Sæmundur Nikulásson fæddist í Reykjavík 21. desember árið 1927. Hann lést 28. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Sigurður Nikulás Friðriksson, rafvirkjameistari frá Litlu-Hólum í Mýrdal, f. 29. maí 1890, d. 6. júní 1949, og Ragna Stefanía Stefánsdóttir frá Sólheimum, V-Skaftafellssýslu, f. 6. apríl 1889, d. 29. mars 1974. Sæmundur var næstyngstur sjö systkina en þau eru Stefán Nikulásson, f. 23. apríl 1915, d. 3. júlí 1985, Ragnheiður Þyri Nikulásdóttir, f. 4. ágúst 1917, d. 17. apríl 2004, Halldór Friðrik Nikulásson, f. 22. júní 1919, d. 3. júlí 2010, Einar Nikulásson, f. 3. október 1921, d. 28. maí 2006, Unnur Nikulásdóttir Eyfells, f. 21. janúar 1924, d. 26. febrúar 2009, og Halla Sigríður Nikulásdóttir, f. 17. maí 1931.

Árið 1959 kvæntist Sæmundur Elínu Þorsteinsdóttur, f. 28. ágúst 1926, d. 15. september 2008. Foreldrar hennar voru Sigurveig Guðbrandsdóttir frá Loftsölum, f. 13. apríl 1898, d. 4. mars 1898, og Þorsteinn Friðriksson frá Litlu-Hólum, skólastjóri í Vík, f. 13 september 1888, d. 1. júlí 1933.

Sæmundur og Elín bjuggu alla tíð á Hringbraut 26 í Reykjavík. Börn þeirra eru: 1) Margrét Þóra Sæmundsdóttir, f. 21. janúar 1959, d. 20. febrúar 2004. Fyrrverandi maki Finnbogi Oddur Karlsson. Börn þeirra eru Sæmundur Karl, Daníel Björn og Júlía Nicole. 2) Ragnheiður Halldóra Sæmundsdóttir íþróttakennari, f. 5. janúar 1961. Fyrrverandi maki er Franz Ploder. Börn þeirra eru Margrét Unnur, Haukur, Pétur Þór og Ólafur Örn. Núverandi maki Sóley Einarsdóttir. 3) Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur, f. 2. október 1963. Maki Berglind Ásgeirsdóttir. Börn þeirra eru Elín María, Sandra Dögg og Trausti Rafn. Sæmundur og Elín eiga 10 barnabörn og 9 barnabarnabörn.

Sæmundur fæddist að Laugavegi 82 en flutti tæplega eins árs gamall að Hringbraut 26. Þar bjó Sæmundur fram til 89 ára aldurs en frá árinu 2017 bjó hann á hjúkrunarheimilinu Sóltúni.

Sæmundur lagði stund á iðnnám í rafvirkjun hjá Holgeiri P. Gíslasyni og lauk sveinsprófi árið 1947. Frá árinu 1947 og fram til ársins 1959 vann hann hin ýmsu rafvirkjastörf meðal annars hjá bræðrum sínum Halldóri og Einari og frá 1955 til 1959 hjá Páli J. Pálssyni. Árið 1959 lauk hann síðan meistaraprófi í rafvirkjun. Á árunum í kringum 1960 vann hann ásamt Óskari Halldórssyni að lagningu rafmagns víða um land, meðal annars í Skagafirði. Lengst af vann Sæmundur síðan hjá Rafmagnseftirliti ríkisins og lauk þar störfum árið 1993.

Útför Sæmundar fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag. 5. febrúar 2021, og hefst athöfnin klukkan 13. Streymt verður frá útförinni:

https://youtu.be/qxtxPrLrtvE

Virkan hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Látinn er faðir minn, Sæmundur Nikulásson, eða Sæmi eins og hann var alltaf kallaður, á 94. aldursári. Þegar ég horfi til baka á lífshlaup hans þá er ekki annað hægt en að fyllast lotningu gagnvart því sem hann stóð fyrir og verkum hans. Það eru fáir sem ég þekki sem hafa verið eins heiðarlegir, góðhjartaðir og hjálpsamir eins og faðir minn var. Æskuár mín einkenndust af mikilli ást, umhyggju og gleði. Foreldrar mínir voru bæði útivinnandi og tók pabbi jafnan þátt í heimilisstörfum. Pabbi var handlaginn og það má segja að allt hafi leikið í höndum hans. Hann var hjálpsamur og ef það þurfti að laga eitthvað eða mála hjá ættingjum og vinum þá var hann mættur. Foreldrar mínir voru vinmörg og lifðu lífinu lifandi. Pabbi var næstyngstur sjö systkina og var samheldni milli þeirra mikil. Þau komu oft saman og þá var mikið sungið og alltaf var pabbi með gítarinn. Ófáar utanlandsferðir voru farnar, svo ekki sé minnst á útilegurnar. Foreldrar mínir stofnuðu ferðaklúbbinn Vaðfuglarnir ásamt frænda mínum Bergsteini Stefánssyni og konu hans Eddu Níels ásamt fleirum um miðjan 8 áratuginn. Vaðfuglarnir ferðuðust víða um land og það voru ekki margar helgar sem voru ónýttar til ferðlaga yfir sumarmánuðina. Alltaf var fjölmenni í þessum ferðum, mikið brasað og ávallt mikil gleði. Veðrið var látið ráða hvert var haldið og það var ekki lagt fyrir sig að þeytast austur á landi í helgarferð ef þannig bar undir. Sem unglingur valdi ég að ferðast með þeim og það má segja að áhugi minn og virðing fyrir náttúru Íslands hafi kviknað í þessum ferðum. Faðir minn var mikill náttúruunnandi og náttúruverndarsinni og það voru fáir staðir á landinu sem hann hafði ekki komið á. Hann var sérlega glöggur að lesa í náttúruna og það var engum öðrum jafn vel treystandi til að finna bestu vöðin yfir beljandi jökulár og/eða hvar besta veðrið væri að finna. Hann var góður leiðbeinandi og óspar á að deila vitneskju sinni og kenna öðrum.

