Kristjana Þuríður Jónsdóttir (Sissa) fæddist á Sólvangi í Hafnarfirði 16. mars 1961. Hún lést á heimili sínu þann 6. febrúar sl. eftir hetjulega baráttu við lífhimnukrabbamein síðasta árið. Kristjana er dóttir hjónanna Droplaugar Benediktsdóttur f. 17. október 1937, d. 2. júlí 2004 og Jóns Stefáns Hannessonar f. 8. janúar 1936, d. 6. janúar 2003. Systkini Kristjönu eru Benedikt Þór, f. 2. apríl 1957, g. Fanneyju Helgu Friðriksdóttur; Hannes Jónast f. 16. Júlí 1959, g. Auðir Gunnarsdóttur og Andrea Kristín f. 7. Júlí 1966, g. Jóhannesi Inga Kolbeinssyni.
Kristjana giftist Stefáni Ásgeirssyni Olsen þann 18. maí 2019 en þau hófu sambúð árið 1991 og hafa því átt samvistir í 30 ár. Dóttir Kristjönu er Hanna Jóna Ragnarsdóttir f. 28. mars 1980. Maður hennar er Kristján Páll Kristjánsson f. 4. nóvember 1979 og eiga þau dæturnar Petrúnellu Aðalheiði f. 11. október 1998 og Katrínu Diljá f. 29. maí 2006. Þau búa í Danmörku. Dóttir Stefáns er Una Olsen f. 5. maí 1984. Maður hennar er Meisam Rafiei, þau eiga soninn Mána og eru búsett í Bandaríkjunum.
Kristjana ólst upp í Hafnarfirði, fyrstu árin og foreldrum og bræðrum í húsi móðurforeldra í Ljósaklifi, þá í nokkur ár í Garðbæ en bæði húsin eru í hrauninu við sjóinn neðan við Hrafnistu í Hafnarfirði. Í janúar 1967, þegar yngsta systirin hafði bæst í barnahópinn, fluttist fjölskyldan í raðhús við Álfaskeið 89. Kristjana keypti sína fyrstu íbúð árið 1984 að Álfaskeiði 90 en þaðan lá leiðin í risíbúð við Drápuhlíð 26 þar sem hún bjó þegar þau Stefán tóku saman. Þá fluttu þau saman í húsnæði Stefáns að Dragavegi 5 en síðar keyptu þau lóð í Ekrusmára 18 í Kópavogi og byggðu sér fallegt heimili sem þau fluttu inn í á vormánuðum árið 1998. Frá 2016 hafa Kristjana og Stefán búið sér yndisheimili að Reyrengi 34 í Grafarvogi.
Kristjana vann í fiskvinnu í Bæjarútgerð Hafnarfjarðar sem unglingur auk þess sem hún var í sveit eitt sumar. Sem ung kona vann hún nokkur ár á Skattstofunni í Hafnarfirði þaðan lá leið hennar í Lögheimtuna og síðar á fasteignasöluna Kjörbýli í Kópavogi þar sem hún vann til ársisns 2000 en eftir það vann Kristjana hjá Hagkaupum til ársins 2018, fyrst í Smáratorgi og síðar Smáralind en fluttist svo yfir í Hagkaup í Garðabæ þar sem hún var aðstoðarverslunarstjóri þar til hún ákvað að kominn væri tími á breytingar og huga að eigin heilsu og hamingju. Tíkin Skotta bættist á heimilið og varð góður göngufélagi og hin mesta heimilisgleði auk þess sem golfið heillaði og þau hjónin hófu saman stund á því sporti. Að sama skapi nýtti Kristjana tímann til frekara náms en hún var langt komin með að afla sér bókhaldararéttinda og sýndi í því námi afburðaárangur.
Útför Kristjönu fer fram frá Grafarvogskirkju þann 15. febrúar kl. 13.00. Vegna aðstæðna í samfélaginu og vegna samkomutakmarkana verða aðeins nánásta fjölskylda og vinir viðstödd útförina. Hægt verður að fylgjast með streymi af útförinni https://youtu.be/jjAUNegHizU
en hlekkinn má finna á mbl.is/andlat.
Systur í nær 55 ár og að auki bestu vinkonur síðustu 40 árin. Við vorum
sko bara systur fyrstu 15 árin enda ég fimm árum yngri, með fílsminni og
frek (að sumra mati). Það kom þó ekki í veg fyrir það að ég átti dásamlega
systur í Sissu allt frá fyrsta minni. Öll ævintýrin í Ljósaklifi hjá ömmu
og afa, í fjörunni, uppi í laut og úti í sólskýli. Fataleikir uppi á lofti.
