Jósef Friðrik Ólafsson, fyrrverandi yfirlæknir lyflæknisdeildar St. Jósefsspítala, fæddist 24. ágúst 1929 í Reykjavík. Hann lést 15. febrúar á hjúkrunarheimilinu Boðaþingi í Kópavogi. Foreldrar hans voru hjónin Sigurlaug Einarsdóttir, f. á Brimnesi í Skagafirði 9.7. 1901, d. 23.6. 1985, og Ólafur Hermann Einarsson héraðslæknir, f. á Svalbarði í Miðdölum í Dalasýslu 9.12. 1895, d. 8.6. 1992. Systkin Jósefs eru Einar íþróttakennari, f. 13.1. 1928, Grétar læknir, f. 3.10. 1930, d. 14.6. 2004, Sigríður fyrrverandi fulltrúi læknaráðs, f. 14.6. 1935, Hilmar arkitekt, f. 18.5. 1936, d. 28.12. 1986, og Sigurður viðskiptafræðingur, f. 7.5. 1942.
Jósef kvæntist Sólveigu (Ollý) Ásgeirsdóttur húsmæðrakennara, f. 27.6. 1933, d. 3.4. 2015, hinn 3. september 1955. Foreldrar hennar voru Ásgeir Guðlaugur Stefánsson trésmiður, framkvæmdastjóri og útgerðarmaður í Hafnarfirði, f. 28.3. 1890, d. 22.6. 1965, og Sólveig Björnsdóttir húsfreyja í Hafnarfirði, f. 18.7. 1905, d. 17.3. 1998. Sólveig og Jósef eignuðust þrjú börn. Þau eru: 1) Sólveig Birna, f. 23.9. 1959, hjúkrunarfræðingur, maki Sigurður Einarsson, f. 11.4. 1957, arkitekt, börn þeirra eru a) Jósef, b) Kári, c) Andri, d) Magni og e) Diljá; 2) Ólafur Mar, f. 18.3. 1963, rafmagnsverkfræðingur, maki Ásta Margrét Karlsson, f. 21.5. 1966, verkfræðingur, börn þeirra eru a) Ásdís Lilja, b) Helena Lind og c) Sunna Rós; 3) Snorri, f. 8.10. 1964, fisksjúkdómafræðingur, maki Halla Jónsdóttir, f. 16.10. 1965, fisksjúkdómafræðingur, börn þeirra eru a) Jón Sölvi, b) Arna Rós og c) Arnar Snær. Fyrir átti Sólveig Áslaugu sem var ættleidd af foreldrum Sólveigar. Áslaug, f. 9.2. 1950, hjúkrunarfræðingur, giftist Þorvaldi Ásgeirssyni tæknifræðingi, f. 1.1. 1948, d. 2.10. 2009, þau skildu, núverandi maki Egill Benedikt Hreinsson, f. 30.6. 1947, rafmagnsverkfræðingur. Börn Áslaugar eru a) Rakel, b) Sturla, c) Tinna og d) Hrafn.
Síðustu árin naut Jósef þess að eiga góða vinkonu, Sigríði Ásgeirsdóttur. Þau ferðuðust saman bæði innan lands og utan og áttu margar góðar samverustundir. Sigríður reyndist honum ákaflega vel.
Jósef ólst upp í Laugarási í Biskupstungum þar sem faðir hans gegndi starfi héraðslæknis 1932-1946. Að loknu stúdentsprófi frá MR 1950 hóf Jósef nám í læknisfræði við Háskóla Íslands. Hann lauk embættisprófi vorið 1957. Að loknu kandídatsári og héraðsskyldum hér heima lá leiðin til Svíþjóðar þar sem hann aflaði sér sérmenntunar í lyflæknisfræði. Hann starfaði á nokkrum sjúkrahúsum í Svíþjóð, þar á meðal í Borås og í Värnamo þar til hann hélt heim til starfa sem yfirlæknir lyflækningadeildar við St. Jósefsspítala í Hafnarfirði vorið 1963. Tvö elstu börn Jósefs og Sólveigar fæddust í Svíþjóð en þriðja barnið fæddist eftir heimkomuna til Íslands. Jósef vann allan sinn starfsferil við St. Jósefsspítala og var auk þess með læknastofu. Jósef gegndi stöðu yfirlæknis Jósefsspítala frá 1993 til 1996 og starfaði sem læknir til ársins 2000 þegar hann lét af störfum sökum aldurs.
