Sigfríð Hallgrímsdóttir fæddist á Skálanesi við Seyðisfjörð 14. júní 1927. Hún lést 1. febrúar 2021.
Foreldrar hennar voru hjónin Hallgrímur Ólason, bóndi í Skálanesi, f. 22.1. 1889, d. 9.6. 1965, og María Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 26.1. 1891, d. 13.4. 1969. Önnur börn þeirra: Óli Svavar, f. 30.5. 1912, d. 6.5. 1987, Valgerður, f. 8.10. 1913, d. 21.4. 1987, Steinunn, f. 9.3. 1915, d. 16.10. 1994, Guðmundur, f. 6.7. 1916, d. 15.5. 1930, Jónína Margrét, f. 21.8. 1918, d. 19.8. 2005, Hulda, f. 28.9. 1919, d. 15.12. 1988, Hallgrímur, f. 14.9. 1923, d. 14.9. 1998, Hólmsteinn, f. 31.5. 1925, d. 7.3. 2003 og Helga, f. 17.8. 1928.
Sigfríð giftist Kristjáni Herði Hjartarsyni, loftskeytamanni og framkvæmdastjóra þann 21. ágúst 1948. Hörður var fæddur 11. nóvember 1927 á Ísafirði, sonur Ingibjargar Amelíu Kristjánsdóttur, f. 7.10. 1898, d. 24.03. 1974, og Hjartar Guðmundssonar, f. 29.1. 1901, d. 15.11. 1986. Fósturforeldrar Harðar voru Bjarni Andrésson, f. 14.4. 1886, d. 12.1. 1947, og Jónína Ósk Guðmundsdóttir, f. 28.9. 1886, d. 9.3. 1966. Hörður lést 22. september 2014.
Börn Harðar og Sigfríðar eru 1) Bjarndís, f. 16.11. 1948, m. Steindór Guðmundsson, f. 8.6. 1947, d. 15.2. 2000. Börn þeirra eru Eva Hrönn, f. 13.7. 1971, Fríða Dóra, f. 27.8. 1974, og Snorri Valur, f. 10.7. 1981. 2) Valur, f. 11.3. 1954, d. 24.10. 2018, m. Þuríður Höskuldsdóttir, f. 28.12. 1967. Valur var áður kvæntur Kristínu Aðalbjörgu Árnadóttur, börn þeirra eru Arna Hildur, f. 14.7. 1976, d. 30.3. 2002, Sigrún, f. 20.8. 1985, og Þórdís, f. 7.11. 1987. 3) Hjörtur, f. 23.10. 1955, m. Mimie Fríða Libongcogon, f. 2.6. 1962. Börn þeirra eru María Elisabeth, f. 31.3. 1993 og Hörður, f. 9.2. 1996. Sonur Hjartar og Katrínar Guðmundsdóttur er Guðmundur, f. 31.10. 1973. 4) Hallgrímur, f. 4.7. 1958, m. Anna Guðbjörg Sigmarsdóttir, f. 21.7. 1964. Hallgrímur var áður kvæntur Kristínu Guðnýju Klemensdóttur, börn þeirra eru Klemens, f. 5.2. 1980, og Sigfríð, f. 14.11. 1986. 5) Helena, f. 19.4. 1964. Barn hennar og Kristins Finnboga Kristjánssonar er Hörður Ingi, f. 7.10. 1981. Barn hennar og Vilhjálms Árnasonar er Hjálmdís Ólöf, f. 2.5. 1988. Fyrir átti Sigfríð Ingu Þórarinsdóttur, f. 14.11. 1946, m. Ólafur Magnús Kristinsson, f. 2.12. 1939, d. 4.1. 2018. Börn þeirra eru Helga, f. 20.8. 1970, Lilja, f. 17.2. 1972, Guðlaugur, f. 27.10. 1973, Kristinn, f. 10.2. 1978, d. 22.3. 2017, og Hildur, f. 29.9. 1984.
Sigfríð fæddist á bænum Skálanesi við Seyðisfjörð og ólst upp í stórri fjölskyldu. Hún ól börnin sín upp á Seyðisfirði og hafði hönd í bagga með uppeldi barnabarna sinna. Síðar fluttist Sigfríð til Reykjavíkur þar sem hún bjó og starfaði fram á eftirlaunaár. Stuttu fyrir aldamót missti hún sjónina og tókst á við það verkefni af miklu æðruleysi og var bæði sjálfbjarga og virk í starfi Blindrafélagsins þar til hún lagðist inn á Grund snemma árs 2018.
Útförin fer fram frá Fossvogskirkju 10. febrúar 2021.
Stytt slóð á streymi:
tinyurl.com/3p4jxaqp
Virkan hlekk á streymi má finna á:
Taug þeirra systkina til Skálaness var ávallt sterk, eins og síðasta ferð þeirra systra Fríðu og Helgu, sem nú er sú eina eftirlifandi af þeim Skálanessystkinum, austur á 90 ára afmælisári Fríðu ber vitni um. Í þeirri ferð heimsóttu þær systur Skálanes og gistu þar í sama herbergi og þær höfðu deilt á uppvaxtarárum sínum.
