Ragnhildur Guðlaug Pálsdóttir fæddist á Gilsárstekk í Breiðdal 11. mars 1942. Hún lést 10. febrúar 2021 á Hrafnistu við Sléttuveg.
Foreldrar hennar voru Páll Guðmundsson frá Gilsárstekk í Breiðdal, bóndi og hreppstjóri, f. 1907, d. 1972, og Hlíf Petra Magnúsdóttir, fædd á Skriðustekk í Breiðdal, húsfreyja og organisti, f. 1908, d. 2007. Bræður Ragnhildar eru: Baldur, f. 1934, og Magnús, f. 1936.
Þann 11.3. 1962 giftist Ragnhildur Róberti Kárasyni, f. 1939, d. 2007. Þau slitu samvistir.
Ragnhildur og Róbert eignuðust fjögur börn: 1) Hlíf Harpa, f. 1962, sambýlismaður Stefán Rúnar Garðarsson. Börn Hörpu eru: a) Sandra Ýr, f. 1989, gift Aaroni Zarabi. Sonur Söndru er Baltasar Tindur Björgvinsson, f. 2010. b) Róbert Freyr, f. 1991, sambýliskona Eva Karen Ástudóttir. Þeirra sonur er Kári Páll, f. 2017. c) Alex Freyr, f. 1997, kærasta Birta Guðlaugsdóttir. 2) Arna Vala, f. 1966, gift Elíasi Má Hallgrímssyni, f. 1965. Börn þeirra eru: a) Thelma Rut, f. 1990, sambýlismaður Grímur Már Þórólfsson, hans dóttir Árný Lea, f. 2010. b) Tinna Heiðdís, f.1996, kærasti Nicholas Steiner. c) Kári Kristófer, f. 1999, kærasta Halldóra Róbertsdóttir. 3) Páll, f. 1967, kvæntur Auði Sólmundsdóttur, f. 1970. Börn þeirra eru: a) Karen, f. 1993, b) Kristjana, f. 1997, d. 1997, c) Kristján Daði, f. 1998, d) Auður Ósk, f. 2007. Dóttir Páls frá fyrra sambandi er Ragnhildur, f. 1987, sambýlismaður Hlíðar A. Sigurðsson. Þeirra dóttir er Áróra Draumey, f. 2019. Dóttir Ragnhildar frá fyrra sambandi er Magdalena Guðfinnsdóttir, f. 2010. 4) Heiðdís Ellen, f. 1972. Sonur hennar er Gabriel Arnar Amador Losada, f. 1999, kærasta Svala Björgvinsdóttir.
Eftirlifandi eiginmaður Ragnhildar er Rafn Hermannsson, f. 1953. Þau hófu sambúð árið 1992 og gengu í hjónaband 16.12.2000. Rafn starfaði hjá Reiknistofu bankanna. Foreldrar hans: Hermann Bjarnason, f. 1930, d. 2001, og Elísabet Kristjánsdóttir, f.1935. Þau voru bæði frá Þingeyri.
Ragnhildur ólst upp á Gilsárstekk í Breiðdal. Eftir barnaskóla fór hún 17 ára gömul til náms í Húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði. Ragnhildur var kokkur á bát eitt sumar og bjó síðan á Akureyri og vann í Kristjánsbakaríi. Árið 1962 settist hún að á Breiðdalsvík ásamt Róberti fyrri eiginmanni sínum. Meðfram húsmóðurstörfum vann Ragnhildur í Útvegsbankanum og var síðar forstöðumaður Landbankans á Breiðdalsvík í mörg ár þar til hún flutti til Reykjavíkur árið 1991. Hún starfaði lengst af í Landsbankanum í Mjódd og á Seltjarnarnesi. Síðustu starfsárin vann hún m.a. við umönnun þríburadrengja og í eldhúsinu á Vestugötu 7.
Ragnhildur hafði mikinn áhuga á tónlist, söng og ferðalögum. Á árum áður söng hún með Kirkjukór Breiðdals og síðar Samkór Stöðvarfjarðar og Breiðdals. Ragnhildur ferðaðist mikið innanlands og einnig út um allan heim með Rafni eiginmanni sínum. Hún sat um árabil í stjórn Félagsins Ísland-Ungverjaland.
Útförin fór fram frá Seltjarnarneskirkju 22. febrúar 2021, í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Elsku amma.

Fólk spyr mig hvort það hafi ekki verið gott að geta kvatt þig í útförinni og hvort ég hafi ekki upplifað þetta sem fallega kveðjustund. Ég hugsaði til þín sem hafðir gaman af því að segja hlutina bara eins og þeir eru en samt á þinn hnyttna máta og svara, mér fannst þetta bara engin kveðjustund! Fólk verður hissa og veit ekki hvernig það á að taka því sem ég er að segja, en ég útskýri fyrir þeim að ég veit að ég var ekki að kveðja þig, við eigum nú bara þannig tengingu að hún nær lengra en okkar jarðneska og þegar ég horfi á alla afkomendur þína samankomna þá ert þú þar, í okkur öllum, svo greinileg.