Útför Jósefs Ólafssonar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 5. mars 2021, og hefst athöfnin klukkan 15. Allir eru velkomnir en streymt verður frá athöfninni fyrir þá sem eiga ekki heimangengt. Stytt slóð á streymið: https://tinyurl.com/4mjfu2dp/.
Hlekk á streymi má nálgast á mbl.is/andlat.
Pabbi ólst upp í faðmi náttúrunnar í Laugarási í Biskupstungum þar sem afi okkar, Ólafur Einarsson, hafði aðsetur sem héraðslæknir Laugarás-læknishéraðs. Uppvaxtarár pabba í Laugarási hafa vafalaust haft mikil áhrif á hann, því hann var mikið náttúrubarn og fátt fangaði hug hans meira en veiðar. Ásamt bræðrum sínum undi hann sér við að veiða lax og silung á færi og í net í Hvítánni og drógu þeir þannig björg í bú þótt ekki væru þeir háir í loftinu. Það eru til ýmsar sögur um ævintýri þeirra Laugarásbræðra, m.a. um lífsháska sem þeir komust í við jakahlaup á ánni og þegar Grétar litli var hætt kominn á hverasvæðinu.
Þótt afi og amma hafi síðar flust til Reykjavíkur hefur tenging föðurfjölskyldunnar við Laugarás verið mjög sterk allar götur síðan. Afi hóf skógrækt í Laugarási og föðurfjölskyldan á nokkra bústaði í þorpinu, þar sem við höfum átt margar góðar stundir.
Árlegar veiðiferðir í Iðuna eru okkur mjög eftirminnilegar. Pabbi og bræður hans áttu nokkra veiðidaga þar á hverju sumri, á meðan þeir voru á léttasta skeiði, og okkur þótti mjög gaman þegar stór hluti fjölskyldunnar kom saman. Við nutum þess að hlaupa eftir bökkum árinnar með frændsystkinunum og fylgjast með þegar mörgum stórlaxinum var landað.
Pabbi var keppnismaður í skotfimi, hann keppti t.d. fyrir Íslands hönd í riffilskotfimi og hann var alla tíð afbragðsskytta. Við bræðurnir fórum með pabba í ótal skemmtilegar veiðiferðir. Hann var veiðimaður af guðs náð, hvort heldur sem um stangveiði eða skotveiði var að ræða. Þegar pabbi fór í laxveiðiferðir var það regla frekar en undantekning að mamma hringdi í vinafólk eða í ættingja og bauð í mat þar sem lax átti að vera á boðstólum. Hún bauð ævinlega til veislunnar áður en pabbi fór í laxveiðiferðirnar svo gestirnir gætu tekið tímann frá til að fá spriklandi ferskan lax. Þetta klikkaði aldrei því pabbi kom alltaf með lax með sér heim.
Karl Ísleifsson var góður veiðifélagi pabba. Pabbi og Kalli áttu saman 27 feta plastbát sem þeir notuðu bæði til fiskveiða og til sjófuglaveiða. Þeir stunduðu líka gæsaskytterí saman og oft fengum við bræður að slást með í för, strax á unga aldri, það þótti okkur ekki leiðinlegt.
