Þórdís Lárusdóttir fæddist á Skagaströnd 19.11. 1955,
hún lést á heimili sínu, Grundatúni 12 á Hvammstanga 20. febrúar 2021.
Foreldrar hennar voru Lárus Valdimarsson, f. 29.11. 1928, d. 31.07. 2015,
og Ingibjörg Margrét Daníelsdóttir, f. 23.03. 1931,
d. 26.08. 1989. Þau slitu samvistir, seinni maður hennar Baldur R. Skarphéðinsson, f. 17.10. 1930, d. 26.05. 2018.
Alsystkini hennar eru Þórir Magnús Lárusson, f. 1954,
k.h. Svanhildur Hall, f. 1972, börn þeirra Edda Margrét og
Berglind María. Fyrir á Magnús Hörpu og Jósef Gunnar.
Sigríður Lárusdóttir, f. 20.02. 1958, d. 18.11. 2015,
hennar ekkill er Jóhann Albertsson, f. 1958, börn þeirra Hrund og Albert. Sambýliskona Jóhanns er Kolbrún Grétarsdóttir, f. 1969,
Grímur V. Lárusson, f. 1959, hans börn Daníel, Þórdís, Vigdís og Emil Ingi.
Bræður Dísu samfeðra:
Finnur Lárusson, f. 1966, k.h. Merrilyn Lárusson, f. 1968.
Börn þeirra: Hafliði John og Sólveig Patricia. Fyrir átti Finnur Maríu Sigríði og Ara Hallgrím, einnig á Finnur ástralskan kött sem heitir Kisi Lárusson.
Hafliði Kristján Lárusson, f. 1970, k.h. Catherina Alaguiry, f. 1976.
Börn þeirra Alexis, Lilia og Eva.
Systkini Dísu sammæðra:
Pétur Þröstur Baldursson, f. 1969, k.h. Anna Birna Þorsteinsdóttir, f. 1972, börn þeirra Rakel Sunna, Róbert Máni og Friðbert Dagur,
Kristín Heiða Baldursdóttir, f. 1970, dætur hennar
Inga Rún og Sigrún Heiða.
Útför Þórdísar fer fram frá Víðidalstungukirkju í dag, 6. mars 2021, klukkan 13.
Þórdís eða Dísa eins og hún var alltaf kölluð fæddist á Skagaströnd 19. nóv. 1955.
Mínar fyrstu minningar um Dísu er nokkuð óljósar. Ég ímynda mér að
fyrstu myndirnar í huga mér séu frá Herðubreið á Skagaströnd þar sem við
sitjum saman fjögur systkinin á dívan og bíðum eftir myndatöku. Myndin í
huga mér verður þó öllu skýrari eftir að mamma flytur með allan
krakkaskarann frá Skagaströnd að Þórukoti - heim til Péturs frænda. Ég man
enn eftir þeirri ferð á græna Willysinum þegar Pétur frændi kemur og sækir
okkur að Skagaströnd. Einhvern veginn upplifi ég þetta sem eina af mínum
mikilvægustu ferðum í lífinu. Á mosagræna jeppanum rúlluðum við eftir
moldar- og malarvegum Húnavatnssýslu frá Höfðakaupstað heim að Þórukoti í
Víðidal. Þetta var árið 1962 og Dísa var þá á sjöunda árinu. Í Þórukoti
bjuggu þau systkinin mamma og Pétur frændi saman með krakkaskarann í nokkur
ár eða þar til Pétur frændi bregður búi og flytur suður og mamma og Baldur
gifta sig og taka við búinu að Þórukoti. Þessi fyrstu ár í Þórukoti eru í
mínum huga einn hamingjusamasti tími lífs míns. Ég held líka að svo hafi
verið á margan hátt fyrir okkur öll fjögur systkinin og ekki minnst
Dísu.