Brosið hennar mömmu og hvernig höfuðið hallar á aðra hliðina þegar þið brosið, augun hennar Heiðdísar sem geta talað, leiðbeint, brosað og hrætt mann og það allt á sama tíma, blíði tóninn í röddinni hennar Öddu, hláturinn hennar Thelmu, Tinna sem fékk Indiana Jones-hattinn þinn, einlæga umhyggjusemin í Kareni, Auður Ósk, það þarf nú bara að horfa á hana, nafna þín hún Ragnhildur og fallega Magdalena og svo ég sem reyni að leika allt eftir sem þú hefur gert. Svo eru það allir strákarnir þínir sem þú unnir svo innilega, ég get alveg séð þig fyrir mér horfa yfir strákahópinn þinn og brosa þínu blíða brosi, mikið sem þú varst stolt af þeim. Strákarnir áttu sér alveg sérstakan stað í ömmuhjartanu og ég skil það svo vel, þú átt einstaklega vel gerða stráka.




Ég horfi á mynd af þér og þú vekur upp í mér svo margar góðar tilfinningar, stolt fyrir að vera afkomandi þinn sem fékk að læra af þér, gleði að eiga svo óendanlega mikið af skemmtilegum minningum með þér, allt frá kríuvarpinu úti á nesi þegar ég var lítil stelpa til stundanna þegar þú fékkst þá flugu í höfuðið að ég gæti alveg litað á þér hárið. Mikið sem ég hugsaði til Hrefnu frænku þá og hvað hún eiginlega hugsaði þegar þú varst svo að mæta til hennar í klippingu eftir litun frá mér. Næst finn ég fyrir drifkrafti að vilja líkjast þér, ég vil nýta hvern einasta dag og fylgja því að ef það er hægt í dag þá gerum við það í dag! Einhvern veginn tókst þér að gera allt sem þú gerðir, vinna, skoða allan heiminn, eiga öll þessi börn og barnabörn, sitja í félögum en samt leið manni alltaf eins og þú hefðir allan tímann í heiminum fyrir mann. Þetta er einnig hæfileiki sem ég ætla að tileinka mér, að öllum líði eins og þeir eigi mína athygli óskerta og að ekkert annað skipti máli en líðandi stund, því þú varst svo góð í því. Ekkert kemur þó ofar í huga minn við að hugsa til þín amma en styrkur, þú varst sú allra sterkasta og staðfastasta! Þú fórst þínar eigin ótroðnu slóðir með bros á vör, hnyttin svör og sjarmann að vopni og því er ég svo stolt af, að þú fylgdir þinni sannfæringu alla tíð og það sagði þér enginn til, a.m.k. ekki svo mark væri tekið á því, ha ha.

Elsku amma.

Það sem einkennir þig er ást þín á okkur afkomendunum þínum og þegar Baltasar fæddist varst þú mér svo mikil hjálp, Baltasar fékk sko að njóða góðs af því að eiga góða ömmu og þið Rafn voruð mér stuðningur sem ég veit ekki hvernig ég hefði farið af án. Baltasar valdi sér sitt nafn á þig, amma Ugla, og fékk það að festast við þig, ég þykist vita að þú hafir nú haldið svolítið upp á það nafn. Baltasar þótti ekkert skemmtilegra en að fá að gista hjá ömmu Uglu og afa Rafni með Auði Ósk og Magdalenu og fá að sitja og segja ykkur sögur langt fram eftir kvöldi. Ég er svo þakklát fyrir tímann sem hann fékk með ykkur saman, það er alls ekki sjálfgefið að langömmu og -afa börn fái að mynda svona fallegt samband. Ég man þegar ég bauð þér í heimsókn til okkar þegar ég hafði fundið mér leiguíbúð, ég var ungur fátækur námsmaður og þú auðvitað hjálpaðir mér að flytja inn. Eitthvað fannst þér að hægt væri að bæta herbergið hans Baltasars, svo að daginn eftir fékk ég hringingu frá þér og Rafni um það hvort við ættum ekki bara að skella okkur í IKEA, sem og var gert og drengurinn fékk nýtt í herbergið sitt, það sem hann var ánægður lítill drengur og þá sá ég í augum þínum hvað þú varst ánægð, því þetta gladdi þig svo, ef við vorum glöð þá varst þú glöð. Mér finnst börnin þín öll hafa erft þetta beint frá þér og erum við barnabörnin því einstaklega lánsöm öll.

Við eigum saman stund sem ég mun geyma ofar mörgum öðrum í hjarta mínu, þegar þú varst orðin veik og ég kom til þín, Heiðdís, mamma og Adda voru frammi að spjalla og þú lást í rúminu þínu. Ég hlammaði mér við hliðina á þér eins og ég svo oft gerði og við lágum saman hlið við hlið að spjalla. Þú spurðir mig út í New York og hvernig gengi með Baltasar og hvort Aaron væri ekki enn þá að reyna að læra íslenskuna. Við ræddum ekkert sérstakt en við bara lágum þarna saman, leiddumst og horfðum upp í loftið, eins og við höfðum gert svo oft áður þegar ég var lítil stelpa, hlið við hlið á dýnunni að spjalla um ævintýri þeirra fimm fræknu og láta okkur dreyma um allt sem heimurinn hefur upp á að bjóða og það sem við sjáum ekki en finnum.

Þess vegna þegar fólk spyr mig hvort ég hafi náð að kveðja þig, þá segi ég nei, ég þarf ekki neitt að kveðja þig, ég finn fyrir þér alla daga og einn daginn mun ég finna faðm þinn aftur.

Þangað til sjáumst við í draumum mínum.

Þín

Sandra „Eggjakona“.