Eyþór Hannesson, ráðsmaður á Heilbrigðisstofnun Austurlands og fyrrverandi bóndi í Birkihlíð, Skriðdal, fæddist á Bjargi á Borgarfirði eystra þann 28. júní 1955. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 20. febrúar 2021.

Foreldrar hans voru hjónin Árni Hannes Eyjólfsson, f. 1927, d. 2020, og Gróa Stefanía Gunnþórsdóttir, f. 1934, d. 2018. Systkini Eyþórs eru Vilborg f. 1958, Sigurður f. 1961 og Anna Sigurlaug f. 1964.

Eyþór kvæntist 29. 06. 1985 Huldu Svanhildi Björnsdóttur f. 1958. Þau slitu samvistir. Börn þeirra eru Eva Björk Eyþórsdóttir f. 1984, eiginmaður hennar er Ari Stígsson f. 1984. Börn þeirra eru Brimir Emil f. 2017 og Aron Úlfur f. 2020; Erna Rósa f. 1986, unnusti hennar er Ólafur Gränz f. 1984. Börn þeirra eru Róbert Leo f. 2016 og Harpa Svanhildur f. 2019; Hannes Ívar f. 1995.

Eyþór gekk að eiga Öldu Ósk Jónsdóttur f. 1959, þann 15. 06. 2002 og bjuggu þau saman allt fram að þeim tíma er Eyþór lést. Börn Öldu eru Sylvía Dröfn Eðvaldsdóttir, f. 1975; Jón Grétar Leví, f. 1981 og Aníta Linda Jónsdóttir, f. 1985.

Eyþór verður jarðsunginn í Egilsstaðakirkju þann 6. mars 2021, klukkan 12:00.
Slóð á streymið: https://egilsstadaprestakall.com/

Hlekk á streymi má nálgast á mbl.is/andlat/

Elsku pabbi

Nú ertu loksins komin í kaffi til ömmu og afa þar sem þú getur gætt þér á góðu kaffi, brauði með miklu smjöri og ýmsum öðrum kræsingum sem amma var vön að bjóða upp á. Verði þér svo sannarlega að góðu. Þú átt allt gott skilið og hvíld, eftir þessi erfiðu veikindi þar sem þú háðir langa og hetjulega baráttu, fullur æðruleysis. Þrátt fyrir þessi veikindi varstu alltaf svo hress og kátur og sífellt að segja brandara. Fimmaurabrandarar voru þín sérgrein en á endanum vorum við hætt að kalla þá fimmaurabrandara og kölluðum þá frekar pabbabrandara því enginn sagði jafn góða, já eða slæma pabbabrandara og þú. Því lélegri sem þeir voru því fyndnari voru þeir.

Elsku pabbi. Takk fyrir að veita okkur bestu æskuár sem nokkur hefði getað hugsað sér. Þú varst svo þolinmóður yfir öllum okkar uppátækjum og hrekkjum. Þú varst sjálfur svo mikið hrekkjusvín. Í gamnislögum greipst þú raksápuna þína og sprautaðir yfir okkur. Þú sást líklega fljótt eftir því að hafa komið þessari hugmynd í kollinn á okkur því eftir það þurfti að fela raksápuna svo slagurinn yrði ekki endurtekinn ítrekað. Orðatiltækið Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni á hér vel við því við börnin þín erum miklir stríðnispúkar og finnst okkur ekkert skemmtilegra en að fljúgast á og hrekkja hvert annað. Oft fannst þér við ganga of langt og varst þá fljótur að skerast í leikinn og kom það nokkrum sinnum fyrir að þú þurftir að sækja okkur upp á þak um miðjar nætur.

Við eigum svo margar skemmtilegar minningar. Þú leyfðir okkur að binda þig fastan við eldhússtólinn og bjóst til rennibraut í stiganum svo við gætum rennt okkur niður. Þú fórst með okkur að synda í ánni, hjálpaðir okkur að fara út með kálfana í bandi og kenndir okkur að keyra löngu áður en við fengum bílpróf eða jafnvel áður en við náðum niður á pedalana. Sem lítil börn fengum við að sitja í fanginu þínu og keyra um á túninu í Birkihlíð og eftir því sem tíminn leið og við uxum úr grasi fengum við að keyra sjálf með alls konar tilþrifum og hlægilegum uppákomum. Beygðu, beygðu, beygðu!! Þau orð munu lifa í minningu okkar að eilífu.