Einn af nánustu skotveiðifélögum pabba var Egill Stardal. Þeir gerðu stundum víðreist á Austfjörðum við hreindýraveiðar á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Einhverju sinni skaut pabbi hreindýr sem var á harðastökki með skoti sem rataði hárnákvæmt á réttan stað. Þegar veiðieftirlitsmaðurinn sem var með honum og Agli sagðist aldrei hafa séð annað eins skot og spurði hvernig hann hefði eiginleg farið að þessu þá var svarið einfalt: Ég leiddi riffilhlaupið bara fram úr dýrinu og tók í gikkinn á réttu augnabliki. Þeir félagarnir stunduðu líka fuglaveiðar saman, bæði gæsaveiðar og rjúpnaveiðar og þá stundum á æskuslóðum Egils við Skálafell. Einhverju sinni kom pabbi heim með lax af gæsaveiðum. Hann hafði séð með kíkinum sínum í bakugga á laxi sem var að synda yfir grynningar. Hann var með riffil með sér og skaut laxinn af löngu færi.
Skíðaíþróttin skipaði alltaf háan sess í fjölskyldunni okkar. Pabbi og mamma voru meðal stofnenda skíðafélagsins Eldborgar sem samanstóð af ákaflega skemmtilegum hópi fólks sem átti skála og rak tvær traktorknúnar kaðallyftur í Eldborgargili í Bláfjöllum. Þarna skíðuðum við systkinin margar helgarnar bæði á barns- og unglingsárunum. Í minningunum var alltaf sól og gott færi þegar við skíðuðum í Eldborgargili og um páskana var oft búið til barborð úr snjó og Veðurbarinn opnaður.
Pabbi og mamma voru dugleg að fara til útlanda á skíði, okkur telst til að þau hafi farið í 38 skíðaferðir erlendis, aðallega í Alpana en líka nokkrum sinnum í Klettafjöllin. Margar ferðirnar fóru þau með vinafólki sínu Helgu Sigfúsdóttur og Hjalta Stefánssyni ásamt þúsundþjalasmiðnum Pétri Símonarsyni, sem var frá Vatnskoti við Þingvallavatn.
Pabbi og mamma stunduðu margs kyns útivist af kappi. Auk skíðaíþróttarinnar klifu þau fjöll, ferðuðust um landið þvert og endilangt, oft með allan farangurinn á bakinu, og óðu læki og óbrúaðar ár. Pabbi hafði góða og nytsama þekkingu á að glíma við náttúruöflin og hann spáði mikið í straumvötn og hvernig best væri að fara yfir þau. Í mörg ár fóru þau í eins konar könnunarferðir með Ferðafélaginu og þá oft með Höskuldi Jónssyni, formanni félagsins, og Guðlaugu Sveinbjörnsdóttur (Gullu), síðar urðu margar ferðirnar að reglubundnum Ferðafélagsferðum. Mamma og pabbi fóru m.a. í margar gönguferðir um Vestfirði og fyrir rest höfðu þau gengið um nær allan Vestfjarðakjálkann.
Pabbi og mamma kenndu okkur systkinunum að lifa heilbrigðu lífi og þau kynntu okkur útivist í ýmsum myndum og við bræðurnir lærðum veiðiskap af pabba. Það má segja að við systkinin höfum fengið frá þeim útivist í veganesti fyrir lífið. Við systkinin erum öll virk í alls konar útivist, en við munum líklega seint slá foreldum okkar við á því sviði.
Pabbi starfaði nær alla sína starfsævi á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Okkur systkinunum þótti á unga aldri ekkert sjálfsagðara en að spítalinn væri skírður í höfuðið á pabba, þótt sú væri náttúrlega ekki raunin.
Pabbi var mjög farsæll í sínu starfi sem læknir og einstaklega vel liðinn. Það var ekki nóg með að hann kynni fræðin vel heldur virtist hann hafa aukaskilningarvit, því hann greindi oft sjúkdóma og vandamál sem voru illgreinanleg. Það var stundum eins og einhver góð öfl væru vakandi yfir honum því hann sagði oft að hann fyndi hluti á sér. Við systkinin höfum margoft heyrt frá sjúklingum hans og ættingjum þeirra og vinafjölskyldum að pabbi hefði reynst þeim ómetanlega vel. Við erum afar stolt af því hvernig pabbi bætti líf annarra.
