðan til Reykjavíkur þegar hún var 13 ára. Kristjana gekk í Verzlunarskóla Íslands í þrjá vetur.
Í apríl 1959 hóf Kristjana störf á Langlínumiðstöð Landsímans. Árið 1972 hóf hún störf sem landsímavörður og starfaði þar til janúarmánuðar 1978. Frá 1979 starfaði hún sem fulltrúi hjá innheimtudeild Landsímans. Árið 1986 var hún ráðin sem deildarstjóri innheimtudeildarinnar. Í júlí 1990 vann hún sig upp í stöðu skrifstofustjóra hjá innheimtunni. Því starfi sinnti hún allt til starfsloka árið 2002.
Kristjana var öflug í ýmsum félagsstörfum. Hún starfaði mikið með Félagi íslenskra símamanna og sat þar í ritnefnd. Hún var hjálparliði hjá Almannavörnum um árabil. Þá hélt hún utan um hóp afmælisárgangs Siglfirðinga fæddra árið 1932 sem hittust á fimm ára fresti frá árinu 1982.
Eftir starfslok starfaði hún hjá Félagi eldri borgara í Kópavogi. Hún bar ávallt hag félagsins fyrir brjósti og lagði sig alla fram um að efla félagsstarf eldri borgara. Fyrstu tvö árin var hún gjaldkeri og tók hún svo við störfum formanns félagsins í mars 2007. Kristjana var formaður Félags eldri borgara í Kópavogi í sjö ár og var hún gerð að heiðursfélaga þann 22. nóvember 2013.
Útför Kristjönu fer fram frá Digraneskirkju í dag, 5. febrúar 2021, klukkan 15. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu geta einungis nánustu vinir og ættingjar verið viðstaddir athöfnina. Athöfninni verður streymt af slóðinni