Dísa er næstelst af okkur fjórum systkinunum, Magnús elstur, svo Dísa,
Sigga og svo ég Grímur yngstur. Fyrstu árin okkar í Þórukoti eru í
minningunni afar kær og systkinahópurinn samheldinn. En þó var ákveðinn
virðingarstigi eins og gengur í systkinahópnum. Magnús var elstur og
sterkastur, hann var ótvíræður foringi í hópnum, Sigga fyrsti stýrimaður og
ég Grímur léttadrengurinn, en Dísa rak lestina. Elsku Dísa rak alltaf
lestina - það átti því miður eftir að verða hennar hlutskipti í lífinu. Ég
minnist Dísu með mikilli hlýju þegar ég hugsa til þessara æskuára. Hún var
óskaplega blítt, frekar hlédrægt og indælt barn og stutt var í brosið og
hún var einstaklega hjálpsöm. Hún mátti ekkert aumt sjá og hafði ríka
réttlætiskennd. En einhvern veginn lærðum við fljótt við hin þrjú systkinin
að við áttum að passa upp á Dísu því hún var ekki eins og við hin. Við
skildum það, og þó ekki alveg - og höfum kannski aldrei skilið það alveg
til fulls af hverju, en þannig var það bara.
Það sem einkenndi Dísu frá upphafi var hennar einskæra þrá eftir
að fá
að vera með
- að fá að vera með okkur hinum og atast í öllu sem við
hin systkinin fundum upp á í sveitinni eða að minnsta kosti reyndi það
eftir fremsta megni. En við fundum að Dísa var alltaf Dísa, og einhvern
veginn öðruvísi en við hin - já það var svo sárt að vita - að sjá og finna,
en þó eiginlega ekki vita það almennilega. Þau áttu eftir að verða mörg
árin og tárin og margar ósvaraðar spurningarnar sem leituðu á hugann í
systkinahópnum. En það áttu líka eftir að vera margar sameiginlegar
gleðistundir sem biðu okkar.
Dísa var einskær dýravinur og dýr hændust að henni. Ég get enn séð fyrir
mér Dísu og vinkonur hennar tvær, heimalninginn Gretlu. Ó, hvað hét nú
kvígan aftur, ég man það ekki en sé enn fyrir mér litla þybbna sveitastúlku
skælbrosandi þar sem hún talar og gælir við Gretlu meðan hún gefur henni úr
pela. Síðan varð það verk Dísu að rölta saman með hinum meðlimum
þríeykisins, Gretlu og kvígunni, þar sem þau ráku kýrnar í hagann á
morgnana og sóttu þær að kvöldi. Úr þessu varð ævarandi vinátta litlu
stúlkunnar, heimalningsins og kvígunnar sem entist svo lengi sem aldur
einstakra meðlima þríeykisins varði.
Að fá að vera með
Má ég fá að vera með ... var eins og rauður þráður í lífi Dísu, að fá að
taka þátt í lífinu - sveitalífinu af lífi og sál - endalaus þrá hennar
eftir að fá að þroskast og vaxa - og fá að vera með og vera eins og við hin
- við sjáum þessa einskæru þrá í augum hennar og endalausu baráttu þessarar
litlu sveitastúlku sem óðum stækkaði og varð eldri eftir því sem árin liðu
- en hún varð ekki fullorðin eins og við hin, hún varð bara alltaf hún Dísa
systir.
Árin líða við leik og sveitastörf
Dísa sem fór í fjósið - mjólkaði kýrnar - tók þátt í smalamennsku á
Glóblesa sínum vor og haust, rak á heiði - reið út og tók þátt í
sveitalífinu af lífi og sál. Dísa sem tók þátt í heimilisstörfunum, eldaði
og bakaði. Bakaði vöfflur í gríð og erg og táraðist yfir því að líklega
myndi hún aldrei fá tækifæri til að ljúka vöfflubakstrinum því
vöfflustaflinn stækkaði aldrei - við systkinin borðuðum vöfflurnar hennar
jafnharðan og hún bakaði - þannig var systkinakærleikurinn. Dísa fór í
sláturvinnu þegar aldur leyfði. Passaði yngri systkini okkar Pétur og
Kristínu oft og einatt.
Dísa hafði einstakan hæfileika til að muna og vissi upp á sína tíu fingur
hvaða ær ætti hvaða lamb. Eins var það með afmælisdaga okkar í
fjölskyldunni, vina og vandamanna eins og lambanna - hún vissi og mundi
hvenær hver og einn hafði komið í þennan heim. Ekkert okkar hinna lék það
nokkru sinni eftir henni.
