Stefán Árnason fæddist í Reykjavík 29. mars árið 1944. Hann lést af slysförum 17. febrúar 2021.
Foreldrar hans voru Guðfinna Guðmundsdóttir handavinnukennari, f. 1910, d. 1968 og Árni Þórður Stefánsson, bifvélavirki og ferðamálafrömuður, f. 1911, d. 1982. Þau hjónin slitu samvistum. Stefán ólst upp á Njálsgötu 7 í Reykjavík. Þá var hann einnig mörg sumur í sveit í Dalsmynni í Biskupstungum. Hálfsystur hans eru: Þorgerður Árnadóttir náttúrufræðingur, f. 1952, d. 2020 og Einfríður Árnadóttir röntgenlæknir, f. 1956. Eiginmaður hennar er Christer Magnusson hjúkrunarfræðingur, f. 1956, og börn þeirra eru Tinna Jóhanna, f. 1989 og Árni Magnús, f. 1993, kvæntur Lindsey Lee, f. 1993. Barn þeirra er Rúnar Þór, f. 2020.
Fyrri kona Stefáns var Þórhildur Ósk Jónasdóttir kennari, f. 1946, d. 1975. Barn þeirra er Hrafnkell Tjörvi mannauðsráðgjafi, f. 1975. Foreldrar Þórhildar voru Jónas Valdimarsson pípulagningameistari, f. 1925, d. 2011 og Hrefna Guðmunda Magnúsdóttir húsfreyja, f. 1924, d. 2007.
Seinni kona Stefáns er Marsibil Ólafsdóttir aðstoðarskólastjóri, f. 15. mars 1949. Foreldrar hennar voru Halla Inga Einarsdóttir húsfreyja, f. 1920, d. 2009 og Ólafur Emil Ingimarsson leigubifreiðarstjóri, f. 1921, d. 1971. Stefán og Marsibil eignuðust tvö börn. Fyrra barn þeirra er Vésteinn rafvirki, f. 1981, kvæntur Kolbrúnu Hönnu Jónasdóttur námsráðgjafa, f. 1981. Barn hennar er Sölvi Snær Valdimarsson, f. 2000. Vésteinn og Kolbrún eiga saman Jöklu Dís, f. 2009. Seinna barn Stefáns og Marsibilar er dr. Bryndís iðnaðarverkfræðingur, f. 1983, gift Jens Jónssyni fjármálastjóra, f. 1983. Dætur þeirra eru Hekla Karen, f. 2008 og Sóley Karen, f. 2013.
Stefán lauk kennaraprófi árið 1965. Hann stundaði einnig nám við Danmarks Lærerhøjskole árin 1978-1979 ásamt Marsibil eiginkonu sinni. Seinna fluttu þau aftur til Danmerkur ásamt þremur börnum sínum og voru þar við nám og störf á árunum 1983-1985. Stefán hóf kennsluferil sinn í Vogaskóla árið 1965 og að því búnu lá leiðin í Garðabæinn þar sem hann kenndi stærðfræði við Garðaskóla um árabil. Árið 1985 hélt hann áfram stærðfræðikennslunni við Fjölbrautaskólann í Garðabæ allt til ársins 2010. Stefán vann hjá skólarannsóknadeild menntamálaráðuneytisins með kennslu á árunum 1972-1975. Auk þess fór hann yfir samræmd próf í stærðfræði til fjölda ára. Þau Ásrún Matthíasdóttir, Sveinn Ingi Sveinsson og Stefán sömdu bókina Tölfræði með tölvum sem kennd hefur verið í ýmsum framhaldsskólum.
Stefán var mikill Garðbæingur þar sem hann bjó bróðurpartinn af lífi sínu. Hann var í stjórn sunddeildar Stjörnunnar árin 1992-1995 og var varaformaður Stjörnunnar árið 1996. Stefán tefldi mikið og var í skákklúbbi í hópi góðra félaga. Hann hafði bæði ánægju af ferðalögum innanlands sem og erlendis. Einnig var hann göngugarpur og stundaði sund. Stefán var mikill fjölskyldumaður og síðustu æviár sín hefur hann notið lífsins sem ellilífeyrisþegi umvafinn fjölskyldu sinni og vinum.

https://www.facebook.com/groups/stefanarnason

Virkan hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Elsku besti pabbi. Skyndilegt fráfall þitt er okkur fjölskyldunni mikið reiðarslag. Það er svo sárt að kveðja þig. En eftir standa allar minningarnar og þær eru svo sannarlega margar.

Pabbi var mikill fjölskyldumaður og unni hann fjölskyldu sinni afar heitt og vildi hag hennar sem bestan. Ég minnist barnæsku minnar sem einstaklega góðs tíma. Á Markarflötinni bjuggu pabbi og mamma til yndislegt heimili, þar sem allt var til alls fyrir mig og bræður mína, Hrafnkel og Véstein. Þarna var gott að alast upp. Pabbi og mamma skiptu alltaf heimilisstörfunum og öllum verkefnum á sanngjarnan hátt á milli sín og alltaf var klárt hver sá um hvað. Mamma var til dæmis kokkurinn á heimilinu, pabbi var afar þakklátur fyrir það og alltaf jafn ánægður með snilldareldamennskuna hennar. Við fjölskyldan spiluðum mikið saman, fórum í sund, skelltum okkur á skíði og í ferðalög. Já, pabbi hafði yndi af að ferðast um Ísland, og ég minnist ótal skemmtilegra gönguferða og hringferða um landið. Eitt sumarið var met slegið þar sem við vorum 27 nætur í tjaldi!