https://www.skjaskot.is/kristjana

Hlekk á streymið má nálgast á mbl.is/andlat


Ég kveð ömmu mína, Kristjönu Heiðberg Guðmundsdóttur, með miklum söknuði. Það er sárt að sjá á eftir ömmu Kristjönu sem var ein helsta stoð og stytta okkar fjölskyldu. Hún var með einstaklega sterkan og ákveðinn persónuleika. Hún lét ekkert stoppa sig og gekk strax í verkin með heilum hug. Hún var mikill vinnuþjarkur og mínar æskuminningar af ömmu eru af henni á skrifstofu hennar hjá Símanum þar sem hún var skrifstofustjóri innheimtunnar. Það var alltaf mikið að gera hjá ömmu og hef ég sterka minningu af henni þar sem hún sat í dökkbláu Póst-og síma flíspeysunni með farsímann við eyrað. Þá gisti hún stundum heima hjá okkur á meðan pabbi var á næturvöktum og áttum við margar góðar stundir saman.
Okkur ömmu kom nú ekki alltaf vel saman, enda báðar skapstórar og ákveðnar. Við vorum of líkar og ólíkar í senn; báðar þverar og frekar en innst inni með viðkvæmt hjarta. Mér fannst amma stundum segja mér of mikið til og þá átti til að koma upp ósætti á milli okkar. Þrátt fyrir þetta vorum við fljótar að fyrirgefa hvor annarri.
Við stelpurnar fórum oft í ævintýri með ömmu. Við fórum á söfn og sýningar með henni og lagði hún mikið upp úr því að við fengjum fræðslu og skemmtun í senn. Stundum gekk ýmislegt á þegar við fórum í þessar ævintýraferðir. Í eitt skiptið fór hún með mér og Dagnýju á Náttúrufræðisafn Íslands. Þegar við vorum á leið í safnið lentum við í hvassri vindkviðu sem steypti okkur um koll og við veltumst niður í götuna. Ég fékk smáskeinu á hnéð, en amma fékk stór blæðandi sár á bæði hnén. Þegar við komumst loksins inn á safnið í skjól hefur eflaust verið sjón að sjá okkur. Fullorðin kona með tvö grátandi börn og stór lykjuföll á nælon sokkabuxunum. Safnvörðurinn hefur eitthvað aumkað sig yfir okkur en það eina sem hann gat boðið okkur úr sjúkrakassanum var smávegis bútur af plástri. Það var mikið hlegið að þessari sögu og frá því töluðum við um þetta atvik sem rokævintýrið mikla.
Svo má ekki gleyma steinahoppi, en amma fór stundum með okkur að Kópavogskirkju og leyfði okkur að hoppa á milli steinanna fyrir utan kirkjuna. Oft á tíðum týndi amma gleraugunum sínum þannig að við þurftum að eyða dágóðri stund í að leita að gleraugunum hennar ömmu. Þau fundust ekki alltaf þrátt fyrir ítarlega leit.
Við amma fórum oft tvær saman í bíó. Hún hafði ótrúlega gaman af því að fara á sögulegar stríðs- og ævintýramyndir sem enginn annar nennti að fara með mér á. Oftar en ekki vorum við eina kvenfólkið í bíósal fullum af karlmönnum, enda voru þetta yfirleitt ævintýra- og hasarmyndir. Við skemmtum okkur alltaf konunglega og var amma yfirleitt aldursforsetinn á þessum sýningum.
Ekki nóg með að hún hafi farið með mér á allar þessar sýningar þá stóð hún einu sinni í röð fyrir forsöluna á frumsýningu þriðju myndar Lord of the Rings. Þá var amma farin að nota hækju og átti erfitt með að standa í langan tíma. Hún lét það nú ekki á sig fá og náði að sannfæra einhvern í röðinni að ná í stól fyrir sig á meðan hún beið í klukkutíma langri röð bara til þess að fá miða fyrir afmælisdaginn minn. Það var fátt sem hún hefði ekki gert fyrir barnabörnin sín.
Hún var óendanlega stolt af öllum barnabörnunum sínum og studdi hún okkur í öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég varð fullorðin hvað hún hefði notið þess að vera ung kona í dag. Hún hefði svo notið þess að stunda nám við háskóla og fengið að grúska í fræðibókum á bókasafninu í friði. Hún hefði lokið því með sóma líkt og öllu öðru sem hún tók sér fyrir hendur. Þrátt fyrir að hafa aldrei fengið það tækifæri að ganga menntaveginn þá var amma einstaklega vel lesin og fróð um hin ýmsu málefni. Oftar en ekki sofnaði hún með gleraugun á nefinu og bók í hendi.
Hún var sú sem hvatti okkur til að fara á söfn og var hún mikið fyrir listir og menningu. Okkur var sérstaklega minnisstæð franska listasýningin sem haldin var í Listasafni Íslands. Þar kviknaði fyrst áhugi minn á listfræði og listasögu sem var áhugamál sem við amma deildum saman.
Það er svo margt sem ég er henni þakklát fyrir, þá sérstaklega að hafa trú á mér þegar fáir aðrir höfðu það. Hún studdi mig ávallt í námi og hvatti mig alltaf áfram. Ég tel það forréttindi að hafa alist upp með ömmu Kristjönu sem fyrirmynd. Hún var ein sterkasta kona sem ég þekki og ég dáist að því hvernig hún gekk í gegnum lífið án þess að láta neitt stoppa sig. Hennar síðustu ár voru mjög erfið og var heilsu hennar farið að hraka. Hún var oft mikið verkjuð og átti erfitt með gang. Minnið var hægt og bítandi að tapast og fannst mér á þessum síðustu mánuðum eins og partur af henni væri þegar farinn frá okkur. Þótt hún hafi verið orðinn mikill sjúklingur þá náði hún oft að setja upp það yfirbragð að hún væri hressari en hún var í raun. Hún vildi aldrei láta hafa mikið fyrir sér og var oft erfitt að fá hana til að hlíta þeim takmörkunum sem fylgdu hennar heilsubrest. Innst inni var hún alltaf ung kona í blóma lífsins og var því erfitt fyrir hana að láta eftir það sjálfstæði sem hún barðist svo lengi fyrir. Ég trúi því að hún sé komin á betri stað þar sem henni líður betur og hún getur loksins fundið hvíldina.

Þorbjörg Ásgeirsdóttir.