Árni Magnús Emilsson fæddist í Vestmannaeyjum 14. apríl 1943. Hann lést á Landspítalanum 17. febrúar 2021.
Foreldrar Árna: Emil Jóhann Magnússon, f. 25.7. 1921, d. 8.2. 2001, kaupmaður á Þórshöfn og í Grundarfirði, og Ágústa Kristín Árnadóttir, f. 6.8. 1921, d. 27.10. 2014, húsfreyja.
Systkini Árna: Aðalheiður Rósa (látin); Aagot (látin); Gísli Már Gíslason; Hrund (látin); Ágústa Hrund og Emil.
Eiginkona Árna er Þórunn Björg Sigurðardóttir, f. 1.7. 1943, tónmenntakennari. Hún er dóttir Sigurðar Árnasonar, f. 14.7. 1900, d. 10.9. 2000, bónda á Sámsstöðum í Fljótshlíð, og Hildar Árnason, f. 25.5. 1913, d. 23.1. 2003, húsfreyju.
Börn Árna og Þórunnar eru: 1. Orri, f. 1964, maki Anna Rún Ingvarsdóttir. Hún á Jóhönnu Hrund og Þórunni Þöll Einarsdætur. 2. Arna, f. 1966, hún á Victoriu Varela með Javier Varela. 3. Ágústa Rós, f. 1977, maki Svavar Jósefsson. Þau eiga Sölku og Hrafn Styrkár, en fyrir átti Ágústa Rós Úlf með Árna Fjölnissyni.
Árni ólst upp á Þórshöfn frá þriggja ára aldri til 1952. Þá flutti fjölskyldan í Grundarfjörð þar sem faðir hans varð framkvæmdastjóri hjá Sigurði Ágústssyni, útgerðar- og alþingismanni. Árið 1987 flutti Árni í Garðabæ.
Árni var í barnaskólum Þórshafnar og Grundarfjarðar, stundaði nám við Héraðsskólann á Skógum og lauk þaðan landsprófi, við MR í einn vetur, þá við lýðháskóla í Lófóten í Norður-Noregi og við Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni og lauk þaðan íþróttakennaraprófi 1962.
Árni var í sveit á Langanesi til 14 ára aldurs og næstu sjö sumur á síldarbátum frá Grundarfirði. Árni kenndi við Barnaskóla Grundarfjarðar frá 1963, sinnti verslunarstörfum hjá föður sínum í Verslunarfélaginu Grund, var sveitarstjóri Grundarfjarðar 1970-79, framkvæmdastjóri fiskvinnslufyrirtækisins Sæfangs í Grundarfirði 1979-82, útibússtjóri Búnaðarbankans í Grundarfirði 1982-87, útibússtjóri Búnaðarbankans í Garðabæ 1987-2002, útibússtjóri aðalbanka Kaupþings í Austurstræti 2002-2004 og við Landsbankann 2004-2010. Árni var, ásamt Sturlu Böðvarssyni, ritstjóri fjögurra binda rits, Ísland – atvinnuhættir og menning 2010.
Árni æfði og keppti í knattspyrnu, körfubolta og öðrum íþróttagreinum á vegum UMFG, var mikill áhugamaður um skák og var nokkur ár gjaldkeri Skáksambands Íslands, stóð fyrir ýmsum skákmótum og frægu skákmóti í Grundarfirði í tilefni af 200 ára verslunarsögu Grundarfjarðar. Hann er upphafsmaður að Friðriksmótinu sem haldið hefur verið á vegum Landsbankans frá 70 ára afmæli Friðriks Ólafssonar skákmeistara. Einn af stofnendum Félags ungra sjálfstæðismanna á Vesturlandi og fyrsti formaður þess. Sat í sveitarstjórn Grundarfjarðar frá 1974-1987 og einnig í fulltrúa- og kjördæmisráði flokksins á Vesturlandi. Starfaði í sjálfstæðisfélagi Garðabæjar og sótti landsfundi um áratuga skeið. Sat í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og var formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi. Hann var formaður byggingarnefndar Fjölbrautarskólans í Garðabæ.
Útför Árna fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 1. mars 2021, klukkan 13.

Unga sveitarstjóranum fylgdi ferskur andblær; vænting um nýja tíma. Í lofti lágu breytingar af því tagi sem annað hvort vekja ugg hjá fólki eða efla því kjark. Vissulega var hann sá fyrsti sem ráðinn var í fullt starf við daglega stjórn ört vaxandi sveitarfélags og gat því látið um sig muna. En sú var ekki eina skýringin. Árni M. Emilsson var þeirrar gerðar að strax varð ljóst að hann myndi marka skýr og mikilvæg spor í sögu byggðarlagsins, kysi hann svo sjálfur. Sem og varð.