Listaverk úr fjörusteinum, skeljum og kuðungum, kofasmíðar, garðyrkja og
bara allt sem hægt er að hugsa sér.
Í gamla daga átti Sissa forláta Barbie-dúkku sem ég öfundaði hana mikið af
og langaði til að leika mér að og eiga. Sissa vissi af áhuga mínum og
stundum bauðst hún til að gefa mér Barbie-dúkkuna ef ég gerði henni greiða,
svo sem eins og að hlaupa út í búð og kaupa kók, síríuslengju og
lakkrísrúllu. Ég var sko til í þessi skipti, en einhvern veginn þá æxlaðist
það svo eftir hvert sinn, að þetta var ekki alvöru og ég fékk ekki að
eiga Barbie. Þetta yfirfærðist svo á ýmislegt annað sem ég ágirntist, hún
lofaði að gefa mér eitthvað ef ég hlypi út í búð en svo þegar heim var
komið þá var það bara Barbie sem þýddi að þetta var bara gabb. Ég féll
alltaf fyrir þessu bragði, aftur og aftur ... og myndi eflaust gera enn ef
hún reyndi.
Ég dáði stóru systur mína takmarkalaust og ekki minnkaði sú aðdáun eftir að
æskuárunum lauk og við urðum ungar dömur og fórum að skemmta okkur. Hún
fyrst auðvitað og svo komst ég á þann góða aldur að komast inn í Hollywood
og aðra góða skemmtistaði. Það var einmitt í Hollywood sem við hittumst
fyrst úti á lífinu. Allt í einu heyri ég nafnið mitt kallað og ég sver að
mér fannst þetta vera mín eigin rödd. En þetta var hún Sissa, jafn hissa og
glöð og ég og við fundum það út að við værum bara skratti skemmtilegar og
skemmtum okkur vel saman allt upp frá því. Fyrst vorum við ungar og
einhleypar einstæðar mæður, síðan vorum við samtaka í því að finna okkur
góða eiginmenn, hún hann Stebba sinn og ég hann Jóa minn.
Sissa eignaðist Hönnu Jónu dóttur sína nítján ára gömul, mánuði fyrir
ferminguna mína. Þetta var sú besta fermingargjöf sem hægt var að hugsa
sér, að eignast litla frænku. Í mínum huga var þetta fullkominn tími, Hanna
Jóna var fullkomin í alla staði, með fallegu brúnu augun sín og yndisbrúna
hárið sitt. Ég vissi það ekki þá, en veit það núna að bæði mamma og Sissa
voru aðframkomnar á sál og líkama þegar kom að fermingunni minni. Sissa
veiktist heilmikið eftir fæðinguna og þurfti að leggjast inn á spítala á
sama tíma og undirbúningur fermingar stóð sem hæst. Þetta hafðist allt og
ég vissi ekki neitt, mér fannst þetta bara fullkominn tími, yfir mig montin
af litlu frænkunni minni og átti dásamlegan fermingardag. Þremur árum síðar
eignast ég hana Þurí mína og urðu dætur okkur eins og systur, oftast eins
klæddar og miklar vinkonur.
Sissa og Stebbi byggðu sér undurfagurt heimili í Ekrusmára 18 í Kópavogi,
þangað sem þau fluttu 1998. Við Jói ásamt foreldrum okkar Sissu byggðum
skömmu síðar hús í Bollasmára 6 og urðum við þar með nágrannar og aðeins
eitt hús skildi okkur að. Við nutum þess vel að vera nágrannar á þessum
árum en að auki var þetta hentug lausn þar sem foreldrar okkar þurftu
aðstoðar við vegna veikinda sinna. Eitt sumarið réðust Sissa og Stebbi í að
gera garðinn sinn kláran og þess naut pabbi með þeim, að bjástra við
grjótflutning og moldarburð og úr varð mikill lystigarður. Þær voru margar
helgarnar þar sem við Jói skutumst yfir til að spila kana, ræða málin og
skemmta okkur. Stundum enduðu kvöldin á Players og þótti okkur það ekki
leiðinlegt, sérstaklega ekki ef Bjöggi var að spila.