Pabbi studdi mig á ótrúlegan hátt í gegnum alla mína skólagöngu og háskólanám; hvort sem það var að reikna saman, fara yfir verkefni, koma með veitingar til mín, lána mér bílinn eða eitthvað annað. Eftir próf var pabbi alltaf fyrsti maðurinn til að hringja og spyrja hvernig hefði gengið. Þegar ég og Jens fluttum til náms til Kaupmannahafnar, þá komu pabbi og mamma í ótal heimsóknir sem ég minnist með mikilli hlýju. Af skemmtilegri tilviljun þá bjuggum við einmitt á Sólbakkanum þar sem pabbi og mamma höfðu einnig búið þegar þau voru í námi þar. Árin í Danmörku mótuðu pabba og mömmu á margan hátt og tenging þeirra við Danmörku var afar sterk. Þar eignuðust þau einnig mörg vinahjón sem enn er haft gott samband við með reglulegum heimsóknum og bréfaskriftum.

Ég hef verið búsett með fjölskyldu minni í München í 10 ár. Pabbi var alltaf afar stoltur af námi okkar og störfum í München. Pabbi og mamma voru einnig einstaklega dugleg við að heimsækja okkur þangað. Í heimsóknum þeirra ferðuðumst við einnig mikið saman, til dæmis til Ítalíu, Króatíu, Austurríkis, sem og ótal ferðir um hið fallega Bæjaraland. Pabbi naut þessara ferða afar vel. Í heimsóknunum var oft tekið í spil og tíminn með barnabörnunum nýttur vel. Afi hafði mikla unun af barnabörnunum sínum og dætur mínar minnast afa síns af miklum hlýhug. Afi var alltaf fullur af visku og kenndi þeim svo ótal margt sem þær munu búa að alla ævi. Fyrir börn sem alast upp í útlöndum er afar dýrmætt að fá að kynnast afa sínum á svona góðan hátt með löngum samverustundum marga daga í röð. Pabbi kom einnig tvisvar til okkar og var yfir lengri tíma til að aðstoða okkur með stelpurnar þegar við vorum í vandræðum. Aupair-starfið leysti hann mjög vel af hendi. Pabbi hefur alla tíð lesið ótrúlega mikið hvort sem það eru dagblöð eða bækur. Þegar hann kom til München kom hann oftast af ásettu ráði með leiðinlega bók svo hann myndi nú ekki festast við lestur! Auðvitað ber líka að nefna að þegar við fjölskyldan komum til Íslands var ávallt tekið höfðinglega á móti okkur.

Pabbi starfaði sem framhaldsskólakennari til margra ára. Hann var afar góður kennari og vel metinn af mörgum nemendum. Síðustu ár hefur hann svo notið þess að vera ellilífeyrisþegi. Þegar mamma lét af störfum sem aðstoðarskólastjóri hóf hún nám í Háskóla Íslands. Pabbi studdi hana vel í því; sótti fyrir hana bækur á bókasöfn og hlustaði með athygli þegar hún las upphátt skilatexta fyrir hann. Síðan varð hann ákaflega glaður þegar hann beindi sínum fránu augum að textanum og fann einhverja ritvillu eða gat bent á málfar sem betur mætti fara.

Pabbi var mjög sérstakur maður og einstaklega hjálpsamur. Hann hafði einhvern veginn áhuga á öllu sem hans nánustu tóku sér fyrir hendur. Hann setti sig vel inn í hin ýmsu málefni og alltaf var hægt að leita ráða hjá honum. Pabbi hafði unun af því að spjalla við fólk og segja sögur. Við pabbi erum að mörgu leyti mjög lík og mér fannst alltaf mjög gott að spjalla við hann. Oft snerust samtölin um málefni sem fáir aðrir hafa áhuga á, eins og skipulagningu lestarkerfa, skráningu sundferða, eða ýmiss konar tölfræðipælingar og skipulag. Pabbi var einnig mikið fyrir ýmiss konar jaðarupplýsingar, t.d. eitt sinn þegar ég sagði honum að við fjölskyldan hefðum fundið nýja íbúð þá var fyrsta spurningin varðandi það hvar póstkassinn væri staðsettur!

Elsku pabbi, þakklæti er mér efst í huga. Þakklæti fyrir að hafa átt yndislegan föður, sem var alltaf til staðar fyrir mig. Pabbi, þú átt svo stóran hlut af hjarta mínu og ég sakna þín svo mikið. Elsku pabbi, við munum halda veislu þér til heiðurs á 99 ára afmælisdegi þínum. Þú hafðir jú oft haft á orði að þann dag muni einmitt bera upp á páskadag!

Ég elska þig.

Þín dóttir,

Bryndís.

Bryndís Stefánsdóttir