Binna Hlöðversdóttir fæddist í Reykjavík 29. október 1946. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 17. febrúar 2021.
Foreldrar hennar voru Hlöðver Kristjánsson rafvélavirki, f. 11. desember 1925, d. 12. febrúar 2003, og Kristjana Esther Jónsdóttir sjúkraliði, f. 5. mars 1927, d. 29. apríl 2020.
Systkini Binnu eru: Erna, f. 1948, maki Niels Christian Nielsen; Róbert, f. 1950, maki Ingibjörg Garðarsdóttir; Valþór, f. 1952, maki Guðrún Gunnarsdóttir; Jódís, f. 1958, sambýlismaður hennar er Gunnar Gunnarsson; Bryndís, f. 1960, sambýlismaður hennar er Stefán Valgarð Kalmannsson; Jón Hrafn, f. 1962, sambýliskona hans er Elsa Dóróthea Gísladóttir; Orri Vignir, f. 1964, maki Helga Dagný Árnadóttir; Hlöðver, f. 1966, maki Þorbjörg Valdís Kristjánsdóttir.
Binna giftist 17. júlí 1974 Torfa Haraldssyni vigtarmanni, f. 5. apríl 1950. Börn þeirra eru:1) Ívar, skipstjóri á Herjólfi f. 1977, maki Sirrý Björt Lúðvíksdóttir sjúkraliði og eiga þau sex börn, Ísalind, Ilse, Oktavíus, Ísis Binnu, Lúðvík Hafstein og Tíberíus Torfa. 2) Ester heilbrigðisgagnafræðingur, f. 1979, maki Jónas Logi Ómarsson matreiðslumeistari og eiga þau þrjár dætur, Magdalenu, Maríönnu og Viktoríu.
Binna starfaði rúma tvo áratugi á afgreiðslu Herjólfs og síðar sem ráðgjafaþroskaþjálfi hjá Vestmannaeyjabæ til starfsloka.
Útförin fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 27. febrúar 2021.
Í janúar árið 1973 hófst eldgos í Heimaey, atburður sem vissulega hafði mikil áhrif bæði á Eyjamenn og landsmenn. Máltækið segir Sínum forlögum verður hver að fylgja og má að vissu leyti segja að það hafi verið forlögin sem settu af stað þessa sérstöku atburðarás sem hafði áhrif á framtíð okkar beggja og tengdi okkur um leið þeim vináttuböndum sem hafa haldist æ síðan. Binna vann á þessum tíma hjá Landsímanum og þegar sjálfvirka símstöðin var flutt frá Eyjum í gosinu þurfti að manna handvirku símstöðina sem sett var þar í staðinn. Binna flutti sig tímabundið til í starfi en það tímabil varð varanlegt þegar hún kynnist myndarlegum Eyjapeyja, Torfa, og þá var ekki aftur snúið til eyjunnar í norðri. Mín vegferð var að gosið skolaði mínum myndarlega Eyjapeyja upp á höfuðborgarsvæðið og það endaði með því að hann töfraði ungu flugfreyjuna upp úr skónum og sannfærði að hvergi væri betra að búa en á eyjunni í suðri.
Fyrir atbeina Binnu fékk ég starf hjá Landsímanum í Eyjum og við tvær sameinuðumst um að splæsa í flutningagám fyrir okkar eigur í mars 1974. Þetta voru góðir tímar, mikil uppbygging í Eyjum, mikil samstaða og við borgardætur lærðum að meta samfélagið og mannlífið í Eyjum. Við gerðumst myndarlegar húsmæður, fórum að sinna alls kyns handavinnu og saumaskap sem okkur hafði ekki verið svo tamt áður. Börnin okkar, Kristmann, Ívar, Brynhildur og Ester, fæddust á svipuðu árabili 1977 til 1979 og árin 1984 og 1985 fórum við fjölskyldurnar í tvær sumarhúsaferðir til Danmerkur sem enn frekar styrktu okkar vináttubönd.
Við hjónin fluttum frá Eyjum árið 1981 þegar ég ákvað að fara aftur í nám. Þegar framhaldsskóli var stofnaður í Eyjum ákvað Binna að drífa sig aftur í skóla að ljúka stúdentsprófi sem hún gerði með miklum sóma. Í framhaldi ákvað hún að fara í Kennaraháskólann og læra þroskaþjálfafræði. Hún hringir í mig og segir að sig vanti meðmælanda fyrir námið og var slíkt auðfengið. Það var mér mikill heiður að geta öðru hvoru lagt hönd á plóg meðan Binna stundaði námið og þegar hún lauk því árið 2005 þá var ég eins og stolt móðir sem var að útskrifa barnið sitt og hélt ég matarboðs/-útskriftarveislu Binnu til heiðurs og áttum við góðan dag með hennar nærfjölskyldu og Esther móður hennar.
Okkar heimili voru ætíð opin fyrir hvort öðru og gistu Binna og Torfi iðulega hjá okkur Magga í Reykjavík og við hjá þeim þar til við keyptum okkur hús í Eyjum 2012. Við nutum þess að elda góðan mat og eiga góða stundir saman.
Við Binna tókum okkur til og lærðum svæðanudd í kringum 1980. Iðulega enduðu góð samverukvöld hjá okkur á því að við nudduðum hvor aðra meðan herramennirnir fengu sér smá brjóstbirtu.
Árið 2017 fórum við hjónin ásamt Binnu og Torfa til Vesturheims. Þess má geta í framhjáhlaupi að við Torfi erum forfallnir ættfræðigrúskarar og var það samkomulag gert við Binnu og Magnús að þau mættu hafa frjálsan tíma þegar við þyrftum að sinna þessu brýna áhugamáli. Ferðin öll um Íslendingabyggðir, bæði í Kanada og N-Dakóta, var hin mesta skemmtun. Í kjölfarið var planað að á næstu árum þegar við værum öll hætt að vinna þá yrði farið í fleiri slíkar ferðir og fleiri Íslendingabyggðasvæði könnuð en svo grípa forlögin enn og aftur inn í og breyta gangi mála og setja í annan farveg sem okkur var ekki ætlað að ráða við.
Lengi skal vin velja, lengur vináttu halda. Með þessum orðum kveð ég vinkonu mína og þakka um leið fyrir að hafa borið gæfu til að velja svona góðan vin og við náð að rækta vinaböndin öll þessi ár sem þó voru allt of fá.
Við Magnús og börn okkar, Kristmann, Brynhildur og Hjalti, sendum fjölskyldu Binnu, Torfa eiginmanni hennar, Ívari, Ester, tengdabörnum og barnabörnum okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Ólöf S. Björnsdóttir.