Á þeim árum sem við Jói bjuggum úti voru Sissa og Stebbi dugleg að
heimsækja okkur. Eins og við þekkjum var flug frá Íslandi til Evrópu alltaf
á ókristilegum tímum og því lítið um svefn nóttina fyrir flug. Mér er
minnisstætt eitt skiptið sem þau hjónin komu að við Sissa ákváðum að fara
bara beint í búðir af flugvellinum. Maður getur nú verið sjúskaður og
þrútinn eftir lítinn svefn og langt flug og svo eru ljósin í mátunarklefum
almennt mjög mannskemmandi auk þess sem speglarnir ná á einhvern sérstakan
hátt að draga fram allar misfellur og aukakíló (sem annars eru ekki til
staðar). Ég ætla ekkert að lýsa þessu nánar en við gerðum þessi mistök
aldrei aftur. Aldrei.
Við Sissa höfum náð að vinna vel saman í gegnum tíðina. Þótt við séum á
margan hátt mjög ólíkar, þá höfum við bætt hvor aðra upp, alla vega hefur
hún bætt mig vel upp. Hún var ekkert fullkomin frekar en aðrir, en hennar
ófullkomleiki gerði hana svo einstaka, á þann besta hátt sem hægt er að
hugsa sér. Hún vildi allt gera fyrir fólkið sitt og þá sem áttu stað í
hjarta hennar. Hún var forkur til verka, hafði einstaka skipulagsgáfu og
næmt fegurðar- og formskyn. Það lék í höndum hennar að gera fallegt í
kringum sig. Hún fékk hugmyndir og framkvæmdi þær ... það kom fyrir að þær
voru sérstakar. Eins og þegar hún keypti borðstofuborðið sem var
ábyggilega einir 14 fermetrar að stærð og maður þurfti að klifra upp á
borðið til að ná að þurrka af því (eða svona næstum því). En það var aldrei
leiðinlegt borðhald við það borð.
Það kom að því að Sissa og Stebbi seldu húsið sem þau byggðu og keyptu sér
fallegt raðhús við Reyrengi í Grafarvogi. Þótt nýja húsið væri gjörólíkt
því gamla, þá leið ekki á löngu þar til maður fór að kannast við
heimilisbraginn, þar sem þau hjónin settu sinn svip á heimili og garð. Ég
gæti vel ímyndað mér að ef Sissa væri að byrja sinn náms- og starfsferil í
dag þá væri það tengt hönnun og formi heimila.
Sissa hætta að vinna fyrir nokkrum árum en síðustu starfsárin var hún
aðstoðarverslunarstjóri í Hagkaup í Garðabænum. Henni fannst starfið
skemmtilegt og átti þar marga góða vinnufélaga. En starfið var slítandi og
stal öllum stundum í kringum stórhátíðir og Sissu fannst kominn tími á
breytingar. Tíkin Skotta flutti inn á heimilið og varð góður göngu- og
sálufélagi. Sissa skellti sér í golfið með vinkonum sínum og eiginmanni og
átti það orðið hug þeirra og hjörtu. Hún hafði oftar en einu sinni orð á
því hvað hún væri glöð yfir því að hafa hætt að vinna. Hún naut svo
sannarlega þessara síðustu ára, elskaði fjölskylduna sína, tíkina Skottu,
golfið og naut þess að gera heimilið sitt að notalegum verustað.
Svo bankaði þetta krabbamein upp á. Skrambans krabbameinið sem lagði hana
systur mína að velli á innan við ári. Með einstöku æðruleysi háði Sissa
snarpa baráttu við meinið þar til ljóst varð að sigur myndi ekki hafast.
Lyfjameðferð var hætt í lok nóvember sl. og áhersla var lögð á lífsgæðin
þann tíma sem eftir væri. Desember varð dásamlegur í faðmi nánustu
fjölskyldu og Sissa hafði oft á orði að þetta væru sko lífsgæði umvafin
sínum nánustu, Stebba, Hönnu Jónu, Petu, Kötu og Krissa. Við Jói fengum að
vera með þeim um jólin og áramótin og fyrir það þökkum við.
Elsku Sissa. Það getur vel verið að þú sért dáin - en þú ert sko ekki
horfin. Nú lifir þú áfram í okkur öllum sem þér unnum og þekktum. Þú hefur
sáð ótal mörgum fræjum í huga okkar sem eiga eftir að vaxa og lifa með
okkur. Ég á eftir að sakna þín alla daga, allt þar til við hittumst á ný.
Mundu að spyrja mömmu um stóru bókina - hún bara hlýtur að muna eftir
henni.
Elsku Stebbi, Hanna Jóna, Krissi, Peta, Kata, Unnur Ósk, Meisam og Máni. Ég
votta ykkur mína dýpstu samúð, megi allar góðar vættir styrkja ykkur og
styðja.
Þín litla systir,
Andrea Kristín Jónsdóttir.