Í Grafarnesi, sem seinna nefndist Grundarfjörður, og Eyrarsveit allri, höfðu íbúar verið um fjögur hundruð, þegar Emil og Ágústa fluttust þangað haustið 1952 með barnahópinn sinn. Tæpum tveimur áratugum síðar hafði þorpið vaxið með ógnarhraða og íbúum fjölgað um 80%. Mikil uppbygging hafði þá átt sér stað, einkum síðasta áratuginn, með eflingu útgerðar og tilheyrandi hafnarbótum, byggingu barnaskóla, kirkju, mjólkurstöðvar, íbúðarhúsnæðis o.fl. Vorið 1970 blésu hinir pólitísku vindar þannig að sjálfstæðismenn í kompaníi við framsóknarmenn komu sér saman um að ráða heimamanninn Árna sem sveitarstjóra, þá 27 ára gamlan. Verkefni sveitarfélagsins voru ærin og ekkert lát á uppgangi í byggðarlaginu, þó fjárhagurinn væri æði þröngur. En Árni var tilbúinn. Hann þekkti krafta sína og köllun, hans andi var vaknaður til sín sjálfs, og vængirnir vaxnir og fleygir, eins og Einar Ben. orti. Árni varð strax gjörvilegur leiðtogi þessa unga byggðarlags og með vaskri sveit tókst hann hugaður á við uppbyggingu á tímum mikilla þjóðfélagsbreytinga og aukins frelsis á ýmsum sviðum.

Með fyrsta togaranum varð atvinna og viðurværi stöðugra. Áttundi áratugurinn varð mesta húsbyggingartímabil í sögu byggðarinnar, með yfir sjötíu nýjum íbúðarbyggingum. Grundfirðingar stækkuðu grunnskólann, byggðu sundlaug og réðust í það stórvirki að leggja bundið slitlag á götur og skipta um allar lagnir. Bærinn var sundurgrafinn um allnokkurt skeið og sjálfur hefur Árni lýst því hvernig sannfæra þurfti þorpsbúa og suma hreppsnefndarmenn um að slík framkvæmd væri góð hugmynd í þágu öryggis, þæginda og framfara. Auðvitað sættust menn á það sjónarmið að það væri eftirsóknarvert að framvegis gætum við gengið um á dönskum skóm á sólskinsdögum, rétt eins og þeir í Reykjavík, ritaði Árni í minningargrein um Ella Guðjóns, verkstjóra hreppsins á þessum miklu framkvæmdaárum.

Við kosningar 1978, 1982 og 1986 var Árni jafnframt kjörinn í sveitarstjórn. Óhætt er að fullyrða að hann naut mikils persónulegs fylgis, sem gekk þvert á flokkslínur þess tíma.

Árna leiddist ekki pólitískt vafstur og það sem hann hefði sjálfur kallað góða þrætubókarlist. Hann var vel lesinn og fróður, með eindæmum minnugur, mælskur og rökfastur og fundvís á kjarna hvers mál. Umfram allt var hann skemmtilegur sögumaður og kunni öðrum betur að átta sig á fólki. Í þá daga var pólitíkin öðruvísi og flokkslínur að mörgu leyti skarpari. Í vöggugjöf hafði Árni hins vegar fengið einkar góðar gáfur og hafði þroskað með sér fágæta samskiptahæfileika, sem byggðu á jákvæðu upplagi hans og húmorísku lífsviðhorfi. Hann var pólitískur fram í fingurgóma, en slíkt stórmenni að hann lét ekki pólitískar þrætur hafa áhrif umfram það sem ástæða var til. Til góðs vinar liggja gagnvegir, segir í Hávamálum, og menn voru þrátt fyrir allt í sama liði. Málstaðurinn var skýr og verðugur. Við setið býli, sóttan fjörð, skal sýnd vor ást í verki, orti Einar Ben. og víst er að ást sína á byggð og samfélagi sýndi Árni alla tíð í verki, enda mikill Grundfirðingur. Þau Þórunn og fjölskyldan öll létu ekki síður um sig muna í íþrótta-, menningar- og félagsstarfi og á margvíslegan annan hátt.

Eftir níu ára tíð sem sveitarstjóri varð Árni framkvæmdastjóri fiskvinnslufyrirtækisins Sæfangs og síðar útibússtjóri Búnaðarbankans í Grundarfirði til ársins 1986 þegar fjölskyldan flutti í Garðabæinn. Þar gerðist Árni útibússtjóri Búnaðarbankans, seinna Kaupþings og síðast Landsbankans, til 2010 er hann lét af störfum.

Árni og Þórunn reistu sér glæsilegt hús í Framsveitinni, hannað af Orra syni þeirra. Á þeim griðastað fjölskyldunnar hafa þau dvalið mikið síðustu árin, því æskustöðvarnar eiga allan kærleik manns lengst svo enn sé vitnað í Einar Ben.

Ég naut þeirrar gæfu að vinna með Árna, sem starfsmaður í Búnaðarbankanum tvö sumur. Árni treysti ungu fólki til vandasamra verka og talaði við okkur sem jafningja. Seinna naut ég einnig stuðnings hans, vináttu og góðra ráða, sem ungur sveitarstjóri í sömu sveit og æ síðan. Fyrir þessi kynni er ég ævinlega þakklát. Við Hemmi sendum Þórunni, Orra, Örnu og Ágústu Rós og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Um leið færi ég fjölskyldu og ástvinum samúðarkveðjur frá Grundarfjarðarbæ. Hinstu kveðju og virðingu vottar bæjarstjórn Árna M. Emilssyni, með þakklæti fyrir hans verðmæta framlag til byggðar og samfélags.

Vertu kært kvaddur er heldur þú þinn veg og teflir á nýjum slóðum. Þar mun tæpast ríkja lognmolla, en án alls vafa gleðin eða enn með orðum Einars Ben.:

Bráðum slær í faldafeykinn -
forlög vitrast gegnum reykinn.
Alls má freista. Eitt ég vil.
Upp með taflið. Ég á leikinn.

Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri í Grundarfirði.