Ég sé enn fyrir mér Dísu, þar sem Dísa er í hlutverki lítillar sveitastúku
að rýja eina ána sína með skærunum sínum því hún réð ekki við
sauðaklippurnar - með blóðugum skærunum sínum biður hún kæru ána sína
fyrirgefningar á klaufaskapnum við að særa hana. Þar stendur hún grátandi
yfir ánni sinni með hálfopinn munninn og tyggur í takt við skærin. Þetta
gerði Dísa alltaf þegar hún þurfti að leggja alla einbeitinguna í verkið,
hvort heldur það var saumaskapur eða lestur.
Dísa gekk nokkra vetur í barnaskóla í Víðihlíð. Það var eina skólagangan
fyrir utan hálfan vetur á Kvennaskólanum á Löngumýri veturinn 1976. Það var
afar ánægjulegur tími fyrir Dísu. Þær stöllur Dísa og Systa á
Litlu-Ásgeirsá deildu herbergi á skólavistinni.
Mamma kenndi Dísu að
kveða að
við lestur sem hún gerði við okkur
hin systkinin líka. En Dísa lærði ekki að lesa fyrr en hún var orðin
allnokkuð stálpuð - ég man ekki hvenær það var en hvorki barnaskólanum né
mömmu tókst að kenna henni þetta né okkur hinum - hún lærði þetta af
sjálfri sér því einn daginn komum við að Dísu þar sem hún að tyggja
dagblöðin, í óeiginlegri merkingu þó. Upp frá þessu varð Dísa mikill
lestrarhestur í mörg ár sem hún þó lagði af seinna, því miður.
Dísa vissi og fann að hún var ekki eins og við hin - endalaus leit mömmu
eftir aðstoð og hjálp vegna Dísu færir Dísu á endanum suður til Reykjavíkur
eða öllu heldur að Reykjalundi í Mosfellssveit. Það voru góð ár fyrir Dísu.
Bjó hún þar í lítilli íbúð á Reykjalundi og vann á vernduðum vinnustað og
undi hag sínum vel. Þar var hún í nokkur ár að mig minnir. Kom hún þá oft í
heimsókn til okkar Péturs frænda í Mosó og var hún hálfgerður heimalningur
hjá okkur Pétri frænda, því ég bjó þar á þeim tíma.
En skyndilega skipast veður í lofti og það verða straumhvörf í lífi Dísu.
Einn daginn þegar ég er kominn heim eftir vinnu þá hringir síminn og ég er
spurður hvort ég þekki Þórdísi Lárusdóttur - það er þá yfirlæknir á
bráðmóttöku sem hringir og tilkynnir mér að hún hafi verið lögð inn í
skyndi um helgina - ég bregst skjótt við og hitti Dísu á spítalanum skömmu
seinna. Ég hafði kvatt hana föstudeginum áður þegar ég keyrði hana heim
síðdegis og óskað henni góðrar helgar og bað hana að fara varlega, að
venju. Eftir þetta áttum við aldrei eftir að sjá
gömlu Dísu
aftur - þessa litlu, glöðu, brosmildu og kátu sveitastelpuna systur okkar
sem öllum þótti svo vænt um.
Það er leiður ljóður á ráði okkar mannanna hér á jörðu að reyna að leika
guð - það er eins með læknavísindin eins og önnur vísindi að þau vita ekki
öll svör, og kannski ættum við að fara varlegar og láta eitt og annað guði
eftir þegar leitað er svara í ákefð eða úrræðaleysi. Dísa varð
lyfjasjúklingur héðan í frá sem markaði hana ævilangt. Dísa átti eftir
þetta mjög erfitt með að gera sig skiljanlega og öll tjáning hennar
breyttist,
gamla Dísa
kom aldrei til baka eftir þetta nema eitt
augnablik mörgum árum seinna þegar brá af henni í svipinn.