Við mættum þér oft strípuðum á leiðinni út um forstofudyrnar þar sem þú stakkst þér, með hausinn á undan, í næsta skafl og skautaðir svo á einari aftur inn, ofan í heitt baðkarið. Sama gerðir þú í sundlauginni á Hallormsstað og krakkarnir hermdu eftir þér. Krakkaskarinn velti sér upp úr snjónum og stakk sér síðan ofan í laugina. Aldrei skildum við þetta furðulega áhugamál þitt en erum nú farin að gera það sama í dag. Og elskum það! Elsta dóttirin er meira að segja komin með kalt kar út á pall.

Það var svo gaman að fá að hjálpa þér í fjósinu eða í heyskapnum. Að sitja hjá þér inni í dráttarvél og aðstoða þig við að binda rúllurnar, stundum langt fram á nótt og spjalla um daginn og veginn. Sitja með þér í þögninni að veiða silung eða fara saman út að skokka. Hlusta á þig spila á hljómborðið, harmonikkuna og munnhörpurnar sem var svo gaman að fá að prófa að spila á. Munnhörpurnar urðu alltaf fullar af slefi. Við grobbuðum okkur oft af því að pabbi okkar væri í hljómsveit og vorum svo stolt. Stundum komst þú heim úr hljómsveitarferðum þínum þegar var komið langt fram á morgun. Þá fannst þér gaman að vekja okkur með því að stinga ísköldum höndunum inn undir sængur okkar og hrekja okkur á fætur. Ískaldir stórir pabbahrammar gripu um tásur okkar og við glaðvöknuðum skrækjandi. En oftast voru þessir stóru pabbahrammar heitir og notalegir og það var svo gott að stinga köldum fingrum eða tásum í lófa þinn til að hlýja sér. Þessir heitu pabbahrammar urðu síðar afahrammar og mikið fannst afabörnunum þínum gott að fá að sofna í fanginu þínu, því þar var alltaf notalegt og öruggt enda voru þau oftast steinsofnuð um leið og þú tókst þau í faðminn. Það var alltaf svo gott að fá þig í heimsókn. Þá gerðum við vel við okkur og elduðum góðan mat, göntuðumst og hlógum langt fram á kvöld þar sem þú og tengdasynir þínir kepptust við að reyta af ykkur pabbabrandarana. Stundum fórum við í gönguferðir en okkur fannst líka yndislegt að sitja saman í þögninni og sötra kaffi. Þér fannst svo gott að sofna í sófanum hjá okkur þrátt fyrir hávaðann í barnabörnunum sem léku sér í kringum þig.

Við þökkum fyrir alla hjálpina. Mikið kunnum við að meta alla þá aðstoð sem þú veittir þegar við vorum að flytja á milli heimila. Þær íbúðir sem þú hjálpaðir okkur að standsetja eru orðnar þónokkrar og oftar en ekki áttir þú erfitt með að leggja pensilinn frá þér. Slík var vinnugleðin og í eitt skipti þurftum við bókstaflega að rífa af þér pensilinn því þú varst að missa af flugi.

Við óskum þess að við munum einhvern tímann ná að tileinka okkur þá þrautseigju, þolinmæði og gleði sem einkenndi þig. Þrátt fyrir veikindin þá hélstu ótrauður áfram að stunda áhugamál þín af kappi; spilaðir tónlist, fórst í veiðiferðir og út að hlaupa og plokka. Í miðri geislameðferð í Noregi skelltir þú þér út að plokka og í einni af þínum fjölmörgu læknisheimsóknum til Reykjavíkur dróst þú okkur letingjana út að tína rusl með fram Reykjanesbrautinni.

Elsku pabbi. Minningarnar eru óteljandi en þær hefðu getað orðið svo miklu fleiri. Við erum sár og reið út í alheiminn fyrir að hafa misst þig svona snemma. Minning þín er ljós í lífi okkar. Við þökkum þér fyrir allt það góða sem þú hefur kennt okkur. Við elskum þig ávallt og ætíð og munum hittast síðar í paradís.


Börnin þín

Eva Björk, Erna Rósa og Hannes Ívar.