Þótt árin færðust yfir þá hætti pabbi ekki að vera læknir og að hjálpa fólki og alveg fram undir það síðasta var alltaf mjög gott að leita ráða hjá honum. Sem dæmi má nefna að þegar tengdasonur hans, Sigurður Einarsson, hafði árangurslaust leitað til nokkurra lækna vegna verkja í baki sem leiddi niður í rasskinn þá ákvað hann að spyrja pabba ráða. Þótt pabbi væri löngu hættur að starfa sem læknir þá var hann ekki lengi að finna út hverju sætti: Hann sagði að um piriformis syndrome væri að ræða, sem sérfræðingar staðfestu að væri rétt greining og Siggi fékk í kjölfarið skjóta úrlausn á vandamálinu.
Pabbi dvaldi síðustu árin á Hrafnistu í Boðaþingi og fór starfsfólk þar ekki í grafgötur með það að pabbi væri læknir því þegar eitthvað bjátaði á hjá vistmönnum var pabbi oft mættur á staðinn með ráðleggingar á takteinum.
Pabbi féll aldrei í þá gryfju að ofgreina okkur systkinin, við minnumst þess með brosi á vör að þegar við kenndum okkur meins á unga aldri þá var svarið yfirleitt, eftir að hann hafði gengið úr skugga um að ekkert alvarlegt væri að: Þetta grær áður en þú giftir þig.
Þegar pabbi hætti að starfa sem læknir og ævintýraferðunum fækkaði fyllti listagyðjan í eyðuna sem hafði myndast. Pabbi reyndist vera mjög góður listamaður og mikill hagleiksmaður. Eftir hann liggja fjölmörg meistaralega vel gerð trélistaverk (útskurðir) og einnig nokkrar vatnslitamyndir sem núna skreyta heimili okkar systkinanna.
Á efri árum kynntist pabbi Sigríði Ásgeirsdóttur. Þau höfðu bæði misst maka sína og studdu hvort annað. Þau áttu margar góðar stundir bæði innan lands og utan. Samverustundirnar með Siggu voru pabba alla tíð ómetanlegar. Við systkinin þökkum Siggu vinkonu innilega fyrir allt sem hún hefur gert fyrir pabba.
Pabbi lifði löngu, farsælu og góðu lífi, hann var alltaf heilsuhraustur og það ber bæði að þakka og fagna. Þótt hann laskaðist nokkrum sinnum á langri ævi þá virtist ekkert bíta á hann og hann lét engin skakkaföll halda aftur af sér. Við systkinin segjum stundum að pabbi hafi átt a.m.k. 9 líf. Sem dæmi má nefna að þótt hann hafi haft blöðruhálskrabbamein í nokkra tugi ára og þótt hann hafi haft meinvörp í beinunum þá hafði þetta engin sýnileg áhrif á hann. Eftir að skipt hafði verið um mjaðmaliði hans um miðjan aldur þá dreif hann sig á skíði í Ölpunum nokkrum vikum seinna og þótti kollegum hans nóg um. Hann náði sér líka upp úr lærbroti rúmlega níræður og var farinn að ganga á ný þrátt fyrir að læknar hefðu spáð öðru. Slysin sem hann lenti í (tvö föll með skömmu millibili) í byrjun janúar reyndust honum hins vegar ofviða fyrir rest. Pabbi hélt í jákvæðnina og yfirvegunina meira að segja í banalegunni. Þótt hann ætti erfitt með að tjá sig undir það síðasta þá sagði hann skýrt að honum liði vel, um leið og hann glotti út í annað.
Mamma og pabbi hafa varðað líf okkar minningum og góðri reynslu. Þótt pabbi sé farinn þá er hann enn með okkur og við erum sannfærð um að hann muni fylgja okkur um þá vegi og þær vegleysur sem við eigum eftir ófarnar. Við systkinin minnumst pabba, þessa ljúfa öðlings, með hlýju og kærleika og þökkum honum fyrir allt það góða veganesti sem hann gaf okkur í lífinu.
Sólveig Birna, Ólafur Mar og Snorri Jósefsson.