Nýr kapítuli byrjar í lífi Dísu - ein löng píslarsaga örvæntingar, ótta og
sorgar sem þó á sér góðan endi. Dísa býr eftir þetta á ýmsum stofnunum og
heimilum um árabil eða þar til hún eignast að lokum samastað í eigin íbúð á
sambýlinu á Hvammstanga árið 2002. Þetta verður henni trygg höfn með góðu,
duglegu, elskulegu starfsfólki á sambýlinu ásamt vistmönnum. Dísa hafði þá
búið fram því á sambýlinu á Gauksmýri um sex ára skeið eða frá því að það
var stofnað haustið 1990 og þar til það var flutt út á Hvammstanga 1996.
Hlutverki mömmu virtist skyndilega vera lokið og deyr hún skömmu áður en
Dísa flytur inn á sambýlið á Gauksmýri Dísa var komin í trygga
höfn.
Þrátt fyrir heilsuleysi og skerta starfsorku fór Dísa til vinnu á
vinnustofunni Iðju alla daga ef hún var frísk, alltaf fyrir hádegi því hún
var mjög árrisul. Prjónaskapur og hannyrðir var hennar helsta yndi -
dugnaðurinn var mikill - hafa ótrúlega margir í fjölskyldunni, systkin,
frændur sem frænkur - stórir sem smáir notið góðs af því. Henni var umhugað
um að okkur í fjölskyldunni yrði ekki kalt. Sjálfur á ég a.m.k. þrjár
lopapeysur sem hlýja mér ennþá sem Dísa hefur prjónað.
Kaffisopinn var aldrei langt undan - og Mogginn - og hún hafði yndi af
íslenskum dægurlögum svo eitthvað sé nefnt.
Allir þekktu Dísu - Dísa var ætíð mjög félagslynd og átti hún vísan stað
í hjörtum margra - ríka kímnigáfu og var snör í tilsvörum og leyndi aldrei
áliti sínu á einu né neinu og þó með hjartað á réttum stað. Kjarninn var
alltaf óskertur í Dísu.
Og Dísa skaut kettinum ref fyrir rass því hún hafði ábyggilega fleiri líf
en hann. Oft héldum við að nú væri Dísa
að fara
en hún reis alltaf
upp eins og fuglinn Fönix. Mér finnst að ég enn geti heyrt óminn hennar frá
samtölunum okkar yfir hálft Atlantshafið ...
þarna plataði ég þig,
Valdimar ...
- þá var hún upprisin enn einu sinni. Ég fann hvað henni
þótti vænt um þegar mér gafst tækifæri til að heilsa upp á hana þau fáu
skipti sem ég var á landinu síðustu 26 árin. Það var alltof sjaldan, elsku
Dísa mín - en ég kom við hjá henni í flestum mínum ferðum og auðvitað tókum
við þá slaginn í ólsen-ólsen.
Dísa átti sér traustan samherja frá því í gamla daga - hana sjálfa systur
sína Sigríði, Siggu systur. Ég vil fyrir mína hönd þakka allt það
óeigingjarna starf, kærleika og hlýju sem systir okkar Dísa varð aðnjótandi
frá Siggu systur okkar og hennar fjölskyldu á Gauksmýri, Jóa, Hrund og
Albert. Dísa varð heimagangur aftur - nú á Gauksmýri en með fasta höfn á
Hvammstanga.
En skyndilega skipast veður í lofti aftur og það verða aftur straumhvörf í
lífi Dísu. Sigga systir fellur frá. En eins og segir í ljóðinu góða eftir
Tómas: Einir fara og aðrir koma í dag. Dísa átti sér fleiri trygga
samherja, kæra systir okkar Kristín flytur norður á Hvammstanga og fyllir í
það stóra skarð sem Sigga skildi eftir, fyrir Dísu.
Eins á hún sér dygga stuðningsmenn í Þórukoti, Pétur bróður okkar og
Önnu.
Dísa er komin heim að nýju.
Mér kemur í hug þegar ég hugsa til þeirra ánægjustunda þegar við Dísa
spiluðum ólsen-ólsen eftir að hún fluttist á Hvammstanga - eða eins og
segir í kvæðinu eftir Stein Steinarr:
Að sigra heiminn er eins og að spila á spil
með spekingslegum svip og taka í nefið.
Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,
því það er nefnilega vitlaust gefið.
Hvíl í friði, kæra systir.
Bestu kveðjur frá Noregi.
Grímur bróðir.