Pabbi var mikill veiðimaður og undi sér einna best við fallega á eða fjallavatn. Hann kenndi okkur krökkunum að veiða og síðan barnabörnunum þegar fram liðu stundir.

Pabbi var mjög músíkalskur maður, góður tenór og alltaf var gítarinn með í för. Hann var meðlimur í RARIK-kórnum til margra ára og hafði unun af því að hlusta á góða kóratónlist. Ekki var það verra ef hún var rússnesk. Hann átti auðvelt með að setja saman kóra sem hann stjórnaði eins og enginn væri morgundagurinn.

Við börnin hans eignuðumst 10 börn og það eru engar ýkjur að segja að þau voru öll með tölu augnayndi foreldra minna. Það var alltaf mikil tilhlökkun hjá þeim að koma til ömmu og afa á Hringbraut, enda máttu þau gera allt sem þau vildu og þar nutu þau sín. Afi og amma voru iðin við að fara með þau í útilegur, veiðiferðir, gönguferðir og ekki spillti fyrir ef þau fengu að gista. Það yljar manni nú um hjartarætur að hlusta á barnabörnin rifja upp gamlar minningar og skynja hversu stórt hlutverk afi og amma þeirra áttu í lífi þeirra. Mamma lifði það ekki að hitta barnabarnabörnin en pabbi fékk það tækifæri og það færði honum mikla gleði að fylgjast með þessum krílum vaxa og dafna.

Pabbi flutti eins árs gamall inn á Hringbrautina og þar stofnaði hann fjölskyldu með móður minni árið 1959. Amma Ragna bjó með þeim á Hringbrautinni þar til hún lést árið 1974. Við systkinin hófum öll búskap á Hringbrautinni. Árið 2012 fluttum við hjónin aftur inn á Hringbrautina og bjuggum þar með föður mínum fram til ársins 2017 þegar hann veiktist og flutti á hjúkrunarheimilið Sóltún. Stuttu eftir að hann veiktist áttum við spjall saman um veikindi hans og í hvaða stöðu hann var kominn. Maður sem alltaf hafði getað hreyft sig og gert það sem hann vildi var allt í einu orðinn ófær um það. Það lýsir persónu pabba vel að hann ákvað þá að verða ekki leiðinlegt gamalmenni. Líkt og líf hans hafði einkennst af, þá valdi hann að hafa gleðina að leiðarljósi, þó svo að brekkurnar hefðu oft verið óþarflega brattar. Á Sóltúni leið honum vel. Starfsfólkið sýndi honum mikla umhyggju og alúð og vil ég þakka þeim kærlega fyrir þá frábæru umönnun og virðingu sem hann fékk þar.
Pabbi, nú er komið að leiðarlokum í bili. Ég þakka þér fyrir árin öll, ást þína, umhyggju og leiðsögn. Hvíl þú í friði, pabbi minn. Þín verður sárt saknað en minning þín lifir.Þinn sonur, Steini.

Þorsteinn (Steini).

Sæmundur, eða Sæmi eins og flestir ef ekki allir þekkja hann, tengdafaðir minn, er látinn 93 ára að aldri. Hann var af Hringbrautarfjölskyldunni. Hann flutti á Hringbraut 126 (í dag nr. 26), eins árs gamall og bjó þar næstum alla sína tíð þar til hann flutti á Sóltún 89 ára gamall. Var það stórt skref fyrir hann. Foreldrar hans Nikulás og Ragna hófu að byggja Hringbrautarhúsið 1926 og fluttu inn í það 1928. Húsið var að norskri fyrirmynd. Ferðaðist Nikulás til Voss í Noregi til að kaupa skífur á þakið, sem mörg önnur hús í Reykjavík nutu góðs af.