Fríða kynntist eiginmanni sínum Herði þegar hann kom til starfa sem símritari á Seyðisfirði. Þau hófu sinn búskap þar, fyrst bjuggu þau á efri hæðinni á Elverhöj, þaðan flutti fjölskyldan á Túngötu 19 og síðan á Túngötu 23.
Fríða var alla tíð hluti af mínu lífi, allt frá fæðingu í bókstaflegri merkingu. Þó að nokkur aldursmunur væri á þeim systrum mömmu og Fríðu voru þær og fjölskyldurnar báðar mjög nánar og samgangur mikill. Þegar einhver sem verið hefur hluti af lífi manns hverfur rifjast gjarnan upp liðnir tímar. Hugurinn leitar aftur til æskuáranna þegar ég var hjá þeim Herði og Fríðu á Túngötunni hluta úr nokkrum sumrum, en með mér voru krakkarnir, þá orðnir sex á heimilinu. Gestagangur fylgdi sumarmánuðunum og líka vegna starfa Harðar. Eins og gefur að skilja útheimti heimilishaldið mikla vinnu en hjá Fríðu var röð og regla á þeim hlutum. Það var bakað á ákveðnum dögum, þvottur þveginn á öðrum og svo voru tiltektardagar. Þá var úthlutað verkefnum og ég man það að ég fékk, að því er mér fannst, ansi oft það hlutverk að taka til í skóskáp sem var í forstofunni sem fólst í að raða skóm og bursta yfir þá, sem segir nokkuð til um hvað vandað var til við tiltektina á Túngötunni. Það var mikil vinna á þessum árum að vera með stóran barnahóp, þá voru föt á börnin útbúin heima, saumað og prjónað. Fríða var einstaklega fær á þessum sviðum og allt hennar handbragð með afbrigðum fallegt.
Fríða var mjög skipulögð kona og má segja að hún hafi haft máltækið morgunstund gefur gull í mund sem leiðarljós, heimilisstörfin voru unnin fyrri hluta dags. Þegar leið á daginn var farið í betri föt, farið í göngu, í búð eða vinkonur heimsóttar gæðatími húsmóðurinnar.
Þrátt fyrir að reka stórt heimili gaf Fríða sér tíma í að sinna áhugamálum sínum, hún hafði gaman af að syngja, söng m.a. með Bjarma og kirkjukór Seyðisfjarðarkirkju. Hún starfaði með leikfélaginu og tók þátt í uppsetningum á leikritum og var auðvitað í kvenfélagi eins og tíðkaðist gjarna á þessum árum.
Fríða ákvað að söðla verulega um í lífi sínu eftir sex áratugi á Seyðisfirði, flutti suður til Reykjavíkur og réð sig í vinnu á Hrafnistu, þar sem hún starfaði í þó nokkur ár. Það þarf kjark til að taka svona ákvörðun og Fríða var kjörkuð kona. Þessi ákvörðun reyndist henni farsæl, hún kunni vel við sig og naut svokallaða þriðja æviskeiðsins vel í höfuðborginni með samvist við fjölskyldu, systkini og vini. Fríða kunni vel að meta lífsins gæði og hafði gaman af að skemmta sér. Fríða og Hörður voru ávallt höfðingjar heim að sækja og eins og á Túngötunni forðum daga var oft gestkvæmt hjá þeim í Skipholtinu þar sem þau bjuggu á Reykjavíkurárunum.
Fyrir ríflega 20 árum missti Fríða að miklu leyti sjónina sem varð henni gífurlegt áfall. Mér er minnisstætt að Baddý sótti mjög stíft að mömmu sinni að þær mæðgur færu á helgarnámskeið sem haldið var á Sólheimum fyrir fólk sem hafði nýlega orðið fyrir sjónskerðingu og aðstandendur þess. Fríða var ekki áfjáð í að fara en það varð úr að hún fór og það gerðist eitthvað merkilegt þarna þessa helgi. Fríða kom til baka og viðhorf hennar til sjónskerðingarinnar og lífsins með hana var gjörbreytt. Hún tókst á við þessar aðstæður með einstöku æðruleysi og dugnaði. Lét þær ekki aftra sér frá að lifa lífinu af krafti, fór í ferðir innanlands og erlendis, sinnti öllum heimilisstörfum með myndarskap eins og áður. Það var tekið slátur og allir keppir auðvitað saumaðir, bakaðar randalínur og smákökur fyrir jólin og sendar á fjölskyldu og vini alveg eins og áður en hún missti sjónina. Hún hélt áfram að stunda hreyfingu af sama krafti og áður, gekk og fór nánast daglega í sund. Fríða tók mjög virkan þátt í félagsstarfi Blindrafélagsins. Hún eignaðist þar marga góða vini og naut mjög starfsins og félagsskaparins þar.
Eftir að hún missti Hörð fór að draga af henni og þessi sterka kona missti smám saman lífsneistann. Nú er mín elskulega móðursystir komin á betri stað og ég vil þakka samfylgdina, góðsemi og hlýju í minn garð alla tíð. Far þú í friði, mín kæra.
Við Tryggvi vottum Ingu, Bjarndísi, Hirti, Hallgrími og Helenu, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum okkar dýpstu samúð.
Halla María Árnadóttir.