Samkvæmt sögnum var heimilið alltaf mannmargt og líflegt. Sæmundur og Elín (Ella), tengdamóðir mín heitin, völdu að hefja sinn búskap á Hringbrautinni, eins og svo mörg af hans systkinum höfðu gert, með Rögnu tengdamóður sinni. Nikulás faðir hans lést árið 1949, þá tæplega sextugur að aldri, þá er Sæmundur 22 ára gamall. Það virðist eins og Hringbrautarheimilið hafi getað tekið endalaust við í mínum augum. Húsið hafi bara stækkað ef þess þurfti eða var þetta bara tíðarandinn! Sæmi og Ella héldu áfram búsetu á Hringbrautinni með sínum börnum og með Rögnu, mömmu, tengdamömmu og ömmu, og bjuggu áfram þar að Rögnu látinni.

Ég kem fyrst inn á Hringbrautina og í Hringbrautarfjölskylduna eitt bjart sumarkvöld í ágúst árið 1983, með Þorsteini Sæmundsyni (Steina), kærasta mínum og framtíðareiginmanni. Í portinu við bláa Land Roverinn var bjartur, glaðlegur og svolítið töffaralegur tilvonandi tengdafaðir minn að ganga frá eftir helgarútileguna. Augnablikið er mér greypt í minni. Mér var tekið opnum örmum inn í fjölskylduna af Sæma og Ellu. Mikil glaðværð var á heimilinu og alltaf virtist vera pláss fyrir alla. Eitt af því sem einkenndi líf Hringbrautarfjölskyldunnar voru útilegurnar. Vaðfuglaferðirnar. Farið jafnvel um hverja helgi á sumrin. Bílinn fylltur af útilegubúnaði og gítarinn hans Sæma með og haldið af stað. Bíllinn fylltur af fjölskyldu Sæma og Ellu og vinum fjölskyldunnar, allir komust með, alltaf var pláss fyrir alla. Engin vandamál. Sæmundur var leiðtoginn í þessum hóp og með sinni tenórrödd gall í honum: 10 mínútur í brottför í útilegu!! og allir hlýddu Sæma. Sæmundur elskaði þetta og elskaði að syngja og leiða. Það var ekki til það boð þar sem Sæmi tók ekki fram gítarinn og þetta breyttist ekki með hækkandi aldri Sæma. Á einhverjum tímapunkti var brostið í söng eða hann setti saman kór á staðnum og stjórnaði alltaf án of mikillar skipulagningar, allt mjög frjálslegt og fyrirhafnarlítið og fólki fannst þetta gaman. Þetta tilheyrði.

Mér fannst Ella og Sæmi vera öðruvísi, en það sem ég þekkti og heimilisbragur þeirra öðruvísi en ég þekkti. Þau voru á undan sinni samtíð og mikil upplifun fyrir mig, sem var í raun ærslabelgurinn á mínu uppvaxtarheimili, en varð þessi rólyndiskona og jafnvel alvarlega konan í Hringbrautarfjölskyldunni. Elín tengdamóðir mín vann alltaf úti og var sjálfstæð kona. Tengdapabbi verslaði í matinn og eldaði á heimilinu. Saman tóku þau slátur eða gerðu kæfu. En Sæmundur tók virkan þátt í heimilishaldinu og sinnti viðhaldi hússins.

Allt lék í höndunum á Sæma. Það var mikill ys og þys í fjölskyldunni, alltaf eitthvað skemmtilegt í gangi. Ég sem tengdadóttir reyndi að fylgja með en fannst oft á tíðum nóg um þetta allt saman. Og oft fullmikill hraði. Sæmi átti þrjú myndarleg börn og þrjú tengdabörn, og barnabörnin birtust hvert á fætur öðru og eru alls tíu í dag. Sæmi var stoltur af fjölskyldu sinni. Barnabörnin urðu líf og yndi Ellu og Sæma. Þau snerust í kringum börnin og allt var leyfilegt. Sæmi fór með þau í hverja ævintýraupplifunina á fætur annarri. Ekkert vandamál hjá Sæma, því fleiri börn, því betra og börnin elskuðu þetta. Hann naut þess að leiða þau áfram í upplifunarferlinu. Veiðiferðir, dagsferðir eða lengri ferðir, leiða halarófuna á eftir sér niður að tjörn til að grúska. Hann var leiðtoginn þeirra, vinur þeirra og barnabörnin virtu hann og Sæmi naut þess.

Sæmi var ungur í anda. Hann valdi gleðina fram yfir sorgina. Ef hann hefði getað ráðið þá hefði hann getað hugsað sér að enda ævi sína á Hringbraut 26. Örlögin ætluðu honum annað. Gæfa hans var að komast inn á Sóltún. Starfsfólkið þar var honum einstaklega gott og umhyggjusamt.

Sæmi minn, þú ert núna kominn til hennar Ellu og Möggu dóttur þinnar sem voru þér svo kærar.

Hvíldu í friði, Sæmi minn. Takk fyrir allt!

Guð blessi þig!

Þín tengdadóttir

Berglind (Begga).